Ferill 26. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 26  —  26. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988 (endurgreiðsla virðisaukaskatts).

Flm.: Jón Gunnarsson, Ásmundur Friðriksson, Haraldur Benediktsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Vilhjálmur Árnason, Halla Signý Kristjánsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir.


1. gr.

    Við 3. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr töluliður sem orðast svo: Fráveituframkvæmdir sveitarfélaga.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020.

Greinargerð.

    Frumvarpið var lagt fram á 149. löggjafarþingi (171. mál) en var ekki afgreitt og er nú endurflutt óbreytt.
    Fráveitur eru hluti af lögbundinni almannaþjónustu sveitarfélaganna, utan samkeppnisumhverfis. Nánar er fjallað um skyldur sveitarfélaga í þessum málaflokki í lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna, nr. 9/2009, með síðari breytingum. Fráveituframkvæmdir uppfylla því vel þau skilyrði sem almennt eru sett fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts og standa rök til þess að virðisaukaskattur vegna slíkra framkvæmda sveitarfélaganna verði endurgreiddur að fullu.
    Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, felur í sér að sveitarfélög fái framvegis fulla endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna fráveituframkvæmda. Sjónarmið sem ráða því að undanþágur eru gerðar í 3. mgr. 2. gr. laganna eru af ýmsum toga. Þannig má segja að félagsleg og heilbrigðissjónarmið ráði undanþágunum í 1. og 2. tölul., tæknileg sjónarmið í 7. og 10. tölul., félagsleg og tæknileg í 3. og 9. tölul. o.s.frv. Í samanburði við aðrar þjóðir standa Íslendingar sig ekki nægjanlega vel í meðhöndlun skólps og fráveitumálum almennt. Umhverfismálin eru sett á oddinn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir að gera þurfi átak í fráveitumálum í samstarfi ríkis og sveitarfélaga en veruleg þörf er á uppbyggingu í þessum málaflokki, sérstaklega á landsbyggðinni.
    Umfang endurgreiðslna, komi til þeirra, liggur ekki fyrir en helgast væntanlega af eftirstöðvum þess verkefnis sem stofnað var til með lögum um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, nr. 53/1995. Á gildistíma þeirra laga hefur stuðningur ríkisins numið meira en 2.000 millj. kr. og var stuðningurinn hlutfallslega mestur fyrst. Lítið hefur verið um nýframkvæmdir í fráveitumálum frá árinu 2008. Flest fjölmennustu sveitarfélögin hafa náð að ljúka framkvæmdum en allmörg fámenn og meðalstór sveitarfélög hafa hins vegar enn ekki hafið framkvæmdir.
    Almenn lagabreyting sem þessi, sem felur í sér fulla endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna fráveituframkvæmda, er heppilegur kostur að mati flutningsmanna.
    Með frumvarpi þessu er ætlunin að ríkissjóður veiti stuðning við fráveituframkvæmdir með því að gefa eftir þann hluta framkvæmdakostnaðar sem ella mundi skila sér sem virðisaukaskattur. Nettótekjutap ríkisins verður þó óverulegt ef frumvarpið verður að lögum enda er vandséð að sveitarfélögin leggi í fjárfrekar framkvæmdir á þessu sviði án fjárhagslegs stuðnings ríkisins.
    Tillagan er ekki alveg ný af nálinni. Í skýrslu tekjustofnanefndar, sem skilaði skýrslu árið 2010, 1 var umfjöllun um endurgreiðslur virðisaukaskatts til sveitarfélaga. Í skýrslunni lagði nefndin til að tekið yrði tillit til kostnaðar sveitarfélaga sem hlytist af greiðslu virðisaukaskatts af fráveituframkvæmdum. Nefndin taldi tvær leiðir koma til greina í því sambandi, þ.e. að ríkissjóður endurgreiddi sveitarfélögunum virðisaukaskatt sem legðist á umrædda starfsemi eða að sveitarfélögin fengju auknar fjárveitingar, t.d. í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, til að mæta kostnaði við greiðslu virðisaukaskatts af verkefnunum. Í frumvarpi þessu er lagt til að fyrrnefnda leiðin verði farin enda er hún að flestu leyti einfaldari í framkvæmd.
1     www.stjornarradid.is/media/innanrikisraduneyti-media/media/utgafa2010/29102010_skyrslattekjustofnanefndar.pdf