Ferill 157. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 157  —  157. mál.
Fyrirspurn


til fjármála- og efnahagsráðherra um kostnaðarþátttöku ríkisins í dreifingu eldsneytis og uppbyggingu hleðslustöðvanets.

Frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur.


     1.      Hver hefur árlegur kostnaður ríkissjóðs verið sl. 4 ár við að jafna eldsneytiskostnað á landinu?
     2.      Falla smurolíur og aðrar rekstrarvörur bifreiða og atvinnutækja undir stuðning ríkissjóðs við flutningsjöfnun eldsneytiskostnaðar?
     3.      Í hvaða formi öðru er eða hefur stuðningurinn verið fólginn, t.d. með greiðslufresti aðflutningsgjalda?
     4.      Tekur ríkissjóður þátt í að jafna orkukostnað á rafhleðslustöðvum fyrir rafbíla um landið og þá með hvaða hætti?
     5.      Hver hefur árlegur kostnaður ríkissjóðs við uppbyggingu hleðslustöðva fyrir rafbíla verið, annars vegar í dreifbýli og hins vegar í þéttbýli? Hvað má gera ráð fyrir að ógreiddar skuldbindingar ríkissjóðs vegna hans nemi háum fjárhæðum?
     6.      Hefur ríkissjóður tekið þátt í kostnaði við uppbyggingu bensínstöðva um landið og birgðastöðva fyrir eldsneyti eða tók ríkissjóður á árum áður þátt í slíkum kostnaði þegar heildsölu- og smásölukerfi jarðefnaeldsneytis var byggt upp? Ef svo er, er óskað eftir stuttri lýsingu á því í hverju stuðningurinn var fólginn og mati á því hvert verðmæti stuðningsins var uppfært til núverandi verðlags.
     7.      Hefur ríkissjóður tekið þátt í sambærilegum niðurgreiðslum vegna annarra orkugjafa fyrir bifreiðar, t.d. metans og vetnis?
     8.      Undir hvaða skuldbindingar gangast móttakendur umræddra styrkja, t.d. vegna hugsanlegs söluhagnaðar af ívilnunum og sölu lóða eða staðsetningar undir hleðslustöðvar?
     9.      Hvaða kröfur gerir ríkissjóður til hagkvæmni við flutning á niðurgreiddu eldsneyti? Er á einhvern hátt fylgst með því að flutningurinn sé rekinn á hagkvæman hátt og ef svo er, hvernig er eftirlitinu háttað?


Skriflegt svar óskast.