Ferill 91. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 91  —  91. mál.
Beiðni um skýrslu


frá utanríkisráðherra um kosti og galla aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Frá Ólafi Ísleifssyni, Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, Bergþóri Ólasyni, Birgi Þórarinssyni, Gunnari Braga Sveinssyni, Karli Gauta Hjaltasyni, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, Sigurði Páli Jónssyni og Þorsteini Sæmundssyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að utanríkisráðherra flytji Alþingi skýrslu um kosti og galla aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og þau áhrif sem samningurinn hefur haft hér á landi.

Greinargerð.

    Þessi beiðni um skýrslu var áður flutt á 148. löggjafarþingi (478. mál) og 149. löggjafarþingi (159. mál).
    Utanríkisráðherra skipaði í lok ágúst 2018 starfshóp sem vinna á skýrslu um aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn). Flutningsmenn ítreka að skýrslubeiðnin snýr að kostum og göllum aðildar Íslands að EES-samningnum. Skýrslu samkvæmt beiðni ber að skila til Alþingis, henni skal útbýtt meðal þingmanna og hún tekin til umræðu á Alþingi. Í ljósi þessa er beiðni um skýrslu endurflutt.
    Liðinn er rétt rúmur aldarfjórðungur frá því að EES-samningurinn gekk í gildi á Íslandi, 1. janúar 1994. Samningurinn var undirritaður í Óportó í Portúgal árið 1992 og var lögfestur með lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993.
    Sú ákvörðun að staðfesta EES-samninginn var umdeild á sínum tíma og enn eru skiptar skoðanir um árangur af þátttöku Íslands í EES-samstarfinu. Enginn vafi leikur á að samningurinn markaði þáttaskil, enda er hann viðamesti samningur sem Ísland hefur gert á alþjóðavettvangi og snertir flest svið íslensks samfélags. Þá hefur samningurinn haft djúpstæð áhrif á samfélagsþróun á Íslandi.
    Nú þegar liðinn er aldarfjórðungur frá því að Ísland tók það skref að gerast aðili að EES-samningnum er full ástæða til að meta á hlutlægan hátt kosti og galla samstarfsins á Evrópuvettvangi, ekki síst í ljósi þeirrar reynslu sem Íslendingar hafa öðlast á þessum tíma. Um leið væri skynsamlegt að bregða birtu á þær áskoranir sem blasa við í framhaldinu, ekki síst þau áhrif sem útganga Bretlands úr ESB gæti haft á stöðu EES-samningsins. Bresk stjórnvöld hafa lýst því yfir að Bretland gerist ekki aðili að EES-samningnum. Bretar eru ein helsta viðskiptaþjóð Íslendinga og því mikilvægt að hagsmunir Íslands séu tryggðir við fyrirhugaða útgöngu þeirra úr ESB. Margt er enn óljóst, en þó liggur fyrir að Ísland þarf á næstunni að endurskoða viðskiptatengsl sín við Bretland.
    Árið 2010 ákváðu Norðmenn að nauðsynlegt væri að gera upp tæplega tveggja áratuga reynslu sína af aðild Noregs að samningum við ESB. Þar bar EES-samstarfið hæst. Á vegum norska utanríkisráðuneytisins var skipaður starfshópur valinkunnra sérfræðinga til að vinna úttektina. Í skipunarbréfi hópsins var honum m.a. falið að leggja víðtækt mat á samfélagslegar afleiðingar EES-samningsins, t.d. stjórnmálalegar, efnahagslegar og réttarfarslegar, svo og afleiðingar á sviði auðlindanýtingar. Einnig skyldi skoðuð reynslan af Schengen-samstarfinu, sem og önnur samvinna við ESB.
    Starfshópurinn sendi frá sér viðamikla skýrslu árið 2012 sem bar heitið Utenfor og innenfor: Norges avtaler med EU. Skýrslan var gefin út af norskum stjórnvöldum. Starfshópurinn komst m.a. að þeirri niðurstöðu að enginn milliríkjasamningur sem Noregur hefði gert hefði haft jafndjúpstæð áhrif á norska samfélagsþróun og EES-samningurinn gerði fyrstu tvo áratugina eftir að hann tók gildi. Alvarlegar spurningar vöknuðu um skort á lýðræði og afsal á fullveldi Noregs vegna EES-samningsins og Schengen-samvinnunnar. Í ljós kom að áhrif EES-samningsins höfðu náð til miklu fleiri samfélagsþátta en lagt var upp með árið 1992. Enn virðist ekki sjá fyrir endann á þeirri þróun því nú eru miklar umræður í Noregi um frumvarp norsku ríkisstjórnarinnar um aðild landsins að orkulöggjöf ESB en ákvörðun þess efnis að löggjöfin skuli tekin upp í EES-samninginn hefur þegar verið samþykkt af sameiginlegu EES-nefndinni.
    Lítill vafi er á að frumkvæði Norðmanna og skýrslan sem varð afrakstur þess er merkt framlag til umræðu um þátt Noregs í samstarfi Evrópuríkja. Það stöðumat sem Norðmenn gerðu árin 2010–2012 gagnast þeim ekki síst vel nú þegar ljóst er að stefnir í verulegar áskoranir á þessu sviði með fyrirhugaðri útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
    Það er orðið mjög áríðandi fyrir íslenska hagsmuni að gerð verði svipuð úttekt á afleiðingum og virkni EES-samningsins hér á landi. Það væri við hæfi að gera þessa úttekt í ljósi þess að liðin eru 25 ár frá gildistöku EES-samningsins. Ítarlegt og vandað stöðumat á EES-samningnum yrði auk þess verðugt framlag nú þegar Íslendingar minntust fyrir skömmu 100 ára afmælis fullveldis landsins.