Ferill 141. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 193  —  141. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Sæmundssyni um kostnað Landsvirkjunar vegna sæstrengs.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver er heildarkostnaður Landsvirkjunar vegna undirbúnings undir lagningu sæstrengs síðastliðin tíu ár, skipt niður á ár? Óskað er eftir að svarinu fylgi jafnframt sundurliðaður kostnaður vegna launa starfsmanna Landsvirkjunar, aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, ferðakostnaðar og risnu.

    Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur ekki upplýsingar um kostnað Landsvirkjunar vegna undirbúnings að hugsanlegri lagningu sæstrengs og óskaði því eftir upplýsingum um það frá fyrirtækinu og er svarið byggt á þeim upplýsingum. Hvað varðar heildarkostnað vegna undirbúnings sæstrengs telur fyrirtækið torvelt að veita umbeðnar upplýsingar þar sem fyrirtækið er undanþegið ákvæðum upplýsingalaga, nr. 140/2012, og um er að ræða upplýsingar viðskiptalegs eðlis sem ekki er unnt að veita. Í bréfi Landsvirkjunar til fjármála- og efnahagsráðuneytisins kemur m.a. þetta fram:
    „Með setningu raforkulaga nr. 65/2003 fór fram heildarendurskoðun á löggjöf um vinnslu, flutning, dreifingu og sölu raforku. Með setningu laganna var komið á markaðsbúskap í viðskiptum með raforku þannig að vinnsla og sala á raforku fer nú fram á einkaréttarlegum grundvelli í samkeppnisumhverfi. Landsvirkjun starfar þannig í alþjóðlegri samkeppni um raforkusölu til mögulegra viðskiptavina þar sem miklir viðskiptalegir hagsmunir eru í húfi. Upplýsingar um markaðssetningu fyrirtækisins til einstakra fyrirtækja, iðngreina eða markaðssvæða og fundi því tengdu eru því að jafnaði of viðkvæmar til þess að þær séu gerðar opinberar.
    Eitt þeirra markaðsverkefna sem Landsvirkjun hefur unnið að er forathugun á sæstreng sem myndi veita íslenskum orkufyrirtækjum aðgang að miklum fjölda af nýjum viðskiptavinum – tugþúsunda fyrirtækja og milljónum einstaklinga. Verkefnið fer saman við mikið af því markaðsstarfi sem fer fram innan Landsvirkjunar sem felst meðal annars í greiningu á erlendum raforkumörkuðum og alþjóðlegu markaðsumhverfi orkufreks iðnaðar, svo og öflugu kynningarstarfi þar sem vakin er athygli á möguleikum orkufreks iðnaðar á Íslandi. Greiningar- og markaðsstarf Landsvirkjunar nýtist þannig ólíkum markaðstækifærum fyrirtækisins til framtíðar, við mat á alþjóðlegri samkeppnishæfni og jafnframt nýtist það í samskiptum við núverandi viðskiptavini þegar samið er um stækkanir eða endursamninga.
    Vinna við verkefnið að þessu sinni fór einkum fram á árunum 2010–2016. Helstu tæknilegu og viðskiptalegu niðurstöðum er ítarlega gert grein fyrir í ýmsum skýrslum sem aðgengilegar eru á heimasíðu Landsvirkjunar ( www.landsvirkjun.is/rannsoknirogthroun/throunarverkefni/saestrengur). Frá árinu 2016 hefur hins vegar lítið verið unnið að verkefninu.
    Með vísan til framangreinds er torvelt að svara fyrirspurn þingmannsins og það gæfi ekki rétta mynd hvað þá að reyna að sundurliða kostnað á alla þá þætti sem þingmaður óskar upplýsinga um. Auk þess sem hér er um að ræða upplýsingar viðskiptalegs eðlis sem ekki er unnt að veita.“