Ferill 142. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 142  —  142. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu.

Frá utanríkisráðherra.1. gr.

Heimild til að staðfesta samning Íslands, Liechtensteins, Noregs og Bretlands.

    Heimilt er að staðfesta fyrir Íslands hönd samning um fyrirkomulag milli Íslands, Furstadæmisins Liechtensteins, konungsríkisins Noregs og Hins sameinaða konungsríkis Stóra-Bretlands og Norður-Írlands í kjölfar loka aðildar þess að EES-samningnum og öðrum samningum sem gilda milli Bretlands og EFTA-ríkjanna innan EES í krafti aðildar Bretlands að Evrópusambandinu.

2. gr.

Heimild til að staðfesta samning Íslands, Liechtensteins, Noregs og Bretlands.

    Heimilt er að staðfesta fyrir Íslands hönd samning sem undirritaður var 2. apríl 2019 í London um fyrirkomulag milli Íslands, Furstadæmisins Liechtensteins, konungsríkisins Noregs og Hins sameinaða konungsríkis Stóra-Bretlands og Norður-Írlands um réttindi borgara í kjölfar úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu og lokaaðildar þess að EES-samningnum.

3. gr.

Réttarstaða Bretlands, breskra ríkisborgara og lögaðila á aðlögunartímabili.

    Með aðlögunartímabili samkvæmt lögum þessum er átt við tímabil sem ákvarðað er í samningi Bretlands og Evrópusambandsins, sem gerður er á grundvelli 50. gr. stofnsáttmála Evrópusambandsins, og felur í sér að Bretland skuldbindi sig til þess að framfylgja löggjöf og reglum Evrópusambandsins tímabundið eftir að aðild þess að Evrópusambandinu lýkur. Skal aðlögunartímabilið vara frá því að úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu tekur gildi og til þess tíma sem ákveðinn er í samningnum.
    Á aðlögunartímabilinu skal við framkvæmd ákvæða laga, reglugerða eða annarra stjórnvaldsfyrirmæla, sem fela í sér innleiðingu skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið frá 2. maí 1992, líta á Bretland með sama hætti og önnur aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins. Jafnframt skal við framkvæmd laga, reglugerða eða annarra stjórnvaldsfyrirmæla, sem fela í sér innleiðingu skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist samkvæmt öðrum samningum við Evrópusambandið eða samningum sem bæði Ísland og Evrópusambandið eiga aðild að, líta á Bretland með sama hætti og aðildarríki Evrópusambandsins.
    Breskir ríkisborgarar og lögaðilar skulu meðan aðlögunartímabilið varir njóta sömu réttinda og bera sömu skyldur og ríkisborgarar og lögaðilar frá aðildarríkjum Evrópusambandsins samkvæmt ákvæðum þeirra laga, reglugerða eða stjórnvaldsfyrirmæla sem vísað er til í 2. mgr.

4. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. öðlast 3. gr. gildi því aðeins ef aðlögunartímabil samkvæmt samningi Bretlands og Evrópusambandsins kemur til framkvæmda. Ráðherra skal tilkynna um upphaf og lok aðlögunartímabilsins með auglýsingu í A-deild Stjórnartíðinda.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. öðlast 1.–3. tölul. 5. gr. gildi þegar annar hvor þeirra samninga sem vísað er til í 1. og 2. gr. taka gildi eða þeim er beitt gagnvart Íslandi. Taki samningur sem vísað er til í 1. gr. gildi eða honum er beitt gagnvart Íslandi skulu 1.–3. tölul. 5. gr. koma til framkvæmda þegar aðlögunartímabili er lokið. Taki samningur skv. 2. gr. gildi eða honum er beitt gagnvart Íslandi skulu 1.–3. tölul. 5. gr. koma til framkvæmda þegar sá samningur tekur gildi eða honum er beitt gagnvart Íslandi.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. öðlast 4. og 5. tölul. 5. gr. gildi og kemur til framkvæmda við úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu án samnings á grundvelli 50. gr. stofnsáttmála Evrópusambandsins. Ráðherra skal tilkynna um slíka úrsögn Bretlands með auglýsingu í A-deild Stjórnartíðinda.

5. gr.

Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara, sbr. 3. og 4. mgr. 4. gr., verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um útlendinga, nr. 80/2016, með síðari breytingum: Við lögin bætast átta ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  a.      (III.)
                      Breskur ríkisborgari sem skráð hefur dvöl sína hér á landi í samræmi við 84. gr. skal eiga rétt til dvalar hér á landi skv. 84. gr. eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
                  b.      (IV.)
                      Aðstandandi bresks ríkisborgara skv. 84. gr. skal eiga rétt til dvalar hér á landi skv. 85. og 86. gr. ef:
                      a.      viðkomandi aðstandandi hefur skráð dvöl sína hér á landi skv. 85. eða 86. gr. áður en Bretland gekk úr Evrópusambandinu,
                      b.      viðkomandi telst til aðstandanda skv. 2. mgr. 82. gr. og hefur komið til landsins eftir útgöngudag ef hann hyggst dveljast með breskum ríkisborgara sem hefur rétt til dvalar skv. 84. gr. hér á landi, enda hafi fjölskyldutengsl orðið til fyrir útgöngudag eða
                      c.      viðkomandi er barn bresks ríkisborgara skv. 84. gr., fæðist eftir útgöngudag, fullnægir skilyrðum 2. mgr. 82. gr. og:
                                  1.      báðir foreldrar barnsins hafa rétt til dvalar skv. 84. gr.,
                                  2.      annað foreldri hefur rétt til dvalar skv. 84. gr. og hitt foreldrið er íslenskur ríkisborgari eða
                                  3.      annað foreldri hefur rétt til dvalar skv. 84. gr. og fer eitt með forsjá barnsins eða sameiginlega forsjá yfir barninu í samræmi við landslög.
                  c.      (V.)
                      Breskur ríkisborgari og aðstandendur hans sem skráð hafa dvöl sína skv. 84., 85. og 86. gr. áður en Bretland gekk úr Evrópusambandinu skulu öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi skv. 87. og 88. gr.
                      Réttur bresks ríkisborgara og aðstandenda hans sem öðlast hafa rétt til ótímabundinnar dvalar skv. 87. gr. og 88. gr. fellur niður þegar viðkomandi hefur dvalist utan landsins í fimm ár samfellt.
                  d.      (VI.)
                      Heimilt er að vísa breskum ríkisborgara og aðstandanda hans úr landi skv. 95. gr. vegna háttsemi sem átti sér stað fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
                  e.      (VII.)
                      Brottvísun skv. 2. tölul. 5. gr. felur í sér bann við endurkomu síðar skv. 95. gr. við ákvörðun endurkomubanns.
                  f.      (VIII.)
                      Heimilt er að vísa úr landi skv. 99. gr. breskum ríkisborgara og aðstandendum hans, sem rétt hafa til dvalar hér á landi skv. 84., 85. og 86. gr., fyrir háttsemi sem átti sér stað eftir að Bretland gekk úr Evrópusambandinu hafi viðkomandi verið búsettur hér á landi skemur en í þrjú ár. Slík ákvörðun skal hafa sömu réttaráhrif og brottvísun útlendings sem hefur dvalarleyfi.
                  g.      (IX.)
                      Heimilt er skv. 100. gr. að vísa úr landi breskum ríkisborgara og aðstandendum hans, sem rétt hafa til dvalar hér á landi skv. 84., 85., 86., 87. eða 88. gr., fyrir háttsemi sem átti sér stað eftir að Bretland gekk úr Evrópusambandinu hafi viðkomandi verið búsettur hér á landi lengur en í þrjú ár. Slík ákvörðun skal hafa sömu réttaráhrif og brottvísun útlendings sem hefur ótímabundið dvalarleyfi.
                  h.      (X.)
                      Breskur ríkisborgari sem hefur rétt til dvalar skv. 84. og 87. gr. hefur samkvæmt umsókn rétt til að fá útgefið dvalarskírteini skv. 90. gr.
                      Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um útgáfu dvalarskírteina, þar á meðal um gjald sem heimilt er að taka fyrir útgáfu þeirra og skal við ákvörðun gjalda leggja til grundvallar kostnaði sem almennt hlýst af útgáfu leyfa.
     2.      Lög um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, með síðari breytingum: Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                      Ríkisborgarar Bretlands eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi, enda sé þeim heimilt að dvelja hér á landi á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða III í lögum um útlendinga, nr. 80/2016, með síðari breytingum.
                      Aðstandendur ríkisborgara Bretlands eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi, enda sé þeim heimilt að dvelja hér á landi á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða IV við lög um útlendinga, nr. 80/2016, með síðari breytingum.
     3.      Lög um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018, með síðari breytingum: Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                      Ríkisborgurum Bretlands og aðstandendum þeirra er heimilt að dvelja í allt að þrjá mánuði án skráningar eftir að aðild Bretlands að Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu lauk, enda geti þeir sýnt fram á að þeir hafi annaðhvort komið til landsins fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu eða áður en umbreytingartímabili samkvæmt samningi lauk. Sé sýnt fram á að dvöl sé vegna atvinnuleitar er ríkisborgurum Bretlands og aðstandendum þeirra heimilt að dvelja hér á landi í allt að sex mánuði án skráningar eftir að umbreytingartímabili samkvæmt samningi lýkur, geti þeir sýnt fram á að þeir hafi komið til landsins annaðhvort áður en framangreindu tímabili lauk eða fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
     4.      Lög um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, með síðari breytingum:
                  a.      Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 42. gr. laganna:
                      1.      Í stað orðanna ,,eða seðlabönkum ríkjanna“ í 2. tölul. kemur: seðlabönkum ríkjanna, Englandsbanka eða Lánasýslu Bretlands.
                      2.      Við 3. tölul. bætist: Englandsbanka og Lánasýslu Bretlands.
                  b.      Við 1. mgr. 56. gr., 3. mgr. 88. gr. og 2. tölul. 3. mgr. 115. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama á við um Englandsbanka og Lánasýslu Bretlands.
                  c.      4. mgr. 123. gr. laganna orðast svo:
                      Ákvæði 1. mgr. á ekki við um viðskipti ríkja eða seðlabanka innan Evrópska efnahagssvæðisins eða aðila sem annast viðskipti fyrir þeirra hönd, enda séu viðskiptin liður í stefnu þessara aðila í peningamálum, gengismálum eða lánasýslu. Sama á við um viðskipti Englandsbanka og Lánasýslu Bretlands.
     5.      Lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum: Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, sem orðast svo:
                      Ráðherra er heimilt að veita í reglugerð tímabundna undanþágu til eins árs hið mesta fyrir fjármálafyrirtæki í Bretlandi að sinna starfsemi skv. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. í tengslum við afleiðusamninga sem gerðir voru fyrir 31. október 2019 sé annar aðili samningsins staðsettur í Bretlandi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta var lagt fram á 149. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Það er nú endurflutt með minni háttar breytingum.
    Bresk stjórnvöld tilkynntu formlega 29. mars 2017 um útgöngu sína úr Evrópusambandinu (ESB) í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi 23. júní 2016. Með hliðsjón af framangreindri tilkynningu og í ljósi 50. gr. sáttmálans um Evrópusambandið hefði Bretland áð óbreyttu gengið úr ESB 29. mars 2019. Leiðtogaráð Evrópusambandsins hefur hins vegar tvívegis ákveðið að fresta útgöngu Bretlands, að beiðni breskra stjórnvalda. Í fyrra skipti var útgöngunni frestað til 12. apríl 2019 en í síðara skiptið var ákveðið að fresta útgöngunni til 31. október 2019.
    Frá júní 2017 til nóvember 2018 áttu Bretland og Evrópusambandið í samningaviðræðum um gerð samnings um útgöngu Bretlands. Útgöngusamningurinn hefur hins vegar reynst umdeildur í Bretlandi og í ítrekuðum atkvæðagreiðslum í breska þinginu hefur meiri hluti þingmanna greitt atkvæði gegn samningnum. Af þessum sökum sagði Theresa May af sér embætti forsætisráðherra Bretlands og tók Boris Johnson við embætti forsætisráðherra 24. júlí 2019. Stefna núverandi ríkisstjórnar Bretlands er að Bretlandi yfirgefi Evrópusambandið 31. október nk., með eða án samnings. Hefur breska ríkisstjórnin lýst því yfir að hún kjósi fremur að ganga úr Evrópusambandinu á grundvelli samnings þar sem núverandi útgáfa samningsins sé óásættanleg og hefur hún því krafist endurskoðunar á honum. Óvíst er að Evrópusambandið samþykki kröfur breskra stjórnvalda. Af þeim sökum ríkir því enn veruleg óvissa um með hvaða hætti staðið verður að útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
    Ljóst er að útganga Bretlands úr Evrópusambandinu mun hafa veruleg áhrif hér á landi. Bretland er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið í krafti aðildar sinnar að Evrópusambandinu sem og margvíslegum öðrum alþjóðasamningum sem Ísland hefur annaðhvort gert við ESB eða bæði Ísland og Evrópusambandið eiga aðild að. Af þeim sökum hafa íslensk stjórnvöld lagt á það ríka áherslu allt frá því að niðurstaðan varð ljós í þjóðaratkvæðagreiðslunni 23. júní 2016 að undirbúa vandlega ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og vinna samhliða að því að móta nýja umgjörð um framtíðarsamskipti Íslands við Bretland.
    Ísland hefur í þeim efnum átt í nánum samskiptum við hin EFTA-ríkin innan EES (Noreg og Liechtenstein). Þannig hafa Ísland, Liechtenstein og Noregur lokið við gerð tveggja samninga við Bretland sem með þessu frumvarpi er óskað eftir heimild Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd. Fyrri samningurinn mælir fyrir um ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu en ákvæði þess samnings byggðust á þeirri forsendu að áðurnefndur útgöngusamningur Bretlands og Evrópusambandsins öðlaðist gildi. Viðræðum um gerð þess samnings lauk í nóvember 2018 en þar sem útgöngusamningurinn hefur enn ekki verið undirritaður hefur undirritun þess samnings verið frestað. Rétt er að geta þess að samningur Íslands, Liechtensteins og Noregs við Bretland sem byggist á hinum umdeilda útgöngusamningi Bretlands og Evrópusambandsins varðar ekki þau atriði útgöngusamningsins sem bresk stjórnvöld hafa krafist endurskoðunar á gagnvart Evrópusambandinu. Hinn samningurinn var gerður í kjölfarið til þess að bregðast við þeim möguleika að fyrri samningurinn myndi ekki öðlast gildi (sökum þess að gildistaka hans er háð því að útgöngusamningur ESB og Bretlands taki gildi). Er þeim samningi ætlað að tryggja réttindi ríkisborgara þessara ríkja fari svo að Bretland gangi úr Evrópusambandinu án samnings. Viðræðum um gerð samnings ríkjanna fjögurra lauk í febrúar sl. og var hann undirritaður í London 2. apríl.
    Sú óvissa sem ríkt hefur um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu undanfarna mánuði, einkum hvort útgangan verði á grundvelli samnings milli Bretlands og Evrópusambandsins eða án samnings, hefur mótað verulega undirbúning þessa frumvarps. Mikilvægt er að þegar til þess kemur að Bretland gangi úr Evrópusambandinu geti íslensk stjórnvöld gripið til nauðsynlegra úrræða af þeim sökum, meðal annars til að tryggja réttindi bæði íslenskra og breskra ríkisborgara. Í þessu frumvarpi er því farin sú leið að veita íslenskum stjórnvöldum heimildir til að grípa til nauðsynlegra úrræða, hvort sem fyrirhuguð útganga Bretlands verði á grundvelli áðurnefnds útgöngusamnings eða án samnings. Megintilgangur þessa frumvarps er því að afla heimildar Alþingis til að staðfesta framangreinda samninga, leggja til nauðsynlegar lagabreytingar til framkvæmdar þeim og leggja jafnframt til aðrar nauðsynlegar lagabreytingar vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Þessu frumvarpi er ætlað að leggja til nauðsynlegar breytingar á lögum vegna framkvæmdar samninga milli Íslands, Liechtensteins, Noregs og Bretlands um réttindi borgara í kjölfar úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu og EES-samningnum. Framkvæmd samninganna kallar á breytingar á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, með síðari breytingum, lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, með síðari breytingum, og lögum um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018, með síðari breytingum, og í 1–3. tölul. 5. gr. frumvarps þessa er að finna tillögur að nauðsynlegum lagabreytingum til að framkvæma þessi ákvæði samningsins. Þá er í 4. tölul. 5. gr. að finna tillögur að breytingum á lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, til þess að viðhalda nánar tilgreindum undanþágum Bretlands og stofnunum þess samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Efni þessa frumvarps er í meginatriðum fjórþætt.
     Í fyrsta lagi er með frumvarpi þessu óskað eftir heimild Alþingis til þess að staðfesta samninga sem Ísland, Liechtenstein og Noregur hafa gert við Bretland vegna ráðstafana í tengslum við útgöngu Bretlands úr ESB. Annars vegar er um að ræða samning sem byggir á þeirri forsendu að útganga Bretlands úr ESB byggist á svonefndum útgöngusamningi ESB og Bretlands, hins vegar samning sem kæmi í stað fyrrnefnds samnings komi til þess að útganga Bretlands úr ESB verði án samnings.
     Í öðru lagi er með frumvarpinu lagt til að sett verði lagaákvæði um stöðu Bretlands, breskra ríkisborgara og breskra lögaðila hér á landi meðan á svonefndu aðlögunartímbili stendur, komi til þess að útganga Bretlands verði á grundvelli útgöngusamningsins.
     Í þriðja lagi er með frumvarpinu mælt fyrir um þær lagabreytingar sem nauðsynlegar eru vegna staðfestingar á framangreindum samningum Íslands, Liechtensteins, Noregs og Bretlands.
     Í fjórða lagi er með frumvarpinu mælt fyrir um að viðhalda undanþágum frá tilteknum ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, komi til útgöngu Bretlands úr ESB án samnings.

3.1. Samningar EFTA-ríkjanna innan EES og Bretlands vegna útgöngu Bretlands úr ESB og EES.
    Ísland og Bretland hafa átt í margvíslegum samskiptum um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, bæði tvíhliða og í samstarfi við hin EFTA-ríkin innan EES (Liechtenstein og Noreg). Í júní 2018 hófu EFTA-ríkin innan EES og Bretland viðræður um gerð samnings sín á milli um ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr ESB og EES sem endurspegla myndi þau ákvæði útgöngusamnings Bretlands og Evrópusambandsins sem vörðuðu þessi ríki. Þeim viðræðum lauk í nóvember sl. Í framhaldinu gerðu þessi ríki með sér annan samning sem tekur eingöngu til réttinda borgaranna, kæmi til útgöngu Bretlands úr ESB án samnings.

Samningur Íslands, Liechtensteins, Noregs og Bretlands vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli samnings.
    Við gerð samningsins höfðu samningsaðilar hliðsjón af útgöngusamningi Bretlands og Evrópusambandsins. Markmið samningsgerðarinnar var að tryggja að ríkisborgarar þessara ríkja myndu njóta sömu réttinda og Bretland og Evrópusambandið urðu ásátt um í útgöngusamningnum og að sömu efnislegu reglur skyldu gilda um svonefnd önnur útgöngumál og samið hafði verið um í útgöngusamningnum, að því marki sem ákvæði útgöngusamningsins vörðuðu málefni sem falla undir gildissvið samningsins um Evrópska efnahagssvæðisins eða annarra samninga sem Ísland, Liechtenstein og Noregur hafa gert við ESB eða ESB á einnig aðild að. Á hinn bóginn var ljóst að form, stofnanauppbygging og réttaráhrif þessa samnings yrðu að vera önnur en í útgöngusamningnum. Efni samningsins hefur því tekið mið af framangreindu.
    Samningurinn skiptist í fjóra hluta.
    Í fyrsta hluta hans er að finna sameiginleg ákvæði. Þar er meðal annars að finna ákvæði um að markmið samningsins sé að setja fram fyrirkomulag vegna útgöngu Bretlands úr ESB og samningnum um Evrópska efnahagssvæðið vegna annars vegar réttinda ríkisborgara þessara ríkja og hins vegar annarra atriða sem tengjast útgöngunni. Þá er í 4. gr. samningsins mælt fyrir um hvernig skuli framkvæma og túlka ákvæði samningsins. Samkvæmt ákvæðinu skulu samningsaðilar gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að framfylgja ákvæðum samningsins og til þess að innleiða þau réttindi sem viðurkennd eru í samningnum í löggjöf sína. Þá skulu stjórnvöld og dómstólar samningsaðilanna taka tilhlýðilegt tillit til ákvæða samningsins við beitingu löggjafar sem felur í sér innleiðingu samningsins. Enn fremur skal við túlkun ákvæða II. og III. hluta samningsins gæta samræmis við túlkun samhljóðandi ákvæða útgöngusamnings Bretlands og ESB. Framangreindum ákvæðum er ætlað að tryggja samræmi í framkvæmd og túlkun samningsins þannig að ríkisborgarar EFTA-ríkjanna innan EES sitji við sama borð við framkvæmd og beitingu samningsins og ríkisborgarar aðildarríkja Evrópusambandsins.
    Ákvæði annars hluta samningsins mæla fyrir um réttindi borgaranna. Þessi ákvæði eru efnislega að mestu samhljóða ákvæðum útgöngusamningsins og er þar að finna ákvæði um réttindi ríkisborgara EFTA-ríkjanna innan EES og breskra ríkisborgara, sem og aðstandenda þeirra, til dvalar í gistiríkinu. Í 14. gr. samningsins er mælt fyrir um rétt til ótímabundinnar dvalar en réttinn öðlast þeir sem búsettir hafa verið með löglegum hætti í gistiríkinu í fimm ár samfleytt. Þá mælir 15. gr. samningsins fyrir um að þeir sem hafa dvalið skemur en fimm ár á Íslandi eigi rétt til ótímabundinnar dvalar þegar þeir hafa lokið nauðsynlegum búsetutímabilum skv. 14. gr. Enn fremur er að finna ákvæði um réttindi launafólks og sjálfstætt starfandi einstaklinga og heimild atvinnuríkis til að krefja ríkisborgara EFTA-ríkja innan EES og breska ríkisborgara um skjal sem staðfestir réttindi þeirra sem sækja vinnu yfir landamæri. Einnig eru ákvæði um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi og mælir 26. gr. samningsins fyrir um að viðurkenning skuli halda áhrifum sínum í viðkomandi landi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Samningurinn tekur einnig til samræmingar almannatryggingakerfa. Skulu samningsaðilar miðla upplýsingum um réttindi og skyldur einstaklinga sem heyra undir þennan hluta samningsins, meðal annars með herferðum til vitundarvakningar í fjölmiðlum á landsvísu. Þá mælir 37. gr. samningsins fyrir um að einstaklingar sem heyra undir samninginn njóti réttinda í viðeigandi bálkum ævilangt að því undanskildu að þeir uppfylli ekki lengur skilyrði sem sett eru fram í þeim bálkum.
    Þriðji hluti samningsins ber heitið „Önnur útgönguatriði“. Með hugtakinu „önnur útgönguatriði“ er átt við þau efnisákvæði útgöngusamningsins sem ekki varða réttindi borgaranna. Í samningi Íslands, Liechtensteins, Noregs og Bretlands eru ákvæði um þau önnur útgönguatriði sem falla undir efni þeirra samninga sem þessi ríki hafa gert við Evrópusambandið. Í þeim efnum vega ákvæði EES-samningsins mest en samningurinn tekur einnig til samninga sem þessi ríki hafa gert við ESB og varða samstarf á sviði dóms- og innanríkismála, einkum framkvæmd Schengen-samstarfsins, og öðrum samningum því tengdu. Í þessum kafla er því að finna ákvæði um vörur sem settar hafa verið á markað, hugverkaréttindi, samvinnu á sviði lögreglu- og dómsmála, persónuvernd, opinber innkaup og meðferð dómsmála. Almennt má segja að ákvæði samningsins um framangreind atriði feli í sér nokkurs konar lagaskilareglur, þ.e. að með þessum ákvæðum sé leitast við að setja markalínur um hvenær skuli beita ákvæðum EES-samningsins og annarra samninga við ESB í einstökum tilvikum sem kunna að koma upp við lok aðlögunartímabilsins, t.d. í tengslum við viðskipti með vörur sem settar hafa verið á markað fyrir lok þess tímabils, framkvæmd útboða sem hafa hafist fyrir sömu tímamörk eða beiðnir um réttaraðstoð sem sendar hafa verið fyrir lok þessa tímabils. Rétt er að vekja athygli á því að hugsanlegt er að ekki komi til þess að þessum ákvæðum verði beitt en það ræðst af því hvernig samningum um framtíðarsamskipti þessara ríkja verður háttað.
    Fjórði hluti samningsins mælir fyrir um stofnanafyrirkomulag samningsins. Samkvæmt samningnum skal sérstakri óháðri eftirlitsstofnun sem komið var á fót með útgöngusamningi Bretlands og ESB falið að hafa eftirlit með framkvæmd þeirra ákvæða samningsins sem varða réttindi borgaranna gagnvart breskum stjórnvöldum og geta ríkisborgarar Íslands, Liechtensteins og Noregs leitað til stofnunarinnar telji þeir á rétti sínum brotið í Bretlandi. Enn fremur getur stofnunin að eigin frumkvæði tekið upp framkvæmd samningsins í Bretlandi og höfðað mál gegn breskum stjórnvöldum fyrir þarlendum dómstólum, telji hún að bresk stjórnvöld virði ekki ákvæði samningsins um þetta efni. Þetta atriði er afar mikilvægur þáttur til að tryggja að ríkisborgarar Íslands, Liechtensteins og Noregs standi jafnfætis gagnvart ríkisborgurum aðildarríkja ESB í Bretlandi. Samkvæmt samningnum skal Eftirlitsstofnun EFTA falið að hafa eftirlit með framkvæmd samningsins á Íslandi, í Liechtenstein og Noregi. Með þessari nálgun er í raun verið að viðhalda núverandi fyrirkomulagi með því að viðhalda núverandi hlutverki stofnunarinnar gagnvart þeim bresku borgurum sem féllu áður undir EES-samninginn en munu nú falla undir ákvæði samnings Íslands, Liechtensteins, Noregs og Bretlands. Að öðru leyti er sameiginlegri nefnd samningsaðila falin framkvæmd fyrir hönd samningsaðila og skal sameiginlegu nefndinni meðal annars vera heimilt að taka ákvarðanir um tilteknar breytingar á samningnum og er henni enn fremur falið að leysa úr deilumálum vegna ágreinings samningsaðila um túlkun og framkvæmd samningsins.

Samningur Íslands, Liechtensteins, Noregs og Bretlands vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu án samnings.
    Til þess að bregðast við þeim möguleika að Bretland kynni að hverfa úr Evrópusambandinu án samnings ákváðu fyrrnefnd ríki að gera annan samning, að mestu byggðan á fyrri samningi, sem tæki þó hins vegar eingöngu til réttinda þeirra ríkisborgara þessara ríkja sem nýtt hafa ákvæði EES-samningsins um frjálsa för til að dveljast og/eða stunda atvinnu í annaðhvort Bretlandi eða í EFTA-ríkjunum innan EES. Efni þess samnings er því nokkuð einfaldara en fyrri samningsins.
    Samningurinn skiptist í þrjá hluta.
    Í fyrsta hluta samningsins er að finna sameiginleg ákvæði. Er þar meðal annars mælt fyrir um skyldu samningsaðila til að tryggja að allar nauðsynlegar ráðstafanir séu gerðar til að koma ákvæðum samningsins til framkvæmda og koma þeim réttindum sem viðurkennd eru í samningnum inn í landsrétt sinn með löggjöf. Þá skulu stjórnvöld og dómstólar samningsaðila enn fremur taka tilhlýðilegt tillit til samningsins við túlkun og beitingu löggjafar sem sett hefur verið til framkvæmdar samningnum.
    Ákvæði annars hluta samningsins mæla fyrir um réttindi borgaranna og er þar að finna ákvæði um réttindi ríkisborgara EFTA-ríkjanna innan EES og breskra ríkisborgara, sem og aðstandenda þeirra, til dvalar í gistiríkinu. Í 14. gr. samningsins er mælt fyrir um rétt til ótímabundinnar dvalar en réttinn öðlast þeir sem búsettir hafa verið löglega í gistiríkinu í fimm ár samfleytt. Þá mælir 15. gr. samningsins fyrir um að þeir sem hafa dvalið skemur en fimm ár eigi rétt til ótímabundinnar dvalar þegar þeir hafa lokið nauðsynlegum búsetutímabilum skv. 14. gr. Enn fremur er að finna ákvæði um réttindi launafólks og sjálfstætt starfandi einstaklinga, ákvæði um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. 25. gr. samningsins mælir fyrir um að viðurkenning skuli halda áhrifum sínum í viðkomandi landi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Samningurinn tekur einnig til samræmingar á almannatryggingakerfum ríkjanna. Skulu samningsaðilar miðla upplýsingum um réttindi og skyldur einstaklinga sem heyra undir þennan hluta samningsins, meðal annars með herferðum til vitundarvakningar í fjölmiðlum á landsvísu. Þá mælir 36. gr. samningsins fyrir um að einstaklingar njóti réttinda í viðeigandi bálkum ævilangt nema þeir uppfylli ekki lengur skilyrði sem sett eru fram í þeim bálkum.
    Þriðji hluti samningsins mælir fyrir um stofnanafyrirkomulag samningsins. Samkvæmt þessum hluta skal sameiginlegri nefnd samningsaðila falin framkvæmd samningsins og skal sameiginlegu nefndinni meðal annars vera heimilt að taka ákvarðanir um tilteknar breytingar á samningnum og er henni enn fremur falið að leysa úr deilumálum vegna ágreinings samningsaðila um túlkun og framkvæmd samningsins.

3.2. Aðlögunartímabil.
    Í útgöngusamningi Bretlands og Evrópusambandsins er gert ráð fyrir svonefndu aðlögunartímabili (e. transition period) en samkvæmt því skal Bretland framfylgja öllu regluverki Evrópusambandsins á meðan aðlögunartímabilið varir. Í þessu felst að Bretland hefur í kjölfar úrsagnarinnar í raun sömu stöðu og aðildarríki Evrópusambandsins, ef frá er talin aðkoma að stofnunum Evrópusambandsins (svo sem seta breskra þingmanna á Evrópuþinginu, seta í ráði Evrópusambandsins o.s.frv.). Megintilgangur aðlögunartímabilsins er í raun að veita Bretlandi og Evrópusambandinu svigrúm til þess að semja um framtíðarsamskipti þess, sem og að gera Bretlandi kleift að gera viðskiptasamninga við ríki utan ESB, en viðræður um framangreint geta ekki hafist fyrr en Bretland hefur formlega lokið aðild sinni að Evrópusambandinu.
    Í fyrirliggjandi útgöngusamningi Bretlands og Evrópusambandsins var gert ráð fyrir að aðlögunartímabilið hæfist 29. mars 2019 og að því lyki 31. desember 2020. Í ljósi þess að frestun hefur orðið á útgöngu Bretlands er ljóst að komi til útgöngu á grundvelli samnings 31. október nk. mun aðlögunartímabilið verða nokkuð styttra en ákveðið var í upphafi. Af þeim sökum er ekki útilokað að Bretland og Evrópusambandið muni ákveða að framlengja aðlögunartímabilið frá því sem upphaflega var gert ráð fyrir enda er kveðið á um möguleika á framlengingu í útgöngusamningnum.
    Komi til útgöngu án samnings mun ekki verða um slíkt aðlögunartímabil að ræða.

3.3. Lagabreytingar vegna innleiðingar á samningum Íslands, Liechtensteins, Noregs og Bretlands.
    Til þess að hrinda megi ákvæðum annars framangreindra samninga Íslands, Liechtensteins, Noregs og Bretlands vegna útgöngu Bretlands úr ESB í framkvæmd hér á landi er nauðsynlegt að gera breytingar á lögum um útlendinga, nr. 80/2016. Þær breytingar sem gerðar eru á þeim lögum með frumvarpi þessu lúta að því að tryggja rétt þeirra ríkisborgara Bretlands og aðstandenda þeirra sem hafa skráð dvöl sína í landinu fyrir útgöngudag. Jafnframt er í einhverjum tilvikum tryggður réttur aðstandenda breskra ríkisborgara til að koma til landsins eftir útgöngudag þrátt fyrir að hafa ekki skráð dvöl sína hér á landi fyrir þann tíma. Með frumvarpinu er jafnframt gert ráð fyrir breytingum á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, þannig að þeir ríkisborgarar Bretlands og aðstandendur þeirra sem koma til með að dvelja löglega hér á landi á grundvelli framangreindra breytinga, sem gert er ráð fyrir að verði á lögum um útlendinga, verði jafnframt undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi.

3.4. Breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti.
    Við útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu mun það ekki að óbreyttu viðhalda undanþágum frá tilteknum ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, sem ætlaðar eru aðildarríkjum og stofnunum þeirra. Bretar hafa samið við Evrópusambandið um að fá að viðhalda þessum undanþágum að Evrópurétti að því gefnu að ríki ESB njóti sambærilegra undanþágna í Bretlandi. Í viðræðum EFTA-ríkjanna innan EES við Bretland vegna Brexit hefur komið fram vilji aðila til að koma á sams konar fyrirkomulagi á milli ríkjanna fjögurra. Með frumvarpi þessu er því lagt til að Bretland og tilgreindar stofnanir þess viðhaldi tilgreindum undanþágum sem þær hafa hér á landi samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti. Að sama skapi mun Ísland og tilgreindar stofnanir þess viðhalda sambærilegum undanþágum vegna verðbréfaviðskipta í Bretlandi.

3.5. Breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki.
    Við útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu án samnings munu bresk fjármálafyrirtæki ekki lengur hafa heimild á grundvelli starfsleyfis í Bretlandi til að sinna viðskiptum eða veita þjónustu með fjármálagerninga hér á landi.
    Til þess að tryggja að íslenskum aðilum, sem gert hafa afleiðusamning við gagnaðila í Bretlandi fyrir 31. október 2019, sé mögulegt að fara að ákvæðum reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012 um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, sem tekin var upp í íslenskan rétt með lögum nr. 15/2018 um sama efni, þá er lagt til að ráðherra verði heimilt að kveða á um undanþágu í reglugerð til handa breskum fjármálafyrirtækjum svo að þeim verði heimilt að sinna starfsemi hér á landi án starfsleyfis í tengslum við uppgjör, lokun og tilkynningu slíkra afleiðusamninga í kjölfar útgöngu Bretlands úr ESB án samnings, í tilgreint tímabil sem skal ekki vera lengra en eitt ár.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá. Eins og rakið hefur verið hér að framan felur frumvarpið í sér heimild til staðfestingar og innleiðingar samnings Íslands, Liechtensteins, Noregs og Bretlands, vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og EES, sem undirritaður var í London 2 apríl 2019. Frumvarpið felur ekki í sér árekstra við aðrar alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hefur gengist undir.

5. Samráð.
    Allt frá því að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi 23. júní 2016 lá fyrir hefur utanríkisráðuneytið átt í víðtæku samráði um viðbrögð íslenskra stjórnvalda við útgöngu Bretlands úr ESB. Utanríkisráðherra skipaði meðal annars stýrihóp um Brexit og fimm vinnuhópa með fulltrúum allra ráðuneyta. Vinnuhóparnir hafa átt í umtalsverðu samráði við hagsmunaaðila og í framhaldi af vinnu þeirra var gefin út í nóvember 2017 skýrslan Ísland og Brexit – greining hagsmuna vegna útgöngu Bretlands úr EES. Samráð við hagsmunaaðila hefur haldið áfram í kjölfarið jafnframt því sem utanríkismálanefnd Alþingis hefur reglulega verið upplýst um framvindu viðræðna um útgöngu Bretlands úr ESB og EES. Til að bregðast við þeim möguleika að útganga Bretlands úr ESB kynni að verða án samnings var meðal annars ákveðið í samráði við Liechtenstein og Noreg að hefja viðræður við Bretland um gerð samnings um réttindi borgara í kjölfar úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu og EES-samningnum. Við vinnslu ákvæða um breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti var haft samráð við Fjármálaeftirlitið og Seðlabanka Íslands. Drög að frumvarpinu voru birt í samráðsgátt stjórnvalda 17.–28. apríl 2019. Engar athugasemdir bárust.

6. Mat á áhrifum.
    Staðfesting samnings Íslands, Liechtensteins, Noregs og Bretlands mun tryggja stöðu þeirra íslensku ríkisborgara sem nú dvelja í Bretlandi, t.d. vegna náms eða atvinnu, og heimila þeim áframhaldandi dvöl í Bretlandi. Innleiðing ákvæða þessa samnings hér á landi mun enn fremur tryggja réttindi þeirra bresku ríkisborgara sem dvelja eða hafa dvalið hér á landi. Lögfesting frumvarpsins er því mikilvæg til að tryggja réttindi íslenskra ríkisborgara í Bretland sem og réttindi breskra ríkisborgara hér á landi eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að Alþingi veiti ríkisstjórninni heimild til að staðfesta fyrir Íslands hönd samning Íslands, Liechtensteins, Noregs og Bretlands vegna útgöngu Bretlands úr ESB á grundvelli samnings. Nánar er fjallað um efni samningsins í 3. kafla greinargerðar frumvarpsins.

Um 2. gr.

    Lagt er til að Alþingi veiti ríkisstjórninni heimild til að staðfesta fyrir Íslands hönd samning Íslands, Liechtensteins, Noregs og Bretlands vegna útgöngu Bretlands úr ESB án samnings. Nánar er fjallað um efni samningsins í 3. kafla greinargerðar frumvarpsins.

Um 3. gr.

    Með ákvæðinu er svonefnt aðlögunartímabil samkvæmt útgöngusamningi Bretlands og ESB skilgreint og mælt fyrir um að meðan á því stendur skuli fara með Bretland eins og önnur EES-ríki við framkvæmd laga, reglugerða og annarra stjórnsýslufyrirmæla sem sett hafa verið til innleiðingar EES-reglna. Með sama hætti skal á aðlögunartímabilinu fara með Bretland líkt og aðildarríki ESB við framkvæmd laga, reglugerða og annarra stjórnsýslufyrirmæla sem fela í sér framkvæmd annarra samninga sem Ísland hefur annaðhvort gert við Evrópusambandið eða bæði Ísland og Evrópusambandið eiga aðild að. Helstu samningar Íslands við Evrópusambandið, að undanskildum samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sem fela í sér slíkar skyldur, eru samningar sem gerðir hafa verið í tengslum við Schengen-samstarfið, þ.m.t. samningur sem ráð Evrópusambandsins og Lýðveldið Ísland og Konungsríkið Noregur gerðu með sér um afnám persónueftirlits á sameiginlegum landamærum frá 19. desember 1999 og Lúganósamningurinn um dómsvald og viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum frá 30. október 2007. Þá er 3. mgr. ætlað að taka af öll tvímæli um að við framkvæmd 2. mgr. skuli breskir ríkisborgarar og lögaðilar njóta bæði þeirra réttinda og skyldna sem þeim ber samkvæmt EES-samningnum og öðrum þeim samningum sem vísað er til í 2. mgr. 2. gr. meðan á aðlögunartímabilinu stendur.
    Gert er ráð fyrir því í fyrirliggjandi útgáfu útgöngusamnings Bretlands og Evrópusambandsins að aðlögunartímabilið skuli standa til 31. desember 2020. Vel er hugsanlegt að komi til útgöngu á grundvelli samnings muni aðlögunartímabilið verða framlengt. Í frumvarpinu er því gert ráð fyrir að tímamörk aðlögunartímabilsins skuli fylgja þeim tímamörkum sem Bretland og Evrópusambandið ákveða sín á milli.

Um 4. gr.

    Eins og rakið hefur verið hér að framan ríkir enn óvissa um forsendur útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, þ.m.t. hvort slík útganga verði á grundvelli svonefnds útgöngusamnings Bretlands og Evrópusambandsins. Af þessum sökum ríkir óvissa um hvenær, og raunar hvort, sum ákvæði þessara laga muni taka gildi. Af þeim sökum er lagt til að gildistaka þessara laga verði sem hér segir:
    Ákvæði 1. gr. um staðfestingu samninga vegna útgöngu Bretlands taki gildi strax. Með þessu móti hafa íslensk stjórnvöld heimild til að ganga frá gildistöku hvors samnings um sig þegar ljóst verður hvor þessara samninga verður fyrir valinu.
    Ákvæði 2. gr. um aðlögunartímabilið taka því aðeins gildi að útganga Bretlands byggist annaðhvort á þeim samningi sem Bretland og Evrópusambandið luku við að gera í nóvember 2018, en hefur ekki enn hlotið staðfestingu breska þingsins, eða á grundvelli annars sambærilegs samnings sem hefði að geyma ákvæði um sambærilegt aðlögunartímabil. Í ljósi þess að enn er óljóst hvenær aðlögunartímabilið hefst skal birta auglýsingu í A-deild Stjórnartíðinda þegar það liggur fyrir. Þá kann aðlögunartímabilið sömuleiðis að vara lengur en gert er ráð fyrir í framangreindum samningi Bretlands og Evrópusambandsins og skal því á sama hátt birta auglýsingu um lok þess í A-deild Stjórnartíðinda.
    Ákvæði 1.–3 tölul. 5. gr. um breytingu á öðrum lögum taka gildi um leið og annar hvor þeirra samninga sem vísað er til í 1. gr. taka gildi hvað Ísland varðar eða þeim er beitt hvað Ísland varðar. Seinni kosturinn á eingöngu við ef Ísland hefur formlega staðfest samninginn en Bretland ekki, en bresk og íslensk stjórnvöld hafi eigi að síður ákveðið í sameiningu að beita samningnum til bráðabirgða meðan formlegri staðfestingu samningsins er ólokið af hálfu breskra stjórnvalda.
    Ákvæði 4. og 5. tölul. 5. gr. taka aðeins gildi komi til þess að Bretland gangi úr Evrópusambandinu án samnings.

Um 5. gr.

    Með þessari grein eru lagaðar til breytingar á öðrum lögum samhliða framangreindum nýmælum.
    Í 1. tölul. eru lögð til eftirfarandi ný ákvæði til bráðabirgða í lögum um útlendinga, nr. 80/2016, með síðari breytingum.
     Um a-lið.
    Í ákvæðinu er kveðið á um rétt breskra ríkisborgara sem skráð hafa dvöl sína hér á landi í samræmi við ákvæði XI. kafla laganna til að halda sömu stöðu og ef Bretland hefði ekki gengið úr Evrópusambandinu og njóti því áfram sömu réttinda og ríkisborgarar í aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu.
     Um b-lið.
    Í ákvæðinu er að finna reglur um að aðstandendur breskra ríkisborgara sem skráð hafa dvöl sína hér á landi í samræmi við ákvæði XI. kafla laganna haldi rétti sínum en einnig er fjallað um réttindi aðstandenda breskra ríkisborgara sem ekki eru með skráningu fyrir útgöngudag.
     Um c-lið.
    Í ákvæðinu er fjallað um rétt breskra ríkisborgara og aðstandenda þeirra sem skráð hafa dvöl sína hér á landi í samræmi við ákvæði XI. kafla laganna til þess að öðlast ótímabundinn rétt. Er þetta í samræmi við 14. og 15. gr. samnings EFTA-ríkjanna við Bretland vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Réttur til ótímabundinnar dvalar skal falla niður þegar viðkomandi hefur dvalið utan landsins í lengri tíma en fimm ár samfellt.
     Um d-lið.
    Í greininni er kveðið á um brottvísun breskra ríkisborgara og aðstandenda þeirra úr landi. Ákvæðið á við um þá einstaklinga sem fremja brot fyrir þann tíma þegar Bretland gengur úr Evrópusambandinu og þá gilda ákvæði XI. kafla laganna um brottvísun þeirra. Er þetta í samræmi við 18. gr. samningsins milli EFTA-ríkjanna og Bretlands um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu án samnings.
     Um e-lið.
    Í greininni er kveðið á um að um endurkomubann þeirra sem vísað er úr landi samkvæmt 95. gr. laga um útlendinga, sbr. einnig 2. tölul. 5. gr. frumvarpsins, fari eftir 96. gr. laganna. Er það í samræmi við 18. gr. samningsins milli EFTA-ríkjanna og Bretlands
     Um f- og g-lið.
    Í ákvæðunum eru reglur um brottvísun ríkisborgara Bretlands og aðstandenda vegna háttsemi sem á sér stað eftir að Bretlands gengur úr Evrópusambandinu. Samkvæmt 18. gr. samningsins skulu þá gilda reglur landsréttar. Gilda reglur XII. kafla laganna um slíka einstaklinga. Um þá sem eru með dvalarleyfi hér á landi fer um brottvísun eftir 99. gr. laganna en um þá sem eru með ótímabundið dvalarleyfi fer eftir 100. gr. laganna. Lágmarkstími til þess að öðlast ótímabundið dvalarleyfi skv. 58. gr. laganna er þrjú ár og er miðað við það tímamark þannig að um þá ríkisborgara Bretlands og aðstandendur þeirra, sem rétt hafa skv. XI. kafla laganna til dvalar en hafa verið hér í þrjú ár, gildi ákvæði 100. gr. laganna en um þá sem hafa verið skemur en þrjú ár gildi 99. gr. Um þá sem eru komnir með rétt til ótímabundinnar dvalar fer einnig eftir 100. gr. Um málsmeðferð og ákvarðanatöku í þessum málum gilda reglur XII. kafla laganna um brottvísun sem og önnur ákvæði laganna er lúta að brottvísunum, t.d. 11., 12. og 13. gr. um leiðbeiningarskyldu, andmælarétt og réttaraðstoð.
     Um h-lið.
    Ríkisborgarar Bretlands sem rétt eiga til dvalar í samræmi við 84. og 87. gr. laga þessara skulu fá útgefin dvalarskírteini í samræmi við 90. gr. laga þessara.
    Í 2. tölul. 5. gr. er fjallað um breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, með síðari breytingum. Í 1. mgr. 22. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, eru taldir upp þeir aðilar sem eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi samkvæmt lögunum. Hér er lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið verði á um að þeir ríkisborgarar Bretlands og aðstandendur þeirra sem dvelja löglega hér á landi, á grundvelli ákvæða til bráðabirgða III og IV, sem lagt er til að bætist við lög um útlendinga með frumvarpi þessu, verði á sama hátt undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi hér á landi eftir að Bretland hefur gengið úr Evrópusambandinu. Er þetta lagt til í ljósi samnings milli Íslands, Liechtensteins, Noregs og Bretlands um réttindi borgara í kjölfar úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu og EES-samningnum.
    Í 3. tölul. 5. gr. er fjallað um breytingar á lögum um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018, með síðari breytingum. Lagt er til að ríkisborgarar Bretlands fái sama rétt og ríkisborgarar í aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu til að dvelja hér án skráningar skv. 3. mgr. 14. gr. laga um lögheimili og aðsetur. Um er að ræða ákvæði sem ætlað er að skýra réttarstöðu þessara einstaklinga og veita þeim ákveðið svigrúm til að aðlaga sig að nýjum veruleika eftir að Bretland hefur sagt skilið við Evrópusambandið. Ef gert verður ráð fyrir umbreytingartímabili eftir útgöngu er jafnframt gert ráð fyrir því að einstaklingur sem kemur til landsins á umbreytingartímabilinu geti verið hér án skráningar í tiltekinn tíma, óháð því hvort umbreytingartíminn rennur út á meðan. Ef enginn umbreytingartími er skilgreindur eftir að Bretland gengur úr Evrópusambandinu og einstaklingur kemur til landsins fyrir þann tíma mun hann njóta sömu stöðu í tiltekinn tíma, óháð því hvort Bretland hafi gengið úr Evrópusambandinu innan tímabilsins sem hann á rétt á að dveljast hér á landi án skráningar. Gert er ráð fyrir að einstaklingar þurfi að sýna fram á að hafa komið hingað til lands á tilteknum degi, t.d. með flugfarseðli.
    Í 4. tölul. 5. gr. eru lagðar til breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, sem er ætlað að tryggja að Englandsbanki og Lánasýsla Bretlands viðhaldi að mestu leyti sömu réttarstöðu hér á landi vegna verðbréfaviðskipta í kjölfar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Með breytingunum njóta fyrrgreindir aðilar áfram undanþágu með sama hætti og seðlabankar og lánasýslur EFTA-ríkjanna innan EES gera innan EES-svæðisins frá tilteknum ákvæðum tilskipunar 2003/6/EB um innherjaviðskipti og markaðsmisnotkun (MAD I-tilskipunin) og tilskipun 2004/39/EB um markaði fyrir fjármálagerninga (MiFID I-tilskipunin).
    Í 1.–2. tölul. a-liðar og b-lið 4. tölul. 5. gr. er lögð til breyting á 42., 56., 88. og 115. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, á þann veg að Englandsbanka og Lánasýslu Bretlands er bætt við upptalningu á aðilum sem undanþegnir eru ákvæðum laganna um gagnsæi, flöggun og verðmyndun á markaði.
    Í c-lið 4. tölul. 5. gr. eru lagðar til tvenns konar breytingar á 123. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, sem fjallar um innherjasvik, til samræmis við 7. gr. MAD I-tilskipunarinnar. Nú eru aðeins viðskipti íslenska ríkisins, Seðlabanka Íslands eða aðila sem annast viðskipti fyrir þeirra hönd undanþegin ákvæði 1. mgr. 123. gr. laga um verðbréfaviðskipti, um innherjasvik, enda séu viðskiptin liður í stefnu ríkisins í peningamálum, gengismálum eða lánasýslu. Ákvæði 7. gr. tilskipunarinnar gerir ráð fyrir því að undanþegin séu viðskipti ríkja eða seðlabanka innan Evrópska efnahagssvæðisins, að uppfylltum fyrrgreindum skilyrðum um að þau séu liður í stefnu ríkisins í peningamálum o.s.frv. Er því lagt til í c-lið 4. tölul. 5. gr. að orðalagi 4. mgr. 123. gr. laga um verðbréfaviðskipti verði breytt til samræmis við 7. gr. tilskipunarinnar. Jafnframt er lagt til að við 4. mgr. bætist nýr málsliður þess efnis að undanþágan eigi einnig við um viðskipti Englandsbanka og Lánasýslu Bretlands.Fylgiskjal I.


Samningur um fyrirkomulag milli Íslands, Furstadæmisins Liechtensteins, Konungsríkisins Noregs og Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands í kjölfar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og úrsagnar þess úr EES-samningnum og öðrum samningum sem gilda milli Bretlands og EFTA-ríkjanna innan EES í krafti aðildar Bretlands að Evrópusambandinu.

www.althingi.is/altext/pdf/150/fylgiskjol/s0142-f_I.pdf


Fylgiskjal II.


Samningur um fyrirkomulag milli Íslands, Furstadæmisins Liechtensteins, Konungsríkisins Noregs og Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands um réttindi borgara í kjölfar úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu og EES-samningnum.

www.althingi.is/altext/pdf/150/fylgiskjol/s0142-f_II.pdf