Ferill 142. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 264  —  142. mál.
2. umræða.Breytingartillaga


við frumvarp til laga um ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu.

Frá utanríkismálanefnd.


     1.      1. gr. orðist svo:
                  Heimilt er að staðfesta fyrir Íslands hönd samning um fyrirkomulag milli Íslands, Furstadæmisins Liechtensteins, konungsríkisins Noregs og Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands í kjölfar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og við lok aðildar þess að EES-samningnum og öðrum samningum sem gilda milli Bretlands og EFTA-ríkjanna innan EES í krafti aðildar Bretlands að Evrópusambandinu.
     2.      2. gr. orðist svo:
                  Heimilt er að staðfesta fyrir Íslands hönd samning sem undirritaður var 2. apríl 2019 í London um fyrirkomulag milli Íslands, Furstadæmisins Liechtensteins, konungsríkisins Noregs og Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands um réttindi borgara í kjölfar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og við lok aðildar þess að EES-samningnum.
     3.      Við 4. gr.
                  a.      Í stað orðanna „4. og 5. tölul.“ í 4. mgr. komi: 4., 5. og 7. tölul.
                  b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. kemur i-liður 1. tölul. og 3. efnismgr. 2. tölul. 5. gr. til framkvæmda við úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu án samningsins á grundvelli 50. gr. stofnsáttmála Evrópusambandsins og ef fyrir liggur staðfest pólitískt samkomulag milli Íslands og Bretlands um tímabundið fyrirkomulag varðandi fólksflutninga, sem mælir fyrir um gagnkvæm réttindi.
     4.      Við 5. gr.
                  a.      Í stað orðanna „skv. 2. tölul. 5. gr.“ í e-lið 1. tölul. komi: skv. 2. tölul. 3. gr.; og í stað orðanna „95. gr.“ í sama lið komi: 96. gr.
                  b.      Við 1. tölul. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: (XI.)
                     Ríkisborgarar Bretlands og aðstandendur þeirra sem koma hingað til lands eftir að Bretland gengur úr Evrópusambandinu og eiga ekki rétt á skráningu skv. XI. kafla og hyggjast dveljast hér á landi lengur en heimilt er skv. 49. gr. þurfa að hafa dvalarleyfi. Unnt er að sækja um leyfi samkvæmt ákvæði þessu til 31. desember 2020. Verði leyfið veitt gildir það til 31. desember 2023.
                     Heimilt er að veita ríkisborgara Bretlands eldri en 18 ára dvalarleyfi hér á landi fullnægi hann skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr.
                     Heimilt er að veita aðstandanda ríkisborgara Bretlands sem hefur dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu dvalarleyfi hér á landi í samræmi við 69. gr., sbr. 70. og 71. gr., fullnægi hann skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr.
                     Ríkisborgarar Bretlands sem sækja um dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu eru undanþegnir því að sækja um dvalarleyfi fyrir komu til landsins og þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 51. gr. er umsækjanda heimilt að dveljast á landinu meðan umsókn er í vinnslu. Hið sama á við um aðstandendur sem eiga rétt á dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu.
                     Um umsókn um dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu og útgáfu slíks dvalarleyfis gilda reglur 52. og 54. gr.
                     Útlendingastofnun er heimilt að afturkalla dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu á grundvelli 59. gr.
                     Heimilt er að fella niður dvalarleyfi í samræmi við 7. mgr. 57. gr.
                     Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu getur orðið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.
                     Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli og undanþágur frá skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð frekari afturköllunarheimildir, svo sem þegar leyfishafi samkvæmt ákvæði þessu er orðinn ósanngjörn byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar. Jafnframt er ráðherra heimilt að setja í reglugerð viðmið um hvenær leyfishafi telst vera orðinn ósanngjörn byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar. Þá er ráðherra heimilt að gera undanþágur frá ákvæði 7. mgr. 57. gr. og kveða á um það í reglugerð að leyfishafar samkvæmt ákvæði þessu geti dvalið lengur erlendis en þrjá mánuði. Ráðherra er jafnframt heimilt að veita undanþágur í reglugerð um hverjir teljast til aðstandenda í skilningi þessa ákvæðis.
                  c.      Við 2. tölul. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Ríkisborgarar Bretlands og aðstandendur þeirra eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi, enda sé þeim heimilt að dveljast hér á landi á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XI í lögum um útlendinga, nr. 80/2016, með síðari breytingum.
                  d.      Í stað orðsins „umbreytingartímabili“ í 1. og 2. efnismálsl. 3. tölul. komi: aðlögunartímabili.
                  e.      Í stað „3. mgr. 88. gr. og 2. tölul. 3. mgr. 115. gr.“ í b-lið 4. tölul. komi: og 3. mgr. 88. gr.
                  f.      Á eftir b-lið 4. tölul. komi nýr stafliður, svohljóðandi: Við 2. tölul. 3. mgr. 115. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama á við um viðskipti Englandsbanka og Lánasýslu Bretlands.
                  g.      Við bætist tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
                6.     Lög um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19/1966, með síðari breytingum: Við lögin bætist ný grein, 12. gr., svohljóðandi:
                         Útganga Bretlands úr Evrópusambandinu raskar ekki rétti þeirra sem fyrir útgöngu hafa eignast fasteign hér á landi samkvæmt heimild í 2. tölul. 4. mgr. 1. gr.
                7.     Lög um lögmenn, nr. 77/1998, með síðari breytingum: Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                         Þeim lögmönnum sem fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu hafa skráð sig hjá sýslumanni og veitt hér á landi lögmannsþjónustu undir starfsheitinu „advocate“, „barrister“ eða „solicitor“ er heimilt að starfa áfram sem slíkir og sækja um íslensk lögmannsréttindi samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 241/2018, um rétt lögmanna frá öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu til að veita þjónustu hér á landi, til ársloka 2020.