Ferill 83. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 83  —  83. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum (frítekjumark vegna lífeyristekna).

Flm.: Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson.


1. gr.

    4. málsl. 1. mgr. 23. gr. laganna orðast svo: Þá skal ellilífeyrisþegi hafa sérstakt frítekjumark, annars vegar 100.000 kr. vegna atvinnutekna og hins vegar 100.000 kr. vegna lífeyristekna.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var lagt fram á 149. löggjafarþingi (896. mál) en hlaut ekki afgreiðslu. Það er nú lagt fram að nýju óbreytt. Almennt frítekjumark er mjög lágt í sögulegu samhengi og er markmið þessa frumvarps að auka sanngirni í almannatryggingakerfinu og hvetja til sparnaðar lífeyrisþega með því að draga úr skerðingum. Með lögum nr. 116/2016, um breytingar á lögum um almannatryggingar og fleiri lögum, var meðal annars gerð sú breyting á ellilífeyriskerfi almannatrygginga að öll sértæk frítekjumörk vegna einstakra tegunda tekna voru afnumin. Þess í stað var lögfest eitt almennt frítekjumark sem nemur 25.000 kr. á mánuði og gildir um allar tekjur ellilífeyrisþega, óháð tegund þeirra. Með lögum nr. 96/2017 var einnig lögfest sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna, sbr. nú 4. málsl. 1. mgr. 23. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar.
    Samkvæmt upplýsingum frá félags- og barnamálaráðherra nema heildarskerðingar til ellilífeyrisþega vegna lífeyrissjóðstekna 37,556 milljörðum kr. árlega. Eldri borgarar hafa sjálfir sparað fyrir lífeyrissjóðshlutdeild sinni. Lífeyristekjur eru því ekki launagreiðslur sem koma frá vinnuveitendum að starfsaldri loknum. Því felst í skerðingu bótagreiðslna á grundvelli lífeyristekna óbein skerðing á þeim hagsmunum sem eldri borgarar hafa unnið sér inn með vinnu sinni í gegnum tíðina. Það mun, samkvæmt upplýsingum frá félags- og barnamálaráðherra, aðeins kosta ríkissjóð 16,075 milljarða kr. í aukin útgjöld árlega ef frítekjumark lífeyristekna verður hækkað upp í 100.000 kr. Það er eðlilegt að almenningur njóti eigin sparnaðar og það er skref í rétta átt að koma á 100.000 kr. sérstöku frítekjumarki vegna lífeyristekna.
    Í eftirfarandi töflu má sjá hvaða áhrif framangreindar leiðir hefðu á árlegan kostnað ríkissjóðs við almannatryggingakerfið ef eingöngu er miðað við ellilífeyrisþega. Leið a sýnir árlegan kostnað ríkissjóðs ef hætt yrði við allar skerðingar á ellilífeyri, leið b ef hætt yrði öllum skerðingum almannatrygginga vegna lífeyrissjóðstekna ellilífeyrisþega og leið c ef ellilífeyrisþegar væru með 100.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna lífeyrissjóðstekna. Allar tölur eru í milljónum króna.

Leið a b c
Ellilífeyrir 38.512 33.907 14.387
Heimilisuppbót 2.343 2.150 1.061
Eingreiðslur 1.555 1.499 627
Samtals 42.410 37.556 16.075