Ferill 109. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 109  —  109. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um að fordæma meðferð bandarískra stjórnvalda á flóttabörnum.


Flm.: Helga Vala Helgadóttir, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Þorsteinn Víglundsson, Hanna Katrín Friðriksson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Jón Steindór Valdimarsson.


    Alþingi ályktar að fordæma ólöglega og ómannúðlega meðferð bandarískra stjórnvalda á flóttabörnum og fjölskyldum þeirra við landamæri Bandaríkjanna og felur ríkisstjórninni að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að sundrun fjölskyldna í leit að alþjóðlegri vernd verði hætt þegar í stað.

Greinargerð.

    Ríkisstjórn Donalds Trump hefur á undanförnum misserum hert mjög stefnu sína gegn fólki á flótta frá Suður- og Mið-Ameríkuríkjum til Bandaríkjanna. Frá júlí 2017 hafa bandarísk stjórnvöld aðskilið börn frá foreldrum sínum og geymt þau í sérstökum flóttamannabúðum fjarri nokkru skyldmenni og jókst þetta töluvert árið 2018. Samkvæmt bandaríska heilbrigðisráðuneytinu (e. Department of Health and Human Services) hafa þúsundir barna verið tekin við landamæri og flutt í sérstakar flóttamannabúðir, ætlaðar börnum og ungmennum, fjarri fjölskyldum þeirra. Þá hefur einnig komið fram að skráningu og utanumhaldi bandarískra stjórnvalda á þeim börnum sem brottnumin hafa verið á landamærunum sé mjög ábótavant og því er það svo að fjöldi barna sem skilin voru frá fjölskyldum sínum er enn óþekktur. Loks er það einnig svo að mörg þeirra þúsunda barna sem tekin hafa verið eru að því er virðist horfin, ferðir þeirra órekjanlegar og hafa bandarísk stjórnvöld engu getað svarað um hvað varð um þau. Fregnir af þessu komust í hámæli árið 2018 og þá brást alþjóðasamfélagið við með skýrum skilaboðum og hvatningu til bandarískra stjórnvalda að hætta með öllu að skilja börn frá foreldrum sínum á landamærum, enda slík stefna óforsvaranleg og brot á þarlendum sem erlendum sáttmálum, sem ætlað er að tryggja að mannréttindi séu ekki brotin.
    Mannréttindasamtök, sem og fulltrúar Sameinuðu þjóðanna, fordæmdu aðgerðir bandarískra stjórnvalda og í kjölfar dómsúrskurðar alríkisundirréttar Kaliforníu frá 26. júní 2018 í máli Ms. L gegn landamæraeftirlitsstofnun Bandaríkjanna (Immigration and Customs Enforcement (ICE)), þar sem kveðið var á um að aðskilnaður barna og foreldra þeirra væri andstæður lögum, gáfu þarlend stjórnvöld út þá yfirlýsingu að aðskilnaði barna og foreldra á flótta yrði hætt. Þess ber að geta að Bandaríkin eru eina ríki Sameinuðu þjóðanna sem ekki hefur fullgilt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem er útbreiddasti mannréttindasamningur heims. Fullgilding hans felur í sér að ríki skuldbinda sig til að tryggja og virða réttindi barna, þar á meðal þann skýlausa rétt þeirra að vera ekki skilin frá fjölskyldum sínum.
    Mannréttindasamtökin Human Rights Watch hafa bent á að þrátt fyrir yfirlýsingu bandarískra stjórnvalda um stöðvun aðskilnaðar barna og foreldra hefur þeim aðgerðum verið fram haldið og ómannúðlegri meðferð á börnum á flótta sömuleiðis. Bandarísk stjórnvöld hafa nýlega tekið upp reglur til verndar flóttafólki (e. Migrant Protection Protocols (MMP)) sem fyrirskipar flóttafólki að snúa frá landamærum Bandaríkjanna og dvelja í mexíkóskum þorpum án nauðsynlegrar verndar og aðbúnaðar. Þá eru ferðaskjöl tekin af þeim þannig að fólk er sent til baka án nokkurra persónulegra gagna sem sanna á þeim deili, sem gerir þeim aftur erfiðara fyrir að sækja um alþjóðlega vernd sem og að hverfa aftur til síns heima. Mexíkósk stjórnvöld gáfu í júní 2019 út þær tölur að rúmlega 15 þúsund manneskjum á flótta frá Hondúras, Guatemala og El Salvador hefði verið snúið við á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna og komið fyrir í mexíkóskum landamæraborgum þar til bandarískum stjórnvöldum hugnast að taka á móti umsóknum þeirra. Þar á meðal eru tæplega 5.000 börn, þungaðar konur og fjöldi annarra einstaklinga í sérlega viðkvæmri stöðu. Hafa mexíkósk stjórnvöld áætlað að fjöldi flóttafólks verði um 60 þúsund fyrir lok ágústmánaðar. Er því ljóst að bandarísk stjórnvöld halda áfram þeirri ómannúðlegu og vanvirðandi meðferð á börnum á flótta sem fordæmd var og nauðsynlegt er að íslensk stjórnvöld sendi þeim skýr skilaboð. Með samþykkt þessarar þingsályktunartillögu tekur Alþingi sömuleiðis undir kröfur mannréttindasamtaka víða um heim, enda lykilatriði að alþjóðlegum skuldbindingum sé fylgt í hvívetna.