Ferill 204. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 217  — 204. mál.
Flutningsmaður.
Tillaga til þingsályktunar


um merkingar um kolefnisspor matvæla.


Flm.: Margrét Tryggvadóttir, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Björn Leví Gunnarsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Helga Vala Helgadóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Þorsteinn Víglundsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að hlutast til um að teknar verði upp merkingar um kolefnisspor matvæla með það að markmiði að auðvelda neytendum val á matvöru.
    Ráðherra leggi fyrir Alþingi lagafrumvarp þessa efnis eigi síðar en á haustþingi árið 2020.

Greinargerð.

    Loftslagsváin, þ.e. hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra, er eitt helsta úrlausnarefni samtímans. Sá vandi verður ekki leystur nema með samstilltu átaki með það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Kolefnisspor er heiti yfir mælikvarða sem er ætlað að sýna áhrif af t.d. framleiðslu vöru á loftslag með losun gróðurhúsalofttegunda, með því að gefa upp koltvísýringsígildi sem losna við framleiðsluna.
    Merkingar um kolefnisspor matvæla styðja við þá stefnu stjórnvalda að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Evrópusambandsins frá árinu 2016 nam liðurinn Matvara, drykkur og tóbak 6% af heildarkolefnisspori þegar flokkað var eftir vörum. Breytingar á mataræði eru því einn þeirra þátta sem geta dregið úr neikvæðum áhrifum á umhverfið. Þekkt er að margir reyna að haga neyslu sinni með þeim hætti að hún valdi umhverfinu sem minnstum skaða, t.d. með því að neyta ekki dýraafurða. Hins vegar eru áreiðanlegar upplýsingar um þá kolefnislosun sem framleiðsla tiltekinna matvæla veldur ekki aðgengilegar og er tillögunni ætlað að koma til móts við neytendur og auðvelda þeim val á matvörum út frá umhverfisáhrifum þeirra. Margir þættir í framleiðsluferli matvæla geta haft áhrif á kolefnisspor þeirra, en eru ekki augljósir neytendum. Má þar t.d. nefna notkun koldíoxíðs í ylrækt á Íslandi, sem stækkar kolefnisspor innlendra afurða á borð við tómata og agúrkur.
    Fordæmi eru fyrir merkingum um kolefnisspor matvæla erlendis. Fyrsta merkingin af þessu tagi kom fram í Bretlandi árið 2006 og kallast Carbon Reduction Label en til hennar var stofnað af breska félaginu Carbon Trust, sem er nú alþjóðleg samstæða, Carbon Trust Group. Á bak við Carbon Trust stóðu aðilar úr bresku viðskiptalífi og bresk stjórnvöld, en samstæðan starfar nú á heimsvísu.
    Í Bretlandi hafa einstakar verslanir tekið upp merkingar um kolefnisspor matvæla. Slíkar merkingar hafa einnig verið teknar upp í Sviss, þar sem sjálfstæður félagsskapur, Climatop, býður framleiðendum að merkja sérstaklega þær vörur sem eru með hlutfallslega lítið kolefnisspor miðað við aðrar sambærilegar vörur. Þá fyrirfinnast samræmdar merkingar á ýmsum vörutegundum, t.d. A+++ merking innan Evrópusambandsins á tilteknum raftækjum sem eiga að auðvelda neytendum að velja orkusparandi vörur.
    Hér á landi þekkja neytendur til að mynda Svansvottunina sem er opinbert norrænt umhverfismerki og Skráargatið sem ætlað er að auðvelda neytendum að velja hollari matvörur en ekki síður að hvetja framleiðendur til að þróa hollari vörur og stuðla þannig að meira framboði á hollum matvörum.
    Flutningsmenn tillögunnar telja nauðsynlegt að óháður vottunaraðili, en ekki framleiðendur sjálfir, beri ábyrgð á útreikningi á kolefnisspori vegna framleiðslu og flutnings þeirrar matvöru sem skal merkja, á grundvelli alþjóðlegra staðla. Framleiðendum og innflytjendum verði t.d. skylt að merkja matvörur með tilliti til losunar á hver 100 g af vöru og losun á hverja kkal.