Ferill 53. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 53  —  53. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011 (staðsetning áfengisverslunar).

Flm.: Bryndís Haraldsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Willum Þór Þórsson.


1. gr.

    Við 2. málsl. 10. gr. laganna bætist: og hafa samráð við sveitarstjórn um staðsetningu verslunar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 149. löggjafarþingi (480. mál).
    Með frumvarpi þessu er lagt til að sveitarfélögin hafi aðkomu að staðarvali þegar verið er að opna nýjar áfengisverslanir. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, ÁTVR, hefur hingað til haft fullt frelsi til að staðsetja verslanir sínar án þess að hafa þurft að hafa um það samráð við handhafa skipulagsvaldsins, sjálf sveitarfélögin. Þekkt er sú staðreynd að sveitarfélögin hafa ekki alltaf verið sátt við staðsetningu verslana ÁTVR og hafa jafnvel talið staðarvalið vinna gegn markmiðum þeirra í skipulags- og umhverfismálum. Sem dæmi má nefna að sveitarfélagið Garðabær hefur ítrekað kvartað yfir því að ÁTVR hafi einhliða lokað verslun sinni í miðbæ Garðabæjar og hafi svo nokkrum árum síðar opnað nýja verslun í Kauptúni en ekki í miðbæ Garðabæjar þrátt fyrir skýrar óskir sveitarfélagsins þar um.
    Í umsögn umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá því í mars 2017, þegar fjallað var um lagafrumvarp um smásölu áfengis (106. mál á 146. löggjafarþingi), kom fram að stefna borgaryfirvalda væri að efla verslun og þjónustu „innan íbúðarhverfa þannig að flestir geti nýtt sér þjónustu innan síns hverfis og dregið verði úr vegalengdum“. Samdóma álit ráðsins var að breytt fyrirkomulag á verslun með áfengi gæti ýtt undir fjölgun verslana og markvissari staðsetningu þeirra í kjörnum hverfanna. Umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar hvatti til þess að lagagrundvöllur þess að sveitarfélögin hefðu aðkomu að staðarvali og afgreiðslutíma vínbúða yrði treystur, hvort sem það væri gert með afnámi einkaleyfis eða breyttri stefnu ÁTVR. Í ljósi þess að frumvarp um afnám einkaleyfis hefur ítrekað verið lagt fram og ekki fengið framgang á þinginu er hér lagt til að sveitarfélögin verði lögbundinn samráðsaðili við val á staðsetningu áfengisverslunar til að tryggja að sem flest sjónarmið komi fram þegar staðsetning er valin.