Ferill 165. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 165  —  165. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um markvissa fræðslu um kynjafræði, kynfrelsi, sjálfsákvörðunarrétt og þýðingu samþykkis í kynferðislegum samskiptum.


Flm.: Jón Steindór Valdimarsson, Hanna Katrín Friðriksson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þorsteinn Víglundsson.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra, í samráði við ráðherra viðkomandi málaflokka, að skipuleggja og hefja viðvarandi fræðslu, eigi síðar en árið 2020, um kynjafræði, kynfrelsi, sjálfsákvörðunarrétt og þýðingu samþykkis í kynferðislegum samskiptum og verja til þess nauðsynlegum fjármunum en fyrstu þrjú árin verði að minnsta kosti 150 millj. kr. varið til eftirfarandi verkefna sem verði á ábyrgð forsætisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og dómsmálaráðherra.

     1.      Menntakerfið – öll skólastig:
                  a.      Gerð kennslu- og námsefnis.
                  b.      Kennsla og námskeið.
                  c.      Fundir og ráðstefnur.
                  d.      Gerð kynningarefnis fyrir nemendur og kennara.
    Fjárveiting verði að minnsta kosti 60 millj. kr.

     2.      Miðlun og herferðir frjálsra félagasamtaka, fjölmiðla og stofnana sem beint er að skilgreindum markhópum:
                  a.      Gerð kynningar- og fræðsluefnis.
                  b.      Fræðslu- og kynningarherferðir.
    Fjárveiting verði að minnsta kosti 60 millj. kr.

     3.      Réttarvörslukerfið:
                  a.      Endur- og símenntun.
                  b.      Gerð kennsluefnis.
                  c.      Gerð námsefnis.
                  d.      Námskeið innan réttarvörslukerfisins, svo sem hjá lögreglu, ákæruvaldi og dómstólum.
    Fjárveiting verði að minnsta kosti 30 millj. kr.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður flutt á 149. löggjafarþingi (533. mál) og er nú endurflutt með viðbótarröksemdum í greinargerð.
    Kynferðislegt ofbeldi og áreitni ásamt kynbundnu ofbeldi hefur á síðustu misserum komist í hámæli og verður sífellt ljósara að um djúpstætt og víðfeðmt þjóðfélagsmein er að ræða.
    Hinn 23. mars 2018 voru samþykktar breytingar á almennum hegningarlögum og nauðgunarhugtakið skilgreint út frá skorti á samþykki. Með breytingunni var stigið mikilvægt skref til að veita kynfrelsi og sjálfsákvörðunarrétti einstaklinga aukna réttarvernd. Hefur í daglegu tali verið talað um samþykkisreglu eða samþykkisfrumvarp, þ.e. að samræði eða önnur kynferðismök geti varðað refsingu ef skýrt samþykki til þátttöku í kynferðislegri athöfn liggur ekki fyrir.
    Benda má á að á síðustu árum hefur gríðarleg útbreiðsla samfélagsmiðla og notkun þeirra breytt samskiptamynstri og möguleikum til dreifingar alls kyns persónulegs efnis af kynferðislegum toga í annarlegum tilgangi.
         Kynbundið og kynferðislegt ofbeldi á sér margar orsakir. Ein af þeim er mismunandi staða kynjanna þegar horft er til þátta eins og valdastöðu, ábyrgðar á heimili, uppeldis barna, launa, þátttöku í atvinnulífi, hlutgervingar kvenna og klámvæðingar.
    Í ljósi þess hve margslunginn vandinn og úrlausnarefnin eru er nauðsynlegt að nálgast úrbætur með víðtækum hætti, m.a. með hliðsjón af alþjóðlegum skuldbindingum og samningum sem Ísland á aðild að.
    Alþingi samþykkti í júní sl. þingsályktun um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Þar eru sett fram skýr markmið og fellur þingsályktunartillaga þessi vel að þeim en hnykkir sérstaklega á nokkrum þáttum og gerir ráð fyrir auknum fjármunum til þeirra. Í nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar um þingsályktunartillöguna segir m.a.: „Nefndin leggur áherslu á mikilvægi þess að bregðast við umfangi áreitninnar og ofbeldisins sem var afhjúpað í #MeToo-hreyfingunni, ekki síst á vinnumarkaðnum, og áréttar um leið að um er að ræða umfangsmikið verkefni, sem þarf m.a. að fela í sér markvissa fræðslu um kynjafræði, kynfrelsi, sjálfsákvörðunarrétt og þýðingu samþykkis í kynferðislegum samskiptum.“
    Með tillögu þessari er áréttað mikilvægi þess að tekin verði upp markviss fræðsla um kynjafræði, kynfrelsi, sjálfsákvörðunarrétt og þýðingu samþykkis í kynferðislegum samskiptum. Miðar tillagan að því að slík fræðsla nái til sem flestra þátta samfélagsins. Ályktunin er því í fullu samræmi við þingsályktunartillögu og ábendingar allsherjar- og menntamálanefndar um mikilvægi þeirra efnisþátta sem hún tekur til. Tillagan felur m.a. í sér að fyrstu þrjú árin verði tryggðar a.m.k. 150 millj. kr. til fræðslunnar og áhersla lögð á gerð efnis og miðlunar þess. Sjónum verði beint að öllum skólastigum og öllum stofnunum réttarvörslukerfisins. Þá verði sérstök áhersla lögð á að styrkja frjáls félagasamtök, fjölmiðla og stofnanir til miðlunar fræðslu og sérstakra herferða sem beint verði að skilgreindum markhópum samfélagsins enda mikilvægt að styðja við þá sem leggja þessum málefnum lið með mikilvægu starfi og sérþekkingu. Mikilvægt er að gæta að opnu ferli við úthlutun styrkja jafnframt því að gera kröfur til gæða þeirra verkefna sem verða styrkt.

Mikilvægi fræðslu og forvarna.
    Þekking á eðli og afleiðingum kynferðisbrota hefur aukist til muna á undanförnum árum og áratugum. Vegna þessa hefur réttarstaða þolanda styrkst, t.d. með réttargæslumönnum, tilkomu neyðarmóttöku og nútímalegri sakamálarannsóknum. Einnig er talið mikilvægt að skilningur almennings á afbrotinu nauðgun og skilgreining löggjafans haldist í hendur, þ.e. að lögin séu í samhengi við samfélagið sem þau gilda um. Á undanförnum árum hefur umræða um kynbundið ofbeldi farið vaxandi og mikill fjöldi kvenna og stúlkna stigið fram, m.a. á vettvangi samfélagsmiðla, og greint frá reynslu af kynferðisofbeldi og þannig lagt áherslu á að ekki verði þagað um tilvist slíks ofbeldis.
    Í samfélagslegri umræðu hafa þolendur kynferðisofbeldis lagt áherslu á að ábyrgð kynferðisbrota færist frá þolendum til gerenda. Þetta er t.d. eitt af markmiðum Druslugöngunnar sem er gengin til að sýna samstöðu og uppræta fordóma gegn þolendum kynferðisofbeldis. Fyrsta Druslugangan á Íslandi fór fram árið 2011.
    Í umræðu um kynbundið ofbeldi og í forvarnastarfi vegna þess hefur jafnframt verið lögð áhersla á að auka skilning ungs fólks á mörkunum milli kynlífs og ofbeldis og lögð hefur verið áhersla á að færa ábyrgð frá þolanda til geranda, t.d. með stuttmyndinni „Fáðu já!“. Þá hafa dómar í kynferðisbrotamálum og frásagnir af meðferð nauðgunarmála innan réttarvörslukerfisins vakið viðbrögð og mótmæli í samfélaginu.
    Stígamót, grasrótarsamtök sem berjast gegn kynferðisofbeldi og veita þolendum aðstoð, skilgreina nauðgun sem kynferðislegt ofbeldi þar sem einhver þrengir sér eða gerir tilraun til að þrengja sér inn í líkama annarrar manneskju gegn vilja hennar og brýtur þar með sjálfsákvörðunarrétt og sjálfsstjórn hennar á bak aftur. Af umræðu um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins og um niðurstöður í einstökum dómsmálum má sjá að í auknum mæli er kallað eftir því að lögð verði meiri áhersla en áður á skort á samþykki við skilgreiningu nauðgunarbrots.

Istanbúlsamningurinn.
    Ísland fullgilti samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi, einnig nefndur Istanbúlsamningurinn, í apríl 2018. Samningurinn kveður á um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi. Í III. kafla samningsins er fjallað almennt um forvarnir og þar er í 13. gr. skýrt kveðið á um að samningsaðilar skuli reglulega á öllum stigum stuðla að eða standa að átaksverkefnum eða áætlunum til vitundarvakningar, m.a. í samvinnu við innlend mannréttindasamtök og jafnréttisaðila, almenning, frjáls félagasamtök og einkum samtök kvenna þegar það á við, í því skyni að auka vitund og skilning almennings um mismunandi birtingarmyndir ofbeldis sem falla undir gildissvið samningsins, afleiðingar þess fyrir börn og mikilvægi þess að koma í veg fyrir slíkt ofbeldi. Jafnframt er kveðið á um að samningsaðilar eigi að tryggja víðtæka miðlun upplýsinga til almennings um tiltækar aðgerðir til að koma í veg fyrir ofbeldi sem fellur undir gildissvið samningsins.
    Í 14. gr. samningsins segir: „Þar sem það á við skulu samningsaðilar stíga nauðsynleg skref til að hafa kennsluefni á boðstólum í formlegum námskrám á öllum stigum skólakerfisins, sniðið að vaxandi skilningi nemenda, svo sem um jafnrétti kvenna og karla, kynhlutverk sem víkja frá staðalímynd um kyngervingu, gagnkvæma virðingu, friðsamlega lausn deilumála í samskiptum manna á milli, kynbundið ofbeldi gegn konum og friðhelgi einstaklinga.
    Samningsaðilar skulu stíga nauðsynleg skref til að koma þeim meginreglum sem vísað er til í 1. mgr. á framfæri við fjölmiðla, aðila sem stunda fræðslustarf utan hins hefðbundna menntakerfis og þá sem bjóða upp á íþróttaaðstöðu, menningarþjónustu og tómstundaaðstöðu.“

Aðrar alþjóðlegar skuldbindingar.
    Ísland hefur fullgilt fleiri alþjóðasamninga sem varða vernd gegn kynferðisbrotum og meðferð þeirra. Auk þess hafa eftirlitsnefndir samninganna m.a. gert athugasemdir við meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins. Slíkir samningar geta haft áhrif á þróun refsiréttar. Nefna má samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum frá 1979 og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá 1989.
    Í skýrslu nefndar um afnám allrar mismununar gagnvart konum frá því í mars 2016, þar sem gerð er úttekt á Íslandi, er fjallað um ofbeldi gegn konum hér á landi. Nefndin hvetur íslenska ríkið m.a. til þess að leggja áherslu á að ákæra og saksækja gerendur í nauðgunar- og kynferðisbrotamálum auk þess að greina og bregðast við háu hlutfalli sýknudóma í slíkum málum.
    Kynferðisbrot og vernd gegn þeim hefur einnig verið til umræðu á vettvangi Evrópuráðsins. Þar ber helst að nefna mannréttindasáttmála Evrópu og Mannréttindadómstól Evrópu. Í dómi Mannréttindadómstólsins frá 4. desember 2003 í máli M.C. gegn Búlgaríu var talið að búlgarska ríkið hefði brotið gegn jákvæðum skyldum sínum skv. 3. gr. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu með því að tryggja ekki að landslög í Búlgaríu og framkvæmd þeirra veittu næga vernd gegn nauðgunum og kynferðislegri misnotkun.

Erlendar fyrirmyndir.
    Til er fjöldi fordæma um að ríki hafi komið beint að forvarnarvinnu með það að markmiði að fyrirbyggja ofbeldi. Nærtækast er að líta til Svíþjóðar en sænsk yfirvöld hófu í febrúar 2018 fræðsluverkefni sem beint er að ungu fólki og fullorðnum sem starfa með ungu fólki. Sænska ríkisstjórnin veitti 10 milljónum sænskra króna til verkefnisins. Í heild hefur sænska ríkið varið 25 milljónum sænskra króna í forvarnir gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Auk þess hafa Svíar varið 50 milljónum sænskra króna í menntamálastofnunina þar ytra (Skolverket) til þess að koma til móts við kynfræðslu og forvarnarvinnu í skólum. Að auki hefur sænska ríkið veitt 25 milljónum sænskra króna til heilbrigðiskerfisins í því skyni að styrkja félagskerfið þegar kemur að heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi.
    Flutningsmenn telja tímabært að leggja af stað í varanlega vegferð þar sem fjármagn er tryggt til að allir fái viðeigandi fræðslu um ofbeldi, samskipti, kynfræðslu og gildandi lög og reglur, svo sem ákvæði almennra hegningarlaga og reglur um málsmeðferð og réttindi brotaþola. Það hafa verið gerð ótalmörg tímabundin átök í gegnum tíðina sem hafa skilað miklum árangri. Þegar kemur að forvörnum og fræðslu um þennan málaflokk duga ekki tímabundin átök heldur þarf ríkið og fjárveitingavaldið að tryggja að fræðslan sé viðvarandi og nái til allra skólastiga og skili þannig tilætluðum árangri til lengri tíma. Þetta er í samræmi við þær alþjóðlegu lágmarksskuldbindingar sem íslenska ríkið hefur gengist undir og er kominn tími til að þær verði teknar alvarlega.