Ferill 90. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 90  —  90. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, með síðari breytingum (vatnsorkuver, vindbú).

Flm.: Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. viðauka við lögin:
     a.      Liður 3.22. orðast svo:
A B C
3.22 Vatnsorkuver með uppsett rafafl 200 kW eða meira. X
     b.      Liður 3.24 orðast svo:
A B C
3.24 Stöðvar sem nýta vindafl til raforkuframleiðslu (vindbú) með 2 MW uppsett rafafl eða meira. X

2. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi.

Greinargerð.

    Tvö frumvörp þessa efnis voru lögð fram á 149. löggjafarþingi (869. og 875. mál) en eru nú sameinuð í eitt.
    Í gildandi lögum falla vatnsorkuver með uppsett rafafl 200 kW eða meira og stöðvar sem nýta vindafl til raforkuframleiðslu (vindbú) með uppsett rafafl 2 MW eða meira í flokk B í 1. viðauka. Skv. 1. mgr. 1. viðauka skal meta framkvæmdir sem falla undir B- og C-flokk í hverju tilfelli fyrir sig og af því leiðir að ekki er skylt að framkvæma mat á umhverfisáhrifum við slíkar framkvæmdir.
    Framkvæmdir við gerð og rekstur fallvatnsvirkjana og vindbúa kunna að hafa í för með sér veigamikil áhrif á lífríki og náttúru. Óánægja ríkir með núverandi fyrirkomulag þar sem virkjanir undir 10 MW rafafli hafa hlotið framkvæmdaleyfi án þess að umhverfismat hafi farið fram. Þá geta vindmyllur með 2 MW aflgetu verið töluvert stórar og því verið áberandi í umhverfinu sem eitt og sér getur valdið ýmiss konar röskunum. Því er lagt til að öll vatnsorkuver með uppsett rafafl 200 kW eða meira og stöðvar sem nýta vindafl til raforkuframleiðslu (vindbú) með uppsett rafafl 2 MW eða meira falli undir flokk A í 1. viðauka og framkvæmdaleyfi verði samkvæmt því ávallt háð mati á umhverfisáhrifum.