Ferill 27. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 27  —  27. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum (frádráttur vegna kolefnisjöfnunar).

Flm.: Ari Trausti Guðmundsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Guðmundur Andri Thorsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Líneik Anna Sævarsdóttir, Óli Björn Kárason, Ólafur Þór Gunnarsson.


1. gr.

    Við 31. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Framlög til aðgerða sem gagnast kolefnisjöfnun, þó ekki yfir 0,85% af tekjum skv. B-lið 7. gr. á því ári sem framlögin eru innt af hendi. Þetta á við aðgerðir í rekstri til kolefnisjöfnunar sem og fjárframlög til skógræktar, uppgræðslustarfa og endurheimtar votlendis. Til framlaga teljast, auk fjárframlaga til sjóða, stofnana, sjálfseignarstofnana og samtaka sem vinna að kolefnisjöfnun, verklegar framkvæmdir sem fyrirtæki taka að sér í samvinnu við sjóði, stofnanir, sjálfseignarstofnanir og samtök og taka ekki greiðslu fyrir. Til framlaga telst einnig framkvæmdakostnaður, svo sem fæði og ferðir, þegar um er að ræða sjálfboðaliðastörf starfsmanna fyrirtækis til kolefnisjöfnunar. Ráðherra skal setja reglugerð um framkvæmd ákvæðisins.

2. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2021 og koma til framkvæmda fyrir tekjuárið 2020.

Greinargerð.

    Frumvarpið var lagt fram á 149. löggjafarþingi (497. mál) og er nú lagt fram aftur með breytingum í samræmi við ábendingar sem bárust.
    Íslensk stjórnvöld hafa sett sér framsækin markmið í loftslagsmálum. Fyrra skrefið verður tekið með því að gangast undir skuldbindingar Parísarsamkomulagsins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Seinna skrefið felst í að ná þeirri stöðu að verða kolefnishlutlaust samfélag fyrir árið 2040. Hvorugu markmiði verður náð án virkrar samvinnu ríkis, sveitarfélaga, atvinnulífs og almennings.
    Meðal aðgerða í samþykktri aðgerðaáætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er aukin binding kolefnis. Þar er einna fyrirferðarmest aukin skógrækt og uppgræðsla auðna og illa farins gróðurlendis. Í ljós hefur komið að endurheimt votlendis sem ræst hefur verið fram og ekki nýtt er einnig áhrifarík aðgerð við að binda gróðurhúsalofttegundir. Ný, íslensk aðferð við að dæla kolefnisgasi niður í berggrunn og mynda þar steind hefur vakið athygli og getur hentað í orkufrekum iðnaðarverum. Unnið er jafnt og þétt að endurskoðun aðgerðaáætlunarinnar og sett fram skilgreind markmið eftir því sem fjárlög hvers árs teljast rúma.
    Þátttaka fyrirtækja í öllum atvinnugreinum í baráttunni gegn hlýnun loftslags á heimsvísu er afar mikilvæg. Á það við um reksturinn sjálfan en ekki síður um framlög fyrirtækja til skógræktar, endurheimtar landgæða og endurheimtar votlendis. Framlögin geta verið í formi kolefnisjöfnunar starfsemi fyrirtækja í samvinnu við Kolvið, samstarfssamning um kolefnisbindingu, sjálfboðaliðastörf starfsmanna eða fjárframlög, þ.e. styrkir til samtaka eða stofnana sem vinna á þessum vettvangi. Sem dæmi má nefna Skógræktina eða skógræktarfélög, Landgræðsluna og Votlendissjóðinn. Einnig má nefna að fyrirtæki, t.d. í byggingariðnaði eða í verkefnum með þungavinnuvélum, hafa sýnt áhuga á að fá verkefni við endurheimt votlendis og vinna þau án þess að fá greitt fyrir. Framlag þeirra væri metið til fjár, þ.e. kostnaður við rekstur og notkun tækja og kostnaður vegna ferða og fæðis starfsmanna.
    Í samræmi við breyttar aðstæður í loftslagsmálum og ríkan vilja í samfélaginu er með frumvarpinu lögð til breyting á 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, sem heimilar frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri. Lagt er til að heimilt verði að bein framlög til kolefnisbindingar eða kolefnisjöfnunar megi reiknast sem frádráttarbær rekstrarkostnaður atvinnurekstrar, allt að 0,85% af tekjum skv. B-lið 7. gr. Til samanburðar má nefna að heimild til frádráttar er allt að 0,75% af tekjum þegar t.d. um góðgerðarstarfsemi er að ræða, sbr. 2. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003.
    Skilyrði fyrir að heimilt verði að nýta kostnað til frádráttar er að framlög nýtist til aðgerða sem gagnast við kolefnisjöfnun og að framlögin beinist til lögaðila sem er til þess bær að taka við slíku framlagi. Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra setji reglugerð um framkvæmd ákvæðisins, svo sem um hvað teljist til aðgerða sem gagnist kolefnisjöfnun, hvort og þá með hvaða hætti bókhaldsskyldur aðili, fyrirtæki eða einyrki með skattskylda starfsemi skuli leggja fram staðfestar upplýsingar um slík framlög, fjárhæð framlagsins, hvað felist í því og hvers eðlis það sé – t.d. hvort um sé að ræða bein fjárframlög til samtaka eða stofnana, greiðslur vegna ferða og fæðis starfsmanna þegar starfsmenn inna af hendi sjálfboðaliðastarf til kolefnisjöfnunar eða framlög í sjálfan reksturinn sem gagnast til kolefnisjöfnunar – til hvers framlagið beinist, hvenær og eftir atvikum hvar það sé innt af hendi auk staðfestingar móttakanda framlagsins á móttöku þess og öðrum atriðum því tengdum. Jafnframt skuli setja nánari fyrirmæli um frádrátt samkvæmt ákvæðinu, þ.m.t. hvaða upplýsingar beri að leggja fram við framtal skatts og skilgreina nánar hvaða skilyrði sjóðir, stofnanir, sjálfseignarstofnanir og samtök sem sinni kolefnisbindingu þurfi að uppfylla til þess að falla undir gildissvið ákvæðisins. Nauðsynlegt er að framkvæmd frádráttar verði bæði skýr og gagnsæ svo að hún nái sannarlega markmiði sínu. Þess þarf að gæta að ekki verði unnt að nýta sama kostnað til frádráttar oftar en einu sinni. Því þarf t.d. að gera breytingu á 16. gr. reglugerðar um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, nr. 483/1994, sem heimilar frádrátt vegna skóggræðslu og sandgræðslu. Flutningsmenn telja æskilegt að frádráttarbær framlög verði hluti af áætlun um losun og kolefnisjöfnun fyrirtækja og annarra skattgreiðenda sem falla undir reglugerð ráðuneytisins. Það er á hendi hvers fyrirtækis að tengja framlögin grænu bókhaldi, nýsköpun og þróun, allt eftir eigin loftslags- og umhverfismarkmiðum.