Ferill 169. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 169  —  169. mál.




Fyrirspurn


til ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um raforkuöryggi á Vestfjarðakjálkanum.

Frá Guðmundi Andra Thorssyni.


     1.      Hver hefur verið árlegur fjöldi truflanatilvika og straumleysismínútna í Árneshreppi síðastliðin fjögur ár? Telur ráðherra að tenging fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar við flutningsnetið hafi áhrif á raforkuöryggi í Árneshreppi?
     2.      Eru framkvæmdir fyrirhugaðar til að stækka Mjólkárvirkjun? Mundu slíkar framkvæmdir bæta raforkuöryggi á norðanverðum Vestfjarðakjálkanum?
     3.      Er ráðherra sammála áherslum í nýlegri skýrslu Landsnets um að það sé forgangsmál að bæta raforkuöryggi á sunnanverðum Vestfjörðum og að það skuli gera með því að hringtengja Suðurfirðina?
     4.      Eru hugmyndir Landsnets um að straumleysismínútum á norðanverðum Vestfjarðakjálkanum mundi fækka árlega úr 30 í 15 með tengingu hugsanlegrar virkjunar Vesturverks/ HS Orku á Ófeigsfjarðarheiði, svokallaðrar Hvalárvirkjunar, byggingu nýs tengivirkis við Ísafjarðardjúp og tengingu yfir Ófeigsfjarðarheiði og loks yfir Kollafjarðarheiði í enn nýtt tengivirki í Kollafirði unnar í samráði við ráðuneytið og ráðherra? Ef svo er, hver telur ráðherra að standi undir fjárfestingunni í ljósi þess að ítrekað hefur komið fram hjá Landsneti á liðnum árum að tekjur af slíkum fjárfestingum stæðu ekki undir kostnaði?
     5.      Telur ráðherra fyrirsjáanlegt að Landsnet tengi mögulegar vatnsaflsvirkjanir framtíðar á Ófeigsfjarðarheiði til Ísafjarðar? Ef svo er, hvenær telur ráðherra að það gæti hugsanlega orðið og er það tæknilega forsvaranlegt að reka raflínu á leiðinni frá Steingrímsfjarðarheiði á Ísafjörð fyrir þann raforkuflutning sem fyrirsjáanlegur er og yrði hún þá loftlína, sæstrengur eða jarðstrengur?
     6.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að reglugerðarheimild verði nýtt til að fella niður lögbundið kerfisframlag HS Orku, eiganda Vesturverks, til Landsnets vegna hugsanlegrar tengingar mögulegrar Hvalárvirkjunar á Ströndum?


Skriflegt svar óskast.