Ferill 49. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 49  —  49. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011 (íbúakosningar um einstök mál).

Flm.: Helgi Hrafn Gunnarsson, Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 108. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Sveitarstjórn er heimilt að ákveða lægra hlutfall í samþykkt um stjórn sveitarfélags.
     b.      Í stað orðanna „hærra hlutfall“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: annað hlutfall.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þessa efnis hefur áður verið lagt fram á 143., 146., 148. og 149. löggjafarþingi (410. mál).
    Markmið frumvarpsins er að skýra og auka getu sveitarfélaga til þess að kalla til borgarafundar annars vegar og til þess að halda íbúakosningar um einstök málefni hins vegar.
    Í 1. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, er kveðið á um að ef minnst 10% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi óska borgarafundar skuli sveitarstjórn verða við því svo fljótt sem unnt er.
    Í 2. mgr. 108. gr. laganna er kveðið á um að 20% kosningarbærra íbúa í sveitarfélagi geti óskað eftir íbúakosningu um einstök málefni og er þá sveitarfélagi skylt að verða við þeirri ósk eigi síðar en ári frá því að óskin berst. Hlutfallið er lágmarkshlutfall samkvæmt lögunum en heimilt er að ákveða hærra hlutfall í samþykkt um stjórn sveitarfélags, þó aldrei hærra en þriðjung þeirra sem hafa kosningarrétt.
    Í a-lið 1. gr. er lagt til að sveitarstjórn sé heimilt að lækka það hlutfall íbúa sveitarfélags með kosningarrétt sem þarf til þess að boðað verði til borgarafundar. Flutningsmenn sjá ekki ástæðu til að takmarka sérstaklega rétt sveitarfélaga til þess að liðka fyrir rétti íbúanna til að boða til borgarafundar. Því er lagt til að við málsgreinina bætist ákvæði um að sveitarstjórn sé heimilt að ákveða lægra hlutfall í samþykkt um stjórn sveitarfélags.
    Í b-lið 1. gr. er lagt til að sveitarstjórnum verði heimilt að lækka hlutfall íbúa sveitarfélags með kosningarrétt sem þarf til þess að knýja fram íbúakosningu um einstök málefni, en lögin kveða á um að hlutfallið skuli vera 20%. Sveitarstjórnum er þó veitt heimild til þess að hækka það hlutfall þótt það megi aldrei verða hærra en sem nemur þriðjungi íbúa með kosningarrétt.
    Í athugasemdum við 108. gr. frumvarps sem varð að sveitarstjórnarlögum kemur fram að ekkert banni sveitarstjórn að verða við óskum um íbúakosningar þótt lægra hlutfall íbúa leggi þær fram. Sveitarstjórnir hafa því þegar í sjálfu sér heimild til þess að verða við ósk þótt færri undirskriftir berist en sem nemur 20% kosningarbærra manna í sveitarfélaginu.
    Slík ákvörðun er hins vegar nú háð geðþótta sveitarstjórna hverju sinni og gæti hún því t.d. samþykkt eina ósk en hafnað annarri, jafnvel þótt sami fjöldi undirskrifta lægi að baki hvorri þeirra, hvorug væri háð þeim takmörkunum sem koma fram í 3. mgr. 108. gr. laganna og þær uppfylltu báðar lög og reglugerðir að öðru leyti.
    Einnig yrði afar matskennt hvernig slíkar óskir yrðu afgreiddar, sem mundi valda undirskriftasöfnurum óvissu, efist þeir t.d. um að geta safnað undirskriftum 20% íbúa með kosningarrétt í sveitarfélaginu sökum þess að sveitarfélagið er strjálbýlt eða samanstendur af nokkrum dreifðum byggðakjörnum. Við slíkar aðstæður gætu undirskriftasafnarar því í rauninni ekki vitað fyrir fram hvernig þeir ættu að haga undirskriftasöfnuninni sjálfri og yrði slík óvissa sérstaklega óþægileg ef fyrirséð væri að ákvæði laga og reglna torvelduðu einhvern hluta söfnunarinnar að mati undirskriftasafnara. Mikilvægt er að aðilar sem hyggjast safna undirskriftum viti fyrir fram hvernig söfnuninni skuli háttað og hvaða afleiðingar það hefur að ná tilteknum fjölda, jafnvel þótt hann fari ekki yfir 20% mörkin. Varðar þetta ekki síst 4. mgr. 108. gr. laganna þar sem kveðið er á um reglugerðarheimild til nánari útfærslu á því hvernig undirskriftasöfnun skuli háttað.
    Í ljósi þessa er lagt til að í stað orðanna „hærra hlutfall“ í 2. málsl. 2. mgr. 108. gr. laganna komi orðin „annað hlutfall“. Með þeirri breytingu verður lagaumhverfi undirskriftasafnana og hugsanlegra íbúakosninga í kjölfarið bæði víðtækara og skýrara, kjósi stjórn sveitarfélags að lækka hlutfallið. Einnig er það mat flutningsmanna að slíkt orðalag sé frekar til þess fallið að gefa lesendum laganna til kynna að 20% markið sé sjálfgefið hlutfall en ekki eiginlegt lágmark. Mikilvægt er að möguleikar sveitarstjórna til að notast við íbúakosningar við ákvarðanatöku í einstökum málum séu ótvíræðir og skýrir öllum sem lesa lögin, hvort sem um er að ræða stjórn sveitarfélags eða íbúa þess.
    Sveitarfélög bera sjálf kostnað af því að halda íbúakosningar og borgarafundi og er því ekki gert ráð fyrir því að breytingin leiði til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð.