Ferill 133. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 241  —  133. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um fæðingar- og foreldraorlof.


    Fæðingarorlofssjóður er í vörslu Vinnumálastofnunar sem í umboði félags- og barnamálaráðherra, sbr. lög nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, annast greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra á innlendum vinnumarkaði annars vegar og greiðslu fæðingarstyrkja úr ríkissjóði til foreldra utan vinnumarkaðar eða í fullu námi hins vegar.
    Þegar skoðuð er nýting foreldra á rétti þeirra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrks, m.a. með tilliti til hámarks- og lágmarksgreiðslna, hafa tölulegar upplýsingar verið skoðaðar út frá því ári sem barn er fætt, ættleitt eða tekið í varanlegt fóstur en ekki greiðsluári. 1 Helgast sú framkvæmd af þeirri tímalengd sem foreldrar hafa til að nýta rétt sinn til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrks. Í ljósi framangreinds eru tölulegar upplýsingar í svari þessu um árin 2017, 2018 og 2019 bráðabirgðaupplýsingar. 2 Endanlegar upplýsingar um árið 2017 munu liggja fyrir um áramótin 2019/20, fyrir árið 2018 um áramótin 2020/21 og fyrir árið 2019 um áramótin 2021/22.

     1.      Hversu margir fengu greiðslur vegna fæðingarorlofs annars vegar og fæðingarstyrk hins vegar samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, á tímabilinu 1. janúar 2015 til 31. maí 2019? Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum eftir ári, kyni, tekjubili, meðaltímalengd orlofstöku og tegundum fæðingarstyrkja.

     Fæðingarorlof.
    Í töflu 1 má sjá heildarfjölda foreldra sem fengu greitt fæðingarorlof úr Fæðingarorlofssjóði frá byrjun árs 2015 til og með 31. maí 2019, skipt eftir kyni, tekjubilum og meðaltímalengd orlofstöku.
    Tekjubilin í töflu 1 sýna meðaltal heildarlauna foreldra fyrir töku fæðingarorlofs en greiðslur Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi reiknast síðan sem 80% af þeirri fjárhæð þó með þeirri takmörkun sem leiðir af hámarksgreiðslu skv. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof. Þá er foreldrum í 25–49% starfi tryggð lágmarksgreiðsla í fæðingarorlofi miðað við starfshlutfall sitt í samræmi 7. mgr. 13. gr. sömu laga.
    





Tafla 1.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Árið 2015 voru tekjuhóparnir 400.000–499.999 kr. og 500.000–749.999 kr. fjölmennastir hjá feðrum og fyrstu fimm mánuði ársins 2019 eru þessir sömu tekjuhópar enn fjölmennastir hjá feðrum. Hjá mæðrum voru tekjuhóparnir 200.000–299.999 kr. og 300.000–399.999 kr. aftur á móti fjölmennastir árið 2015 en fyrstu fimm mánuði ársins 2019 eru tekjuhóparnir 400.000–499.999 kr. og 500.000–749.999 kr. fjölmennastir hjá mæðrum líkt og hjá feðrum.
    Árið 2015 var meðaltímalengd orlofstöku lengst í tekjuhópunum 200.000–299.999 kr. og 400.000–499.999 kr. hjá feðrum og fyrstu fimm mánuði ársins 2019 er meðaltímalengd orlofstöku lengst í tekjuhópunum 100.000–199.999 kr. og 300.000–399.999 kr. hjá feðrum. Hjá mæðrum var meðaltímalengd orlofstöku aftur á móti lengst í tekjuhópunum 200.000– 299.999 kr. og 400.000–499.999 kr. árið 2015 en fyrstu fimm mánuði ársins 2019 er meðaltímalengd orlofstöku lengst í tekjuhópunum 500.000–749.999 kr. og 1.000.000 kr. og hærra hjá mæðrum.

     Fæðingarstyrkir.
    Í töflu 2 má sjá heildarfjölda foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi og heildarfjölda foreldra í fullu námi sem fengu greidda fæðingarstyrki úr ríkissjóði frá byrjun árs 2015 til og með 31. maí 2019 skipt eftir styrkfjárhæð, kyni og meðaltímalengd orlofstöku.

Tafla 2.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Árið 2015 þáðu 94 feður utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi fæðingarstyrk á meðan 342 mæður þáðu sama styrk. Fyrstu fimm mánuði ársins 2019 hafa 17 feður utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi þegið fæðingarstyrk og 104 mæður. Meðaltímalengd fæðingarstyrks til feðra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi var 90 dagar á árinu 2015 en 156 dagar hjá mæðrum. Fyrstu fimm mánuði ársins 2019 er meðaltímalengd fæðingarstyrks 100 dagar hjá feðrum utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi en 143 dagar hjá mæðrum.
    Árið 2015 þáðu 178 feður í fullu námi fæðingarstyrk á meðan 442 mæður þáðu sama styrk. Fyrstu fimm mánuði ársins 2019 hafa 34 feður í fullu námi þegið fæðingarstyrk og 96 mæður. Meðaltímalengd fæðingarstyrks til feðra í fullu námi var 103 dagar á árinu 2015 en 168 dagar hjá mæðrum. Fyrstu fimm mánuði ársins 2019 er meðaltímalengd fæðingarstyrks hjá feðrum í fullu námi 94 dagar en 161 dagur hjá mæðrum.

     2.      Hversu margir fengu hámarksgreiðslu í fæðingarorlofi, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, á framangreindu tímabili? Hversu margir urðu fyrir skerðingu vegna þaks á fæðingarorlofsgreiðslum? Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum eftir ári, meðaltímalengd orlofstöku og kyni.
    Af 3. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof leiðir að greiðsla til foreldris í fæðingarorlofi getur ekki orðið hærri en sem nemur tiltekinni fjárhæð á mánuði. Hefur slík fjárhæð verið kölluð hámarksfjárhæð eða þak á greiðslur. Í töflu 3 má sjá þróun hámarks- og lágmarksgreiðslna í fæðingarorlofi og fjárhæða fæðingarstyrkja á tímabilinu 2015–2019.

Tafla 3.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Í töflu 4 má sjá heildarfjölda foreldra sem fengu hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði skv. 3. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof frá byrjun árs 2015 til og með 31. maí 2019, skipt eftir ári, hámarksfjárhæðum, meðaltímalengd orlofstöku og kyni.

Tafla 4.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


         Árið 2015 fengu 1.344 feður hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi á meðan 676 mæður fengu hámarksgreiðslur. Alls hafa 292 feður fengið hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi á meðan 136 mæður hafa fengið hámarksgreiðslur fyrstu fimm mánuði ársins 2019. Árið 2015 var meðaltímalengd orlofstöku feðra sem fengu hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi 82 dagar en 176 dagar hjá mæðrum. Meðaltímalengd orlofstöku feðra sem hafa fengið skertar greiðslur er 72 dagar en 179 dagar hjá mæðrum fyrstu fimm mánuði ársins 2019.

     3.      Hversu langt fæðingarorlof að meðaltali tóku mæður annars vegar og feður hins vegar á framangreindu tímabili? Hversu margir fullnýttu rétt til fæðingarorlofs og hvernig skiptust sameiginlegu mánuðirnir þrír milli foreldra? Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum eftir ári, kyni, tekjubili og tegundum fæðingarstyrkja.
    Í töflu 1 í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar má sjá meðaltímalengd fæðingarorlofs foreldra skipt eftir ári, kyni og tekjubilum og í töflu 2 í svari við sama tölulið má sjá meðaltímalengd fæðingarstyrkja skipt eftir styrkfjárhæðum, ári og kyni. Í töflu 5 má sjá hversu margir foreldrar fullnýttu rétt sinn til fæðingarorlofs á tímabilinu skipt eftir ári, kyni og tekjubilum.

Tafla 5.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Árið 2015 voru tekjuhóparnir 400.000–499.999 kr. og 500.000–749.999 kr. fjölmennastir hjá feðrum sem fullnýttu rétt sinn til fæðingarorlofs en tekjuhóparnir 200.000–299.999 kr. og 300.000–399.999 kr. hjá mæðrum. Fyrstu fimm mánuði ársins 2019 eru tekjuhóparnir 400.000–499.999 kr. og 500.000–749.999 kr. fjölmennastir hjá feðrum og eru sömu tekjuhópar fjölmennastir hjá mæðrum.
    Í töflu 6 má sjá hversu margir foreldrar fullnýttu rétt sinn til fæðingarstyrks frá byrjun árs 2015 til og með 31. maí 2019 skipt eftir ári og kyni.

Tafla 6.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Árið 2015 fullnýttu 83 feður utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi fæðingarstyrk á meðan 338 mæður fullnýttu sama styrk. Fyrstu fimm mánuði ársins 2019 hafa 17 feður utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi fullnýtt fæðingarstyrk og 106 mæður hafa fullnýtt sama styrk.
    Árið 2015 fullnýttu 166 feður í fullu námi fæðingarstyrk á meðan 439 mæður í fullu námi fullnýttu sama styrk. Fyrstu fimm mánuði ársins 2019 hafa 35 feður í fullu námi fullnýtt fæðingarstyrk og á meðan 98 mæður í fullu námi hafa fullnýtt sama styrk.
    Í töflu 7 má sjá hvernig foreldrar skiptu með sér sameiginlegum rétti til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks frá byrjun árs 2015 til og með 31. maí 2019 skipt eftir ári, kyni, tekjubilum og tegundum fæðingarstyrkja. Foreldrar eiga sameiginlegan rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks í þrjá mánuði sem annað þeirra getur tekið í heild eða þau skipt með sér. Þannig getur annað foreldrið átt rétt til fæðingarorlofs á meðan hitt foreldrið á rétt til fæðingarstyrks. Mikilvægt er að hafa það í huga við lestur samtalna í töflu 7.

Tafla 7.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Af töflu 7 má sjá að vegna barna sem fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2015 tóku 246 feður sameiginlega réttinn í heild á meðan 3.488 mæður tóku réttinn í heild. Alls skiptu 115 foreldrar réttinum á milli sín þannig að 24 foreldrar skiptu honum jafnt en í 28 tilvikum tóku feður fleiri daga en mæður og í 63 tilvikum tóku mæður fleiri daga en feður.
    Vegna barna sem fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2016 tóku 199 feður sameiginlega réttinn í heild á meðan 3.406 mæður tóku réttinn í heild. Alls skiptu 156 foreldrar réttinum á milli sín þannig að 23 foreldrar skiptu honum jafnt en í 43 tilvikum tóku feður fleiri daga en mæður og í 90 tilvikum tóku mæður fleiri daga en feður.
    Vegna barna sem fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2017 hafa 256 feður tekið sameiginlega réttinn í heild á meðan 3.418 mæður hafa tekið réttinn í heild. Alls hafa 155 foreldrar skipt réttinum á milli sín þannig að 22 foreldrar hafa skipt honum jafnt en í 36 tilvikum hafa feður tekið meiri hluta daga og í 97 tilvikum hafa mæður tekið meiri hluta daga.
    Vegna barna sem fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2018 hafa 222 feður tekið sameiginlega réttinn í heild á meðan 3.566 mæður hafa tekið réttinn í heild. Alls hafa 133 foreldrar skipt réttinum á milli sín þannig að 14 foreldrar hafa skipt honum jafnt en í 34 tilvikum hafa feður tekið meiri hluta daga og í 85 tilvikum hafa mæður tekið meiri hluta daga.
    Vegna barna sem fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur fyrstu fimm mánuði ársins 2019 hafa 75 feður tekið sameiginlega réttinn í heild á meðan 1.424 mæður hafa tekið réttinn í heild. Alls hafa 45 foreldrar skipt réttinum á milli sín þannig að 10 foreldrar hafa skipt honum jafnt en í 5 tilvikum hafa feður tekið meiri hluta daga og í 30 tilvikum hafa mæður tekið meiri hluta daga.

     4.      Hversu margir dreifðu greiðslum vegna fæðingarorlofs yfir lengri tíma og hversu hátt hlutfall gerði það samhliða hlutastarfi á framangreindu tímabili? Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum eftir ári, kyni, tekjubili og tegundum fæðingarstyrkja.
    Með dreifðum greiðslum í fæðingarorlofi er átt við tímabil þar sem töku fæðingarorlofs og þar með greiðslum er dreift á lengri tíma samhliða hlutastarfi eða leyfi, hvort sem það er launað eða ólaunað. Þar undir falla þá ekki þau tilvik þar sem foreldrar hafa skipt fæðingarorlofi og þar með greiðslum á fleiri en eitt tímabil og þau tilvik þar sem fæðingarorlof er tekið samfellt.
    Hvað varðar fæðingarstyrki er meginreglan sú að óheimilt er að skipta greiðslutímabili þeirra yfir á fleiri en eitt tímabil nema í þeim tilvikum þegar foreldri er komið á vinnumarkað fyrir fæðingardag barns, ættleiðingu þess eða töku í varanlegt fóstur og hefur þannig öðlast rétt til fæðingarorlofs en uppfyllir ekki skilyrði til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og á því rétt á fæðingarstyrk.
    Í töflu 8 má sjá heildarfjölda foreldra sem dreifðu greiðslum í fæðingarorlofi yfir lengri tíma frá byrjun árs 2015 til og með 31. maí 2019 skipt eftir ári, kyni og tekjubilum. Ekki liggja fyrir sundurliðaðar upplýsingar um það hversu margir foreldrar dreifðu greiðslum í fæðingarorlofi samhliða hlutastarfi eða hversu margir foreldrar gerðu það ekki.

Tafla 8.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Árið 2015 voru tekjuhóparnir 400.000–499.999 kr. og 500.000–749.999 kr. fjölmennastir hjá feðrum sem dreifðu greiðslum í fæðingarorlofi en tekjuhóparnir 200.000–299.999 kr. og 300.000–399.999 kr. hjá mæðrum og fyrstu fimm mánuði ársins 2019 eru tekjuhóparnir 500.000–749.999 kr. og 750.000–1.000.000 kr. fjölmennastir hjá feðrum en tekjuhóparnir 400.000–499.999 kr. og 500.000–749.999 kr. hjá mæðrum.

     5.      Hversu margir tóku samfellt fæðingarorlof á framangreindu tímabili? Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum eftir ári, kyni, tekjubili og tegundum fæðingarstyrkja.
    Með samfelldu fæðingarorlofi er átt við tímabil þar sem töku fæðingarorlofs hefur ekki verið skipt niður á fleiri en eitt tímabil eða greiðslum dreift á lengri tíma samhliða hlutastarfi eða leyfi, hvort sem það er launað eða ólaunað.
    Í töflu 9 má sjá heildarfjölda foreldra sem tóku samfellt fæðingarorlof frá byrjun árs 2015 til og með 31. maí 2019 skipt eftir ári, kyni og tekjubilum.


Tafla 9.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Á árinu 2015 voru tekjuhóparnir 300.000–399.999 kr. og 500.000–749.999 kr. fjölmennastir hjá feðrum sem tóku fæðingarorlof samfellt en tekjuhóparnir 100.000–199.999 og 200.000– 299.999 kr. hjá mæðrum og fyrstu fimm mánuði ársins 2019 eru tekjuhóparnir 400.000–499.999 kr. og 500.000–749.999 kr. fjölmennastir hjá feðrum en tekjuhóparnir 300.000–399.999 og 400.000–499.999 kr. hjá mæðrum.
    Í töflu 10 má sjá heildarfjölda foreldra sem tóku fæðingarstyrki samfellt frá byrjun árs 2015 til og með 31. maí 2019 skipt eftir ári og kyni.

Tafla 10.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Árið 2015 tóku 89 feður utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi fæðingarstyrk samfellt á meðan 342 mæður tóku sama styrk samfellt. Fyrstu fimm mánuði ársins 2019 hafa 23 feður utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi tekið fæðingarstyrk samfellt og 181 móðir.
    Árið 2015 tóku 172 feður í fullu námi fæðingarstyrk samfellt á meðan 433 mæður tóku sama styrk samfellt. Fyrstu fimm mánuði ársins 2019 hafa 49 feður í fullu námi tekið fæðingarstyrk samfellt og 175 mæður.

     6.      Hversu margir foreldrar fengu hvorki greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði né greiddan fæðingarstyrk á framangreindu tímabili og hvað olli því? Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum eftir ári og kyni.
    Í töflu 11 má sjá heildarfjölda foreldra sem fengu ekki greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði né greidda fæðingarstyrki frá byrjun árs 2015 til og með 31. maí 2019 skipt eftir ári og kyni. Um er að ræða upplýsingar um heildarfjölda foreldra sem koma sjálfkrafa fram með foreldrum sem sækja um greiðslur úr Fæðingarorlofsjóði eða fæðingarstyrki þar sem hjúskapar- eða sambúðarstaða er skráð með þeim hætti hjá Þjóðskrá Íslands. Eins eru þetta foreldrar sem umsóknarforeldri hefur gefið upp á umsókn sinni sem hitt foreldri barnsins. Upplýsingar um hvað olli því að framangreindir aðilar fengu ekki greitt úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrki liggja ekki fyrir en samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun er algengasta ástæða þess að foreldri fær ekki greitt úr Fæðingarorlofssjóði eða greiddan fæðingarstyrk sú að það hefur einfaldlega ekki sótt um.

Tafla 11.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Á árinu 2015 komu 745 feður fram sem fengu ekki greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði eða greiddan fæðingarstyrk og 87 mæður og fyrstu fimm mánuði ársins 2019 hafa 412 feður komið fram sem hafa ekki fengið greiðslur en 61 móðir. Mikilvægt er hins vegar að hafa í huga að foreldrar hafa allt að 24 mánuði til að taka út réttindi sín og því munu tölur fyrir árið 2019 breytast mikið áður en þær verða endanlegar og þá sér í lagi hjá feðrum en þar hefur reynslan verið sú að þeir sækja oft um greiðslur þegar nokkuð er liðið frá fæðingu barnsins.

     7.      Hver hefði orðið kostnaður ríkisins af því að hækka lágmarksgreiðslur í ígildi lágmarkstekjutryggingar kjarasamninga á hverjum tíma á framangreindu tímabili? Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum eftir ári og kyni.
    Í ljósi þess mikla fjölda kjarasamninga sem er í gildi á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera þótti nauðsynlegt að afmarka svarið við ákveðna samninga. Ákveðið var að miða við byrjunarlaun skrifstofufólks samkvæmt kjarasamningum VR og SA á hverjum tíma.
    Í töflu 12 má sjá aukinn kostnað ríkisins af því ef allar lágmarksgreiðslur í fæðingarorlofi og greiðslur fæðingarstyrkja hefðu verið hækkaðar í ígildi byrjunarlauna skrifstofufólks samkvæmt kjarasamningi VR og SA frá byrjun árs 2015 til og með 31. maí 2019 skipt eftir ári og kyni.
Tafla 12.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Á árinu 2015 hefði kostnaður vegna feðra hækkað um tæplega 265 millj. kr. og tæplega 1,35 milljarð kr. hjá mæðrum eða alls rúmlega 1,6 milljarð kr. hefðu lágmarksgreiðslur í fæðingarorlofi og greiðslur fæðingarstyrkja verið hækkaðar upp í það sem nemur byrjunarlaunum skrifstofufólks samkvæmt kjarasamningi VR og SA. Fyrstu fimm mánuði ársins 2019 hefði kostnaður feðra hækkað um tæplega 70 millj. kr. og 487 millj. kr. hjá mæðrum eða alls rúmlega 557 millj. kr.

     8.      Foreldrar hversu margra barna, annaðhvort annað foreldri eða báðir, voru í fæðingarorlofi eða hlutu fæðingarstyrk samfellt fyrstu 3, 6, 9, 12, 15 og 18 mánuði af ævi barnsins á framangreindu tímabili? Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum eftir ári, tekjubili og tegundum fæðingarstyrkja.
    Í töflu 13 má sjá heildarfjölda foreldra sem tóku fæðingarorlof og/eða fæðingarstyrki samfellt skipt eftir lengd þeirra tímabila sem þeir tóku vegna barna sem fæddust í marsmánuði árin 2015, 2016 og 2017.

Tafla 13.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í mars 2015 tóku 10 foreldrar fæðingarorlof og/eða fæðingarstyrki samfellt í þrjá mánuði, 11 foreldrar í mars 2016 og 18 foreldrar í mars 2017. Í mars 2015 tóku 88 foreldrar fæðingarorlof og/eða fæðingarstyrki samfellt í sex mánuði, 78 foreldrar í mars 2016 og 87 foreldrar í mars 2017. Í mars 2015 tóku 35 foreldrar fæðingarorlof og/eða fæðingarstyrki samfellt í níu mánuði, 49 foreldrar í mars 2016 og 42 foreldrar í mars 2017.
    Rétt er að fram komi að upplýsingar í töflu 13 liggja ekki fyrir sundurliðaðar eftir tekjubilum. Við vinnslu fyrirspurnarinnar þótti nauðsynlegt að afmarka hana nánar við ákveðinn fæðingarmánuð. Var því miðað við fæðingarmánuðina mars 2015, 2016 og 2017 þar sem skoða þurfti hvert og eitt barn sérstaklega fyrir sig og handvinna upplýsingar um lengd þeirra tímabila sem foreldrar tóku samfellt með börnum sínum.

     9.      Hversu margir foreldrar nýttu rétt til foreldraorlofs á framangreindu tímabili? Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum eftir ári, kyni, tekjubili og meðaltímalengd orlofstöku.
    Ekki eru til opinberar upplýsingar um töku foreldraorlofs á Íslandi. Foreldraorlofi fylgir ekki réttur til greiðslu launa úr Fæðingarorlofssjóði og fer afgreiðsla foreldraorlofs ekki fram
hjá íslenskum stjórnvöldum, heldur milli starfsmanna og vinnuveitenda þeirra. Umbeðnar upplýsingar um nýtingu foreldraorlofs liggja því ekki fyrir.

1     Til hægðarauka er almennt talað um fæðingarár í töflum og texta.
2     Bráðabirgðaupplýsingar eru merktar með stjörnu í töflum sem fylgja svari þessu.