Ferill 74. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 74  —  74. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 (kostnaður við framkvæmd greiðslna).

Flm.: Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson.


1. gr.

    Við 2. mgr. 53. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tryggingastofnun skal greiða allan kostnað sem hlýst af framkvæmd greiðslna.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var lagt fram á 149. löggjafarþingi (964. mál) en hlaut ekki afgreiðslu. Það er nú lagt fram að nýju óbreytt. Sífellt algengara er að lífeyrisþegar flytjist til útlanda. Í þeim tilvikum fá þeir gjarnan greiðslur frá Tryggingastofnun inn á erlenda bankareikninga. Slíkum fjármunafærslum milli landa fylgir talsvert meiri kostnaður en hefðbundnum millifærslum innan lands. Lífeyrisþegar sem búsettir eru erlendis og bera þann kostnað sem greiðslunum fylgir verða því fyrir skerðingu á réttindum sínum á grundvelli búsetu sinnar. Með frumvarpinu er lagt til að Tryggingastofnun greiði þann kostnað sem hlýst vegna greiðslna opinberra réttinda svo að girt sé fyrir mismunun á grundvelli búsetu að þessu leyti. Þar að auki er Tryggingastofnun, sem stærri viðskiptavinur, í betri aðstöðu til þess að semja við viðskiptabanka um lægri kostnað á slíkum millifærslum.