Ferill 182. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 183  —  182. mál.
Leiðréttur texti.




Tillaga til þingsályktunar


um Akureyri sem miðstöð málefna norðurslóða á Íslandi.


Flm.: Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir.


    Alþingi ályktar að Akureyri skuli fest í sessi sem miðstöð málefna norðurslóða á Íslandi og felur utanríkisráðherra að leggja fram tillögu um eflingu þeirrar norðurslóðastarfsemi sem fram fer á Akureyri, í samstarfi við viðeigandi ráðuneyti og norðurslóðastofnanir á Íslandi.
    Tillagan liggi fyrir í janúar 2020.

Greinargerð.

    Akureyri hefur löngum verið kölluð höfuðstaður Norðurlands. Bærinn er eitt fjölmennasta sveitarfélagið utan höfuðborgarsvæðisins og er miðstöð iðnaðar og verslunar á Norðurlandi. Um 60 km norðan við Akureyri liggur norðurheimskautsbaugurinn þvert yfir Grímsey sem er hluti af Akureyrarbæ eftir sameiningu Grímseyjarhrepps og Akureyrarkaupstaðar.
    Málefni norðurskautsins verða æ mikilvægari í breyttum heimi og hafa fá ríki jafn mikla hagsmuni og Ísland af hagfelldri þróun á svæðinu.
    Akureyri hefur þróast í að verða miðstöð málefna norðurslóða á Íslandi og hefur því oftar en einu sinni verið lýst yfir af ráðherrum við hátíðleg tækifæri að Akureyri hafi það hlutverk. Það hefur þó aldrei verið ákveðið formlega. Fjölmargar norðurslóðastofnanir eins og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, skrifstofa Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar og skrifstofur CAFF (e. Conservation of Arctic Flora and Fauna) og PAME (e. Protection of the Marine Environment), sem eru fastir vinnuhópar Norðurskautsráðsins, hafa aðsetur á Akureyri. Háskólinn á Akureyri er hluti af Háskóla norðurslóða og starfrækir námsbraut í heimskautarétti, Rannsóknaþing norðursins, auk þess sem þar eru staðsettar Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri og Rannsóknarmiðstöð ferðamála. Einnig er þar starfrækt Heimskautaréttarstofnunin. Þá hafa fyrirtæki í bæjarfélaginu stofnað samtök sín á milli, Arctic Services, sem ætlað er að sinna þjónustu við Grænland á sviði iðnaðar og tækni. Þá er norðurslóðasafnið Norðurslóð einnig á Akureyri.
    Akureyrarbær leggur ríka áherslu á virka þátttöku í norðurslóðamálum innan lands sem utan, m.a. með aðild að samtökum sem tengjast norðurslóðum. Leggja þarf áherslu á að Akureyri verði formlega viðurkennd sem miðstöð málefna norðurslóða á Íslandi og marki sér þá sérstöðu að leggja áherslu á þróun og þekkingu, þar á meðal á sviði öryggismála.
    Akureyrarbær hefur tekið virkan þátt í ýmsum samtökum um málefni norðurslóða, svo sem Northern Forum, sem eru samtök um samstarf svæða á norðurslóðum um eflingu byggðar og mannlífsgæða. Þá er Norðurslóðanet Íslands – þjónustumiðstöð norðurslóðamála (e. Icelandic Arctic Cooperation Network) staðsett á Akureyri. Norðurslóðanet Íslands er samstarfsvettvangur stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka á Íslandi sem vinna að málefnum norðurslóða. Jafnframt hefur Akureyrarbæ, einu íslenskra sveitarfélaga, verið boðið til þátttöku á vettvangi borgar- og bæjarstjóra á norðurslóðum (e. Arctic Mayors), en sá vettvangur verður formlega staðfestur á fundi á Akureyri 10. október 2019. Þá hafa ýmsir viðburðir í tengslum við Arctic Circle verið haldnir á Akureyri undanfarin ár.
    Ísland fer nú með formennsku í Norðurskautsráðinu. Í formennskutíð Íslands verður byggt á því góða starfi sem unnið hefur verið á vettvangi Norðurskautsráðsins á liðnum árum. Mikilvægt er að nýta þá þekkingu og reynslu sem byggst hefur upp á Akureyri í málefnum norðurslóða og styrkja jafnframt stöðu bæjarins á því sviði.