Ferill 128. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 128  —  128. mál.
Flutningsmaður.
Tillaga til þingsályktunar


um fullan aðskilnað ríkis og kirkju og nýja heildarlöggjöf um starfsemi trú- og lífsskoðunarfélaga.


Flm.: Jón Steindór Valdimarsson, Hanna Katrín Friðriksson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þorsteinn Víglundsson, Andrés Ingi Jónsson, Björn Leví Gunnarsson, Helga Vala Helgadóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson,
Guðmundur Andri Thorsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Guðjón S. Brjánsson.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og dómsmálaráðherra að leggja fram frumvörp um annars vegar fullan, lagalegan og fjárhagslegan aðskilnað ríkis og kirkju og hins vegar um jafnræði allra trú- og lífsskoðunarfélaga í samskiptum og skilgreindum verkefnum þeirra við og fyrir ríki, sveitarfélög og aðra opinbera aðila. Ráðherrar leggi frumvörpin fram eigi síðar en á vorþingi 2021 og kveði þau á um aðskilnað eigi síðar en við árslok 2034.

Greinargerð.

    Ríki og kirkja eiga sér langa samofna sögu. Kirkjan hefur í senn haft trúarlegt, menningarlegt og samfélagslegt hlutverk. Það ber að virða og viðurkenna. Á síðustu áratugum hafa hins vegar orðið miklar breytingar á viðhorfi til trúar og hlutverki hennar í nútímasamfélagi, ekki síst tengslin við ríkisvaldið og jafnræði milli trúfélaga, lífsskoðunarfélaga og þeirra sem kjósa að standa utan slíkra félaga.
    Skýrsla dómsmálaráðherra til Alþingis um stöðu þjóðkirkjunnar og tengsl hennar við ríkisvaldið umfram önnur trú- og lífsskoðunarfélög var birt 6. september 2019 (þskj. 2075 á 149. löggjafarþingi). Þar kemur fram að íslenska ríkið greiðir þjóðkirkjunni á grundvelli samninga árlegt framlag til viðbótar öðrum tekjustofnum hennar, lögbundnum sem ólögbundnum. Önnur trúfélög og lífsskoðunarfélög njóta ekki sams konar greiðslna og hefur þjóðkirkjan þannig sérstöðu umfram þau.
    Hinn 6. september 2019 var undirritaður viðbótarsamningur íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um endurskoðun á samkomulagi um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar frá 10. janúar 1997 og samningi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um rekstrarkostnað vegna prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnað biskupsstofu, framlag til Kristnisjóðs og sérframlög til þjóðkirkjunnar frá 4. september 1998.
    Á Alþingi hafa verið lagðar fram þónokkrar fyrirspurnir sem varða fjárhagsleg tengsl ríkis og kirkju, ekki síst á hvaða grundvelli kirkjujarðasamkomulagið hvílir, þ.e. hvert raunverulegt verðmæti þeirra jarðeigna var sem lagt var til grundvallar.
    Á Íslandi er trúfrelsi. Hitt blasir við að eitt trúfélag nýtur algerrar sérstöðu. Hin evangelíska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum. Svo segir í 62. gr. stjórnarskrárinnar. Um skipulag, hlutverk og samskipti gilda samningar og venjur. Ekkert annað trú- eða lífskoðunarfélag nýtur sambærilegrar stöðu að nokkru leyti – fjarri því.
    Aðild að þjóðkirkjunni hefur tekið miklum breytingum á síðustu öld og enn meiri það sem af er þessari öld. Fátt bendir til að sú þróun muni breytast á komandi áratugum. Nálægt 100% landsmanna voru skráðir í þjóðkirkjuna á sínum tíma sú staða er nú en gjörbreytt. Samkvæmt gögnum Hagstofunnar voru um 90% landsmanna í þjóðkirkjunni árið 1998 en 65% um næstliðin áramót. Þá hefur fólki innan þjóðkirkjunnar beinlínis fækkað allar götur frá árinu 2010. Árið 1998 voru 244.893 skráðir í þjóðkirkjuna en 232.591 um síðustu áramót. Utan þjóðkirkjunnar voru á sama tíma 124.400 manns.
    Eftir sem áður er þjóðkirkjan stærsta einstaka trúfélagið og ber að því leyti höfuð og herðar yfir önnur trú- og lífsskoðunarfélög. Að sama skapi ætti þjóðkirkjan að vera best í stakk búin til þess að standa á eigin fótum af öllum trú- og lífsskoðunarfélögum. Má ætla að þjóðkirkjan, ekki síður en ríkið, hefði hag af lagalegum og fjárhagslegum aðskilnaði þessara stofnana.
    Í þessari þingsályktunartillögu er mælt fyrir um tvennt.
    Í fyrsta lagi að lagt verði fram lagafrumvarp sem feli í sér fullan aðskilnað ríkis og kirkju að lögum bæði að formi, efni og fjárhag. Í því felst að búa þarf þannig um hnúta að slitin verði öll tengsl sem byggjast á gildandi lögum og sérstökum samningum, þ.m.t. sérákvæði stjórnskipunarlaga um þjóðkirkjuna sem tryggir henni sérstöðu umfram önnur trú- og lífsskoðunarfélög. Skal samið um endanlegt uppgjör allra samninga þannig að því uppgjöri ljúki eigi síðar en árið 2034.
    Í öðru lagi verði lagt fram frumvarp að heildstæðri löggjöf um öll trú- og lífsskoðunarfélög. Þar verði settar almennar reglur um starfsemi þeirra og eftir atvikum hvort ríkið eigi að hafa milligöngu um innheimtu gjalda eins og nú tíðkast eða slík innheimta verði alfarið í höndum félaganna sjálfra án aðkomu ríkisins. Í frumvarpinu verði einnig ákvæði um hvernig skuli staðið að samningum við félögin sé talin þörf á að fela þeim tiltekin samfélagsleg verkefni. Um þau verði þá gerðir sérstakir tímabundnir þjónustusamningar og gætt fulls jafnræðis milli þeirra félaga sem vilja taka að sér slík verkefni og uppfylla almenn skilyrði um faglega getu til þess að sinna þeim. Frumvarp af þessu tagi verði afgreitt á kjörtímabilinu. Í viljayfirlýsingu sem fylgdi viðbótarsamningi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um endurskoðun á samkomulagi um kirkjujarðir er m.a. gert ráð fyrir endurskoðun og brottfalli ýmissa laga sem varða þessi málefni og getur það einmitt nýst vel við að setja heildstæða löggjöf um öll trú- og lífsskoðunarfélög.