Ferill 170. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 211  —  170. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum (sala haldlagðra og kyrrsettra eigna og muna).

(Eftir 2. umræðu, 9. október.)


1. gr.

    Á eftir 88. gr. laganna kemur ný grein, 88. gr. a, svohljóðandi:
    Ef ekki liggur fyrir samþykki eiganda er heimilt að fengnum úrskurði dómara að selja muni eða eignir sem lagt hefur verið hald á eða kyrrsettar í því skyni að tryggja upptöku þeirra eða greiðslu sektar, sakarkostnaðar og annarra krafna ef hætta er á að verðmæti þeirra rýrni á meðan á haldi eða kyrrsetningu stendur. Þegar um er að ræða kyrrsetta eign má í úrskurði jafnframt kveða á um skyldu eiganda eða vörsluhafa til að láta umráð hennar af hendi.
    Fjármunir sem fást við sölu muna eða eigna, sbr. 1. mgr., eða trygging sem lögð hefur verið fram í þeirra stað, teljast haldlagðir án frekari aðgerða.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um sölu muna og eigna sem hafa verið haldlagðar, kyrrsettar og gerðar upptækar, svo og meðhöndlun og vörslur þeirra að öðru leyti.

2. gr.

    Við 1. mgr. 192. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: sölu haldlagðra og kyrrsettra eigna og muna.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.