Ferill 69. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 69  —  69. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um hagsmunafulltrúa aldraðra.


Flm.: Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson.


    Alþingi ályktar að fela félags- og barnamálaráðherra að leggja fyrir árslok 2020 fram frumvarp til laga um embætti hagsmunafulltrúa aldraðra.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var lögð fram á 149. löggjafarþingi (825. mál) en hlaut ekki afgreiðslu og er nú lögð fram að nýju óbreytt.
    Með tillögu þessari er lagt til að fela félags- og barnamálaráðherra að undirbúa og leggja fram frumvarp til laga um embætti hagsmunafulltrúa aldraðra.
    Þjónusta við aldraða dreifist á ríki, sveitarfélög, félagasamtök og einkaaðila. Lög og reglur um málaflokk aldraðra eru flókin, ekki síst á sviði skatta, almannatrygginga og heilbrigðismála. Aldraðir eru stór og fjölbreyttur hópur og misjafnlega færir um að gæta eigin réttar og hagsmuna. Að mati flutningsmanna er því rík þörf á málsvara sem gætir réttinda og hagsmuna aldraðra og leiðbeinir þeim um rétt þeirra.
    Hagsmunafulltrúa aldraðra er ætlað að vekja athygli á réttinda- og hagsmunamálum aldraðra almennt, jafnt á opinberum vettvangi sem hjá einkaaðilum, leiðbeina öldruðum um réttindi sín og bregðast við telji hann að brotið sé á þeim. Hagsmunafulltrúa aldraðra ber að hafa frumkvæðiseftirlit með persónulegum högum allra eldri borgara, sérstaklega með tilliti til að koma í veg fyrir félagslega einangrun, næringarskort og almennt bágan aðbúnað þeirra. Jafnframt skal hann gera tillögur um úrbætur á réttarreglum er varða aldraða og hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni aldraðra.
    Tillögur í þessa veru hafa áður verið lagðar fram á þingi en ekki hlotið afgreiðslu. Á 120., 121., 122., 126., 144. og 145. löggjafarþingi voru lagðar fram tillögur til þingsályktunar um umboðsmann aldraðra (359., 177., 200., 117., 582. og 14. mál). Á 122. löggjafarþingi var lagt fram frumvarp til laga um umboðsmann aldraðra (475. mál). Þá var á 136. löggjafarþingi lögð fram tillaga til þingsályktunar um málsvara fyrir aldraða (18. mál).
    Að mati flutningsmanna er ærin ástæða til að láta loks verða af því að koma á fót embætti hagsmunafulltrúa aldraðra.