Ferill 164. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 164  —  164. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um skipulagt hjartaeftirlit ungs fólks.


Flm.: Andrés Ingi Jónsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að koma upp skipulögðu hjartaeftirliti með ungu fólki. Fyrirkomulag eftirlitsins verði þannig að ef fólk fær hjartaáfall ungt verði nánustu ættingjar þeirra einstaklinga boðaðir í skoðun til að greina hvort þeir séu í áhættuhópi fyrir arfgenga hjartasjúkdóma.

Greinargerð.

    Síðustu áratugi hefur dregið mjög úr tíðni dauðsfalla af völdum hjartasjúkdóma. Spilar þar margt inn í, ekki síst auknar áherslur á lífsstílsbreytingar, almennar forvarnir og fræðslu um viðbrögð við hjartaáfalli. Alltaf verður þó einhver hluti hjartasjúkdóma sem kalla á sértækar fyrirbyggjandi forvarnir, sérstaklega þar sem um er að ræða arfgenga sjúkdóma.
    Tillaga þessi er lögð fram með það að leiðarljósi að ná til þess hóps sem glímir við arfgenga hjartasjúkdóma áður en til hjartaáfalls kemur og fækka þannig þeim einstaklingum sem fá hjartaáfall ungir. Með þessu má koma í veg fyrir heilsufarslegan og efnahagslegan skaða sem hlýst af slíku áfalli en oft má fyrirbyggja hjartaáföll meðal ungs fólks með lífsstílsbreytingum eða einfaldri lyfjameðferð.
    Undanfarinn áratug hafa að meðaltali 40 einstaklingar á ári fengið sitt fyrsta hjartaáfall fyrir fimmtíu ára aldur, þar af hafa um sjö á ári verið undir fertugu. Um fimmtungur þessa hóps eru konur, en fjórir fimmtu hlutar karlar. Þegar yngra fólk fær hjartaáfall eru orsakir þess oftast aðrar en hjá þeim sem eldri eru. Hjartaáföll hjá yngri einstaklingum má oftast rekja til arfgengra sjúkdóma, þar sem arfgeng blóðfituhækkun er algengust. Slíka hækkun er auðvelt að greina og meðhöndla.
    Í Bretlandi hefur um nokkurt skeið tíðkast að boða ættingja fólks sem hefur fengið hjartaáfall fyrir 35 ára aldur í skimun. Heilbrigðisyfirvöld þar í landi eru nú með til skoðunar hvort sé líklegt til árangurs að taka upp almenna skimun fyrir hjartasjúkdómum, en til þessa hefur fyrrnefnda aðferðin, sem jafnframt er sú sem hér er lögð til, verið talin nægjanlega árangursrík. Verði tillagan samþykkt fellur það í hlut heilbrigðisráðuneytisins að meta hvaða viðmið eigi að hafa, bæði varðandi það hvaða aldur er miðað við og hvað flokkist undan nánust ættingja.
    Gera má ráð fyrir að nokkur hluti ungs fólks láti að eigin frumkvæði greina hvort hann sé í áhættuhópi fyrir hjartasjúkdóma við hjartaáfall ættingja. Þessari tillögu er ætlað að ná til þeirra sem ekki átta sig sjálfir á þeim möguleika eða mikilvægi hjartaeftirlits. Við útfærslu boðunarkerfisins er mikilvægt að gæta persónuverndar og eftir atvikum trúnaðar, hvort tveggja við einstaklinginn sem fékk hjartaáfall og þá sem fá boðun, og að ekki sé þrýst á fólk að koma í skoðun.


Fylgiskjal.


Hjartavernd:

Hjartaáfallaskrá.

    Í eftirfarandi töflum eru upplýsingar um aldur fólks við fyrsta hjartaáfall (MI, myocardial infarction), eins og þær eru skráðar í hjartaáfallaskrá sem Hjartavernd heldur utan um. Hér eru birtar upplýsingar um síðustu tíu ár sem færð hafa verið inn í skrána.

Aldur við fyrsta hjartaáfall – karlar.
Ár <40 40–44 45–49 50–54 55–59 60–64 65–69 70–74
2005 5 7 14 23 32 43 27 46
2006 7 7 19 28 36 28 28 42
2007 8 9 26 39 26 32 29 33
2008 3 9 29 29 33 43 35 31
2009 2 9 21 25 29 47 28 30
2010 4 4 19 21 41 38 31 34
2011 7 11 20 30 30 29 27 25
2012 4 5 12 34 35 51 47 25
2013 6 6 18 36 32 36 36 28
2014 5 6 18 27 48 36 29 36
Meðaltal 5,1 7,3 19,6 29,2 34,2 38,3 31,7 33,0

Aldur við fyrsta hjartaáfall – konur.
Ár <40 40–44 45–49 50–54 55–59 60–64 65–69 70–74
2005 0 0 3 4 10 10 5 17
2006 1 1 3 4 6 13 16 23
2007 2 1 7 2 5 13 9 13
2008 0 3 2 2 6 9 11 12
2009 1 5 3 3 9 16 15 15
2010 0 1 3 3 4 7 8 15
2011 3 2 1 4 5 12 8 14
2012 1 0 8 5 12 20 10 16
2013 3 4 5 8 2 10 11 10
2014 3 2 1 5 6 5 21 17
Meðaltal 1,4 1,9 3,6 4,0 6,5 11,5 11,4 15,2