Ferill 60. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 60  —  60. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á vegalögum, nr. 80/2007.

Flm.: Karl Gauti Hjaltason, Ari Trausti Guðmundsson, Ásmundur Friðriksson, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Ólafur Ísleifsson, Vilhjálmur Árnason.


1. gr.

    Við 2. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Þjóðferjuleiðir eru hluti af grunnkerfi samgangna eins og það er skilgreint í samgönguáætlun hverju sinni. Til þjóðferjuleiða teljast leiðir þar sem ferja kemur í stað vegasambands um stofnveg og tengir byggðir landsins sem umluktar eru sjó við grunnkerfi samgangna á meginlandinu.

2. gr.

    1. mgr. 22. gr. laganna orðast svo:
    Í samgönguáætlun skal ákveða fjárveitingu vegna kostnaðar við ferjur sem þjónusta þjóðferjuleiðir til flutnings á fólki og bifreiðum. Einnig er heimilt að ákveða fjárveitingu til greiðslu hluta kostnaðar við ferjur sem eru mikilvægar fyrir ferðaþjónustu.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 148. löggjafarþingi (414. mál) og 149. löggjafarþingi (32. mál) þar sem málinu var vísað til umhverfis- og samgöngunefndar sem sendi málið til umsagnar. Umsagnir sem bárust voru almennt jákvæðar.
    Árum saman hafa samgöngumál á leiðinni til Vestmannaeyja verið til umræðu. Vestmannaeyjar hafa mikla sérstöðu í samgöngulegu tilliti og er mat flutningsmanna að það sé hlutverk hins opinbera að tryggja þangað góðar og greiðar samgöngur, á sanngjörnu verði með nákvæmlega sama hætti og hið opinbera stendur straum af rekstri sameiginlegs vegakerfis, hafna og flugvalla.
    Leysa þarf þann samgönguvanda sem snýr að Vestmannaeyjum og öðrum byggðum eyjum við landið. Þær eyjar sem búseta er í árið um kring eru um þessar mundir fjórar talsins, Heimaey í Vestmannaeyjum, Grímsey úti fyrir Eyjafirði, Flatey á Breiðafirði og Hrísey á Eyjafirði.
    Markmið frumvarpsins er að ákveðnar ferjuleiðir falli undir skilgreiningu vegalaga á þjóðvegum vegna sérstöðu sinnar. Lagt er til að þjóðferjuleiðum verði bætt við skilgreiningu vegalaga á þjóðvegum. Undir þessa nýju skilgreiningu falla þá ferjuleiðir sem tengja byggðar eyjar við grunnvegakerfi landsins.
    Í máli 4904/2007 fjallaði umboðsmaður Alþingis um kvörtun yfir gjaldtöku vegna afnota af ferjunni m/s Herjólfi, sem sigldi á þeim tíma milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar, og hækkun Eimskipafélags Íslands ehf. á gjaldskrá ferjunnar í ársbyrjun 2007. Var því m.a. haldið fram að m/s Herjólfur teldist þjóðvegur í skilningi vegalaga. Umboðsmaður komst m.a. að þeirri niðurstöðu að ferjur yrðu ekki skilgreindar sem þjóðvegir, hvorki samkvæmt gildandi vegalögum, nr. 80/2007, né eldri vegalögum. Þá yrði ekki ráðið af ákvæðum vegalaga né eldri vegalögum að Alþingi hefði litið svo á að ríkinu væri skylt að standa að rekstri á ferjum með sama hætti og uppbyggingu og viðhaldi þjóðvega. Umboðsmaður tók fram að m/s Herjólfur gegndi mikilvægu hlutverki í samgöngum milli Vestmannaeyja og annarra hluta landsins og hefði hlutverk sem væri að nokkru marki eðlislíkt því hlutverki sem vegir hefðu almennt í samgöngum hér á landi. Þrátt fyrir það var álit umboðsmanns að það atriði eitt og sér leiddi ekki til þess, að virtum ákvæðum vegalaga, að litið yrði á ferjuna sem „þjóðveg“ milli Vestmannaeyja og lands í skilningi vegalaga.
    Í ljósi niðurstöðu umboðsmanns er það mat flutningsmanna frumvarps þessa að mikilvægt sé að gera nauðsynlegar breytingar á vegalögum og fella ákveðnar ferjuleiðir undir skilgreininguna á þjóðvegum samkvæmt vegalögum. Í umsögn Vegagerðarinnar sem barst við meðferð málsins á 149. löggjafarþingi kom fram að stæði vilji löggjafans til þess að breyta í grundvallaratriðum núverandi fyrirkomulagi við rekstur ferja sé það mat stofnunarinnar að því markmiði yrði betur náð með breyttum áherslum í samgönguáætlun, breytingu á lögum um samgönguáætlun eða með nýrri heildstæðri löggjöf um aðkomu ríkisins að almenningssamgöngum almennt eða rekstri ferja. Flutningsmenn árétta að verði frumvarpið samþykkt ber samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að taka tillit til þeirra breyttu áherslna í samgöngum sem breytingin hefur í för með sér við gerð samgönguáætlunar.
    Árið 2017 var unnin ítarleg þjónustugreining fyrir Vestmannaeyjabæ og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið af RHA, Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri. Þar kemur fram að krafa íbúa um hreyfanleika er að aukast og fólk vill geta komist á milli lands og Eyja með sem minnstum fyrirvara og að tíðni ferða sé sem mest. Töluvert er um að fólk fari upp á meginlandið til að sækja sér þjónustu, vinnu og afþreyingu. Auk þess treysta fjölmörg fyrirtæki á flutninga milli lands og Eyja, svo sem flutning á hráefni fyrir fiskvinnslu og fiskafurðir á markað o.s.frv. Fyrir þessa aðila er mikilvægt að engar tafir verði á flutningum. Einnig kemur fram að tryggar ferjusiglingar eru líka mikilvægar fyrir aðila í ferðaþjónustu.
    Gera má ráð fyrir að þessi sjónarmið gildi jafnt um íbúa annarra eyja í kringum landið. Í kafla 4.1 greiningarinnar er fjallað um „þjóðveg á milli lands og Eyja“ og þar er m.a. lagt til að Vegagerðin búi til sérstakan þjónustuflokk, verði ferjuleiðir skilgreindar sem þjóðvegur.
    Íbúar á eyjum við landið eiga sjálfsagða kröfu til þess að öruggar samgöngur til og frá heimili séu tryggðar af ríkisvaldinu með því að ríkið standi að rekstri á ferjum á skilgreindum þjóðferjuleiðum í vegalögum. Tíðni þeirra samgangna og þjónustustig verði skilgreint eins og ríkisvaldið gerir með aðrar samgöngur um vegi í þjóðvegakerfi landsins. Þannig verði lagðar þær skyldur á ríkisvaldið að halda opnum öllum skilgreindum þjóðferjuleiðum í landinu.