Ferill 52. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 52  —  52. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um stofnun þings kjörinna fulltrúa innan Sameinuðu þjóðanna.

Flm.: Smári McCarthy, Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Helgi Hrafn Gunnarsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Andrés Ingi Jónsson.


    Alþingi ályktar að lýsa yfir stuðningi við hugmyndir um stofnun þings kjörinna fulltrúa innan Sameinuðu þjóðanna, eins og þær birtast í áskorun UNPA Campaign-samtakanna þessa efnis, og ályktar að fela ríkisstjórninni að koma þeirri afstöðu á framfæri við samtökin og aðalritara Sameinuðu þjóðanna.

Greinargerð.

    Þessi þingsályktunartillaga er endurflutt óbreytt frá 149. löggjafarþingi (322. mál) en hún var áður lögð fram af Ögmundi Jónassyni á 145. og 144. löggjafarþingi (604. mál). Tillagan er að mestu óbreytt frá fyrstu framlagningu en greinargerð hefur verið lítillega uppfærð og fylgiskjal með áskorun frá UNPA Campaign verið bætt við.
    Þær raddir heyrast nú æ oftar að leitað skuli leiða til að taka örlagaríkar ákvarðanir í nafni Sameinuðu þjóðanna með lýðræðislegri hætti en nú er gert. Þykir mörgum of mikil völd liggja hjá öryggisráðinu þar sem fimm ríki, Bandaríkin, Kína, Rússland, Bretland og Frakkland, hafa neitunarvald.
    Við stofnun Sameinuðu þjóðanna um miðja síðustu öld var mönnum eflaust í fersku minni hve máttlaust forveri þess, Þjóðabandalagið, hafði verið þegar á reyndi. Stórveldin töldu sig ekki þurfa að taka tillit til ákvarðana Þjóðabandalagsins og ályktana sem þar voru gerðar og fóru óhikað sínu fram eins og dæmin sanna.
    Ekki er ólíklegt að þessi sögulegi bakgrunnur skýri að einhverju leyti þá ofuráherslu sem lögð var á aðkomu stórvelda að allri ákvörðunartöku við stofnun Sameinuðu þjóðanna. Með því móti mætti tryggja velvild þeirra í garð samtakanna og að þær ákvarðanir sem teknar væru á vettvangi þeirra yrðu virtar.
    Hin miklu völd fastaríkjanna í öryggisráðinu hafa hins vegar leitt til þess að telji þau hagsmunum sínum á einhvern hátt ógnað með samþykktum Sameinuðu þjóðanna hafa þau ekki hikað við að beita neitunarvaldi til að hindra að þær næðu fram að ganga. Þetta á sérstaklega við um Bandaríkin, Rússland og Kína.
    Þessu ófullkomna fyrirkomulagi verður ekki haggað nema með stuðningi tveggja þriðju hluta allsherjarþingsins auk þess sem fastaríki öryggisráðsins geta fellt allar tillögur um breytingar á skipulagi Sameinuðu þjóðanna með neitunarvaldi sínu.
    Núverandi fyrirkomulag leiðir af sér að risavaxin ríki hafa jafn mikið vægi í öllum málum og smáríki, nema á vettvangi öryggisráðsins, sem leiðir af sér tilhneigingu til að sniðganga allsherjarþingið eða dempa vægi þess með ýmsu móti. Með því að gefa löndum aukið vægi í samræmi við íbúafjölda ásamt því að færa starfsemi Sameinuðu þjóðanna nær almenningi í hverju landi má í senn styrkja stöðu Sameinuðu þjóðanna á heimssviðinu og styrkja tiltrú almennings á Sameinuðu þjóðunum.
    UNPA Campaign-samtökin (United Nations Parliamentary Assembly – UNPA) eru samstarfsvettvangur þingmanna og frjálsra félagasamtaka sem vinna að því á heimsvísu að auka lýðræði innan Sameinuðu þjóðanna og efla áhrif borgara aðildarríkjanna á starfsemi þeirra með því að koma á þingi skipuðu kjörnum fulltrúum innan Sameinuðu þjóðanna. Er gert ráð fyrir því að í fyrstu gegni þetta þing ráðgjafarhlutverki en takist starfsemi þess vel gæti það, þegar fram í sækir, orðið ákvörðunaraðili um starf og stefnumótun Sameinuðu þjóðanna. UNPA-samtökin láta til sín taka um allan heim og stýrir starfi þeirra sérstakur stýrihópur sem myndaður er af fulltrúum frjálsra félagasamtaka og tengslaneta. Ráðgjafarnefnd þingmanna veitir samtökunum ráð og leggur lið við stefnumörkun um það með hvaða hætti unnt sé að stuðla að og auka lýðræðislega þátttöku á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
    Áskorun UNPA Campaign um stofnun þings kjörinna fulltrúa innan Sameinuðu þjóðanna nýtur nú þegar talsverðs fylgis. Þannig hafa 396 frjáls félagasamtök frá 73 þjóðlöndum lýst stuðningi við baráttumál samtakanna og 679 núverandi og 868 fyrrverandi þingmenn frá 122 þjóðlöndum. Ýmsar þingmannasamkundur hafa og léð málstaðnum lið með samþykktum, svo sem þing Evrópuráðsins árið 2009 og Evrópuþingið árið 2011 og aftur 2018. Ýmsir nafnkunnir einstaklingar á vettvangi stjórnmála, vísinda og fræða hafa einnig lýst samstöðu með UNPA og baráttunni fyrir auknu lýðræði innan Sameinuðu þjóðanna. 1


Fylgiskjal.


UNPA Campaign-samtökin:


Áskorun um stofnun þings kjörinna fulltrúa innan Sameinuðu þjóðanna.

    Mannkynið stendur frammi fyrir því verkefni að tryggja líf og velferð kynslóða framtíðarinnar og tryggja jafnframt náttúrulegan grundvöll lífs á jörðinni. Við erum sannfærð um að til þess að geta tekist á við erfiðar áskoranir, svo sem félagslegan ójöfnuð, útbreiðslu gereyðingarvopna, hryðjuverkaógn eða ógn við vistkerfi jarðarinnar þurfi sameiginlegt átak alls mannkyns.
    Í því skyni að tryggja alþjóðlega samvinnu, sátt um Sameinuðu þjóðirnar, treysta lögmæti þeirra og umboð til athafna þarf að efla beina þátttöku almennings í störfum Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegra stofnana samtakanna. Almenningur þarf að eiga kost á beinni þátttöku í starfsemi Sameinuðu þjóðanna. Við leggjum því til að lýðræðisleg þátttaka og lýðræðislegt umboð verði aukin og efld á heimsvísu, stig af stigi.
    Við lítum svo á að stofnun ráðgefandi þings innan Sameinuðu þjóðanna sé nauðsynlegt skref. Unnt er, án þess að nauðsynlegt sé að gera breytingar á sáttmála Sameinuðu þjóðanna, að koma á mikilvægum tengslum milli Sameinuðu þjóðanna, stofnana Sameinuðu þjóðanna, ríkisstjórnanna, þjóðþinganna og borgaranna með slíku þingi.
    Þetta þing yrði ekki bara enn ein stofnunin. Sem rödd borgaranna verður þessi samkoma vettvangur og boðberi nýrrar vitundarvakningar og nýs skilnings á alþjóðastjórnmálum. Þingið gæti orðið hvati pólitískra ákvarðana um frekari þróun alþjóðamála og alþjóðalaga. Það gæti einnig orðið Sameinuðu þjóðunum að miklu liði við að ná hinum háleitu markmiðum sínum og haft jákvæð áhrif á þróun hnattvæðingarinnar.
    Til að byrja með gæti þing kjörinna fulltrúa innan Sameinuðu þjóðanna verið skipað fulltrúum sem kosnir hafa verið á þjóðþingin. Stig af stigi ætti það þó að öðlast sjálfstæðan rétt til upplýsinga, þátttöku og stjórnarítaka gagnvart Sameinuðu þjóðunum og stofnunum þeirra. Á síðari stigum væri unnt að kjósa sérstaklega til þingsins.
     Við skorum á Sameinuðu þjóðirnar og ríkisstjórnir aðildarríkja þeirra að stofna þing þjóðkjörinna fulltrúa innan Sameinuðu þjóðanna. Við hvetjum öll samtök, ákvörðunaraðila og borgara sem láta sig alþjóðamál varða að styðja þessa áskorun.
1     Sjá vefsíðu UNPA: en.unpacampaign.org/index.php