Ferill 978. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2106  —  978. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um ívilnanir í þágu umhverfisvæns samgöngumáta.


     1.      Hversu margar hreinorkubifreiðir, þ.m.t. rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiðir, voru fluttar til landsins árið 2018? Hversu miklar voru ívilnanir, m.a. niðurfelling virðisaukaskatts og vörugjalda, fyrir slíkar bifreiðir það ár?
    Samkvæmt gögnum Samgöngustofu um nýskráðar fólksbifreiðar voru alls 3.668 rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiðar fluttar til landsins árið 2018.
    Samtals fengu 3.445 rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiðar ívilnun á virðisaukaskatti árið 2018 sem nam 3.035 millj. kr. samkvæmt gögnum tollstjóra Til þess að geta fengið ívilnunina má skráð koltvísýringslosun ekki vera meiri en 50 g/km. Umræddar bifreiðar bera því ekki vörugjöld en þau leggjast aðeins á bifreiðar með losun umfram 74 g/km.

     2.      Hversu mörg rafmagnshjól annars vegar og reiðhjól hins vegar voru flutt inn árið 2018? Hversu miklar hefðu ívilnanir fyrir slík hjól verið það ár að því gefnu að niðurfelling á virðisaukaskatti og vörugjöldum fyrir reið- og rafmagnshjól hefði verið sambærileg og fyrir rafbíla?
    Í tollskrá er ekki gerður greinarmunur á rafmagnsreiðhjólum og öðrum reiðhjólum. Þau farartæki sem þar eru skilgreind sem rafmagnshjól eru rafmagnsvespur. Samtals voru flutt inn 3.711 rafmagnshjól (hér skilgreint sem rafmagnsvespa) og 19.406 reiðhjól (hér skilgreint sem rafmagnsreiðhjól og hefðbundið reiðhjól) árið 2018 samkvæmt gögnum tollstjóra. Álagður virðisaukaskattur á rafmagnshjól var 55 millj. kr. og á reiðhjól 195 millj. kr. Hvorki rafmagnshjól né reiðhjól bera vörugjöld.
    Virðisaukaskattsívilnun fyrir rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiðar er til þess fallin að styrkja samkeppnishæfni umræddra ökutækja gagnvart hefðbundnum bensín- og dísilknúnum ökutækjum. Ívilnunin er upp að ákveðnu hámarki sem er 1.440 þús. kr. fyrir rafmagns- og vetnisbifreiðar og 960 þús. kr. fyrir tengiltvinnbifreiðar. Við ákvörðun á hámarki ívilnunarinnar var litið til innkaupsverðs og rekstrarkostnaðar á líftíma ökutækjanna samanborið við innkaupsverð og rekstrarkostnað á líftíma sambærilegra bensín- og dísilbifreiða.
    Til að áætla hverju sambærileg ívilnun hefði numið fyrir rafmagnshjól þyrfti að gera hliðstæða kostnaðargreiningu á rafmagnshjólum samanborið við bensín- og dísilhjól til þess að meta hvert hámark ívilnunarinnar ætti að vera. Það er öllu erfiðara að meta það fyrir reiðhjól þar sem óljóst er hvað eigi að nota til viðmiðunar. Til einföldunar má áætla að virðisaukaskattsívilnun fyrir reið- og rafmagnshjól hefði numið 250 millj. kr. árið 2018, að öllu öðru óbreyttu, ef ekkert hámark væri á ívilnuninni miðað við gögn tollstjóra.