Ferill 232. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 250  —  232. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um útgáfu á dómum og skjölum Yfirréttarins á Íslandi í tilefni af aldarafmæli Hæstaréttar.


Frá forsætisnefnd.


    Alþingi ályktar í tilefni af aldarafmæli Hæstaréttar 2020 að fela forseta þingsins að ganga til samstarfs við Þjóðskjalasafn Íslands og Sögufélag um útgáfu á dómum og skjölum Yfirréttarins á Íslandi. Alþingi samþykkir að styðja útgáfuna fjárhagslega um 10 millj. kr. árlega næstu 10 ár.

Greinargerð.

    Hæstiréttur Íslands verður 100 ára á næsta ári, 2020. Ýmist má miða afmælisdaginn við gildistöku laga um Hæstarétt Íslands 1. janúar 1920 eða fyrsta dómþing sem var haldið 16. febrúar 1920. Rétturinn er stofnaður á grundvelli sambandslaganna frá 1918, en samkvæmt þeim átti Ísland kost á því að taka til sín æðsta dómsvald landsins sem áður var hjá Hæstarétti Danmerkur í Kaupmannahöfn. Stofnun Hæstaréttar Íslands var ákveðin með lögum frá Alþingi nr. 22/1919.
    Eðlilegt er að Alþingi minnist aldarafmælis Hæstaréttar Íslands í ljósi þess hlutverks sem Alþingi hefur gegnt í dómstólasögu landsins, en frá upphafi Alþingis voru þar bæði samþykkt lög og kveðnir upp dómar og þegar frá leið urðu dómstörf aðalverkefni Alþingis. Í tilefni af afmælinu er gerð tillaga um að Alþingi styðji útgáfu á dómum og skjölum Yfirréttarins, sem var æðsti dómstóll landsins og starfaði á Alþingi á árunum 1563–1800. Með þeirri útgáfu fengist fyllri mynd af réttarsögu Íslands en nú er fyrir hendi. Dómar Hæstaréttar Íslands hafa verið gefnir út frá upphafi, frá 1920, og dóma Landsyfirréttar, sem var forveri Hæstaréttar Íslands 1800–1920, hefur Sögufélag gefið út. Þá hefur Sögufélag í samvinnu við Þjóðskjalasafn og með styrk frá Alþingi gefið út Alþingisbækur Íslands (1570–1800) sem eru að uppistöðu dómasafn Alþingis hins forna.
    Lengi hafa verið uppi fyrirætlanir um útgáfu á dómum og skjölum Yfirréttarins og hófust áætlanir um slíka útgáfu árið 1991. Það var þó ekki fyrr en árið 2011 sem fyrsta bindið af dómum Yfirréttarins kom út og stóð Alþingi fyrir þeirri útgáfu í samstarfi við Sögufélag og Þjóðskjalasafn. Vel færi á að ljúka því verki í tilefni af 100 ára afmæli Hæstaréttar með því að Alþingi styddi útgáfuna á næstu 10 árum. Með hliðsjón af aðkomu Þjóðskjalasafns og Sögufélags að útgáfu fyrsta bindis dóma og skjala Yfirréttarins 2011 er lagt til að forseti gangi til samninga við sömu aðila um áframhaldandi útgáfu á dómum Yfirréttarins.
    Mikil grunnvinna við uppskriftir á skjölum Yfirréttarins á Íslandi var unnin í tengslum við útgáfu fyrsta bindis af dómum og skjölum réttarins og nýtist í því verkefni sem felst í þessari tillögu. Fyrirhugað er að birta alla dóma og málsskjöl Yfirréttarins með sams konar hætti og lagt var upp með 2011. Sömu fræðilegu vinnubrögð verða því viðhöfð eins og við útgáfu fyrsta bindis skjalanna. Miðað er við að auk fyrsta bindisins verði gefin út átta bindi með dómum og skjölum, en tíunda bindi útgáfunnar verði helgað aukalögþingunum. Áætla má að af útgáfu annars bindis geti orðið árið 2021 eða 2022, ef vinna við undirbúning getur hafist á árinu 2020. Gert er ráð fyrir að útgáfunni verði lokið árið 2030. Hvert bindi yrði á að giska 500–700 síður.
    Eins og áður er rakið var Yfirrétturinn æðsti dómstóll á Íslandi frá 1563 og til aldamótaársins 1800. Hann var stofnaður á tíma þegar stjórnsýsla konungs var að byrja að mótast. Í konungsbréfi Friðriks II. kemur fram að vandi væri oft fyrir fátæka landsmenn að sækja rétt sinn til Danmerkur og því væri nauðsynlegt að koma á yfirdómi á Íslandi. Tilgangurinn var því að málum yrði vísað til hans fremur en til Kaupmannahafnar.
    Yfirrétturinn kom saman á Þingvelli fram til 1798. Síðustu tvö árin var hann haldinn í Hólavallarskóla í Reykjavík. Dómurinn var ýmist skipaður 6, 12 eða 24 dómurum. Lögmannsdómum mátti skjóta til Yfirréttarins. Öll mál sem Yfirrétturinn tók fyrir höfðu áður verið tekin til meðferðar hjá lögmönnum landsins og sýslumönnum á Alþingi. Dómstörfin fóru fram í Lögréttu. Útgáfa dómanna og málsskjalanna mun gera mönnum kleift að leita uppi og ráða í framhald þeirra mála sem dæmd voru í undirrétti og skráð eru í Alþingisbækur Íslands.
    Yfirrétturinn gegndi því hlutverki hæstaréttar á Íslandi þar til Landsyfirréttur var settur á laggirnar árið 1800. Samtímis voru bæði Alþingi og Yfirrétturinn lögð niður. Þá tók Hæstiréttur Danmerkur við sem æðsta dómstig í málefnum Íslands og sinnti því fram til 1920, þegar Hæstiréttur Íslands var stofnaður.
    Heimildagildi dóma og málsskjala Yfirréttarins er ótvírætt. Mest hefur þó varðveist af skjölum og dómabókum frá 18. öld. Átjánda öldin var tími mikilla breytinga í Íslandssögunni, hugmyndir um réttarfar breyttust og þar tókust á eldri lagahugmyndir Íslendinga og þeirra dönsku og norsku lögbóka sem innleiddar voru eftir að einveldi var tekið upp árið 1662. Það eru ekki aðeins dómarnir sem eru áhugaverðir fyrir bæði réttarsögu og almenna sögu Íslands á þessum tíma, heldur eru málsskjölin ómetanlegar heimildir um margt í íslensku þjóðlífi þessa tíma. Í málsskjölum er aðstæðum lýst og rök færð fyrir afstöðu réttarins í úrskurðum. Málsskjölin eru því auk þess að vera beinar heimildir um hugarfar, réttarfar og viðhorf einnig heimildir um aðstæður, stéttaskiptingu, samgöngur, búskaparhætti og margt fleira.
    Skjalasafn Yfirréttarins hefur ekki varðveist á einum stað, er ekki heildstætt og að hluta til er tilviljun hvað hefur varðveist. Æðsti embættismaður landsins bar ábyrgð á að kalla saman dóminn og því er megnið af skjölum Yfirréttarins í skjalasöfnum sem voru í umsjón höfuðsmanns, amtmanns og stiftamtmanns. Skjöl réttarins eru nú varðveitt í nokkrum skjalasöfnum, aðallega í Þjóðskjalasafni Íslands, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Handritasafni Landsbókasafns – Háskólabókasafns.