Ferill 11. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 11  —  11. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á varnarmálalögum, nr. 34/2008, með síðari breytingum (samþykki Alþingis).

Flm.: Kolbeinn Óttarsson Proppé, Andrés Ingi Jónsson, Ari Trausti Guðmundsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir.


1. gr.

    Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Allar bókanir og viðbætur við varnarsamninginn skal bera undir Alþingi til samþykktar. Hið sama gildir um skilasamninga og hvers kyns samkomulag sem felur í sér breytingu á framkvæmd varnarsamningsins. Óheimilt er að víkja frá ákvæði þessu á grundvelli 2. mgr. þessarar greinar.

2. gr.

    Við V. kafla laganna bætist ný grein, 16. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Uppbygging og framkvæmdir á mannvirkjum Atlantshafsbandalagsins o.fl.

    Alla uppbyggingu og allar framkvæmdir umfram eðlilegt viðhald á öryggissvæðum, varnarsvæðum, mannvirkjum Atlantshafsbandalagsins sem og aðrar sambærilegar framkvæmdir og uppbyggingu skal bera undir Alþingi til samþykktar. Óheimilt er að víkja frá ákvæði þessu á grundvelli 2. mgr. 3. gr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Ísland er aðili að Atlantshafsbandalaginu og hefur sem aðildarríki skyldum að gegna. Þær hafa fyrst og fremst falist í því að veita aðstöðu fyrir herlið bandalagsins, sem og fyrir loftrýmisgæslu. Ísland hefur þannig ekki útvegað herlið, enda herlaust land, heldur aðstöðu fyrir herlið annarra ríkja. Um það var samið í sérstökum samningi, sem nefndur hefur verið varnarsamningurinn.
    Með varnarsamningnum er átt við samning milli lýðveldisins Íslands og Bandaríkjanna á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins frá 5. maí 1951 og viðbætur við hann um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þeirra frá 8. maí 1951, sem veitt var lagagildi með lögum nr. 110/1951, með síðari breytingum.
    Umræður um varnarmál hafa á síðustu árum fyrst og fremst snúist um orðna hluti, þ.e. uppbyggingaráform hafa ekki komið til umræðu fyrr en eftir að þau hafa verið samþykkt. Þannig er það árvisst að þegar Bandaríkjaþing samþykkir fjárlög virðast margir á Íslandi fyrst átta sig á því að um framkvæmdir og uppbyggingu hafi verið samið á varnarsvæðinu.
    Fyrir þessu er m.a. sú ástæða að ekki þarf samþykki Alþingis fyrir slíkri uppbyggingu, heldur fer ráðherra málaflokksins með umboð til samninga fyrir Íslands hönd. Breytingar á eðli varnarsamningsins fá því ekki þá pólitísku umræðu fyrir fram sem eðlilegt hlýtur að teljast.
    Hver sem afstaða fólks er til viðveru starfsfólks herliða og uppbyggingar mannvirkja á varnarsvæðinu hlýtur það að vera kappsmál allra að auka lýðræðislega umræðu um varnarmál. Samþykkt Alþingis á breytingum á þeim skyldum sem Ísland tekur sér á herðar styrkir einnig grunn slíkra ákvarðana, hverjar sem þær verða.
    Blikur eru á lofti í alþjóðamálum og hafa ýmis valdamikil ríki boðað aukna hernaðaruppbyggingu, oft og tíðum óháð alþjóðlegum samningum. Þá hefur aukinn áhugi á norðurslóðum það í för með sér að áhugi á uppbyggingu hernaðarmannvirkja á eða við svæðið hefur aukist og mun aukast enn.
    Þær breytingar á varnarmálalögum sem hér eru lagðar til setja það í hendur lýðræðislega kjörins Alþingis hvort og hvernig uppbyggingu á mannvirkjum tengdum erlendum herliðum verður háttað, sem og viðveru starfsfólks þeirra á Íslandi. Slíkt mundi styrkja þingræðið og stuðla að eflingu Alþingis.