Ferill 136. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 238  —  136. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Páli Jónssyni um rafræna byggingargátt.


     1.      Hvenær hófst vinna við gerð á rafrænni byggingargátt og úttektarappi hjá Mannvirkjastofnun?
    Samkvæmt upplýsingum frá Mannvirkjastofnun hófst vinna við þarfagreiningu vegna byggingargáttarinnar á árunum 2011–2012 með norrænum samstarfsaðilum frá Eistlandi og Svíþjóð. Árið 2012 hófst svo vinna við þróun á rafrænu gagnasafni Mannvirkjastofnunar um mannvirki og mannvirkjagerð, svonefndri byggingargátt. Árið 2015 var gerður samstarfssamningur við Hugvit um þjónustuvef Mannvirkjastofnunar (mínar síður) og árið 2017 var grunnurinn lagður að byggingargátt.
    Úttektarapp vegna byggingargáttar var unnið á árunum 2016–2017 og tekið í almenna notkun í ársbyrjun 2018.

     2.      Hvernig var ákvörðun tekin um smíði byggingargáttar annars vegar og úttektarapps hins vegar? Var efnt til útboðs og ef ekki, hvernig var ákvörðun tekin um samninga við birgja vegna verksins?
    Í samræmi við stefnu stjórnvalda um aukna rafræna stjórnsýslu sem og ákvæði laga um mannvirki, nr. 160/2010, um rafrænan gagnagrunn með upplýsingum um byggingarmál setti Mannvirkjastofnun á fót byggingargátt sem ætlað er að þjóna sem rafrænt gagnasafn um mannvirki og mannvirkjagerð um allt land, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 5. gr. og 61. gr. laga um mannvirki.
    Árið 2010, áður en Mannvirkjastofnun tók til starfa, efndi Brunamálastofnun til útboðs vegna gagnagrunns á rafmagnsöryggissviði, svonefndri rafmagnsöryggisgátt. Í því útboði barst hagstæðasta tilboðið frá hugbúnaðarfyrirtækinu Hugviti. Byggingargátt notar sömu grunnkerfi og rafmagnsöryggisgáttin og mikið af þeirri sérsmíði sem þegar hafði verið unnin vegna hennar. Í samráði við Ríkiskaup var ekki talið hagkvæmt að bjóða út byggingargáttina sérstaklega og nýta þar með ekki þær lausnir sem voru til staðar vegna uppbyggingar miðlægrar rafmagnsöryggisgáttar. Því voru gerðir viðaukar við útboðssamning Hugvits þegar vinna við byggingargátt hófst.
    Mannvirkjastofnun hefur átt í samstarfi við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins um smíði á úttektarforriti vegna brunavarna en það hefur verið notað af þjónustuaðilum brunavarna um nokkurt skeið. Ákveðið var að byggja úttektarapp Mannvirkjastofnunar á grunni úttektarforrits vegna brunavarna þar sem með því var hægt að minnka þróunarkostnað á úttektarappi Mannvirkjastofnunar til muna. Reynslan af innleiðingu úttektarforrits vegna brunavarna hefur einnig nýst mikið við innleiðingu úttektarapps Mannvirkjastofnunar.
    Úttektarapp Mannvirkjastofnunar er byggt á skoðunarlistum sem eru hluti skoðunarhandbóka Mannvirkjastofnunar. Úttektarappið er því rafræn útgáfa af skoðunarlistum sem skila rafrænum niðurstöðum til frekari greiningar.


     3.      Hverjir hafa verið aðkeyptir sérfræðingar af hálfu Mannvirkjastofnunar vegna byggingargáttar og úttektarapps?
    Við gerð byggingargáttar hafa starfað sérfræðingar frá Hugviti og fyrirtækinu Kjarnaráðgjöf. Þá var samið við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins um gerð úttektarapps Mannvirkjastofnunar.

     4.      Hver er heildarkostnaður Mannvirkjastofnunar af uppbyggingu byggingargáttar og úttektarapps árin 2011–2017?
    Kostnaður við uppbyggingu byggingargáttar á árunum 2011–2017 er 100.557.156 kr. og kostnaður við úttektarapp er 3.000.000 kr.

     5.      Er þróun byggingargáttar og úttektarapps lokið? Ef ekki, hver er áætlaður kostnaður við að ljúka smíðinni?
    Byggingargátt var tekin í almenna notkun í ársbyrjun 2018 og hófst þar með gagnasöfnun frá sveitarfélögum og úttektaraðilum vegna byggingarleyfisskyldra mannvirkja. Frá þeim tíma hefur verið unnið að viðhaldi kerfisins og við gerð viðbóta. Grunnsmíði byggingargáttar er að mestu lokið en eftir er vinna við tengingu við tryggingafélög og er áætlaður kostnaður við það um 6.200.000 kr. Upplýsingar úr byggingargátt gefa möguleika á ýmsum greiningum fyrir ríki, sveitarfélög og aðra aðila sem vinna að greiningum á byggingarsviði. Viðhald og þróun kerfisins tekur tillit til þessara þarfa í framtíðinni. Einnig munu laga- og reglugerðarbreytingar hafa mikil áhrif á þennan kostnað. Vegna þeirra miklu möguleika sem liggja í rafrænni stjórnsýslu á byggingarsviði er ekki hægt að segja til um hver lokakostnaður við kerfi sem þetta verður.