Ferill 230. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 248  —  230. mál.
Greinargerð.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 (ritfangakostnaður).

Flm.: Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Guðjón S. Brjánsson, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halldóra Mogensen.


1. gr.

    3. málsl. 1. mgr. 31. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarpið var lagt fram á 149. löggjafarþingi (661. mál) en hlaut ekki afgreiðslu og er nú lagt fram að nýju með uppfærðri greinargerð. Sambærilegt frumvarp var áður lagt fram á 146. löggjafarþingi (423. mál).

Markmið.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að fellt verði á brott ákvæði grunnskólalaga um að opinberum aðilum sé ekki skylt að leggja nemendum til gögn til persónulegra nota, svo sem ritföng og pappír.

Efnisatriði.
    Nokkur umræða hefur verið í samfélaginu um kostnaðarþátttöku foreldra vegna ritfanga og annarra gagna vegna skólagöngu barna. Velferðarvaktin og samtökin Barnaheill og Heimili og skóli hafa vakið athygli almennings og stjórnvalda á að þarna geti verið um umtalsverðar fjárhæðir að ræða fyrir fjölskyldur og farið er fram á að skólar afhendi börnum ritföng og pappír gjaldfrjálst. Barnaheill stofnuðu til sérstakrar undirskriftasöfnunar sumarið 2016 til að mótmæla gjaldtökunni þar sem samtökin töldu hana ekki samræmast ákvæðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um gjaldfrjálsa grunnmenntun.
    Í könnun Sambands íslenskra sveitarfélaga á kostnaði foreldra vegna ritfanga sem gerð var 2016 voru skoðaðir listar frá grunnskólum víða um land um nauðsynleg námsgögn. Niðurstaða könnunarinnar var að skólar gerðu mjög mismunandi kröfur um hvaða gögn nemendum bæri að koma með í skólann. Þar af leiðandi getur kostnaður verið mjög mismunandi milli sveitarfélaga og jafnvel umtalsverður á milli skóla í sama sveitarfélagi.
    Gera má ráð fyrir að þessi námskostnaður komi ekki síst illa við þær fjölskyldur sem standa höllum fæti í samfélaginu. Í hvatningu Velferðarvaktarinnar haustið 2016 kom fram að kostnaður við námsgögn fyrir barn í grunnskóla gæti verið á bilinu 400–22.000 kr. og að þessi kostnaður kæmi verst niður á efnaminni fjölskyldum. Sumarið 2017 var aftur gerð könnun á vegum Velferðarvaktarinnar og kom þar fram að 17 af 74 sveitarfélögum væru með enga kostnaðarþátttöku vegna skólagagna, svo sem ritfanga og pappírs, skólaárið 2016–2017, en að 41 af 74 sveitarfélögum væri með þá stefnu að hafa enga kostnaðarþátttöku fyrir skólaárið 2017–2018. Velferðarvaktin endurtók könnunina sumarið 2018 og kom þar fram að 66 af 72 sveitarfélögum hefðu þá stefnu að hafa gjaldfrjáls gögn skólaárið 2018–2019. Síðan könnunin var gerð hefur eitt sveitarfélag enn bæst í hóp þeirra. Í stöðuskýrslu Velferðarvaktarinnar fyrir árin 2017–2018 kemur fram að könnunin árið 2018 hafi leitt í ljós að flest sveitarfélög hafi ákveðið að afnema kostnaðarþátttöku grunnskólabarna vegna skólagagna.
    Samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga börn rétt á gjaldfrjálsri grunnmenntun. Þá er gjaldfrjáls grunnmenntun eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Engin ástæða er til að hafa heimild til undanþágu frá þessu í grunnskólalögum og því er lagt til að 3. málsl. 1. mgr. 31. gr. grunnskólalaga verði felldur brott. Yfirgnæfandi meiri hluti grunnskólabarna hérlendis fær nú námsgögn gjaldfrjálst og þykir því nauðsynlegt á grundvelli jafnræðissjónarmiða að öll grunnskólabörn fái námsgögn gjaldfrjálst óháð búsetu. Menntakerfið er eitt af öflugustu jöfnunartækjum samfélagsins og jafnrétti til menntunar er um leið ein af grundvallarforsendum fyrir jöfnuði allra barna.

Samráð.
    Við vinnslu þessa frumvarps var m.a. stuðst við bréf Velferðarvaktarinnar til sveitarfélaga um námsgagnakostnað og gögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um málið. Enn fremur voru nýttar ýmsar upplýsingar frá Barnaheillum og Heimili og skóla.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að það stangist á við stjórnarskrá og það leiðir til þess að staðið verði við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem felast í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um gjaldfrjálsa grunnmenntun.

Mat á áhrifum frumvarpsins.
    Grunnskólar eru reknir á vegum sveitarfélaganna og árið 2017 voru í þeim 45.195 börn. Samkvæmt könnun Velferðarvaktarinnar árið 2018 eru nú 67 af 72 sveitarfélögum með gjaldfrjáls námsgögn fyrir grunnskólanemendur. Jafnframt reka ekki öll þau sveitarfélög sem eftir standa grunnskóla skólaárið 2019–2020 auk þess sem þar býr aðeins um 1% landsmanna. Með tilliti til þess og að meiri hluti umræddra sveitarfélaga hefur þegar ákveðið að draga úr kostnaðarþátttöku grunnskólanema má ætla að heildarkostnaður frumvarpsins sé óverulegur fyrir þau sveitarfélög sem eftir standa.