Ferill 170. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 205  —  170. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum (sala haldlagðra og kyrrsettra eigna og muna o.fl.).

Frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Minni hluti allsherjar- og menntamálanefndar telur að þingleg meðferð frumvarpsins hafi verið óviðunandi og telur sér því ekki fært að styðja frumvarpið. Á fundi nefndarinnar þar sem dómsmálaráðuneytið kynnti málið kom fram að ljóst hefði orðið að hraða þyrfti meðferð frumvarpsins hinn 1. september 2019. Minni hlutinn bendir hins vegar á að í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að í skýrslu aðgerðarhóps alþjóðlega fjármálaaðgerðarhópsins (Financial Action Task Force (FATF)) sem birt var í apríl 2018 hafi m.a. komið fram að tafarlausra og viðamikilla úrbóta á íslenskri löggjöf væri þörf. Orðrétt segir síðan í greinargerð: „Eitt af þeim atriðum sem gerðar voru athugasemdir við í úttekt FATF var að á Íslandi skorti reglur um hvernig eigi að meðhöndla muni og eignir sem hafa verið haldlagðar eða kyrrsettar af þar til bærum yfirvöldum.“ Því fær minni hlutinn ekki séð hvers vegna hafi ekki verið unnt að leggja málið fram fyrr í því skyni að veita því viðunandi þinglega meðferð.
    Þá vekur minni hlutinn athygli á að í greinargerð með frumvarpinu er umfjöllun um hvernig efni frumvarpsins samræmist stjórnarskrá, þ.e. ákvæðum um eignarrétt. Þar er að finna rökstuðning þess efnis að frumvarpið brjóti ekki í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Með hliðsjón af þeim nauma tíma sem nefndin fékk til að fjalla um málið telur minni hlutinn að ekki hafi verið tryggt með fullnægjandi hætti að frumvarpið samræmdist ákvæðum stjórnarskrár.
    Við meðferð málsins fékk nefndin á sinn fund sérfræðinga úr dómsmálaráðuneytinu auk þess sem héraðssaksóknari, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, ríkislögreglustjóri, ríkissaksóknari og tollstjóri voru inntir eftir afstöðu sinni til frumvarpsins. Framangreindir aðilar voru einhuga í afstöðu sinni um ágæti frumvarpsins en athygli vekur að allt eru þetta aðilar sem komu að gerð frumvarpsins. Minni hlutinn gagnrýnir að ekki hafi verið aflað afstöðu aðila sem gætu haft aðkomu að málinu frá öðru sjónarhorni, m.a. verjanda eða þeirra sem kynnu að verða fyrir haldlagningu, lögmætri eða ólögmætri.
    Að lokum telur minni hlutinn óásættanlegt að nefndir þingsins fái þingmál um mikilvæg málefni frá ríkisstjórninni til umfjöllunar með svo skömmum fyrirvara að ekki sé nægur tími til að tryggja viðunandi málsmeðferð.
    Með hliðsjón af framangreindu styður minni hluti nefndarinnar ekki framgang frumvarpsins að svo stöddu.

Alþingi, 8. október 2019.

Helgi Hrafn Gunnarsson. Margrét Tryggvadóttir.