Ferill 31. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 31 — 31. mál.
Tillaga til þingsályktunar
um grænan samfélagssáttmála.
Flm.: Halldóra Mogensen, Logi Einarsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Einar Kárason, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Oddný G. Harðardóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að leggja fram tillögur um grænan samfélagssáttmála sem taki til allra sviða þjóðlífsins.
Til undirbúnings tillögunni boði forsætisráðherra til þjóðfundar um „Græna Ísland“ vorið 2020 og í kjölfar hans verði tillögur um grænan samfélagssáttmála unnar af fulltrúum allra stjórnmálaflokka í framtíðarnefnd forsætisráðherra, í samráði við umhverfis- og auðlindaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra, ásamt því að samdar verði tillögur um lagabreytingar. Framtíðarnefnd skili tillögum sínum til forsætisráðherra eigi síðar en 1. febrúar 2021.
Tillögurnar feli í sér að eftirfarandi markmiðum verði náð fyrir árið 2030:
1. Ísland verði kolefnishlutlaust land, en þess skal gætt að aðgerðirnar bitni sem minnst á launafólki og jaðarsettum hópum.
2. Efnahagsleg framtíð landsins verði tryggð með sjálfbærni sem ófrávíkjanlegu skilyrði.
3. Teknir verði upp nýir mælikvarðar á velsæld í hagkerfinu, með hliðsjón af þörfinni á velmegun án vaxtar sem minnkar álagið á umhverfið.
4. Ráðist verði í verulegar fjárfestingar á nauðsynlegum innviðum og uppbyggingu til að markmið sáttmálans nái fram að ganga innan settra tímamarka, í samræmi við viðmið milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál.
5. Ísland verði í framvarðasveit ríkja þegar kemur að baráttunni gegn loftslagsvánni.
6. Stuðlað verði að auknu alþjóðlegu samstarfi og samtali um tæknileg málefni, sérfræðiaðstoð, vörur, þjónustu og fjármagn sem gæti nýst öðrum þjóðum við kolefnisbindingu og að ná kolefnishlutleysi.
Framtíðarnefnd forsætisráðherra verði tryggt fjármagn til að ljúka vinnunni á tilsettum tíma.
Tillögurnar verði leiðarvísir fyrir ríkisstjórn Íslands að markmiði um fullt jafnvægi í losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda á öllum sviðum þjóðfélagsins og í alþjóðlegri samvinnu Íslands við önnur ríki í baráttunni gegn loftslagsvánni.
Greinargerð.
Tillaga þessi gengur út á að lagt verði upp í stefnumótunarferli sem er ætlað að skila stefnubreytingu og tillögum til lagabreytinga sem leiði til aðgerða sem miði að því að bæta umhverfisvernd, bæði á Íslandi og erlendis, og tryggja efnahagslega velsæld þrátt fyrir samdrátt á auðlindanýtingu og ágang á jörðina. Stefnumótunarferlinu ljúki með því að forsætisráðherra leggi fram tillögur um grænan samfélagssáttmála.
Gert er ráð fyrir að stefnumótunarferlið taki allt að einu ári og lagðir verði saman kraftar hins opinbera, almennings, fræðasamfélagsins og einkageirans. Samráð verði haft við almenning frá upphafi og haldinn sérstakur þjóðfundur um „Græna Ísland“ vorið 2020. Að honum loknum taki framtíðarnefnd forsætisráðherra við niðurstöðum fundarins og vinni úr þeim tillögur til ríkisstjórnarinnar um grænan samfélagssáttmála. Meginmarkmiðið í stefnumótun við sáttmálann verði sjálfbærni og að Ísland verði grænt land, með grænt hagkerfi. Samhliða verði unnar tillögur að lagabreytingum sem ætlað er að ná þessum markmiðum.
Á sama tíma fari fram endurskoðun og útvíkkun á aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og fjármálaáætlun með það að markmiði að aðgerðir hins opinbera byggist á sjálfbærri þróun á öllum sviðum – við nýtingu auðlinda og umgengni um náttúruna, við opinberar fjárfestingar og framkvæmdir og við lagasetningu. Þannig verði tekin upp umhverfistengd fjárlagagerð og hagstjórn. Samhliða stefnumótuninni taki ríkisstjórnin markviss skref strax í næstu fjárlögum til að tryggja nægt fjármagn í umræddar aðgerðir stjórnvalda og atvinnulífs í umhverfismálum.
Komið verði á fót samráðsvettvangi ríkis og sveitarfélaga, félagasamtaka og atvinnulífsins, vísinda- og fræðasamfélagsins, undir forystu framtíðarnefndar, til að þessir aðilar geti verið samtaka í að gera Ísland að sjálfbæru landi með grænt hagkerfi.
Loftslagsbreytingar og nauðsyn græns sáttmála.
Aðsteðjandi loftslagsvá er stærsta vandamál samtímans. Í sérstakri skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) frá október 2018 kemur fram að hækkandi hitastig er að öllum líkindum af mannavöldum. Skýrslan lýsir jafnframt þeim breytingum sem verða á jörðinni ef hitastig hækkar um 1,5°C að meðaltali. Það hefur þegar hækkað um 1°C og hækkar um 0,2°C að meðaltali á áratug. Ef ekkert verður að gert hefur hitastigið hækkað um 1,5°C í kringum 2040 sem leiðir til hækkunar á yfirborði sjávar, eykur líkur á veðurhamförum, breyttum sjávarstraumum og margfaldri hækkun hitastigs á sumum svæðum.
Áhrif hnatthlýnunar samkvæmt hófsömu mati Sameinuðu þjóðanna eru umtalsverð; 2°C hækkun markar hamfarir um allan heim, en það eru engan veginn efri mörkin ef ekki verður brugðist við. Við 2°C hækkun má búast við bráðnun ísþekju á pólunum, að hitaþensla heimshafanna leiði af sér sjávarmálshækkun upp á marga metra, að ferskvatnsskortur hafi áhrif á um 400 milljónir manna um heim allan, að margar borgir nálægt miðbaug verði óbyggilegar og að jafnvel í borgum í norðanverðri Evrópu muni þúsundir manna deyja úr hita hvert sumar. Hækki meðalhitinn um 3°C má búast við milljarði flóttamanna, varanlegum þurrki í suðurhluta Evrópu og að sexfalt stærra landsvæði brenni árlega í skógareldum en nú til dags. Við hækkun um 4°C má búast við þrjátíu- til sextíuföldun flóðaskemmda á láglendi og að skemmdir á heimsvísu nálgist sex hundruð billjarða dollara. Samkvæmt greiningu IPCC er búist við tæplega 4°C hækkun sé horft til skuldbindinga ríkja heims, en ekki er útilokað að hækkunin geti náð allt að 8°C.
Ekki verður séð að hægt sé að leysa loftslagsvandann og koma í veg fyrir yfirvofandi hamfarir án gríðarlegra breytinga á hagkerfi heimsins. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál reiknast til að verja þurfi 2,5% af heimsframleiðslu til loftslagsmála á ári til ársins 2035 til að halda hlýnun innan við 1,5°C. Evrópusambandið áætlar að 25% af fjármagni þess verði varið í loftslagsmál til ársins 2027 og boðar nú evrópskan grænan sáttmála.
Þótt aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar sé ágætt fyrsta skref gengur hún of skammt og takmarkað fjármagn er lagt til. Aðrar Norðurlandaþjóðir eru komnar mun lengra og verja margfalt meira af vergri landsframleiðslu í loftslagsaðgerðir. Ísland verður að skipa sér í forystusveit með öðrum Norðurlandaþjóðum, hlusta á vísindasamfélagið og ráðast í verulegar fjárfestingar í nauðsynlegum innviðum og uppbyggingu til að markmið sáttmálans nái fram að ganga innan settra tímamarka, í samræmi við viðmið milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál. Slík fjárfesting skapar ný störf og verðmæti í nýju, breyttu og grænna hagkerfi.
Sjálfbærni skapar atvinnu. Samkvæmt nýjustu þjóðhagsspá verður samdráttur í hagkerfinu á næsta ári, við slíkar aðstæður er best að ráðast í stórtækar fjárfestingar til að sporna við neikvæðum áhrifum efnahagsþrenginga á almenning. Þannig gætu grænar fjárfestingar ekki bara haft jákvæð áhrif hvað varðar loftslagsbreytingar til lengri tíma heldur á samfélag og jöfnuð til styttri tíma. Raunveruleg virk hvatning og kröfur til framleiðenda, seljenda og neytenda eru nauðsynlegar til að gera íslenskt hagkerfi grænna. Við þessa vinnu verði tekið mið af áætlun um eflingu græna hagkerfisins sem Alþingi samþykkti samhljóða 20. mars 2012 og hún uppfærð.
Bretland og Skotland hafa þegar lýst yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og ljóst er að fleiri ríki munu fylgja í kjölfarið, Ísland er þar engin undantekning. Yfirlýsing ein og sér dugir þó skammt án þess að stefnumótun sé gerð og markvissar tímasettar aðgerðir, mælanleg markmið og nægt fjármagn fylgi með. Breytingar á skattkerfinu, í samgöngumálum, húsnæðismálum, matvælaframleiðslu og auðlindanýtingu þurfa að fara fram með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Opinbert fé þarf að renna í rannsóknarsjóði til að efla grænar og sjálfbærar rannsóknir og skoða þarf ívilnanir, bæði til handa einstaklingum og fyrirtækjum í sjálfbærum rekstri. Þá verði mótuð lagaumgjörð um hvað teljist græn og sjálfbær fjárfesting. Sérstök vottun standi fyrirtækjum einnig til boða.
Lífeyrissjóðir og aðrir stærri fjárfestingarsjóðir verða að skuldbinda sig til að tryggja að fjárfestingar þeirra standist markmið Parísarsáttmálans. Efla þarf rannsóknir til muna, virkja hugvitið og fjárfesta í menntun, fræðslu og nýsköpun. Með því skapast verðmæt og spennandi störf. Þá þarf að flýta aðgerðum við orkuskipti í vegasamgöngum, banna nýskráningar bensín- og dísilbíla mun fyrr en áætlað er og flýta uppbyggingu á nauðsynlegum samgönguinnviðum til að gera þéttbýli og borgarumhverfi vistvænna.
Nauðsynlegt er að draga verulega úr útstreymi frá stóriðju. Hækka þarf kolefnisgjald strax og láta tekjur af því renna beint í málaflokkinn, t.d. í verkefni um kolefnisbindingu. Einnig þarf að skoða rammaáætlun betur með tilliti til grænnar framtíðar. Samfélagssáttmálinn um Græna Ísland þarf að fela í sér byggðastefnu þar sem sérstaklega verði skoðað hvernig styðja megi við sjálfbæra innlenda matvælaframleiðslu og nýsköpun í íslenskum landbúnaði. Fjölga þarf stoðum atvinnulífsins þannig að íslenskt hagkerfi byggist í auknum mæli á hugviti til að skapa verðmæti – til þess þarf að auka menntun og nýsköpun. Smæð Íslands og hátt tæknistig verður að nýta til að prufukeyra róttækar tæknilegar, efnahagslegar og samfélagslegar tilraunir sem miða að umhverfisvænu þjóðfélagi sem dregur vagninn í loftslagsmálum á heimsvísu.
Alþjóðleg samvinna.
Ómögulegt verður að ná að halda hnattrænni hlýnun innan 1,5°C marka Parísarsamningsins án víðtækari alþjóðlegrar samvinnu en nú á sér stað. Ljóst er að árangursmælikvarðar eru ófullnægjandi, efnahagslegir hvatar of litlir og geta margra ríkja til að standa við skuldbindingar sínar of takmörkuð til að árangur náist.
Staða Íslands innan alþjóðakerfisins er tilvalin til að setja gott fordæmi þegar kemur að frekari aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á alþjóðlega sviðinu. Hægt er að grípa til fjölmargra aðgerða sem myndu sýna forystu Íslands í loftslagsmálum og hvetja aðrar þjóðir til dáða. Meðal þeirra er innleiðing loftslagsákvæðis í fríverslunar-, fjárfestingar-, varnarmála- og samstarfssamninga sem Ísland gerir við önnur ríki og ríkjasambönd. Forskrift að slíku ákvæði má finna í fjölmörgum fríverslunarsamningum EFTA þar sem áréttað er að samningurinn grundvallist á virðingu fyrir mannréttindum. Ísland gæti einnig haft framgöngu um að útbúnir verði nýir alþjóðlegir árangursmælikvarðar sem ráðast að rótum frekar en einkennum loftslagsvandans. Þar á meðal viðmið um að ná að nýju, og viðhalda, því stigi koltvísýrings í andrúmsloftinu sem þörf er á til að afstýra hamfarahlýnun. Markmiðið er að ná hlutfalli koltvísýrings í andrúmsloftinu niður í 280 hluta af milljón á 21. öldinni.
Hægt væri að nýta mun betur samráðsvettvang sem er til staðar innan ramma UNFCCC-samningsins og COP-ráðstefnunnar, til dæmis með því að útvíkka hlutverk hans til stuðnings alþjóðlegri samræmingu á stærri aðgerðum gegn loftslagsbreytingum sem ætla má að einstök ríki ráði ekki við og alþjóðlegum stuðningi við vanþróuðustu ríki heims (LDC-ríki). Sem dæmi um verkefni sem hafa gríðarlega þýðingu með tilliti til loftslagsbreytinga er vernd alþjóðlegra hafsvæða og hreinsun þeirra, einkum þar sem plast hefur safnast fyrir í verulegum mæli eða súrnun sjávar hefur þegar valdið verulegum skaða á stórum kóral. Einnig má nefna söfnun og varðveislu plöntu- og dýrategunda sem eru í útrýmingarhættu eða á válista, en ætla má að útrýming þeirra geti haft skaðleg áhrif á vistkerfi jarðarinnar. Að lokum gætu íslensk stjórnvöld beitt sér fyrir því að hýsa aðildarríkjaþing loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (Conference of the Parties, COP) árið 2021 sem færi af fremsta megni fram stafrænt til að draga úr kolefnisspori.
Vinnan við grænan samfélagssáttmála.
Stjórnmálafólk, atvinnulífið, fræðasamfélagið, félagasamtök og einstaklingar þurfa að taka höndum saman í stefnumótunarferli græna samfélagssáttmálans til að hann verði sá leiðarvísir sem þörf er á. Hér verða allir að leggjast á eitt.
Framtíðarnefnd hefur m.a. það hlutverk að fjalla um áskoranir og tækifæri vegna tæknibreytinga og fjalla um þróun meginstrauma sem hafa mótandi áhrif á samfélagið til framtíðar, einkum með hliðsjón af þróun umhverfismála og lýðfræðilegum þáttum, og stuðla að umræðu um tækifæri og ógnir framtíðarinnar. Það fellur því vel að hlutverki nefndarinnar að semja tillögur að grænum sáttmála fyrir Ísland, samhliða og að loknum þjóðfundi um „Græna Ísland“, og koma fram með hugmyndir í baráttunni við loftslagsvandann sem hafa jákvæð áhrif fyrir samfélagið allt. Þannig eru markmið þingsályktunartillögunnar víðtæk, en setja ekki þröngan ramma utan um störf nefndarinnar. Til að tryggja að framtíðarnefnd skili sáttmálsdrögum innan þeirra þröngu tímamarka sem tiltekin eru í tillögu þessari verður nauðsynlegt að forgangsraða gerð sáttmálans í samræmi við þann alvarlega vanda sem við blasir.
Flutningsmenn leggja áherslu á mikilvægi þess að framtíðarnefnd verði tryggt nauðsynlegt fjármagn svo að hún geti sótt þá sérfræðiaðstoð sem þörf er á ásamt því að hafa fullt samráð við almenning og hagsmunasamtök um land allt.