Ferill 122. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 283  —  122. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraða fjarskiptaneta.

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðbjörgu Sigurðardóttur, Ástríði Scheving Thorsteinsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og Hrafnkel V. Gíslason og Björn Geirsson frá Póst- og fjarskiptastofnun.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Samkeppniseftirlitinu, Byggðastofnun, Gagnaveitu Reykjavíkur ehf., Mílu ehf., Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja og Sýn hf.
    Með frumvarpinu er lagt til að samþykkt verði ný lög um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraðafjarskiptaneta en með lögunum er tilskipun 2014/61/ESB um ráðstafanir til að lækka kostnað við uppbyggingu á háhraða rafrænum fjarskiptanetum innleidd í íslenskan rétt.
    Frumvarpið var áður lagt fram á 149. löggjafarþingi (639. mál). Eina efnislega breytingin sem gerð var á frumvarpinu fyrir framlagningu þess að nýju varðar gildistöku þess.
    Nefndin fjallaði ítarlega um málið á því löggjafarþingi og tók á móti fjölda gesta, sbr. fylgiskjal. Athugasemdir umsagnaraðila lutu aðallega að skilgreiningu á hugtakinu efnislegt grunnvirki, þ.e. hvort rétt og/eða unnt væri að fella svartan ljósleiðara þar undir. Nefndin kallaði eftir frekari gögnum frá ráðuneytinu og óskaði sérstaklega eftir upplýsingum um hvort slík breyting á frumvarpinu rúmaðist innan þess svigrúms sem tilskipunin veitti aðildarríkjum til innleiðingar. Afstaða ráðuneytisins var skýr um að ekki væri rétt eða heimilt að útvíkka orðskýringuna á efnislegu grunnvirki þannig að hún nái yfir svartan ljósleiðara. Var í því efni m.a. vísað til þess að sérstaklega er tekið fram í 2. gr. tilskipunarinnar að svartur ljósleiðari falli ekki undir orðskýringuna á efnislegu grunnvirki. Megi því draga þá ályktun að EES-ríki séu bundin af því að innleiða orðskýringuna orðrétt í landsrétt með sömu takmörkunum þótt ríkjum kunni að vera heimilt að útvíkka hana til annarra óvirkra netþátta. Auk þess benti ráðuneytið á að útvíkkun orðskýringarinnar svo að hún næði yfir svartan ljósleiðara kynni að ganga gegn markmiðum fjarskiptakóðans svokallaða sem er nýtt regluverk ESB á fjarskiptasviðinu, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1972 um setningu evrópskra reglna um rafræn fjarskipti, en vinna er hafin við innleiðingu þeirrar tilskipunar í íslenskan rétt. Póst- og fjarskiptastofnun sendi nefndinni jafnframt minnisblað um efnið þar sem áréttað var að útvíkkun á orðskýringunni að þessu leyti mundi ganga gegn beinu orðalagi tilskipunarinnar, markmiði hennar og lögum ESB á sviði fjarskipta. Með hliðsjón af framangreindu telur nefndin rétt að frumvarpið verði samþykkt óbreytt að þessu leyti, þ.e. að svartur ljósleiðari verði ekki felldur undir orðskýringu hugtaksins efnislegt grunnvirki.
    Að því sögðu bendir nefndin á að á fundum nefndarinnar kom fram að það kynni að vera hagkvæmt að opna á frekari heimildir til samnýtingar svarts ljósleiðara en ólík sjónarmið voru uppi um hvort það gæti aukið eða hindrað samkeppni. Þá kom fram að margt benti til þess að nýsköpun í framboði á vörum og þjónustu í fjarskiptum á næstu árum yrði einkum í nýjungum í fastanetsþjónustu sem tengd er við ljósleiðara. Nefndin vill því beina því til ráðuneytisins að í vinnu við innleiðingu fjarskiptakóðans verði allt svigrúm til samnýtingar og samvinnu nýtt með hagkvæmni og samkeppnissjónarmið að leiðarljósi að gættum skilyrðum tilskipunarinnar.
    Nefndin telur ákvæði frumvarpsins til mikilla bóta en með þeim er stuðlað að frekari samnýtingu fyrirliggjandi innviða og samhæfingu framkvæmda sem leiðir til hraðari uppbyggingar háhraðafjarskiptaneta. Nefndin leggur til nokkrar breytingar sem eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 3. gr.
                  a.      Á eftir orðinu „um“ í 5. mgr. komi: lágmarksupplýsingar um.
                  b.      Á eftir orðunum „Aðgang skal“ í 2. málsl. 6. mgr. komi: ávallt.
     2.      Á eftir orðunum „Verða skal við“ í 2. mgr. 5. gr. komi: réttmætri.
     3.      Orðin „vegna aðgangs“ í 5. mgr. 7. gr. falli brott.
     4.      Á eftir orðunum „þar að lútandi vegna deilna“ í 1. málsl. 2. mgr. 10. gr. komi: um atriði.
     5.      Fyrirsögn 12. gr. verði: Dagsektir.
     6.      Fyrirsögn V. kafla verði: Dagsektir og önnur ákvæði.

    Ari Trausti Guðmundsson, Jón Gunnarsson og Vilhjálmur Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Björn Leví Gunnarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 15. október 2019.

Bergþór Ólason,
form.
Líneik Anna Sævarsdóttir, frsm. Ari Trausti Guðmundsson.
Guðjón S. Brjánsson. Hanna Katrín Friðriksson. Jón Gunnarsson.
Karl Gauti Hjaltason. Kolbeinn Óttarsson Proppé. Vilhjálmur Árnason.

Fylgiskjal.


Gestir á fundum nefndarinnar á 149. löggjafarþingi vegna 639. máls.


    Ástríður Scheving Thorsteinsson, Skúli Þór Gunnsteinsson og Ottó V. Winther frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.
    Ólafur Reynir Guðmundsson frá Ferðamálastofu.
    Óskar Sandholt frá Reykjavíkurborg.
    Jón Björn Hákonarson frá Fjarðabyggð.
    Halldór Sigurðsson, sérfræðingur í fjarskiptamálum.
    Baldur Dýrfjörð frá Samorku.
    Eiríkur Hauksson, Orri Hauksson og Erik Figueras frá Símanum ehf.
    Jón Ingi Ingimundarson, Erling Freyr Guðmundsson, Jóhann Sveinn Sigurleifsson og Hlynur Halldórsson frá Gagnaveitu Reykjavíkur.
    Þorvarður Sveinsson, Kjartan Briem og Páll Ásgrímsson frá Sýn hf.
    Jón Ríkharð Kristjánsson og Auður Inga Ingvarsdóttir frá Mílu ehf.
    Birgir Óli Einarsson og Steingrímur Ægisson frá Samkeppniseftirlitinu.