Ferill 190. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 194  —  190. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri.

Frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um félög til almannaheilla sem stofnað er til eða starfrækt eru í þeim tilgangi að safna eða útdeila fjármunum í almannaþágu og eru með starfsemi yfir landamæri.
    Skylt er að skrá félag í almannaheillafélagaskrá sem ríkisskattstjóri starfrækir.

2. gr.
Atvinnustarfsemi félags.

    Félagi er heimilt að stunda atvinnustarfsemi til fjáröflunar innan þeirra marka sem tilgreind eru í samþykktum þess og leiða má beint af tilgangi félagsins, enda séu að öðru leyti öll almenn skilyrði fyrir atvinnustarfsemi uppfyllt. Félagi er einnig heimilt að stunda starfsemi sem hefur aðeins óverulega fjárhagslega þýðingu, með tilliti til heildartekna félagsins.
    Almennir félagsmenn bera ekki persónulega ábyrgð á skuldum og öðrum skuldbindingum félags nema félagsgjaldi sínu.

II. KAFLI
Stofnun félags.
3. gr.
Stofnsamningur.

    Við stofnun félags skal stofnsamningur þess liggja frammi ásamt drögum að samþykktum fyrir félagið. Stofnsamningur skal vera dagsettur og undirritaður af a.m.k. þremur lögráða félagsmönnum.

4. gr.
Samþykktir.

    Í samþykktum félags skal tilgreina:
     a.      heiti félagsins,
     b.      tilgang og markmið með starfseminni,
     c.      þátttökuskilyrði, sbr. 5. gr.,
     d.      skyldu félagsmanna til að greiða félagsgjöld og önnur gjöld til félagsins,
     e.      fjölda stjórnarmanna og varamanna þeirra eða lágmarks- og hámarksfjölda þeirra ásamt kjörtímabili stjórnarmanna og hverjir skuli rita firma félagsins,
     f.      reikningsár félagsins og samþykkt ársreiknings,
     g.      kjörtímabil endurskoðenda, endurskoðunarfyrirtækja, skoðunarmanna eða trúnaðarmanna úr hópi félagsmanna,
     h.      hvenær halda eigi aðalfund og með hvaða hætti eigi að boða aðalfund og aðra félagsfundi og
     i.      hvernig fara eigi með eignir félagsins sé það lagt niður eða því slitið.

III. KAFLI
Félagsaðild og aðalfundur.
5. gr.
Félagsaðild.

    Félagsmenn í félagi geta verið einstaklingar, félög, sjóðir og sjálfseignarstofnanir.
    Öllum sem uppfylla skilyrði samþykkta um inngöngu í félag er hún heimil.
    Stjórn félags skal halda skrá yfir félagsmenn.

6. gr.
Aðalfundur.

    Aðalfund skal halda eftir því sem félagssamþykktir ákveða, þó eigi síðar en 1. ágúst ár hvert. Boða skal til aðalfundar með minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti. Í fundarboði skal greina hvar og hvenær fundurinn verður haldinn. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað.
    Hver félagsmaður hefur atkvæðisrétt sem nemur einu atkvæði sé ekki annað tekið fram í samþykktum. Enginn getur farið með atkvæðisrétt annars samkvæmt umboði sé það ekki sérstaklega heimilað í samþykktum.
    Á aðalfundi skal taka ákvörðun um:
     a.      breytingar á samþykktum félagsins,
     b.      afsal eða kaup fasteignar eða annarrar eignar sem þýðingu hefur fyrir rekstur félagsins,
     c.      kosningu eða brottvikningu stjórnar, stjórnarmanna, endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækis eða skoðunarmanna eða trúnaðarmanna úr hópi félagsmanna,
     d.      samþykkt ársreikninga,
     e.      slit félagsins.
    Heimila má í samþykktum að stjórn félagsins geti ákveðið sölu, skipti og veðsetningu eigna félagsins.

IV. KAFLI
Stjórnun félags.
7. gr.
Stjórn félags.

    Stjórn félags skal skipuð fæst þremur mönnum og einum varamanni. Stjórnin fer með málefni félagsins í samræmi við ákvarðanir þess, samþykktir og ákvæði laga sem um það gilda.
    Stjórn félags skal móta stefnu og skipuleggja starf félagsins. Stjórnin skal funda reglulega til að hafa eftirlit með rekstri félagsins og taka ákvarðanir um starf þess. Stjórn skal halda gerðabók þar sem niðurstöður og ákvarðanir stjórnarfunda eru skráðar.
    Stjórnin er ákvörðunarbær þegar meiri hluti stjórnarmanna sækir fund svo framarlega sem ekki eru gerðar strangari kröfur í samþykktum. Einfaldur meiri hluti atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum nema samþykktir kveði á um annað.
    Stjórnin kemur fram fyrir hönd félags. Sé framkvæmdastjóri ráðinn fara stjórn og framkvæmdastjóri með stjórn félagsins. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur félagsins og skal hlíta stefnu og fyrirmælum stjórnar. Daglegur rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Stjórnin skal sjá til þess að nægilegt eftirlit sé með bókhaldi félagsins og ber ábyrgð á að semja ársreikning fyrir hvert reikningsár. Þá skal stjórnin sjá til þess að fjármunum félagsins sé ráðstafað á forsvaranlegan hátt í samræmi við tilgang félagsins.
    Stjórn kýs sér formann nema samþykktir kveði á um annað. Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri, sé hann ráðinn, skulu vera lögráða. Nú hefur bú einstaklings verið tekið til gjaldþrotaskipta og er hann þá ekki bær til að sitja í stjórn félags eða gegna stöðu framkvæmdastjóra félagsins fyrr en hann er aftur orðinn fjár síns ráðandi.
    Einungis stjórn félags getur veitt og afturkallað prókúruumboð. Um hæfi prókúruhafa gilda ákvæði 5. mgr.

8. gr.
Ritun firma.

    Stjórn félags kemur fram út á við fyrir hönd félagsins og ritar firma þess.
    Stjórn félags getur veitt stjórnarmönnum, framkvæmdastjórum eða öðrum heimild til að rita firma félagsins svo framarlega sem annað er ekki ákveðið í samþykktum þess. Ákvæði 5. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 9. gr. eiga við um þá sem heimild hafa til ritunar firma.
    Ritunarréttinn má takmarka á þann hátt að fleiri en einn fari með hann í sameiningu. Aðra takmörkun á ritunarrétti er ekki unnt að skrá.
    Félagsstjórn getur hvenær sem er afturkallað heimild sem hún hefur veitt til að rita firma félagsins.

9. gr.
Vanhæfi.

    Stjórnarmanni eða starfsmanni í félagi er hvorki heimilt að taka þátt í meðferð né ákvörðun í máli sem varðar samning milli hans og félagsins eða í nokkru öðru máli þar sem hagsmunir hans kunna að stangast á við hagsmuni félagsins.
    Stjórn félags er ekki heimilt að reikna sér, endurskoðendum, skoðunarmönnum, trúnaðarmönnum úr hópi félagsmanna, framkvæmdastjórum eða öðrum sem fara með stjórnunarstörf hærra endurgjald fyrir störf hjá félaginu en venjulegt er eftir eðli og umfangi starfanna.
    Óheimilt er félagi að veita lán eða setja tryggingu fyrir þá sem getið er í 2. mgr. Sama gildir um þá sem eru í hjúskap, staðfestri samvist eða óvígðri sambúð með þeim og þá sem eru skyldir þeim eða mægðir í beinan legg eða standa þeim að öðru leyti sérstaklega nærri. Þetta á þó ekki við um fyrirgreiðslu félags sem fellur að starfsemi félagsins og allir sem uppfylla ákveðin skilyrði eiga jafnan aðgang að.

10. gr.
Bókhald og ársreikningur.

    Félögum er skylt að færa bókhald og semja ársreikning í samræmi við lög um bókhald. Stjórn og framkvæmdastjóri félags skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár í samræmi við lögin.
    Á aðalfundi félags skulu kosnir einn eða fleiri endurskoðendur, endurskoðunarfyrirtæki, skoðunarmenn eða trúnaðarmenn úr hópi félagsmanna til að yfirfara ársreikning. Ákvæði laga um endurskoðendur gilda um hæfi og störf endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja og ákvæði laga um bókhald gilda um hæfi og störf skoðunarmanna og trúnaðarmanna úr hópi félagsmanna. Trúnaðarmenn sem kosnir eru úr hópi félagsmanna mega ekki sitja í stjórn félagsins eða gegna stjórnunarstörfum fyrir það.
    Hafi félag með höndum umfangsmikinn atvinnurekstur, sbr. þó 2. gr., skal halda fjárreiðum og reikningshaldi varðandi þann rekstur aðskildu frá öðru bókhaldi og eignum félagsins. Sé félag í tengslum við atvinnufyrirtæki samkvæmt samþykktum sínum eða samningi skal þess getið í ársreikningi eða skýringum við hann.
    Ársreikningur skal fullgerður og undirritaður eigi síðar en sex mánuðum eftir lok reikningsárs. Ársreikningur skal lagður fram á aðalfundum félags til samþykktar.
    Eigi síðar en mánuði eftir samþykkt ársreiknings skal stjórn félagsins birta ársreikning, og ef við á samstæðureikning, ásamt skýrslu stjórnar, áritun endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis eða undirritun skoðunarmanns eða trúnaðarmanna úr hópi félagsmanna, sem og upplýsingar um hvenær ársreikningur var samþykktur, á vef félagsins eða opinberlega með sambærilegum hætti.
    Ákvæði laga um bókhald gilda um varðveislu bókhalds og ársreiknings félags.

V. KAFLI
Slit félags.
11. gr.
Slit félags.

    Nú ákveða félagsmenn að slíta félagi og skal þá stjórn þess gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til slitanna, nema skipaður sé skiptastjóri, einn eða fleiri, til að annast slitin. Ekki er þörf á formlegri slitameðferð hafi félagsmenn, þegar tekin var ákvörðun um slit á félaginu, samtímis samþykkt endanleg reikningsskil, efnahags- og rekstrarreikning, sbr. 10. gr., sem lögð eru fram af stjórn félagsins og fram kemur að engar skuldir séu í félaginu og það hafi engar skuldbindingar. Séu skuldir félags meiri en eignir þess ber að skipa skiptastjóra.
    Fjárhagslegar ráðstafanir félags, sem félagsmenn hafa ákveðið að slíta, eru eingöngu heimilar í þeim mæli sem nauðsynlegt er vegna slitameðferðar. Hafi skiptastjóri eða skiptastjórar verið skipaðir er þeim heimilt að birta innköllun þar sem skorað er á lánardrottna félags að lýsa kröfum sínum og að gefa eignir félagsins upp til gjaldþrotaskipta, sbr. lög um gjaldþrotaskipti o.fl. Verði eignir, sem eftir standa þegar skuldir hafa verið greiddar, ekki nýttar á þann hátt sem samþykktir félagsins kveða á um skal skiptastjóri framselja eignirnar til ríkisins sem skal ráðstafa þeim til verkefna sem sambærileg eru þeim sem kveðið er á um í samþykktum félagsins. Skiptastjóri skal semja endanleg reikningsskil, efnahags- og rekstrarreikning, sbr. 10. gr., fyrir félagið og sjá til þess að þau séu varðveitt.
    Félagi hefur verið slitið þegar slitameðferð er lokið, það hefur verið tilkynnt og félagið afskráð, sbr. 3. mgr. 19. gr.

12. gr.
Heimild til afskráningar á félagi.

    Hafi almannaheillafélagaskrá upplýsingar um að félag hafi hætt störfum, það sé án starfandi stjórnar, endurskoðenda eða skoðunarmanna eða trúnaðarmanna úr hópi félagsmanna eða það sinni ekki tilkynningarskyldu sinni til skrárinnar skal skráin senda þeim sem eru eða ætla má að séu í fyrirsvari fyrir félagið samkvæmt síðustu skráningu í almannaheillafélagaskrá aðvörun þess efnis að félagið verði tekið úr skránni, sbr. VII. kafla, komi ekki fram upplýsingar innan þess frests sem skráin setur sem sýna fram á að félagið starfi enn. Berist ekki svar innan tilskilins frests skal aðvörun um afskráningu til fyrirsvarsmanna og annarra sem hagsmuna hafa að gæta birt einu sinni í Lögbirtingablaði. Berist ekki fullnægjandi svar eða athugasemdir innan þess frests sem þar er tiltekinn getur almannaheillafélagaskrá fellt niður skráningu félagsins. Innan árs frá afskráningu geta félagsmenn eða lánardrottnar gert kröfu um að bú félagsins verði tekið til skipta í samræmi við 13. gr. Hafi félag verið afskráð skal ráðuneytið skipa skiptastjóra, sbr. 2. mgr. 11. gr. Ef eignir eru í félaginu að loknum skiptum fer um þær samkvæmt samþykktum félagsins.
    Almannaheillafélagaskrá má jafnframt breyta skráningu þannig að afskráð félag sé skráð á nýjan leik enda berist beiðni þar um innan árs frá afskráningu og sérstakar ástæður mæli með endurskráningunni. Ekki má ráðstafa heiti félagsins á þessum tíma. Þótt félag hafi verið fellt út af almannaheillafélagaskrá breytir það í engu persónulegri ábyrgð sem stjórnarmenn eða félagsmenn kunna að vera í vegna skuldbindinga félagsins.

VI. KAFLI
Slit félags með dómi.
13. gr.
Slit félags og veiting áminningar.

    Að kröfu ráðherra er fer með málefni ákæruvalds og dómstóla, ríkissaksóknara eða félagsmanna getur héraðsdómur á heimilisvarnarþingi félags slitið félagi með dómi hafi félagið brotið að verulegu leyti gegn lögum eða skilgreindum tilgangi samkvæmt samþykktum sínum.
    Í stað þess að slíta félagi getur dómurinn veitt því áminningu enda telst brot ekki verulegt.
    Ef félagi er slitið eða því veitt áminning má einnig slíta eða áminna annað félag, sem beint eða óbeint er aðili í fyrra félaginu, hafi síðara félagið stuðlað að aðgerðum sem um er getið í 1. mgr., enda hafi því einnig verið stefnt.
    Verði eignir félags, sem hefur verið slitið í samræmi við 1. mgr., ekki nýttar eins og samþykktir félagsins kveða á um, sbr. i-lið 4. gr., eða notkun þeirra stríðir gegn lögum eða góðum stjórnarháttum skulu eignir félagsins renna til ríkisins sem skal ráðstafa þeim til verkefna sem sambærileg eru þeim sem kveðið er á um í samþykktum félagsins.

14. gr.
Bráðabirgðabann við starfsemi félags.

    Nú hefur mál verið höfðað til slita á félagi og getur dómari þá að beiðni málsaðila stöðvað starfsemi þess til bráðabirgða ef líkur eru á því að félag brjóti gegn 1. mgr. 13. gr.
    Að beiðni ráðherra sem fer með málefni ákæruvalds og dómstóla eða ríkissaksóknara er heimilt að banna starfsemi félags til bráðabirgða skv. 1. mgr., þrátt fyrir að mál hafi ekki verið höfðað til slita á félagi, ef líkur eru á því að félag brjóti ella gegn 1. mgr. 13. gr. Slíkt bráðabirgðabann fellur niður verði ekki krafist slita á félaginu innan 14 daga frá útgáfu bannsins og skal ekki gilda lengur en þar til mál er höfðað.
    Óheimilt er að stofna nýtt félag um starfsemi sem bönnuð hefur verið til bráðabirgða.

15. gr.
Slit félags og skiptastjórar.

    Þegar félagi er slitið eða starfsemi þess bönnuð til bráðabirgða skal félagið tafarlaust láta af starfsemi sinni. Stjórn félags getur þó, sé starfsemi bönnuð til bráðabirgða, haldið áfram rekstri og varðveitt hann og eignir félagsins þar til endanleg niðurstaða um slit þess liggur fyrir ákveði dómur ekki annað.
    Ef dómurinn heimilar ekki stjórn félags að fara með eignir þess skv. 2. málsl. 1. mgr. skal hann skipa félaginu a.m.k. einn fjárhaldsmann til að varðveita eignir þess.
    Við slit félags skal dómurinn tilnefna einn eða fleiri skiptastjóra ef þörf krefur. Ákvæði laga þessara um skiptastjóra og andmæli við ráðstöfun þeirra gilda eftir því sem við á.
    Sé krafa um slit félags tekin til greina skal farið að fyrirmælum laga um skipti á dánarbúum o.fl. þar sem erfingjar taka ekki að sér ábyrgð á skuldbindingum hins látna.

VII. KAFLI
Skráning í almannaheillafélagaskrá.
16. gr.
Stjórnvald.

    Ríkisskattstjóri skráir félag samkvæmt lögum þessum og lögum um fyrirtækjaskrá og starfrækir almannaheillafélagaskrá í því skyni.

17. gr.
Tilkynning um félag.

    Tilkynningar til almannaheillafélagaskrár ásamt fylgiskjölum og tilskilin skráningargjöld skal senda almannaheillafélagaskrá beint á því formi sem skráin ákveður. Skal málsmeðferð vera rafræn sé þess kostur.
    Með tilkynningu skal senda stofnsamning, stofnfundargerð og samþykktir félagsins. Í tilkynningunni skal koma fram fullt heiti félags og tilgangur, heimilisfang og varnarþing, nöfn og kennitölur stjórnarmanna og varamanna og tilgreining stjórnarformanns og annarra þeirra sem geta skuldbundið félagið, auk takmarkana á þeim rétti ef einhverjar eru.
    Stjórnarmenn og varamenn skulu undirrita tilkynninguna og lýsa því yfir að þær upplýsingar sem fram koma í tilkynningunni séu réttar og þeir sem þar koma fram hafi rétt til að skuldbinda félagið að lögum.
    Ríkisskattstjóra er eftir atvikum heimilt að krefjast frekari gagna um eðli og tilgang félagsins.

18. gr.
Meðferð tilkynninga.

    Þegar almannaheillafélagaskrá berst tilkynning skv. 17. gr. skal skráin m.a. kanna:
     a.      hvort tilkynning samrýmist ákvæðum 17. gr.,
     b.      hvort heiti félagsins sé skýrt aðgreint frá heiti annarra félaga sem þegar eru skráð og hvort heitið sé villandi,
     c.      hvort ákvæði laga þessara mæli gegn því að félagið sé skráð og
     d.      hvort ákvæði laga um fyrirtækjaskrá mæli gegn því að félagið sé skráð.
    Leiði könnun skv. 1. mgr. eitthvað í ljóst sem mælir gegn því að félagið sé skráð, en ekki þyki þó efni til að hafna skráningu, skal þeim sem tilkynnir félagið til skráningar gefinn kostur á að bæta eða leiðrétta tilkynninguna. Þetta skal gert innan ákveðins frests sem almannaheillafélagaskrá setur. Hafi leiðrétting eða viðbót ekki borist innan frestsins skal hafna skráningu.
    Tilkynningar til almannaheillafélagaskrár og fylgiskjöl með þeim skulu varðveitt hjá skránni.

19. gr.
Tilkynning um breytingar og slit.

    Breytingar á samþykktum félags, val á nýjum stjórnarmanni eða varamanni í stjórn eða breyting á heimild til að skuldbinda félagið, ásamt öðru því sem skráð hefur verið, ber að tilkynna til almannaheillafélagaskrár innan mánaðar frá breytingunni. Breyttar samþykktir í heild sinni skulu fylgja tilkynningu um breytingar og skal tilkynning undirrituð af meiri hluta stjórnar. Sömu reglur gilda um meðferð tilkynningar um breytingu á því sem áður er skráð og um upphafstilkynningu til almannaheillafélagaskrár.
    Breyting á samþykktum félags tekur gildi við skráningu í almannaheillafélagaskrá. Sama gildir um breytingu á stjórn félags og varastjórn og annarra þeirra einstaklinga sem geta skuldbundið félagið, auk takmarkana á þeim rétti ef einhverjar eru.
    Þegar félagi hefur verið slitið, sbr. V. kafla, skal tilkynna það til almannaheillafélagaskrár og skal skráin auglýsa slit félagsins í Lögbirtingablaði.

20. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um skráningu félags samkvæmt lögum þessum í almannaheillafélagaskrá, þ.m.t. um skipulag skráningarinnar, rekstur skrárinnar og aðgang að henni og gjaldtöku, m.a. fyrir útgáfu vottorða og afnot af þeim upplýsingum sem skráin hefur á tölvutæku formi.

VIII. KAFLI
Viðurlög.
21. gr.
Sektir eða fangelsi.

    Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum að:
     a.      skýra vísvitandi rangt eða villandi frá högum félags eða öðru sem það varðar í opinberri auglýsingu eða tilkynningu, skýrslum, ársreikningi eða yfirlýsingum til aðalfundar eða forráðamanna félags eða tilkynningum til almannaheillafélagaskrár,
     b.      afhenda án heimildar eða nota aðgangsorð eða annað sambærilegt til að vera viðstaddur eða taka þátt í rafrænum stjórnarfundi eða félagsfundi félags.

22. gr.
Sektir eða fangelsi vegna brota sem varða atkvæðagreiðslu á aðalfundi.

    Sá maður skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum sem gerist sekur um eftirtaldar athafnir að því er varðar atkvæðagreiðslu á aðalfundi félags skv. III. kafla:
     a.      aflar sér eða öðrum ólöglegs færis á að taka þátt í atkvæðagreiðslu eða ruglar atkvæðagreiðslu með öðrum hætti,
     b.      leitast við með ólögmætri nauðung, frelsisskerðingu eða misbeitingu á aðstöðu yfirboðara að fá félagsmann eða umboðsmann hans til þess að greiða atkvæði á ákveðinn hátt eða til þess að greiða ekki atkvæði,
     c.      kemur því til leiðar með sviksamlegu atferli að félagsmaður eða umboðsmaður hans greiði ekki atkvæði, þó að hann hafi ætlað sér það, eða að atkvæði hans ónýtist eða hafi önnur áhrif en til var ætlast,
     d.      greiðir, lofar að greiða eða býður félagsmanni eða umboðsmanni hans fé eða annan hagnað til þess að neyta ekki atkvæðisréttar síns eða til að greiða atkvæði félaginu í óhag eða
     e.      tekur við, fer fram á að fá eða lætur lofa sér eða öðrum hagnaði til þess að neyta ekki atkvæðisréttar síns eða til að greiða atkvæði félaginu í óhag.

IX. KAFLI
Gildistaka o.fl.
23. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

24. gr.
Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003:
     a.      Á eftir orðinu „félög“ í 4. tölul. 2. gr. laganna kemur: félög til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri.
     b.      Á eftir orðinu „manns“ í 3. gr. laganna kemur: félög til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Almenn félagasamtök sem falla undir gildissvið laga þessara og skráð eru í fyrirtækjaskrá við gildistöku þeirra skulu breyta skráningu sinni í félag til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri. Jafnframt skal skrá þau í almannaheillafélagaskrá og skila inn nýjum samþykktum, tilkynningum um stjórn, varastjórn, endurskoðendur, endurskoðunarfyrirtæki, skoðunarmenn eða trúnaðarmenn úr hópi félagsmanna, og öðrum upplýsingum sem skrá skal samkvæmt lögum þessum.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið af óformlegum vinnuhópi sem í sátu fulltrúar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og dómsmálaráðuneytis.
    Lagt er til að sett verði sérstök lög um skráningarskyldu félaga til almannaheilla sem stofnað er til eða starfrækt eru í þeim tilgangi að safna eða útdeila fjármunum í almanna-þágu og eru með starfsemi yfir landamæri. Er brugðist við athugasemdum alþjóðlegs vinnuhóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, (e. Financial Action Task Force, FATF), en FATF hefur m.a. gert athugasemdir við að ekki sé kveðið á um skráningarskyldu framangreindra félaga hér á landi. Einnig er brugðist við niðurstöðum áhættumats Ríkislögreglustjóra um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka svo og aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í kjölfar þess.
    Frumvarpið er enn fremur hluti af þeim umfangsmiklu aðgerðum sem stjórnvöld hafa þegar ráðist í vegna athugasemda FATF svo sem með setningu nýrra heildarlaga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, laga um skráningu raunverulegra eigenda, laga um frystingu fjármuna og skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna og með breytingum á lögum um fyrirtækjaskrá og tollalögum.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í upphafi árs 2017 hóf FATF úttekt á vörnum Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ísland gekk til samstarfs við FATF í september 1991 og með aðild sinni skuldbatt Ísland sig til að samræma löggjöf og laga starfsreglur að tilmælum FATF. Tilmæli FATF hafa verið leiðandi á heimsvísu og hafa tilskipanir Evrópusambandsins um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka verið í samræmi við þau. Tilmælin mynda því grundvöll sameiginlegra viðbragða við framangreindum ógnum við sjálfstæði fjármálakerfisins og tryggja jafnvægi innan þess.
    Af hálfu FATF eru framkvæmdar úttektir á því hvernig ríkjum hefur tekist að innleiða tilmælin og efla varnir sínar gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ríki fá í kjölfarið frest til þess að bregðast við og gera úrbætur. Bregðist ríki ekki við kröfum FATF hafa aðildarríkin sammælst um að beita hvert annað þrýstingi eftir því sem við á með því að setja ríki á sérstakan lista yfir „ósamvinnuþýð“ ríki eða ríkjasvæði. Felst þrýstingurinn meðal annars í því að gera strangari kröfur til ríkjanna eða aðila þar búsettra um hvers konar fjármálastarfsemi, stofnun útibúa, dótturfélaga og umboðsskrifstofa og jafnvel útgáfu aðvarana um að viðskipti við aðila þessara ríkja geti falið í sér hættu á peningaþvætti. Ófullnægjandi varnir geta því haft víðtæk áhrif á fjármálakerfið í heild sinni og trúverðugleika á alþjóðavettvangi.
    Úttekt FATF á Íslandi lauk í febrúar 2018 og var skýrsla með niðurstöðum hennar birt í byrjun apríl sama ár. Úttektin leiddi m.a. í ljós ýmsa veikleika á íslenskri löggjöf og þurfa stjórnvöld að bregðast við með skjótum hætti til að koma til móts við athugasemdir FATF. Ísland er nú í eftirfylgni hjá FATF sem felur m.a. í sér reglulega upplýsingagjöf til FATF um úrbætur vegna þeirra athugasemda sem fram koma í skýrslunni. Með innleiðing á fjórðu tilskipun Evrópusambandsins um aðgerðir gegn peningaþvætti, sbr. ný heildarlög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, sem og ný lög um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019, var að miklu leyti komið til móts við athugasemdir FATF. Enn á þó eftir að ljúka við reglusetningu sem lýtur að þeim félögum sem kunna að vera misnotuð í þeim tilgangi að fjármagna eða styðja við hryðjuverk.
    Við gerð áhættumats Ríkislögreglustjóra um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem birt var í apríl 2019 voru almannaheillafélög tekin til skoðunar. Meginástæða þess að horft var til slíkra félaga er sú að dæmi eru um að innan aðildarríkja FATF hafi félög með ófjárhagslegan tilgang, sem starfa að almannaheillum, verið misnotuð og þá einkum við fjármögnun hryðjuverka. Í áhættumati Ríkislögreglustjóra kemur m.a. fram að heildaryfirsýn yfir almannaheillafélög skortir, þ.e. um skráningu þeirra, tilgang, starfsemi, hverjir eru í fyrirsvari fyrir þau og hvort þau starfa yfir landamæri í ríkjum sem teljast áhættusöm eða nágrannaríkjum þeirra.
    Niðurstaða Ríkislögreglustjóra er að veruleg hætta sé fyrir hendi á að félagaformið verði misnotað í þágu brotastarfsemi, þar með talið í því skyni að þvætta ólögmætan ávinning. Hvað fjármögnun hryðjuverka varðar er það niðurstaða Ríkislögreglustjóra að fyrir hendi séu ákveðnir veikleikar þegar kemur að almannaheillafélögum. Sérstaklega er tiltekið í áhættumatinu að ekkert eftirlit sé með slíkum félögum og þau hafi ekki fengið almenna fræðslu um með hvaða hætti þau geta varnað því að starfsemi þeirra sé misnotuð til að fjármagna hryðjuverk. Í áhættumatinu kemur einnig fram að þekkingu skorti hjá yfirvöldum um málaflokkinn og samstarf milli stofnana er lítið. Þá liggi fyrir að engin greining hafi farið fram á þeim almannaheillafélögum sem starfa yfir landamæri, þ.e. hverjir standa þeim félögum að baki, hvernig fjárreiðum og reikningsskilum þeirra er háttað, hvort og með hvaða hætti þau flytja fjármuni yfir landamæri og þá í hvaða mæli, til hvaða ríkja og hvort þau kanni áreiðanleika viðtakanda fjármuna o.s.frv.
    Í áhættumatinu er einnig nefnt að FATF telji almannaheillafélög sérstaklega viðkvæm fyrir misnotkun í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og að ákveðnar skyldur hvíli á aðildarríkjum FATF til að fyrirbyggja slíkt. Í áhættumatinu er tekið mið af framangreindum sjónarmiðum og því hafi þessir veikleikar meira vægi við mat á fjármögnun hryðjuverka en peningaþvætti. Þá segir í áhættumatinu að þrátt fyrir þessa veikleika þá séu engin dæmi hér á landi um fjármögnun hryðjuverka eða tengsl við slíka háttsemi erlendis og því sé áhætta af fjármögnun hryðjuverka hér á landi talin vera lítil eða í meðallagi.
    Til að bregðast við niðurstöðum áhættumats Ríkislögreglustjóra og uppfylla tilmæli FATF, sér í lagi tilmæli nr. 8 um almannaheillafélög og að teknu tilliti til þess að aðgerðir eigi að vera áhættumiðaðar samkvæmt tilmælum nr. 1 er kveðið á um skráningarskyldu þeirra félaga sem talin eru í mestri hættu á að vera misnotuð en það eru félög sem hafa að yfirlýstu markmiði að safna eða útdeila fjármunum í almannaþágu og hafa starfsemi yfir landamæri.
    Með frumvarpinu er lagt til að félög til almannaheilla sem safna eða útdeila fjármunum í almannaþágu og eru með starfsemi yfir landamæri verði skráð í fyrirtækjaskrá sem ríkisskattstjóri starfrækir og að haldin verði aðgreinanleg skrá um framangreind félög. Um skyldu til skráningar verður að ræða hjá þeim félögum sem falla undir gildissvið frumvarpsins. Gildissviðið er takmarkað við þau félög sem falla undir skilgreiningu FATF á almannaheillafélögum en sú skilgreining tekur til lögaðila eða sambærilegra aðila eða samtaka sem hafa þann megintilgang að safna eða útdeila fjármunum í almannaþágu, svo sem til líknarmála, trúmála, menningarmála, menntamála, félagsmála eða annarra góðgerðarmála. Við afmörkun gildissviðs er einnig horft til þess að aðgerðir aðildarríkja FATF eiga að vera áhættumiðaðar og því er kveðið á um skráningarskyldu þeirra félaga sem falla undir framangreinda skilgreiningu FATF og talin eru í mestri hættu á að vera misnotuð en það eru félög sem safna eða útdeila fjármunum í almannaþágu og hafa starfsemi yfir landamæri. Í þessu samhengi er rétt að taka fram að þegar eru í gildi lög um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög, nr. 108/1999, og lög um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988. Framangreind félög eru nú þegar skráningarskyld á grundvelli tilvitnaðra laga og upplýsingar um þau varðveittar í aðgreindri skrá hjá fyrirtækjaskrá. Frumvarp þetta tekur því ekki til slíkra félaga.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í I. kafla frumvarpsins er að finna almenn ákvæði um gildissvið þess. Lagt er til að frumvarpið taki til félaga til almannaheilla sem stofnað er til eða starfrækt eru í þeim tilgangi að safna eða útdeila fjármunum í almannaþágu og eru með starfsemi yfir landamæri. Þannig byggist gildissviðið á tilmælum FATF nr. 8 um almannaheillafélög og nær til þeirra félaga sem talin eru viðkvæm fyrir misnotkun í tengslum við fjármögnun hryðjuverka.
    Í II. kafla er fjallað um stofnun félaga og er í kaflanum að finna ákvæði um kröfur til efnis stofnsamnings og samþykkta slíkra félaga.
    Í III. kafla er að finna ákvæði um félagsaðild og aðalfund. Í kaflanum er að finna ákvæði um félagsmenn og skrá yfir félagsmenn. Í III. kafla er einnig að finna ákvæði um aðalfundi og aðalfundarboð og hvaða ákvarðanir skuli taka á aðalfundi félags en m.a. er um að ræða ákvarðanir um breytingar á samþykktum félags, kosningu og brottvikningu stjórnar, stjórnarmanna, endurskoðenda, endurskoðunarfyrirtækja, skoðunarmanna eða trúnaðarmanna úr hópi félagsmanna, samþykkt ársreiknings og slit félags. Þá er í kaflanum að finna ákvæði um atkvæðisrétt félagsmanna.
    Í IV. kafla er fjallað um stjórnun félags en þar er að finna ákvæði um stjórn félags, ritun firma og vanhæfi. Einnig er í kaflanum að finna ákvæði um bókhald og gerð ársreiknings og endurskoðun eða yfirferð ársreiknings. Gert er ráð fyrir því að stjórn félags skuli skipuð fæst þremur mönnum og einum varamanni og er kveðið á um að stjórn og framkvæmdastjóri félags skuli vera lögráða. Fjallað er um hlutverk stjórnar og framkvæmdastjóra, sé hann ráðinn, sem og ákvörðunartöku stjórnar, ritun firma og í hvaða tilvikum stjórnarmenn eða starfsmenn félags eru vanhæfir til þátttöku í meðferð eða ákvörðunartöku í málum og bann við lánveitingum til stjórnar, endurskoðenda, endurskoðunarfyrirtækis, skoðunarmanna, trúnaðarmanna úr hópi félagsmanna eða framkvæmdastjóra félags. Þá er í kaflanum að finna ákvæði um bókhald og ársreikning félags þar sem kveðið er á um að félögum sé skylt að færa bókhald og semja ársreikning í samræmi við lög um bókhald og að félög skuli birta á vef sínum eða opinberlega með öðrum hætti ársreikning og, ef við á, samstæðureikning, ásamt skýrslu stjórnar, áritun endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækis eða undirritun skoðunarmanna eða trúnaðarmanna úr hópi félagsmanna.
    Í V. kafla er fjallað um slit félags og í VI. kafla er fjallað um slit félags með dómi.
    Í VII. kafla er fjallað um skráningu í almannaheillafélagaskrá sem fyrirtækjaskrá heldur. Lagt er til að ríkisskattstjóri skrái félög samkvæmt lögum þessum og haldi í því skyni sérstaka almannaheillafélagaskrá. Í kaflanum er að finna ákvæði um efni og meðferð tilkynninga til almannaheillafélagaskrár, hvort sem um er að ræða tilkynningar um stofnun félags eða tilkynningar um breytingar á því sem þegar hefur verið skráð í almannaheillafélagaskrá. Þá er í kaflanum að finna heimild fyrir ráðherra til að setja reglugerð um skráningu í almannaheillafélagaskrá, svo sem um gjaldtöku, en sambærilega heimild er að finna í hlutafélagalöggjöf og lögum um fyrirtækjaskrá.
    Í VIII. kafla er að finna ákvæði um viðurlög og í IX. kafla er að finna gildistökuákvæði og ákvæði um breytingu á öðrum lögum.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Ákvæði frumvarpsins samræmast stjórnarskrá Íslands en frelsi manna til að stofna og ganga í félög er verndað af 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Í frumvarpinu er ekki að finna takmarkanir á rétti manna til að stofna og ganga í félög en það hefur að geyma reglur um þau félagasamtök sem falla innan gildissviðs þess, þ.e. félög til almannaheilla sem stofnað er til eða starfrækt eru í þeim tilgangi að safna eða útdeila fjármunum í almannaþágu og eru með starfsemi yfir landamæri.
    Reglur frumvarpsins eru einnig í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar, t.d. EES-samninginn, en í því sambandi má nefna að Evrópusambandið hefur stefnt að setningu sérstakra reglna um frjáls félög og sjálfseignarstofnanir. Setning þeirra reglna hefur þó dregist af ýmsum ástæðum.
    Frumvarpið er í samræmi við kröfur FATF og þær skuldbindingar sem leiðir af þátttöku Íslands í FATF.

5. Samráð.
    Frumvarpið er unnið í samvinnu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og dómsmálaráðuneytis. Það hefur einnig verið kynnt ríkisskattstjóra og stýrihópi dómsmálaráðherra um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

6. Mat á áhrifum.
    Lagt er til að sett verði lög um skráningarskyldu félaga til almannaheilla sem safna eða útdeila fjármunum í almannaþágu og eru með starfsemi yfir landamæri. Hér á landi er ekki í gildi sérstök löggjöf um frjáls félagasamtök almennt eða félagasamtök. Þó er víða að finna í lögum ákvæði sem varða einstaka þætti í starfsemi frjálsra félagasamtaka almennt eins og t.d. í skattalögum, lögum um bókhald og firmalögum.
    Lagt er til að félög til almannaheilla sem safna eða útdeila fjármunum í almannaþágu og eru með starfsemi yfir landamæri verði aðgreind frá öðrum félagasamtökum og að settar verði reglur um stofnun slíkra félaga, meginefni samþykkta, stjórnun þeirra og skráningarskyldu. Gert er ráð fyrir að fjöldi félaga sem falla undir lögin sé á bilinu 260–270 en ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort einhver þessara félaga eru hætt starfsemi. Lagt er til að þau félög sem hér falla undir verði skráð í almannaheillafélagaskrá sem ríkisskattstjóri haldi og taki við nýskráningum þeirra, breytingum á skráningu og tilkynningum um slit, auk þess að hafa heimild til afskráningar.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir kostnaðaráhrifum í upphafi þegar verið er að ná til þessara félaga en sá kostnaður er talinn óverulegur og rúmast innan útgjaldaramma stofnunar.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í 1. gr. er að finna ákvæði um gildissvið en það takmarkast við félög til almannaheilla sem hafa að markmiði að safna eða útdeila fjármunum í almannaþágu og eru með starfsemi yfir landamæri. Hér er átt við félög sem stofnuð eða starfrækt eru í framangreindum tilgangi. Afmörkun gildissviðsins byggist á skilgreiningu FATF um almannaheillafélög en skilgreining er svohljóðandi: „NPO refers to a legal person or arrangement or organisation that primarily engages in raising or disbursing funds for purposes such as charitable, religious, cultural, educational, social or fraternal purposes.“ Þannig tekur skilgreining FATF til lögaðila eða sambærilegra aðila eða samtaka sem hafa þann megintilgang að safna eða útdeila fjármunum í almannaþágu, svo sem til líknarmála, trúmála, menningarmála, menntamála, félagsmála eða annarra góðgerðarmála. Við afmörkun gildissviðs frumvarpsins er einnig horft til þess að aðgerðir aðildarríkja FATF eiga að vera áhættumiðaðar og því er kveðið á um skráningarskyldu þeirra félaga sem falla undir framangreinda skilgreiningu FATF og talin eru í mestri hættu á að vera misnotuð en það eru félög sem safna eða útdeila fjármunum í almannaþágu og hafa starfsemi yfir landamæri. Þannig er lögð áhersla á það í samræmi við niðurstöður áhættumats Ríkislögreglustjóra um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka að undir gildissviðið falla eingöngu þau félög sem eru með starfsemi yfir landamæri, þ.e. félög sem stofnuð og starfrækt eru á Íslandi og eru jafnframt með starfsemi erlendis. Hvað starfsemi yfir landamæri varðar þá er ekki eingöngu um að ræða fjármagnsflutninga milli landa heldur einnig aðra starfsemi þessara félaga erlendis þar sem unnt væri m.a. að misnota aðstöðu þeirra.
    Í þessu sambandi er rétt að taka fram að þegar eru í gildi lög um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög, nr. 108/1999, og sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988. Slík félög eru skráð í fyrirtækjaskrá og er haldin aðgreinanleg skrá innan fyrirtækjaskrár um þau.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að skylt sé að skrá félaga til almannaheilla sem safnar eða útdeilir fjármunum í almannaþágu og er með starfsemi yfir landamæri í almannaheillafélagaskrá sem ríkisskattstjóri starfræki. Mikilvægt er að haldin skal aðgreinanleg skrá um þau félög sem falla undir gildissvið þessa frumvarps.

Um 2. gr.

    Í fyrri málsgrein ákvæðisins er mælt fyrir um að félag samkvæmt frumvarpinu geti rekið atvinnustarfsemi sem getið sé í samþykktum þess, leiða megi af markmiðum félagsins eða hafi aðeins óverulega fjárhagslega þýðingu. Hér er átt við atvinnustarfsemi sem rekin er til eflingar og styrktar tilgangi félagsins og ágóðinn rennur til þess. Þá getur félagið einnig rekið starfsemi sem getur verið til hjálpar meginstarfsemi, t.d. rekstur húsnæðis fyrir skrifstofur samtakanna. Almennt mun þó atvinnurekstur ekki vera ráðandi þáttur í starfsemi félags, enda yrði þá litið svo á að um almennt atvinnurekstrarfélag væri þá að ræða sem ætti þá sem slíkt betur heima undir hlutafélagalöggjöfinni.
    Í síðari málsgrein ákvæðisins er mælt fyrir um almenna ábyrgð þátttakenda á skuldbindingum félagsins, en ríkari ábyrgð kann að hvíla á stjórn og stjórnendum félags samkvæmt almennum reglum.

Um 3. gr.

    Í 3. gr. er mælt fyrir um gerð stofnsamnings og að hann skuli liggja frammi á stofnfundi ásamt drögum að samþykktum fyrir félagið. Í stofnsamningi skulu koma fram nöfn, kennitölur og heimilisföng stofnenda félags og tilgangur félagsins. Þetta er gert til þess að þeir sem sækja stofnfundinn geti gert sér fulla grein fyrir því hvað þeir undirgangast með því að gerast stofnfélagar. Stofnsamningurinn er síðan dagsettur á fundinum og undirritaður af stofnendum félagsins. Almennt er gert ráð fyrir því að um opið félag sé að ræða, þ.e. öllum sem uppfylla skilyrði fyrir þátttöku sé heimil aðild að félaginu.

Um 4. gr.

    Í 4. gr. eru ákvæði um hvað skuli að lágmarki kveða á um í samþykktum félags. Í ákvæðinu er aðeins talið það sem verður að vera í samþykktunum eða sem verður að taka afstöðu til í þeim. Ákvæðið kemur ekki í veg fyrir að fjallað sé um önnur eða frekari atriði en þar er talið upp. Eitt af þeim atriðum sem tilgreina skal í samþykktum félags er kjörtímabil endurskoðanda, endurskoðunarfyrirtækis, skoðunarmanna eða trúnaðarmanna úr hópi félagsmanna. Þannig er gert ráð fyrir að kosinn sé annaðhvort endurskoðandi, endurskoðunarfyrirtæki, skoðunarmaður eða trúnaðarmaður úr hópi félagsmanna til að endurskoða eða yfirfara ársreikning félagsins. Í 10. gr. er nánar fjallað um hæfi og hlutverk slíkra aðila. Rétt er að taka fram að skoðunarmaður félags getur verið utanaðkomandi aðili, sem kosinn er til að yfirfara ársreikning, eða komi úr hópi félagsmanna en til þeirra er vísað í frumvarpinu sem trúnaðarmanna úr hópi félagsmanna. Er sú orðnotkun í samræmi við orðnotkun í 35. gr. laga um bókhald, nr. 145/1994, þar sem fjallað er um hæfi og hlutverk skoðunarmanna.

Um 5. gr.

    Í 5. gr. er að finna ákvæði um félagsaðild. Í 1. mgr. er mælt fyrir um að félagsmenn í félaginu geti verið hvort heldur sem er einstaklingar, félög, sjóðir eða sjálfseignarstofnanir. Ákvæðið felur í sér að félög sem falla undir lögin geti verið samsett eingöngu af einstaklingum eða verið samband fleiri félaga, sjóða og sjálfseignarstofnana. Einnig væri unnt að skipuleggja félag á þann hátt að einstaklingar, almenn félagasamtök, sjóðir og stofnanir ættu aðild að sama félaginu. Samþykktir slíkra félagasamtaka yrðu þá að taka mið af félagsaðild.
    Í 2. mgr. er að finna fyrirmæli um inngöngu í félagið. Þátttaka í félögum ætti að vera sem lýðræðislegust og ekki bundin við nema mjög almenn skilyrði.
    Í 3. mgr. er kveðið á um skyldu félaga til að halda félagaskrá en slík félagaskrá er nauðsynleg forsenda þess að félagið geti átt samskipti við félagsmenn sína, svo sem til boðunar á félagsfundi.

Um 6. gr.

    Í 6. gr. er að finna ákvæði um aðalfund og atkvæðisrétt félagsmanna.
    Í 1. mgr. er að finna fyrirmæli um aðalfundarboð og hvað slíkt fundarboð þarf að innihalda en gert er ráð fyrir að kveðið sé á um aðalfundarboð í samþykktum félags. Það er einkennandi fyrir frjáls félagasamtök að hver þátttakandi hefur eitt atkvæði. Aðalreglan er að félagsmaður verður að fara með atkvæði sitt sjálfur nema annað sé sérstaklega heimilað í samþykktum.
    Í 2. mgr. eru taldar upp þær ákvarðanir sem aðeins má taka á aðalfundi en hér er um að ræða grundvallarákvarðanir félagsins sem hafa áhrif bæði út á við og inn á við.

Um 7. gr.

    Í 7. gr. eru gerðar lágmarkskröfur um fjölda stjórnarmanna. Þar eru einnig taldar upp grundvallarskyldur þeirra. Sagt er fyrir um lágmarksfundarsókn á stjórnarfundum svo að fundurinn sé ákvörðunarbær og að einfaldur meiri hluti stjórnarmanna ráði úrslitum hafi annað ekki verið tekið fram í samþykktunum.
    Samkvæmt 4. mgr. er það stjórn félags sem kemur fram fyrir þess hönd en hafi framkvæmdastjóri verið ráðinn fer hann með stjórnun daglegs rekstrar í samræmi við stefnu stjórnar. Innan sinna valdmarka getur hann einnig komið fram fyrir hönd félagsins, sbr. 4. mgr. 7. gr. Daglegur rekstur tekur ekki til óvenjulegra og mikils háttar ráðstafana. Þær verður framkvæmdastjóri að bera undir stjórn. Í samþykktum má takmarka og skýra völd framkvæmdastjóra frekar. Eitt af mikilvægari verkefnum stjórnar er að hafa eftirlit með bókhaldi félagsins og að fjármunum þess sé ráðstafað á forsvaranlegan hátt og í samræmi við tilgang félagsins.
    Í 5. mgr. er kveðið á um að stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skuli vera lögráða, þ.e. að þeir þurfa að vera a.m.k. 18 ára, ekki sviptir lögræði og fjár síns ráðandi, þ.e. bú þeirra má ekki vera undir gjaldþrotaskiptum.
    Í 6. mgr. er kveðið á um að einungis stjórn geti veitt og afturkallað prókúruumboð en að öðru leyti gilda um prókúruumboð ákvæði laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð.

Um 8. gr.

    Í 8. gr. er boðið að stjórn riti firma félagsins en í samþykktunum má hins vegar mæla öðruvísi fyrir um þetta atriði. Hvernig það verður gert á annan hátt er tæmandi talið í ákvæðinu.

Um 9. gr.

    Í 9. gr. er mælt fyrir um hæfi stjórnarmanna og starfsmanna til meðferðar einstakra mála.
    Í 2. mgr. er að finna ákvæði þar sem reynt er að sporna við háum launum stjórnenda og annarra sem gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið.
    Þá er í 3. mgr. lagt bann við því að veita þeim aðilum sem nefndir eru í 2. mgr. og nánum vensluðum aðilum lán eða tryggingu. Þetta á þó ekki við um venjulega fyrirgreiðslu félags sem allir sem uppfylla ákveðin skilyrði eiga jafnan aðgang að, svo sem úthlutanir hjá hjálparstofnunum.

Um 10. gr.

    Í 1. mgr. segir að félögum þeim sem falla undir lögin sé skylt að færa bókhald og gera ársreikning í samræmi við lög um bókhald. Í 1. mgr. 1. gr. laga um bókhald, nr. 145/1994, eru taldir upp þeir aðilar sem eru bókhaldsskyldir en þar segir í 7. tölul. að hvers konar önnur félög en talin eru upp í 1.–6. tölul., sjóðir og stofnanir sem stunda atvinnurekstur eða hafa á hendi fjáröflun eða fjárvörslu séu bókhaldsskyld. Gera má ráð fyrir að þau félög sem skráningarskyld eru samkvæmt frumvarpi þessu falli þegar undir ákvæði 7. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um bókhald, nr. 145/1994. Þannig er ekki verið að leggja auknar skyldur á félög um færslu bókhalds og gerð ársreiknings heldur er hnykkt á því að þau félög sem lögin gilda um séu bókhaldsskyld og að ákvæði laga um bókhald gildi um bókhald þeirra og gerð ársreiknings. Einnig er lagt til að kveðið verði á um að stjórn félags og framkvæmdastjóri skuli semja ársreikning fyrir hvert reikningsár þannig að skýrt sé hvaða aðilar beri ábyrgð á að semja ársreikning í þeim félögum sem falla undir lögin. Í lögum um bókhald segir að ársreikningur skuli undirritaður af þeim sem ábyrgð bera á bókhaldinu, sbr. 5. gr. laganna, þ.e. stjórnendum þeirra félaga, sjóða og stofnana, sem um ræðir í 1.–7. tölul. 1. mgr. 1. gr., og þeim sem ábyrgð bera á starfsemi skv. 8. tölul. 1. mgr. 1. gr., sbr. og 2. mgr. 1. gr., þeir skulu sjá um og bera ábyrgð á að ákvæðum laga um bókhald og reglugerða samkvæmt þeim verði fullnægt.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að á aðalfundi skuli kosnir einn eða fleiri endurskoðendur, endurskoðunarfyrirtæki, skoðunarmenn eða trúnaðarmenn úr hópi félagsmanna til að yfirfara ársreikning félagsins. Um endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki gilda sérlög en í þeim lögum er m.a. að finna ákvæði um hæfi og störf endurskoðenda. Ákvæði um hæfi og störf skoðunarmanna og trúnaðarmanna úr hópi félagsmanna er að finna í lögum um bókhald. Lagt er til að hnykkt sé á því að lög um endurskoðendur og lög um bókhald gildi um hæfi og störf endurskoðenda, endurskoðunarfyrirtækja og skoðunarmanna og trúnaðar-manna úr hópi félagsmanna. Þá er lagt til að kveðið verði á um það að trúnaðarmenn sem kosnir eru úr hópi félagsmanna megi ekki sitja í stjórn félagsins eða gegna stjórnunarstörfum fyrir það. Þannig er undirstrikað mikilvægi þess að trúnaðarmenn úr hópi félagsmanna komi ekki að ákvörðunum um atriði sem upp eru talin í ákvæðinu, sem þeir aftur eiga að staðfesta að hafi verið í samræmi við ákvarðanir félagsfunda og ákvarðanir stjórnar.
    Lagt er til að í 3. mgr. verði kveðið á um það að hafi félag með höndum verulegan atvinnurekstur skuli þess gætt að fjárreiðum og reikningshaldi varðandi þann rekstur sé haldið frá öðru bókhaldi og eignum félagsins. Þá er lagt til að kveðið sé á um það að sé félag í tengslum við atvinnufyrirtæki samkvæmt samþykktum sínum eða samningi skuli þess getið í ársreikningi félagsins eða skýringum við hann.
    Í 4. mgr. er lagt til að ársreikningur skuli fullgerður og undirritaður eigi síðar en sex mánuðum eftir lok reikningsárs og er það í samræmi við ákvæði laga um bókhald. Einnig er lagt til að kveðið verði á um það að ársreikningur skuli lagður fram á aðalfundi félags til samþykktar.
    Í 5. mgr. er lagt til að eigi síðar en mánuði eftir að ársreikningur hefur verið samþykktur á aðalfundi skuli stjórn félagsins birta ársreikninginn og, ef við á, samstæðureikning, ásamt skýrslu stjórnar, áritun endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækis eða undirritun skoðunarmanna eða trúnaðarmanna úr hópi félagsmanna, á vef félagsins eða opinberlega með öðrum hætti, sem og upplýsingar um hvenær ársreikningur var samþykktur. Þrátt fyrir að ekki sé sérstaklega kveðið á um það í lögum um bókhald að ársreikningur sem saminn er samkvæmt ákvæðum laganna skuli innihalda skýrslu stjórnar þá verður að ætla að sú sé raunin. Í því sambandi er rétt að benda á að í ákvæði 34. gr. og 3. mgr. 35. gr. laga um bókhald er vísað er til þess að endurskoðandi og skoðunarmaður eigi að staðfesta að skýrsla stjórnar hafi að geyma þær upplýsingar sem þar ber að veita.
    Í 6. mgr. er áréttað að ákvæði laga um bókhald gildi um varðveislu bókhaldsgagna félags og ársreikning. Í 20. gr. laga um bókhald er kveðið á um það bókhaldsskyldum aðilum sé skylt að geyma bókhald sitt, bókhaldsfylgiskjöl og önnur bókhaldsgögn, þ.m.t. gögn sem varðveitt eru á tölvutæku formi, á örfilmu eða á annan sambærilegan hátt, í sjö ár frá lokum viðkomandi reikningsárs. Ársreikning skal þó ætíð varðveita í 25 ár.

Um V. kafla.

    Í kaflanum er fjallað um slit félags að ákvörðun félagsmanna. Séu uppi þær aðstæður sem kveðið er á um í 64. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21 /1991, þ.e. að félagið geti ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga og ekki verður talið sennilegt að greiðsluörðugleikar muni líða hjá innan skamms tíma hvílir sú skylda á stjórn að gefa félagið upp til gjaldþrotaskipta. Rétt er að vekja athygli á því að eftir að ákveðið er að slíta félagi, á hvaða hátt sem það verður gert, má ekki gera fjárhagslegar ráðstafanir af hálfu félagsins aðrar en þær sem nauðsynlegar eru vegna slitameðferðarinnar. Stjórnarmenn og skiptastjórar geta bakað sér skaðabótaábyrgð fari þeir ekki rétt með bú félagsins.

Um 11. gr.

    Hafi aðalfundur félags samþykkt að slíta því fer um meðferð slíkrar samþykktar skv. 19. gr. Stjórninni ber við þessar aðstæður að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru og geta m.a. ráðið skiptastjóra eða skiptastjórn til verksins. Hafi endanleg reikningsskil verið lögð fram á fundi þar sem slitin eru samþykkt og þar kemur fram að engar skuldir eru í félaginu er ekki þörf á slitameðferð.
    Í 2. mgr. greinarinnar eru heimildir skiptastjóra tíundaðar. Félaginu er slitið þegar slitameðferð er lokið og það er tilkynnt og félagið afskráð, sbr. 3. mgr. 19. gr.

Um 12. gr.

    Ákvæðið kveður á um með ítarlegum hætti við hvaða aðstæður og með hvaða hætti almannaheillafélagaskrá er heimilt að afskrá félög sem falla undir lögin.

Um VI. kafla.

    Í kaflanum er fjallað um slit félags með dómi og heimild dómstóla til að banna starfsemi félags til bráðabirgða. Skoða verður þessi ákvæði í ljósi 74. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi en samkvæmt því ákvæði má stofna félag í hverjum löglegum tilgangi. Það verður og ekki lagt niður með stjórnvaldsákvörðun nema til bráðabirgða sé talið að starfsemi þess sé ólögmæt. Í frumvarpinu eru gerðar ríkari kröfur að því leyti að starfsemi félags verður ekki bönnuð til bráðabirgða nema með dómsúrskurði. Ætla má að dómarar muni við úrlausnir sínar samkvæmt kaflanum líta til ákvæða mannréttindasáttmála Evrópu um félagafrelsi eins og þau hafa verið skýrð af Mannréttindadómstóli Evrópu, svo og munu ákvæði annarra sáttmála sem íslenska ríkið er aðili að verða höfð til hliðsjónar. Lagt yrði því aðeins bann við starfsemi félags í algjörum undantekningartilfellum. Gæta verður sjónarmiða um meðalhóf og beita því aðeins banni komi ekki önnur og vægari úrræði að gagni.
    Samkvæmt ákvæðum kaflans er það ráðherra sem fer með málefni ákæruvalds og dómstóla, ríkissaksóknari og félagsmenn sem geta gert kröfur samkvæmt ákvæðum 13. gr. Tillaga er gerð að þessari tilhögun að fyrirmynd finnskra laga um sama efni. Það verður þó að ætla að ráðherra haldi mjög að sér höndum og láti ríkissaksóknara um að fara með þessar heimildir stjórnvalda. Ríkissaksóknari mundi helst gera slíka kröfu í tengslum við aðra saksókn alvarlegs eðlis.

Um 13. gr.

    Í 13. gr. er heimilað að slíta félagi með dómi að undangenginni málsókn félagsmanna að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Heimild þessa ber í ljósi stjórnarskrárvarinna réttinda til félagafrelsis að nota í undantekningartilvikum og skýra verður skilyrðin sem upp eru talin í greininni þröngt.

Um 14. gr.

    Í 14. gr. er heimilað að uppfylltum ákveðnum skilyrðum að banna starfsemi félags til bráðabirgða.

Um 15. gr.

    Ákvæðið kveður á um málsmeðferð í tengslum við slit félags eða þegar starfsemi þess er bönnuð til bráðabirgða.

Um 16. gr.

    Í 16. gr. er mælt fyrir um að ríkisskattstjóri skrái félög sem falla undir gildissvið frumvarpsins í samræmi við lögin og lög um fyrirtækjaskrá og starfræki í því skyni almannaheillafélagaskrá. Gert er ráð fyrir að skráin sé opinber og aðgengileg almenningi. Þannig gilda ákvæði frumvarpsins og laga um fyrirtækjaskrá um skráningu félaga til almannaheilla sem stofnað er til eða starfrækt eru í þeim tilgangi að safna eða útdeila fjármunum í almannaþágu og eru með starfsemi yfir landamæri.

Um 17. gr.

    Í 17. gr. er kveðið á um tilhögun tilkynningar til almannaheillafélagaskrár, hvað þurfi að koma fram í tilkynningu til skrárinnar, hvaða fylgiskjöl eigi að fylgja og hverjir skuli undirrita tilkynninguna.

Um 18. gr.

    Í 18. gr. er kveðið á um meðferð almannaheillafélagaskrár á tilkynningu um stofnun og skráningu félaga. Þar eru upp talin þau grunnatriði sem skráin ber að kanna. Uppfylli tilkynning ekki þau skilyrði sem þar eru talin upp ber almannaheillafélagaskrá að hafna skráningu nema skráin telji að úrbóta verði við komið. Áhersla er lögð á að farið verði yfir tilkynningar eins fljótt og auðið er.

Um 19. gr.

    Í 19. gr. eru ákvæði um tilkynningar um breytingar á því sem þegar hefur verið skráð í almannaheillafélagaskrá. Breytingarnar taka gildi við skráningu. Meðferð þessara tilkynninga á að fylgja sama mynstri og tilkynningar um stofnun félaga sem falla undir frumvarpið.
    Í 3. mgr. er að finna ákvæði um að tilkynna skuli almannaheillafélagaskrá þegar félagi hefur verið slitið, sbr. V. kafla frumvarpsins, og skal skráin auglýsa slitin í Lögbirtingablaði.

Um 20. gr.

    Í 20. gr. er kveðið á um að ráðherra geti með reglugerð sett nánari ákvæði um innihald almannaheillafélagaskrár, verkferla og meðferð tilkynninga til hennar.

Um 21. gr.

    Í 21. gr. er mælt fyrir um refsingar og á ákvæðið sér að hluta til fyrirmynd í 127. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994, sbr. einnig 153. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995.
    Til brota samkvæmt ákvæði þessu er krafist ásetnings. Hins vegar þarf auðgunartilgangur ekki að vera fyrir hendi til þess að greinin eigi við. Væri auðgunartilgangur fyrir hendi mundi slíkt venjulega varða við ákvæði almennra hegningarlaga.

Um 22. gr.

    Í 22. gr. er lagt til að kveðið verði á um að það skuli varða þann sektum eða fangelsi allt að tveimur árum sem gerist sekur um tilgreindar athafnir er varða atkvæðagreiðslu á aðalfundi. Mikilvægt er fyrir heilbrigðan félagsrekstur að atkvæðagreiðslu sé ekki ólöglega raskað og ekki sé beitt ólögmætum áhrifum við framkvæmd hennar og miða ákvæði greinarinnar að því að koma í veg fyrir slíkt.

Um 23. gr.

    Lagt er til að lögin taki þegar gildi.

Um 24. gr.

    Í 2. gr. laga um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, er kveðið á um það hvaða fyrirtæki og aðila eigi að skrá í fyrirtækjaskrá. Lagt er til að skrá yfir félög sem falla undir frumvarp þetta verði bætt við þá upptalningu.
    Í 3. gr. laga um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, er að finna upptalningu á þeim skrám sem fyrirtækjaskrá er gert að halda. Lagt er til að skrá yfir félög sem falla undir frumvarp þetta verði bætt við þá upptalningu.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Í ákvæðinu er kveðið á um hvernig breyta skuli skráningu þeirra félaga sem falla undir frumvarpið í fyrirtækjaskrá úr því að vera almenn félagasamtök í það að vera félög til almannaheilla sem safna eða útdeila fjármunum í almannaþágu og eru með starfsemi yfir landamæri sem skráð eru í almannaheillafélagaskrá.