Ferill 65. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 65  —  65. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013 (sorp og úrgangur).

Flm.: Ásmundur Friðriksson, Óli Björn Kárason, Bryndís Haraldsdóttir, Jón Gunnarsson, Vilhjálmur Árnason, Inga Sæland.


1. gr.

    Á eftir 1. mgr. 17. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Óheimilt er að fleygja eða skilja eftir sorp eða annan úrgang í náttúru og á vegum landsins.

2. gr.

    Á eftir 2. mgr. 90. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Sá skal sæta sektum, að lágmarki 100.000 kr., sem brýtur gegn ákvæði 2. mgr. 17. gr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta hefur verið flutt á 143. löggjafarþingi (615. mál), 145. löggjafarþingi (87. mál) og á 149. löggjafarþingi (82. mál).
    Sorp og annar úrgangur á víðavangi er augljóst lýti á umhverfinu. Sé látið óátalið að sorpi og öðrum úrgangi sé fleygt í náttúrunni skerðast þau verðmæti sem í henni felast. Erlendis er þekkt að greiða þurfi háar sektir fyrir að henda sorpi og úrgangi á víðavangi.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögfestar verði aðgerðir til að halda náttúrunni hreinni og stuðla að bættu hugarfari.
    Í samræmi við umræður sem fram fóru um frumvarpið á 149. löggjafarþingi hafa verið gerðar orðalagsbreytingar á ákvæðum þess. Er það gert í þágu skýrleika og er í samræmi við orðnotkun laga um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003. Jafnframt hefur gildissvið ákvæðisins verið rýmkað.