Ferill 262. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 284  —  262. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um hagkvæmnisathugun á uppbyggingu Skógarstrandarvegar.


Flm.: Sigurður Páll Jónsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Elvar Eyvindsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Þorgrímur Sigmundsson, Þorsteinn Sæmundsson.


    Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að hlutast til um að gerð verði fjölþætt hagkvæmnisathugun á uppbyggingu Skógarstrandarvegar á norðanverðu Snæfellsnesi, milli Búðardals og Stykkishólms, sem heilsársvegar. Athugunin taki til samfélagslegra og byggðarlegra áhrifa þess að efla þannig samgöngur á milli byggðarlaga á norðanverðu Snæfellsnesi, um Dali, í Reykhólasveit, um sunnanverða Vestfirði og norður á Strandir. Sérstaklega verði litið til styrkingar svæðisins sem eins atvinnu- og þjónustusvæðis, uppbyggingar ferðaþjónustu og vegaöryggis. Ráðherra leggi niðurstöður hagkvæmnisathugunarinnar fyrir Alþingi ásamt kostnaðaráætlun vegna uppbyggingarinnar í síðasta lagi 1. apríl 2020.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var áður lögð fram á 148. löggjafarþingi (169. mál) af Bjarna Jónssyni. Málinu var vísað til umhverfis- og samgöngunefndar sem sendi málið til umsagnar. Málið er nú endurflutt með lítillega breyttri greinargerð.
    Rannsókn sem gerð var á slysatíðni á vegum á árunum 2007–2010 undir stjórn Þórodds Bjarnasonar leiddi í ljós að Skógarstrandarvegur var einn þriggja hættulegustu vegarkafla landsins. Ekki er ástæða til að ætla að þetta hafi breyst til batnaðar þar sem fréttir af umferðaróhöppum á þessum vegi eru tíðar enda ástand hans bágborið og ljóst að hann stendur engan veginn undir þeirri umferð sem þar er né því hlutverki sínu að mynda greið tengsl milli byggðra bóla þar sem hann liggur.
    Viðhald og endurbætur á þessum vegi hafa nánast engar verið á undanförnum árum og áratugum og lítill gaumur verið gefinn að mikilvægi hans fyrir greið samskipti á milli byggðarlaga og eflingu ferðaþjónustu og viðskipta innan þessa svæðis. Allur vegurinn er á láglendi meðfram sjó og enga fjallvegi yfir að fara sem teppast fyrstir vegna veðurs og snjóalaga. Það yrði því fyrirhafnarlítið að halda uppbyggðum Skógarstrandarvegi opnum allt árið um kring.
    Í þingsályktun nr. 11/149, um samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033, kemur fram að kostnaður við framkvæmdir á Skógarstrandarvegi sé 1,5 milljarðar kr. en fyrst er gert ráð fyrir fjármagni í verkefnið á 2. tímabili áætlunarinnar, þ.e. 2024–2028. Á því tímabili fari 450 millj. kr. í framkvæmdir á veginum og 650 millj. kr. á 3. tímabili áætlunarinnar, 2029–2033. Ekki liggur fyrir hvenær áætlað er að verkinu verði lokið en ljóst er af samgönguáætlun að það verður í það minnsta ekki á næstu 15 árum. Slík bið eftir nauðsynlegum úrbótum á veginum er ótæk og mikilvægt að fjármögnun framkvæmdarinnar verði tryggð fyrr. Brýnt er að hafist verði handa sem fyrst við uppbyggingu Skógarstrandarvegar svo að hann verði ekki lengur slysagildra og fái gegnt samgönguhlutverki sínu. Með eflingu samgangna um norðanvert Snæfellsnes og innanverðan Breiðafjörð opnast nýir möguleikar til margvíslegs samstarfs og bættrar þjónustu, svo sem í heilbrigðis- og menntamálum. Eins og staðan er nú þurfa íbúar þessara byggðarlaga sem tengd verða saman með uppbyggðum heilsársvegi um Skógarströnd oftast að ferðast um langan veg til að komast á milli svæða, þótt vissulega sé hægt að komast um illfæran veginn hluta ársins.
    Þessar byggðir eiga sumar hverjar í vök að verjast í atvinnu- og byggðarlegu tilliti. Þegar horft er til aukinnar ferðaþjónustu er svæðið auðugt af fjölbreyttri náttúru, sögu og menningarhefðum sem gætu staðið undir uppbyggingu ferðaþjónustu ef greiðar samgöngur væru fyrir hendi. Þessari þingsályktunartillögu er ætlað að stuðla að því að uppbyggingu þessa mikilvæga samgöngumannvirkis verði komið í kring eins fljótt og unnt er. Það gerist ekki síst með því að skoða gaumgæfilega hve mikla þýðingu slíkar samgöngubætur munu hafa og draga fram sterkari forsendur fyrir því að hraða uppbyggingu þessara vega.