Ferill 86. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 86  —  86. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um byggingu hátæknisorpbrennslustöðvar.


Flm.: Karl Gauti Hjaltason, Anna Kolbrún Árnadóttir, Ásmundur Friðriksson, Bergþór Ólason, Björn Leví Gunnarsson, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson.


    Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að kanna hagkvæmni og möguleika þess að reisa hátæknisorpbrennslustöð sem meðhöndli mest allt eða allt sorp sem ekki er unnt að endurvinna hér á landi. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður könnunarinnar fyrir 1. apríl 2020.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður flutt á 149. löggjafarþingi (959. mál) en hlaut ekki afgreiðslu.
    Hér á landi hefur magn úrgangs farið vaxandi síðustu ár. Árið 2016 nam magn úrgangs sem féll til yfir milljón tonna. Í ársskýrslu Umhverfisstofnunar fyrir árið 2017 kemur fram að staðan sé orðin sú að hver landsmaður losar sig að jafnaði við 660 kg af heimilisúrgangi á ári. Hluti þess fer til endurvinnslu en það sem eftir stendur er að mestu urðað á tilteknum urðunarstöðum víðs vegar um landið, m.a. í Álfsnesi, í Fíflholti á Mýrum og við Blönduós, ásamt öðrum úrgangi. Sorpa Álfsnesi hefur starfsleyfi til að taka á móti og urða allt að 120 þúsund tonnum af úrgangi á ári. Árið 2018 voru urðuð 141.358 tonn í Álfsnesi og 132.609 tonn árið 2017. Sorpurðun Vesturlands hefur heimild fyrir urðun úrgangsefna í Fíflholti á Mýrum allt að 15.000 tonnum á ári. Árið 2018 voru urðuð 15.457 tonn af úrgangi þar. Norðurá hefur heimild til að urða allt að 21.000 tonnum við Stekkjarvík í landi Sölvabakka við Blönduósbæ. Árið 2018 voru urðuð þar 21.745 tonn en árið 2017 20.523 tonn.
    Urðun úrgangs getur valdið grunnvatnsmengun um langa framtíð og eitrað jarðveg auk þess sem mikið landrými fer undir landfyllingar. Síðustu ár hefur heimilisúrgangur ekki verið fluttur frá Íslandi til brennslu í öðrum ríkjum en spilliefni, t.d. olíuúrgangur, hefur verið sendur til annarra ríkja til endurnýtingar, t.d. til notkunar sem eldsneyti eða á annan hátt til orkuframleiðslu. Nýlega hafa því komið upp hugmyndir um að sigla með sorp til Svíþjóðar og fleiri landa til brennslu í svokölluðum hátæknisorpbrennslustöðvum.
    Sorpbrennslustöðvar eru útbúnar sérstökum tækni- og hreinsibúnaði til að brenna úrgang og hægt er að nýta varmann sem myndast við brennsluna. Árið 2016 voru starfræktar 2.200 WTE (waste-to-energy) sorpbrennslustöðvar í heiminum. Allmargar þessara sorpbrennslustöðva eru í Evrópu. Á Íslandi er ein sorpeyðingarstöð sem hefur leyfi til sorpbrennslu, en það er móttöku-, flokkunar- og brennslustöðin Kalka, sem er í eigu sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Stöðin getur brennt allt að 12.300 tonnum á ári og er útbúin hreinsunarbúnaði sem heldur mengun í lágmarki. Í stöðinni er nú mest allt sjúkrahússorp á landinu brennt auk hluta af þeim spilliefnaúrgangi sem til fellur. Unnt er að framleiða orku úr sorpinu, en rafmagnsframleiðsla hefur legið niðri um árabil. Afgangsvarmaorkan er nýtt að hluta til að hita upp hús og plön Kölku.
    Evrópusambandið stefnir að því að banna urðun sorps í kringum árið 2030 og tekin hefur verið upp sú stefna í mörgum löndum Evrópu að brenna fremur sorpi en að urða það.
    Samkvæmt landsáætlun um meðhöndlun úrgangs fyrir tímabilið 2013–2024 er stefnt að því að bæta nýtingu úrgangs og draga verulega úr urðun. Þar kemur m.a. fram að urðun er algengasta förgunarleið úrgangs hér á landi en urðunarstöðum hefur þó fækkað töluvert á síðustu árum, m.a. vegna hertra krafna um mengunarvarnir.
    Um meðhöndlun úrgangs á næstu árum er jafnframt fjallað í svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs fyrir árin 2009–2020 sem tekur til starfssvæðis sorpsamlaganna Sorpu bs., Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf./Kölku sf., Sorpstöðvar Suðurlands bs. og Sorpurðunar Vesturlands hf. Þar kemur m.a. fram að stjórnir sorpsamlaganna hafa ákveðið að hætta urðun lífræns og brennanlegs úrgangs eigi síðar en árið 2020. Stefnt er að því að draga úr myndun úrgangs en meðhöndla lífrænan úrgang með gas- og jarðgerðarstöðvum eins og fært er. Fjallað er um ólíkar aðferðir við meðhöndlun úrgangs og forgangsröðun þeirra, þar á meðal úrgangsflokka sem þarf að brenna. Í því sambandi er m.a. gert ráð fyrir að könnuð verði hagkvæmni brennslustöðvar með varmaendurvinnslu og hvort hagkvæmt sé að flytja sorp til brennslu erlendis.
    Ljóst er að með vaxandi kröfum í umhverfismálum verða þjóðir heims hver fyrir sig að sjá um að eyða því sorpi sem til fellur hjá þeim með umhverfisvænum og hagkvæmum hætti. Því er tímabært að Íslendingar komi á fót eigin hátæknisorpbrennslustöð sem byggð yrði samkvæmt ýtrustu kröfum um mengunarvarnir.
    Hátæknisorpbrennslustöðvum fylgja fjölmargir kostir. Með því að brenna sorp í hátæknibrennslustöð er sorpinu breytt í nýtanlega orku, raforku og hitaorku. Þá skila nýjustu hátæknisorpbrennslustöðvarnar tiltölulega lítilli loftmengun, langt innan þeirra marka sem leyfileg eru. Minna land fer til spillis og grunnvatn mengast síður. Rannsóknir sýna að kolefnisspor frá brennslu í háþróuðum sorpbrennslustöðvum reynist minna en af sorpi sem hlaðið er upp í landfyllingum.
    Sem dæmi má nefna nýja hátæknisorpbrennslustöð á Amager í Kaupmannahöfn, en stöðin tók til starfa um mitt ár 2017. Það ár voru brennd tæplega 242.000 tonn af sorpi í stöðinni. Gert er ráð fyrir að stöðin meðhöndli um 400.000 tonn af úrgangi árlega sem stafi frá um 600.000 íbúum og um 46.000 fyrirtækjum. Úr úrganginum er unnið rafmagn og hiti til um 150.000 heimila. Árið 2018 voru brennd 443.000 tonn af sorpi í stöðinni. Framleiddar voru 1.090.000 megavattstundir af hita en 169.000 megavattstundir af rafmagni. Í brennslunni eru tveir ofnar sem brenna hvor um sig 25–35 tonnum af sorpi á 1,5–2 klukkustundum. Hitinn við brennsluna er yfir 1000°C sem dregur úr mengun, þar sem færri mengandi efni losna við brennsluna. Til marks um hversu mengunarlítil stöðin á Amager er hafa útveggir brennslunnar verið útbúnir sem klifurveggir og af þakinu liggja skíðabrekkur.
    Mikilvægt er að Íslendingar stígi skref í þá átt að endurvinna sem mest af því sorpi sem hér fellur til og eyða því sem eftir stendur með þeim hætti sem frekast er fallinn til að vernda náttúru og umhverfi. Þannig verði stuðlað að verndun náttúrunnar fyrir núlifandi og komandi kynslóðir og sýnt í verki að Íslendingar taki ábyrgð á að farga eigin sorpi með eins lítilli mengun fyrir umhverfið og nokkur kostur er.
    Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu fer nú fram vinna við gerð stefnu í úrgangsmálum en drög að stefnunni voru send á umsagnaraðila í júlí síðastliðnum. Flutningsmenn fagna því að sett verði heildstæð stefna í úrgangsmálum en telja afar brýnt að Alþingi lýsi yfir vilja sínum hvað varðar byggingu hátæknisorpbrennslustöðvar á afgerandi hátt með samþykkt tillögu þessarar.
    Í ljósi alls framangreinds er lagt til að ráðherra verði falið að kanna möguleika þess að reisa hátæknisorpbrennslustöð hér á landi. Slík stöð gæti meðhöndlað brennanlegt sorp frá landinu öllu. Í könnuninni yrði lagt mat á hvaða aðili (ríki, sveitarfélögin eða aðrir aðilar) stæði að byggingu og rekstri slíkrar stöðvar, hversu stór hún þyrfti að vera og hvar hagkvæmt væri að reisa hana, m.a. með hliðsjón af flutningi sorps milli landshluta. Mikilvægt er í upphafi að kanna samstarfsvilja allra sveitarfélaga til verkefnisins, en sveitarfélög ákveða fyrirkomulag söfnunar heimilis- og rekstrarúrgangs og meðhöndlun úrgangsins. Jafnframt þarf að kanna hvaða verð væri unnt að bjóða fyrir förgun úrgangs og hvort og hversu hátt gjald sveitarfélögin væru tilbúin til að greiða. Þannig yrðu kannaðir kostir og gallar við byggingu og rekstur slíkrar stöðvar með tilliti til förgunarkosta sem nú eru nýttir og ráðgert er að nýta. Jafnframt yrði könnuð raforku- og varmaframleiðsla sem slík stöð gæti skilað og selt frá sér. Gert er ráð fyrir að ráðherra kynni Alþingi niðurstöður könnunarinnar fyrir 1. apríl 2020.