Ferill 43. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 43  —  43. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um skyldu ferðaþjónustuaðila til að bjóða upp á kolefnisjöfnun við sölu á þjónustu.


Flm.: Ólafur Þór Gunnarsson, Ari Trausti Guðmundsson, Ásmundur Friðriksson, Helga Vala Helgadóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson.


    Alþingi ályktar að fela ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í samráði við umhverfis- og auðlindaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, að vinna lagafrumvarp sem skyldar söluaðila í ferðaþjónustu til að bjóða upp á kolefnisjöfnun við sölu ferða og annarrar þjónustu. Frumvarpið verði lagt fram eigi síðar en á haustþingi 2020.

Greinargerð.

    Með tillögunni er ráðherra falið að vinna lagafrumvarp sem geri söluaðilum í ferðaþjónustu, þ.m.t. flugrekstraraðilum, bílaleigum, gististöðum, söluaðilum ferða með bifreiðum og öðrum farartækjum sem skilja eftir sig kolefnisspor, skylt að bjóða upp á kolefnisjöfnun við sölu á ferðum og annarri þjónustu.
    Stjórnvöld hafa ákveðið í stefnu um loftslagsmál að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040. Á alþjóðavettvangi er einnig mikið rætt um slíkt og hafa allnokkur ríki sett sér slíka stefnu, þó með mismunandi ártölum og fyrirkomulagi. Meðvitund almennings hefur einnig aukist og mikið er rætt um kolefnisjöfnun og kolefnishlutleysi. Með tillögunni er almenningi auðveldað að taka ákvarðanir sem eru jákvæðar fyrir umhverfið.
    Ýmsir söluaðilar vöru og þjónustu eru þegar farnir að bjóða upp á kolefnisjöfnun en þó er nokkuð í land með að það markmið náist að ferðaþjónustan sé að fullu kolefnisjöfnuð. Gera má ráð fyrir að nokkrar breytingar á lögum þurfi til. Flutningsmenn telja mikilvægt að áfram verði það valkvætt fyrir neytanda að meta hvort honum finnist mikilvægt að nýta sér þjónustutilboð af þessu tagi, en að skyldan um framboðið liggi hjá söluaðila. Slíkt er mikilvægt til að vekja neytendur til vitundar um það kolefnisspor sem kann að hljótast af ferðalögum, en jafnframt gera þeim kleift að bregðast við þeirri vitneskju með jákvæðum hætti. Flutningsmenn telja að með því að skylda kaupendur til að greiða fyrir kolefnisjöfnun, fremur en að slíkt sé valkvætt, kunni breytingin að verða íþyngjandi fyrir bæði söluaðila og neytendur. Því er valin sú leið að hafa kolefnisjöfnunina valkvæða fyrst í stað.
    Ímyndaruppbygging er gríðarlega mikilvæg fyrir land eins og Ísland sem hefur umtalsverða hagsmuni af ferðaþjónustu. Þau skilaboð sem fælust í þessari skyldu yrðu ferðaþjónustunni og fyrirtækjum innan hennar vafalítið til framdráttar og gerðu Ísland og ferðir um Ísland að vænlegri valkosti. Það er einnig mikilvægt að almenningur á Íslandi og þeir sem heimsækja landið sjái með þessum hætti skýran vilja stjórnvalda til að kolefnisjafna ferðaþjónustuna, án þess að leggja þeim þá skyldu á herðar.
    Flutningsmenn benda á að flest ferðaþjónustufyrirtæki uppfæra kynningarefni sitt reglulega og leggja því áherslu á að í frumvarpinu verði þeim gefinn nægur tími til að uppfæra kynningarefni sitt þannig að ekki hljótist aukakostnaður við útgáfu þess. Þannig væri sú viðbót sem fælist í tilboði sem þessu ekki verulega íþyngjandi.
    Þar sem gera má ráð fyrir að nokkur vinna í ráðuneyti verði við að fara yfir þau lög sem við eiga, auk samráðs við umhverfissamtök og ferðaþjónustuaðila, samhliða aðlögun að loftslagsstefnu stjórnvalda leggja flutningsmenn til að ráðuneytinu sé veittur rúmur tími til að ljúka vinnu við frumvarpið.