Ferill 183. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 184  —  183. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um heimild til að greiða bætur
vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.


Frá forsætisráðherra.


1. gr.

    Ráðherra er heimilt að greiða bætur í kjölfar dóms Hæstaréttar Íslands 27. september 2018 í máli nr. 521/2017.
    Bætur skulu greiðast til þeirra sýknuðu sem eru á lífi og á sama grundvelli til eftirlifandi maka og barna þeirra sem látnir eru. Fjárhæð bóta skal meðal annars miðast við lengd frelsissviptingar.

2. gr.

    Um greiðslur samkvæmt lögum þessum fer skv. 2. tölul. 28. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Óheimilt er að skuldajafna kröfum ríkisins, sveitarfélaga eða stofnana þeirra á móti greiðslum samkvæmt lögum þessum. Greiðslurnar mynda hvorki stofn til frádráttar vegna annarra greiðslna sem einstaklingur kann að njóta, t.d. á grundvelli laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, eða úr lífeyrissjóðum, né hafa áhrif á réttindi einstaklinga í almannatryggingakerfinu að öðru leyti.
    Kjósi aðili skv. 2. mgr. 1. gr. að leita réttar síns fyrir dómi skal við ákvörðun bóta draga frá verðmæti bóta sem kunna að hafa verið greiddar samkvæmt lögum þessum.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi en heimild ráðherra skv. 1. gr. fellur úr gildi 30. júní 2020.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með dómi Hæstaréttar Íslands 27. september 2018 í máli nr. 521/2017 voru Kristján Viðar Júlíusson (áður Viðarsson), Sævar Marinó Ciesielski og Tryggvi Rúnar Leifsson sýknaðir af því að hafa orðið Guðmundi Einarssyni að bana í janúar 1974, Albert Klahn Skaftason af því að hafa tálmað rannsókn á brotinu og Guðjón Skarphéðinsson, Kristján Viðar og Sævar Marinó af því að hafa orðið Geirfinni Einarssyni að bana í nóvember 1974.
    Með úrskurðum endurupptökunefndar frá 24. febrúar 2017 hafði verið fallist á endurupptöku hluta dóms Hæstaréttar 23. febrúar 1980 í máli nr. 214/1978.
    Viðleitni stjórnvalda til að ná heildarsátt við hina sýknuðu og afkomendur þeirra hefur enn ekki borið árangur. Einn þeirra, Guðjón Skarphéðinsson, hefur höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Frumvarp þetta er lagt fram til að taka af öll tvímæli um eindreginn sáttavilja ríkisstjórnar og Alþingis. Enda þótt fjármunir geti aldrei bætt það tjón sem ranglátur dómur olli hinum sýknuðu og fjölskyldum þeirra er eigi að síður nauðsynlegt að ríkisvaldið greiði bætur sem hluta af uppgjöri og viðurkenningu á rangindum. Lagt er til að Alþingi staðfesti skýra lagaheimild ráðherra til að bæta að einhverju leyti ranglætið sem hinir sýknuðu urðu fyrir, án þess þó að skerða á nokkurn hátt rétt aðila til að bera kröfur sínar undir dóm.

2. Viðbrögð stjórnvalda.
    Ríkisstjórn Íslands fjallaði um sýknudóm Hæstaréttar í máli nr. 521/2017 á fundi sínum morguninn eftir að dómurinn féll og í framhaldinu var gefin út svohljóðandi yfirlýsing forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands:
    „Nýfallinn sýknudómur Hæstaréttar Íslands í málum allra dómfelldu í endurupptökumáli í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu var ræddur á fundi ríkisstjórnarinnar í dag. Ríkisstjórnin fagnar málalyktum í einu umdeildasta sakamáli Íslandssögunnar. Ég beini orðum mínum til fyrrum sakborninga, aðstandenda þeirra og annarra sem átt hafa um sárt að binda vegna málsins. Fyrir hönd ríkisstjórnarinnar bið ég ykkur afsökunar á því ranglæti sem þið hafið mátt þola.“
    Ríkisstjórnin samþykkti að skipuð yrði nefnd fulltrúa forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og dómsmálaráðuneytis til að leiða viðræður og sáttaumleitanir við þá sem sýknaðir voru og aðstandendur þeirra. Þá skyldi nefndin gera tillögu til forsætisráðherra og ríkisstjórnar um hugsanlega greiðslu miska- og skaðabóta eða eftir atvikum svonefndra sanngirnisbóta til aðila málsins og aðstandenda þeirra. Var lagt fyrir nefndina að hafa samráð við ríkislögmann, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga um ríkislögmann, nr. 51/1985.
    Nefndin vann eftir ákveðinni hugmynd um sameiginlegan sáttagrundvöll þar sem allir hlutaðeigandi ættu rétt til bóta á sömu forsendum þrátt fyrir ólíkar aðstæður. Þá skyldi ekki litið til atriða sem almennt geta komið til skoðunar þegar bótakröfu er beint gegn ríkinu vegna sakamáls, svo sem sjónarmiða um fyrningu og aðstæður í viðkomandi tilviki. Nefndin átti fundi bæði með aðilum málsins og lögmönnum þeirra þar sem hugmyndir nefndarinnar voru reifaðar og að lokum kynnt sáttaboð af hálfu ríkisins. Samkvæmt beiðni forsætisráðherra tók settur ríkislögmaður að sér að ræða nánar við hlutaðeigandi varðandi frekari vinnslu málsins á grundvelli hugmynda sem nefndin hafði kynnt. Á tímabili í vor stóðu stjórnvöld í þeirri trú að sátt við flesta aðila lægi fyrir og í undirbúningi var m.a. framlagning frumvarps á þeim grundvelli. Það gekk þó ekki eftir og einn aðili hefur höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Málið er því enn óleyst.
    Á fundum nefndarinnar voru einnig ræddar tillögur málsaðila um aðrar aðgerðir en fjárhagslegar, sem ríkið gæti stutt við eða stuðlað að og vörðuðu m.a. þann lærdóm sem draga mætti af málinu og virðingu við hina sýknuðu. Má þar nefna tillögur á borð við hugsanlegar úrbætur á löggjöf, fræðslu og aðgengi að skjölum um Guðmundar- og Geirfinnsmálið hjá hinu opinbera. Þau atriði verða tekin til nánari skoðunar hjá hlutaðeigandi stjórnvöldum.
    Nefndin skilaði af sér 3. júní á þessu ári. Guðjón Skarphéðinsson höfðaði því næst mál gegn íslenska ríkinu með stefnu sem þingfest var 27. júní. Settur ríkislögmaður lagði fram greinargerð í málinu 19. september sl.
    Óformlegar viðræður við aðila máls fóru fram í sumar fyrir tilstilli setts ríkislögmanns og kom fram að enn væri ríkur vilji hjá að minnsta kosti hluta aðila til að leysa fjárhagslegan þátt málsins með samkomulagi.

3. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Sýknudómurinn er einstæður atburður í réttarsögu Íslands. Viðurkenning æðsta dómstóls ríkisins á að fimm menn hafi saklausir verið dæmdir fyrir alvarlegustu glæpi og til þyngstu refsinga krefst þess af ríkisvaldinu að gera yfirbót.
    Lagasetning um heimild ráðherra til að greiða hinum sýknuðu og eftirlifandi mökum, ef við á, og börnum þeirra sýknuðu, sem látnir eru, bætur þarf að koma til vegna þeirrar einstöku réttarstöðu sem reis af sýknudómnum. Málið er fordæmalaust og kallar á aðkomu Alþingis að leggja línur um útfærslu. Þá skal minnt á að Alþingi átti sinn þátt í að málið var tekið til endurskoðunar og uppgjörs með því að samþykkja lög um heimild til endurupptöku vegna látinna dómþola í máli Hæstaréttar nr. 214/1978 árið 2014. Lögin heimiluðu erfingjum þeirra sýknuðu sem látnir eru að leggja fram beiðni um endurupptöku fyrir þeirra hönd en slík heimild hafði ekki verið áður í íslenskum lögum. Þannig átti þingið mikilvægan þátt í að málið var tekið til endurskoðunar og uppgjörs og fær nú málið öðru sinni til umfjöllunar þegar það fjallar um frumvarp þetta og tekur afstöðu til þess. Með frumvarpinu er mælt fyrir um sérstaka leið sem sniðin er að þessu tiltekna máli vegna sérstöðu þess, m.a. vegna hins langa tíma sem liðinn er og þunga áfellis gagnvart hinum sýknuðu í öndverðu. Þá er frumvarpið lagt fram til að tryggja að gætt verði sanngirni og jafnræðis gagnvart öllum hinum sýknuðu og aðstandendum þeirra.
    Mennirnir fimm tóku allir út dæmda refsingu sína og miskinn, sem ranglátur dómur hefur valdið hinum sýknuðu og fjölskyldum þeirra, er í raun óbætanlegur. Þá er og ljóst að málið í heild hefur í langan tíma varpað skugga á líf enn fleiri einstaklinga og fjölskyldna því að mannshvörf Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar eru í reynd enn óupplýst.
    Enda þótt fjárbætur geti í raun aldrei bætt það tjón sem hinir sýknuðu og fjölskyldur þeirra hafa orðið fyrir, er eigi að síður nauðsynlegt að ríkisvaldið greiði fjárbætur sem hluta af uppgjöri og viðurkenningu á rangindum. Ríkisstjórnin veitti sérstakri nefnd, í samráði við settan ríkislögmann, umboð til að leita samkomulags um bætur af sanngirni í samræmi við eðli máls. Fyrir lá að undirbyggja þyrfti greiðslu bóta með lagasetningu þegar þar að kæmi. Jafnvel þótt sættir hafi ekki tekist er sérstök lagaheimild eins og sú sem þetta frumvarp kveður á um eðlileg og nauðsynleg gjörð af hálfu Alþingis er skapar ótvíræðan bótagrundvöll sem nær til allra hlutaðeigandi.
    Frumvarpið er lagt fram nú til að taka af öll tvímæli um vilja stjórnvalda og Alþingis til að greiða hinum sýknuðu og aðstandendum þeirra sanngjarnar bætur.

4. Nánar um dómsniðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.
    Dómsniðurstaðan 27. september 2018 takmarkaðist við sakargiftir sem tengdust mannshvörfum Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar árið 1974 þar sem málið var endurupptekið einungis hvað þær sakargiftir varðaði. Dómur Hæstaréttar 23. febrúar 1980 í máli nr. 214/1978 stendur að öðru leyti.
    Hæstiréttur tók ekki sjálfstæða efnislega afstöðu til sakargifta á hendur dómfelldu í niðurstöðu sinni í máli nr. 521/2017 heldur byggðist niðurstaðan á kröfugerð ákæruvaldsins. Um það hvort skilyrði endurupptöku málsins væru uppfyllt í málinu sagði í dómsniðurstöðu: „Í úrskurðum nefndarinnar er gerð grein fyrir þeim nýju gögnum, sem fram hafa komið eftir að dómur Hæstaréttar í máli nr. 214/1978 gekk og eftir úrlausn réttarins 15. júlí 1997 um beiðni dómfellda Sævars Marinós um endurupptöku málsins. Hvorki eru sérstakir annmarkar á málsmeðferð endurupptökunefndar né mati hennar á þýðingu nýrra gagna.“
    Var því þegar af þeirri ástæðu fullnægt skilyrðum þágildandi a-liðar 211. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, fyrir endurupptöku málsins að hluta en tekið fram að ekki væri tilefni til að taka afstöðu til þess hvort uppfyllt hefði verið skilyrði annarra stafliða greinarinnar. Algerlega ótvírætt er að mennirnir fimm eru saklausir að lögum.

5. Meginefni frumvarpsins.
    Eftir meira en 40 ár er ljós og óvefengjanlegur sá yfirþyrmandi miski sem það mál sem frumvarpið varðar hefur valdið mönnunum fimm, fjölskyldum þeirra og afkomendum.
    Með frumvarpinu er lagt til að ráðherra verði veitt heimild til að greiða þeim bætur sem sýknaðir voru með dómi Hæstaréttar í máli nr. 521/2017, og eftirlifandi mökum, ef við á, og börnum þeirra sýknuðu sem látnir eru. Bótunum er ætlað að koma til móts við hlutaðeigandi vegna þess miska og fjártjóns sem þeir hafi orðið fyrir að því marki sem hægt er. Skulu þær meðal annars miðast við tímalengd frelsissviptingar.
    Frumvarpið tryggir þannig að sérstök lagaheimild standi að baki greiðslu bóta og þar með að baki ákvörðun um fjárútlát af hálfu ríkisins vegna þessa. Kjósi aðili að leita réttar síns fyrir dómi skal við ákvörðun bóta, sem þar kynnu að verða dæmdar, draga frá verðmæti bóta sem kunna að hafa verið greiddar samkvæmt frumvarpi þessu verði það að lögum.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir skattleysi bóta.

6. Samráð.
    Frumvarp þetta er samið í forsætisráðuneytinu og byggist að hluta til á drögum að frumvarpi sem nefnd, sem leiddi viðræður og sáttaumleitanir við hina sýknuðu og aðstandendur þeirra í samráði við settan ríkislögmann, vann að.
    Haft var samband við lögmenn og aðila máls við frágang frumvarpsins.
    Í þessum samskiptum komu fram ábendingar um hugtakanotkun sem brugðist hefur verið við. Fram komu einnig sjónarmið um að afstaða ríkisins í þessu máli þyrfti að byggjast á ítarlegri skoðun á dómaframkvæmd. Um dómafordæmi vísast til skýringa við 1. gr. frumvarpsins. Þar eru einnig reifuð þau sjónarmið sem sáttanefndin byggði á að öðru leyti.
    Bent var á að viðmið um lengd frelsissviptingar þegar ákveðnar yrðu mismunandi fjárhæðir til hinna sýknuðu gæti verið ósanngjarnt vegna þess að sumir hefðu hlotið dóm fyrir önnur brot en þau sem sýknan laut að. Einnig að sumir hefðu sætt meira harðræði en aðrir. Loks að aðstandendur hefðu orðið fyrir misjafnlega miklum miska vegna fráfalls maka eða föður. Fyrir liggur að nálgun sáttanefndarinnar var sú að fara ekki ofan í saumana á þessum atriðum, enda væru bætur boðnar fram á öðrum og almennari forsendum heldur en í bótamáli fyrir dómi.
    Þá var gerð athugasemd við að ríkisvaldið léti að því liggja í frumvarpi eða annars staðar að bótaréttur félli niður við andlát hins sýknaða og því væri sérstök þörf á lagasetningu til að ná jafnt til allra. Farið hefur verið yfir frumvarpið og greinargerð í þessu ljósi enda leiðarljós við samningu þess að ekki sé með nokkrum hætti farið inn á verksvið dómstóla.
    Loks var nefnt hvort hægt væri að taka á möguleikum aðstandenda þeirra sem fallnir eru frá til að bera kröfur sínar einstaklingsbundið undir dóm en núverandi réttarfarsreglur og reglur um fyrirsvar fyrir dánarbú kunna að koma í veg fyrir það. Þetta atriði kallar á sérstaka skoðun sem nær út fyrir efni frumvarpsins.

7. Mat á áhrifum.
    Við mat á á fjárhagslegum áhrifum frumvarpsins er ljóst að heildarfjárhæð liggur ekki fyrir, en líkt og fram kemur í skýringum við 1. gr. frumvarpsins hefur 700–800 millj. kr. heildarfjárhæð verið rædd af hálfu ríkisins. Þá kemur þar einnig fram að fjárhæðin kunni að taka einhverjum breytingum eftir framgangi viðræðna við aðila samhliða framlagningu þess á Alþingi og í framhaldi af samþykkt frumvarpsins. Verði frumvarpið að lögum skapast grundvöllur til greiðslna og auknar forsendur til sátta í þessu máli sem hvílt hefur á þjóðinni um áratuga skeið. Jafnframt er frumvarpið þáttur í að ríkisvaldið axli ábyrgð og rétti hlut þeirra sem voru órétti beittir að því marki sem hægt er.

8. Samræmi við stjórnarskrá.
    Við mat á samræmi frumvarpsins við stjórnarskrá þarf í fyrsta lagi að líta til 2. gr. stjórnarskrárinnar um þrískiptingu ríkisvaldsins, sbr. einnig 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Takmörk eru fyrir því að hvaða marki löggjafanum er heimilt að fara inn á verksvið dómsvaldsins og gæta verður að sjálfstæði þess og rétti einstaklinga til að bera mál fyrir dóm. Nú liggur fyrir í þessu máli að réttarágreiningur er uppi milli aðila máls og ríkisins um bótarétt í kjölfar sýknudóms Hæstaréttar og þegar hefur eitt bótamál verið höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Með frumvarpinu er lagt til að Alþingi heimili greiðslu bóta til aðila. Þeim er ætlað að bæta fyrir sama tjón og bætur sem aðilar kunna að eiga lögvarinn rétt til. Jafnframt er kveðið á um að dómstólar skuli draga verðmæti bóta, sem greiddar hafa verið, frá við ákvörðun bótafjárhæðar ef aðilar láta á reyna á rétt sinn.
    Af þessu má ljóst vera að frumvarpið er fyrst og fremst ívilnandi fyrir aðila máls. Réttur þeirra til að fara með kröfur sínar fyrir dóm er ekki á neinn hátt fyrir borð borinn, jafnvel þótt þeir taki við greiðslum á grundvelli laganna. Líta má á frumvarpið, ef það verður að lögum, sem heimild til að greiða bætur til aðila með sanngirnissjónarmið að leiðarljósi. Það verður svo að vera mat dómstóla, ef á reynir, hvort krafan hafi verið greidd að fullu eða að hluta. Frumvarpið er enn fremur ívilnandi að því leyti að gert er ráð fyrir bótagreiðslum á grundvelli þess óháð niðurstöðu í dómsmáli.
    Regla 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins mælir fyrir um frádrátt vegna greiddra bóta ef aðili lætur reyna á rétt sinni fyrir dómi á grundvelli gildandi laga um bætur í sakamálum. Ekki er um það að ræða að bótagrundvelli þeim sem á reynir í dómsmáli sé haggað á nokkurn hátt.
    Í öðru lagi eiga lög samkvæmt óskráðum reglum stjórnskipunarinnar að vera almenn. Frumvarpið er hins vegar sértækt að því leyti að það fjallar um heimild til greiðslu bóta til nokkurra einstaklinga í kjölfar tiltekins sýknudóms Hæstaréttar. Í löggjöf í gegnum tíðina eru dæmi um sértæka löggjöf af ýmsu tagi. Þá er mál það sem hér um ræðir fordæmalaust að mörgu leyti og löggjafinn hefur þegar látið það sig varða með því að breyta lögum um rétt til endurupptöku mála. Það er því rökrétt að þegar tekist er á við afleiðingar endurupptökunnar komi málið aftur til kasta Alþingis þannig að því megi ljúka svo sómi sé að og virðingar fyrir mannhelgi þeirra einstaklinga sem eiga í hlut sé gætt. Frumvarpinu má jafna að nokkru leyti til sérstakrar heimildar til fjárveitingar úr ríkissjóði en Alþingi fer með fjárstjórnarvaldið og ekki er gert ráð fyrir þessum útgjöldum á fjárlögum ársins 2019.
    Í þriðja lagi þarf að gæta að því að í lögum felist ekki óhæfilegt framsal valds til ráðherra. Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra fái heimild til greiðslu bóta. Í 1. gr. frumvarpsins er að finna það viðmið að bætur eigi meðal annars að taka mið af lengd frelsissviptingar. Það viðmið gefur vísbendingu um að bótagreiðslur verði mismunandi eftir því hver hinna fimm sýknuðu eigi í hlut. Hins vegar er þar ekki að finna vísbendingu um fjárhæðir að öðru leyti. Af skýringum við 1. gr. frumvarpsins má ráða að horft verði til þeirra fjárhæða sem þegar voru ræddar við aðila fyrr á þessu ári, eða samtals 700-800 milljónir króna en einnig áréttað að þær fjárhæðir kunni að taka einhverjum breytingum. Enn fremur er ljóst að ráðherra er við beitingu heimildar bundinn af reglum stjórnsýsluréttar um málefnaleg sjónarmið og reglum stjórnarskrár og stjórnsýsluréttar um jafnræði. Jafnræðið vísar þar meðal annars til dómafordæma um greiðslu bóta vegna frelsissviptingar.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lögð er til heimild til greiðslu bóta til þeirra sem sýknaðir voru með dómi Hæstaréttar í máli nr. 521/2017. Greiðsla bóta nái í senn til þeirra sem eru á lífi og eftirlifandi maka og barna þeirra tveggja sem látnir eru. Gengið er út frá því að samhliða framlagningu frumvarpsins og meðferð þess á Alþingi haldi viðræður við aðila máls áfram til að leita samkomulags um fjárhæð bóta og önnur atriði sem lúta að uppgjöri vegna þessa máls.
    Lagt er til að sami grundvöllur búi að baki greiðslum til fimm aðila alls, þ.e. til þriggja eftirlifandi málsaðila og maka og barna hinna tveggja látnu. Svigrúm þarf þó að vera til staðar til að taka tillit til einstaklingsbundinna aðstæðna. Í þeim viðræðum sem settur ríkislögmaður hefur átt við aðila málsins hefur 700–800 millj. kr. heildarfjárhæð verið rædd. Sú fjárhæð kann þó að taka einhverjum breytingum eftir framgangi samningaviðræðna.
    Gert er ráð fyrir að greiðslur til eftirlifandi maka og barna í tilfelli hvers hinna sýknuðu sem látnir eru skiptist innbyrðis jafnt þannig að sama fjárhæð komi í hlut hvers og eins.
    Í viðræðum sáttanefndarinnar og setts ríkislögmanns við aðila málsins var gert ráð fyrir að mismunandi fjárhæðir réttlættust af fjölda daga sem hver hinna sýknuðu sætti frelsissviptingu.
    Albert sætti gæsluvarðhaldi í fangelsinu við Síðumúla í tvo mánuði og 26 daga. Hann sætti einangrunarvist allan tímann. Hann var dæmdur í fangelsi í 12 mánuði og afplánaði tvo mánuði og þrjá daga. Samtals var hann sviptur frelsi í um fimm mánuði.
    Guðjón sætti gæsluvarðhaldi í rúmlega þrjú ár og þrjá mánuði. Þar af var hann í einangrunarvist í fangelsinu við Síðumúla í eitt ár, einn mánuð og 17 daga. Hann var dæmdur í tíu ára fangelsi, og afplánaði eitt ár, sjö mánuði og 21 dag. Samtals var hann sviptur frelsi í fjögur ár og ellefu mánuði.
    Kristján Viðar sætti gæsluvarðhaldi í samtals fjögur ár og tvo mánuði. Þar af var hann í einangrunarvist í samtals eitt ár, tíu mánuði og 17 daga, þar af 508 daga í Síðumúlafangelsi. Hann var dæmdur í 16 ára fangelsi og afplánaði þrjú ár, þrjá mánuði og tvo daga. Samtals var hann sviptur frelsi í sjö ár, fimm mánuði og tvo daga.
    Sævar Marinó sætti gæsluvarðhaldi í rúmlega fjögur ár og tvo mánuði. Þar af var hann í einangrunarvist í tvö ár og ellefu daga, þar af 647 daga í fangelsinu við Síðumúla. Hann var dæmdur í 17 ára fangelsi og afplánaði fjögur ár, tvo mánuði og sjö daga. Samtals var hann sviptur frelsi í átta ár, fjóra mánuði og 18 daga.
    Tryggvi Rúnar sætti gæsluvarðhaldi í samtals fjögur ár og tvo mánuði. Þar af var hann í einangrunarvist í fangelsinu við Síðumúla í eitt ár, átta mánuði og 22 daga. Hann var dæmdur í 13 ára fangelsi og afplánaði í eitt ár, tíu mánuði og tvo daga. Samtals var hann sviptur frelsi í sex ár og tvo daga.
    Hinum sýknuðu var öllum veitt reynslulausn á eftirstöðvum refsingar, skilorðsbundið í fjögur ár (en tvö ár í tilviki Alberts).
    Við mat nefndarinnar á fjárhæð bóta sem kæmu í hlut hvers og eins hinna sýknuðu var hliðsjón höfð af því að bætt yrði bæði fjárhagslegt og ófjárhagslegt tjón. Stærstur hluti fjárhæðarinnar yrði eðli máls samkvæmt miskabætur, þ.e. fyrir ófjárhagslegt tjón, en ljóst er að slíkt tjón verður illa metið til fjár eftir almennum hlutlægum mælikvarða. Því er óhjákvæmilegt að bætur fyrir slíkt verði ákvarðaðar að einhverju leyti að álitum. Þrátt fyrir að Guðmundar- og Geirfinnsmálið sé einsdæmi í íslenskri réttarsögu fyrir margar sakir getur dómaframkvæmd gefið vísbendingar um atriði sem horfa megi til í þessu sambandi.
    Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 25. nóvember 2015 í máli nr. E-823/2014 voru stefnanda til að mynda dæmdar bætur fyrir að hafa setið í gæsluvarðhaldi og fangelsi að ósekju í samtals 477 daga. Námu miskabætur til hans um 35 þús. kr. fyrir hvern dag sem hann var sviptur frelsi. Málið er að forminu til sambærilegt atvikum Guðmundar- og Geirfinnsmálsins, þar sem um var að ræða bætur fyrir bæði gæsluvarðhald og afplánun í fangelsi og frelsissvipting yfir lengri tíma. Þá voru dæmdar kr. 5,6 millj. vegna gæsluvarðhalds í tæpa 5 mánuði í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg þann 9. apríl sl. í máli nr. E-2184/2918 fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, þ.e. um kr. 37 þús. á dag. Talið var að vistunin hefði verið við óforsvaranlegar aðstæður og kann það að skýra hvers vegna fjárhæðin er hærri en í dóminum frá 2015.
    Í dómum Hæstaréttar Íslands 3. mars 1983 í málum nr. 124, 125, 126 og 127/1980 voru fjórum mönnum dæmdar miskabætur að fjárhæð 2.100.00 nýkróna að meðaltali, fyrir gæsluvarðhald að ósekju, sem stóð í þrjá mánuði. Á núvirði hlaupa bætur á nokkur hundruð þúsundum kr. á dag og fer það meðal annars eftir því hvaða vísitala er notuð. Í dómi Landsréttar í máli nr. 589/2018 frá 22. febrúar 2019 voru dæmdar bætur að fjárhæð 200 þúsund kr. á dag vegna frelsissviptingar í 8 daga. Horft var meðal annars til ungs aldurs viðkomandi. Bætur eru iðulega metnar heildstætt og tekið mið af fleiri atriðum eins og brotum á friðhelgi einkalífs viðkomandi. Dagafjöldi frelsissviptingar er hafður til hliðsjónar en fjölmörg önnur atriði skipta máli. Dómaframkvæmd virðist benda til þess að fjárhæð miskabóta vegna frelsissviptingar/gæsluvarðhalds að ósekju sé á bilinu 150–200 þúsund kr. á dag en virðist lækka eftir því sem vistin er lengri.
    Hliðsjón hefur verið höfð af ýmsum atriðum málsins sem áhrif geta haft á upphæð bótafjárhæðar, þar á meðal hinni sérstaklega löngu og harðneskjulegu einangrunarvist sem hinir sýknuðu máttu þola í fangelsinu við Síðumúla, sem á þeim tíma þótti ekki forsvaranlegt til svo langrar vistunar, vísbendingum um að framkvæmd gæsluvarðhalds í Síðumúlafangelsi hefði falið í sér algjörlega óviðunandi meðferð á gæsluvarðhaldsföngum, margvíslegum brotum gegn rétti hinna sýknuðu til réttlátrar málsmeðferðar, bæði við rannsókn málsins og dómsmeðferð þess, og gríðarlega mikilli og óvæginni opinberri umfjöllun auk myndbirtinga af hinum sýknuðu.
    Þegar hlé varð á viðræðum nefndarinnar og síðar setts ríkislögmanns við aðila málsins var gert ráð fyrir að greiðslur til hinna sýknuðu og eftirlifandi maka og barna þeirra næmu um 70–80 þús. kr. fyrir hvern dag sem viðkomandi var sviptur frelsi og náði það bæði til gæsluvarðhalds og afplánunar. Miðað var við að bætur skiptust með eftirfarandi hætti á milli aðila: 15 millj. kr. til Alberts Klahns Skaftasonar, 145 millj. kr. til Guðjóns Skarphéðinssonar, 204 millj. kr. til Kristjáns Viðars Júlíussonar, 171 millj. kr. til Tryggva Rúnars Leifssonar og 224 millj. kr. til Sævars Marinós Ciesielskis. Samtals var um 759 millj. kr. að ræða. Að auki var gert ráð fyrir skattfrelsi bótanna enda yrðu lög sett um það efni.

Um 2. gr.

    Í 1. mgr. eru gerðar tillögur að ákvæðum sem miða að því að tryggja að viðtakendur bótanna fái notið þeirra að fullu. Þannig er lagt til að bæturnar verði ekki skertar með álagningu tekjuskatts eða með skuldajöfnun af hálfu opinberra aðila, þær lækki hvorki vegna annarra greiðslna sem viðkomandi nýtur, t.d. úr almannatryggingakerfinu, né komi til frádráttar slíkum greiðslum. Ákvæðið á sér fyrirmynd úr lögum nr. 47/2010, um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007.
    Í 2. mgr. er áréttað að bætur sem greiddar kunni að vera samkvæmt lögunum verði dregnar frá við ákvörðun bóta í dómsmáli sem höfðað er á öðrum lagagrundvelli, einkum á grundvelli laga um meðferð sakamála. Vísað er til verðmætis bótanna til að undirstrika að fjárhæð bóta samkvæmt lögunum sé metin með hliðsjón af skattfrelsi o.fl. Nú liggur fyrir að dómsmál hefur verið höfðað í kjölfar sýknudóms Hæstaréttar og fleiri mál kunna að verða höfðuð.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.