Ferill 276. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 305  —  276. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um sviðslistir.

Frá mennta- og menningarmálaráðherra.I. KAFLI

Markmið og yfirstjórn.

1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að efla íslenskar sviðslistir á landinu öllu, kveða á um fyrirkomulag sviðslista og búa þeim hagstæð skilyrði. Með sviðslistum er átt við leiklist, danslist, óperuflutning, brúðuleik og skylda liststarfsemi.
    Ráðherra fer með yfirstjórn sviðslistamála samkvæmt lögum þessum.

II. KAFLI

Þjóðleikhús.

2. gr.

Hlutverk.

    Þjóðleikhúsið er eign íslensku þjóðarinnar. Í því skal iðka leiklist og aðrar sviðslistir. Þjóðleikhúsið skal leitast við að glæða áhuga landsmanna á sviðslistum og stuðla að þróun þeirra og nýsköpun. Leikhúsið skal efla íslenska leikritun og vera til fyrirmyndar um listrænan flutning viðfangsefna á íslensku.

3. gr.

Helstu verkefni.

    Aðalverkefni Þjóðleikhússins er flutningur íslenskra og erlendra leikverka, jafnt eldri verka sem nýrra, og að stuðla að frumsköpun í íslenskum sviðslistum. Verkefnaval skal vera fjölbreytt og tryggt að á hverju leikári séu frumflutt íslensk leikverk og uppsett verk ætluð börnum og ungu fólki. Leikhúsið annast einnig fræðslu- og kynningarstarf og stendur að leikferðum.

4. gr.

Þjóðleikhússtjóri.

    Ráðherra skipar þjóðleikhússtjóra til fimm ára í senn að fenginni umsögn þjóðleikhúsráðs. Þjóðleikhússtjóri skal hafa háskólamenntun og staðgóða reynslu og þekkingu á sviðslistum og starfssviði leikhúss. Auglýsa skal embættið laust til umsóknar í lok hvers skipunartímabils. Skipa má þjóðleikhússtjóra að nýju til fimm ára en eigi oftar.
    Þjóðleikhússtjóri stýrir starfsemi og rekstri Þjóðleikhússins og markar listræna stefnu þess. Hann ræður aðra starfsmenn leikhússins og er í fyrirsvari fyrir það. Þjóðleikhússtjóri situr fundi þjóðleikhúsráðs.

5. gr.

Þjóðleikhúsráð.

    Ráðherra skipar fimm manna þjóðleikhúsráð til fimm ára í senn. Fagfélög sviðslistafólks tilnefna þrjá fulltrúa en ráðherra skipar tvo án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Ekki er heimilt að skipa sama aðalmann í þjóðleikhúsráð lengur en tvö samfelld starfstímabil.
    Þjóðleikhúsráð er stjórnarnefnd Þjóðleikhússins og skulu allar meiri háttar ákvarðanir um leikhúsreksturinn kynntar fyrir ráðinu. Ráðið setur sér starfsreglur, þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd starfa þess. Þjóðleikhúsráð vinnur með þjóðleikhússtjóra að langtímaáætlun um starfsemi Þjóðleikhússins. Stefna Þjóðleikhússins til þriggja ára og ársáætlun skulu lagðar fyrir þjóðleikhúsráð og ber ráðið ábyrgð á eftirliti með framkvæmd þeirra gagnvart ráðherra.

6. gr.

Samstarf.

    Þjóðleikhúsið skal kosta kapps um samstarf við stofnanir, félög og aðra sem sinna sviðslistum með listrænan ávinning og fjölbreytni að markmiði.
    Leikhúsið skal eftir föngum veita leikfélögum áhugamanna lið og gera sviðslistanemendum kleift að fylgjast með leikhússtarfinu. Leikhúsið stuðlar einnig að listuppeldi og fræðslustarfi í samvinnu við menntastofnanir og gerir nemendum og almenningi kleift að kynna sér starfsemi leikhússins eftir því sem við verður komið.

7. gr.

Nýting húsnæðis Þjóðleikhússins.

    Húsnæði Þjóðleikhússins má nota til hvers konar menningarstarfsemi þegar það er ekki notað til reglubundinnar starfsemi leikhússins samkvæmt lögum þessum.

8. gr.

Fjárhagur og gjaldtaka.

    Kostnaður af þjóðleikhúsráði og rekstri Þjóðleikhússins greiðist úr ríkissjóði. Þjóðleikhúsinu er heimilt að hafa tekjur af eigin starfsemi og taka aðgangseyri.

III. KAFLI

Íslenski dansflokkurinn.

9. gr.

Hlutverk.

    Íslenski dansflokkurinn skal í starfsemi sinni leitast við að glæða áhuga landsmanna á danslist og stuðla að þróun og nýsköpun. Hlutverk Íslenska dansflokksins er að sýna dansverk og vera vettvangur fyrir framþróun danslistar á Íslandi.

10. gr.

Helstu verkefni.

    Aðalverkefni Íslenska dansflokksins eru sýningar á íslenskum og erlendum dansverkum. Verkefnaval skal vera fjölbreytt og tryggt að á dagskrá hvers starfsárs séu íslensk dansverk. Dansflokkurinn annast einnig fræðslu- og kynningarstarf og stendur að sýningarferðum.

11. gr.

Listdansstjóri.

    Ráðherra skipar listdansstjóra til fimm ára í senn að fenginni umsögn listdansráðs. Listdansstjóri skal hafa háskólamenntun og staðgóða reynslu og þekkingu á danslist og starfssviði dansflokks. Auglýsa skal embættið laust til umsóknar í lok hvers skipunartímabils. Skipa má listdansstjóra að nýju til fimm ára en eigi oftar.
    Listdansstjóri stýrir starfsemi og rekstri Íslenska dansflokksins og markar listræna stefnu hans. Hann ræður aðra starfsmenn flokksins og er í fyrirsvari fyrir hann.

12. gr.

Listdansráð.

    Ráðherra skipar þriggja manna listdansráð Íslenska dansflokksins til fimm ára í senn. Fagfélög sviðslistafólks tilnefna tvo fulltrúa en ráðherra skipar einn án tilnefningar og skal hann vera formaður. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Ekki er heimilt að skipa sama aðalmann í ráðið lengur en tvö samfelld starfstímabil.
    Listdansráð hefur eftirlit með starfsemi Íslenska dansflokksins og veitir ráðherra reglulega umsögn um stefnu og áætlun hans. Ráðið setur sér starfsreglur.

13. gr.

Samstarf.

    Íslenski dansflokkurinn skal kosta kapps um samstarf við stofnanir, félög og aðra sem sinna danslist með listrænan ávinning og fjölbreytni að markmiði. Dansflokkurinn stuðlar að listuppeldi og fræðslustarfi í samvinnu við menntastofnanir og gerir nemendum og almenningi kleift að kynna sér starfsemi dansflokksins eftir því sem við verður komið.

14. gr.

Fjárhagur og gjaldtaka.

    Kostnaður af listdansráði og rekstri Íslenska dansflokksins greiðist úr ríkissjóði. Íslenska dansflokknum er heimilt að hafa tekjur af eigin starfsemi og taka aðgangseyri.

IV. KAFLI

Önnur sviðslistastarfsemi.

15. gr.

Sviðslistaráð.

    Ráðherra skipar þriggja manna sviðslistaráð til þriggja ára í senn. Sviðslistasamband Íslands tilnefnir tvo fulltrúa í ráðið en ráðherra skipar einn fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Óheimilt er að skipa sama aðalmann í sviðslistaráð lengur en tvö samfelld starfstímabil.

16. gr.

Hlutverk.

    Hlutverk sitt rækir sviðslistaráð meðal annars með því að:
     a.      veita umsögn um þau mál sem ráðherra vísar til þess,
     b.      gera tillögu til ráðherra um stefnu og helstu áherslur í starfi sviðslistasjóðs til þriggja ára í senn,
     c.      gera tillögu til ráðherra um úthlutunarreglur sviðslistasjóðs, og
     d.      úthluta árlega styrkjum úr sviðslistasjóði.

17. gr.

Sviðslistasjóður.

    Hlutverk sviðslistasjóðs er að efla íslenskar sviðslistir og kosta önnur verkefni sem falla undir hlutverk og starfsemi á sviði sviðslista. Sjóðurinn skiptist í tvær deildir, deild atvinnuhópa og deild áhugahópa í sviðslistum. Sviðslistaráð gerir tillögur til ráðherra um stefnu og helstu áherslur í starfi sjóðsins til þriggja ára.
    Ráðherra setur sviðslistasjóði reglur um auglýsingar, meðferð umsókna og afgreiðslu þeirra. Við mat á umsóknum úr sviðslistasjóði er sviðslistaráði heimilt að leita umsagnar fagaðila.
    Þóknun fulltrúa í sviðslistaráði og annar kostnaður af starfsemi ráðsins greiðist úr sviðslistasjóði. Ákvarðanir sviðslistaráðs eru endanlegar á stjórnsýslustigi og sæta ekki kæru til ráðherra.

18. gr.

Kynningarmiðstöð sviðslista.

    Ráðherra er heimilt að setja á fót kynningarmiðstöð sviðslista til að kynna íslenskar sviðslistir hér á landi og erlendis og efla alþjóðlegt samstarf íslenskra sviðslistamanna og stofnana.

19. gr.

Óperustarfsemi.

    Stuðla skal að því að glæða áhuga landsmanna á óperum og skapa grundvöll fyrir óperuflutningi. Í því skyni er ráðherra heimilt að styðja sérstaklega við óperustarfsemi og gera fyrir hönd ríkissjóðs tímabundinn samning við lögaðila um fjárstuðning.

20. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga í heild eða einstakra kafla þeirra, meðal annars um starfsemi Þjóðleikhússins, Íslenska dansflokksins og kynningarmiðstöðvar sviðslista.

21. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi taka gildi 1. júlí 2020. Samtímis falla brott leiklistarlög, nr. 138/1998, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

    Þrátt fyrir ákvæði 21. gr. er ráðherra heimilt að undirbúa gildistöku laga þessara fyrir 1. júlí 2020, meðal annars með því að óska eftir tilnefningum og skipa þjóðleikhúsráð, sbr. 5. gr., listdansráð, sbr. 12. gr., og sviðslistaráð, sbr. 15. gr.

II.

    Ákvæði 5. gr. reglna um starfsemi Íslenska dansflokksins, nr. 14/2002, um starfslok listdansara skulu tímabundið halda gildi sínu þrátt fyrir gildistöku laganna uns kveðið hefur verið á um starfslok listdansara í kjarasamningi stéttarfélags þeirra og ríkisins.

III.

    Ráðherra skal fyrir 1. júlí 2020 skipa nefnd sem falið verður að gera tillögur um stofnun þjóðaróperu. Nefndin skal skila ráðherra tillögum sínum eigi síðar en í árslok 2020.

Greinargerð.

    Með frumvarpinu er leitast við að lög um sviðslistir verði skýr, samræmd á milli listgreina og í samræmi við gildandi löggjöf.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í mennta- og menningarmálaráðuneyti. Það er byggt á frumvarpi til laga um sviðslistir sem lagt hefur verið fram á Alþingi í þrígang (þskj. 1049, 655. mál á 140. löggjafarþingi 2011–2012, þskj. 202, 199. mál á 141. löggjafarþingi 2012–2013 og þskj. 1261, 800. mál á 149. löggjafarþingi 2018–2019). Brýn þörf er á að skýra lagaramma um sviðslistir með heildarlögum líkt og hefur verið gert fyrir önnur listasvið.
    Núgildandi leiklistarlög eru nr. 138/1998. Frá gildistöku þeirra hefur lagaumhverfi á Íslandi gjörbreyst með tilkomu fjölmargra laga sem tekið hefur verið tillit til við samningu frumvarpsins. Sem dæmi má nefna lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018, og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018. Ekki var þó talin ástæða til að hafa jafnréttisákvæði í frumvarpinu, enda fellur sviðslistastarfsemi undir fyrrgreind lög. Höfð var hliðsjón af lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, og lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015, við útfærslu ákvæða um þjóðleikhúsráð, þjóðleikhússtjóra og listdansstjóra. Síðarnefndu lögin hafa einnig áhrif á heimild ríkisins til gerðar samninga um fjárstuðning við einkarekna sviðslistastarfsemi. Þá var litið til laga á öðrum sviðum lista sem fyrirmynda við gerð frumvarpsins.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Frá setningu leiklistarlaga, nr. 138/1998, hafa orðið breytingar sem kalla á endurskoðun þeirra. Nefna má að starfsumhverfi stofnana hefur breyst og ábyrgð stjórnenda er skýrari. Þá er brýnt að ein heildarlög nái yfir allar sviðslistir.
    Með frumvarpinu er leitast við að löggjöf um sviðslistir verði sambærileg löggjöf á sviði bókmennta, myndlistar og tónlistar. Á þeim sviðum eru skipaðar stjórnir eða ráð fyrir viðkomandi listgrein sem eru ráðherra til ráðgjafar um málefni hverrar greinar. Þá hafa einnig verið stofnaðir sjóðir til eflingar hverri listgrein með styrkveitingum og grundvöllur skapaður fyrir rekstur skrifstofu/miðstöðvar sem stendur að kynningu á listgreininni hér á landi og erlendis. Reynslan sýnir að þetta fyrirkomulag auðveldar stjórnsýslu, yfirsýn og samvinnu sjóðanna.
    Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að ákvæði um Íslenska dansflokkinn verði lögfest í fyrsta sinn. Frá stofnun hefur dansflokkurinn einungis starfað á grundvelli reglna sem ráðherra setti starfseminni, fyrst nr. 878/1999 (brottfallnar) og nú nr. 14/2002, með áorðnum breytingum.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið skiptist í fjóra kafla.
    Í I. kafla er kveðið á markmið laganna auk þess sem hugtakið sviðslistir er skilgreint.
    Í II. kafla eru ákvæði um Þjóðleikhúsið. Verði frumvarpið að lögum mun hlutverk þess að mestu leyti vera óbreytt. Nokkrar breytingar verða þó frá gildandi leiklistarlögum.
    Í fyrsta lagi má nefna að skv. 3. gr. verður megináhersla í starfsemi leikhússins á íslensk og erlend leikverk og að stuðla að frumsköpun í íslenskum sviðslistum.
    Samkvæmt leiklistarlögum eru aðalverkefni Þjóðleikhússins flutningur íslenskra og erlendra sjónleikja auk þess sem leikhúsið skal standa að flutningi á óperum, söngleikjum og listdanssýningum. Sú skylda er felld niður en Þjóðleikhúsi verður heimilt að standa að þannig sviðsetningum.
    Í öðru lagi eru gerðar breytingar á ákvæðum um skipun þjóðleikhússtjóra. Ríkari kröfur eru gerðar til menntunar auk þess sem mælt er fyrir um skipunartíma og mögulega endurskipun að fyrirmynd ákvæðis um safnstjóra Listasafns Íslands í myndlistarlögum, nr. 64/2012. Ætíð skal auglýsa embættið laust til umsóknar í lok hvers skipunartímabils.
    Í þriðja lagi er ákvæði um þjóðleikhúsráð breytt. Lagt er til að fagfélög sviðslistafólks tilnefni þrjá fulltrúa í þjóðleikhúsráð en í núgildandi lögum tilnefna Félag íslenskra leikara og Félag leikstjóra á Íslandi hvorn sinn fulltrúa í ráðið. Hlutverk ráðsins er lagað að lagaramma sem gildir um störf forstöðumanna og lögð áhersla á eftirlits- og ráðgjafarhlutverk ráðsins.
    Í fjórða lagi er lögð til sú breyting að ekki verði lengur kveðið á um innra starfsskipulag Þjóðleikhússins í reglugerð, sbr. 8. gr. leiklistarlaga, enda er stjórnun starfseminnar og skipulag, þ.e. innra starfsskipulag, í verkahring þjóðleikhússtjóra samkvæmt erindisbréfi og ákvæðum laga um opinber fjármál.
    Í fimmta lagi eru efnisákvæði 13. gr. leiklistarlaga ekki tekin upp í frumvarpið. Í sjötta og síðasta lagi eru ákvæði 12. gr. leiklistarlaga um kostnað af rekstri Þjóðleikhússins færð til samræmis við sambærileg ákvæði laga um aðrar listgreinar.
    Í III. kafla er fjallað um Íslenska dansflokkinn sem starfar samkvæmt sérstökum reglum um starfsemi hans. Uppbygging kaflans er hliðstæð kaflanum um Þjóðleikhúsið. Gert er ráð fyrir þriggja manna listdansráði eins og hefur verið hingað til og að fagfélög sviðslistafólks tilnefni tvo fulltrúa í ráðið.
    Lagt er til að III. og IV. kafla leiklistarlaga verði slegið saman í einn kafla í frumvarpinu sem verður IV. kafli. Í kaflanum er fjallað um aðra sviðslistastarfsemi en þá sem fellur undir ríkisaðila, þ.e. Þjóðleikhúsið og Íslenska dansflokkinn. Í þessum kafla eru einnig ákvæði um sviðslistaráð og sviðslistasjóð. Talsverðar breytingar eru frá ákvæðum leiklistarlaga hvað þennan kafla varðar enda hafa tekið gildi lög um opinber fjármál, nr. 123/2015. Í þeim má finna stoð fyrir samningagerð sem og fjárheimild ríkisins til stuðnings annarri sviðslistastarfsemi en ríkisaðila. Verði frumvarpið að lögum mun sviðslistaráð úthluta úr sviðslistasjóði. Lagt er til að sviðslistasjóður skiptist í tvær deildir, deild atvinnuhópa og deild áhugahópa í sviðslistum. Hlutverk sviðslistasjóðs verður samkvæmt frumvarpinu að veita fjárhagslegan stuðning til verkefna á sviði sviðslista til að efla þessa listgrein og koma á framfæri hér á landi og erlendis. Þá er í kaflanum kveðið á um sviðslistaráð sem mun taka við af leiklistarráði og auk þess heimild ráðherra til að fela þriðja aðila að annast kynningarmál á íslenskum sviðslistum hér á landi og erlendis og efla alþjóðlegt samstarf íslenskra sviðslistamanna og stofnana.
    Við samningu frumvarpsins var tekið mið af sáttmála ríkisstjórnarinnar en í honum kemur fram að landsmenn eigi að hafa jafnan aðgang að þjónustu og atvinnutækifærum. Aðgengi að menningu er mikilvægur þáttur þess og máli skiptir að allir landsmenn geti notið lista og menningar og tekið þátt í slíku starfi.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið hefur ekki gefið tilefni til sérstaks mats á samræmi þess við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Við fyrstu gerð frumvarpsins var haft samráð við helstu hagsmunaaðila auk þess sem drög að frumvarpinu voru höfð til almennrar kynningar á vef ráðuneytisins haustið 2011 þar sem kostur gafst á að senda athugasemdir eða ábendingar um efni þess. Þá var haft samráð við ýmsa hagsmunaaðila við áframhaldandi vinnslu frumvarpsins í ráðuneytinu og tekið tillit til margra athugasemda. Haldin var kynningarfundur með helstu hagsmunaaðilum 17. janúar 2018, þar sem þeim voru kynnt frumvarpsdrög og gefinn kostur á að koma athugasemdum til ráðuneytisins að þeim fundi lokum. Tvær skriflegar athugasemdir bárust og var tekið mið af þeim við lokafrágang frumvarpsins. Athugasemdirnar lutu að tilnefningaraðilum í þjóðleikhúsráð og listdansráð og var tekið tillit til þeirra. Í samræmi við 1. gr. samþykktar ríkisstjórnarinnar, dags. 10. mars 2017, hafa áform um lagasetningu og frummat á áhrifum verið kynnt á fundi ráðuneytisstjóra allra ráðuneyta og bárust engar athugasemdir. Í 3. gr. samþykktarinnar er kveðið á um opið samráð um áform til lagasetningar og í 9. gr. er mælt fyrir um opið samráð um frumvarpsdrög. Áform um lagasetningu voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda, dags. 27. september 2018, bárust alls sex umsagnir. Athugasemdirnar lutu að því hvernig styrkja mætti uppbyggingu á atvinnustarfsemi í sviðslistum utan stærstu þéttbýliskjarnanna, starfsemi sviðslistasjóðs og skipun í sviðslistaráð. Auk þess starfsemi Þjóðleikhússins, endurskipun þjóðleikhússtjóra og hlutverk þjóðleikhúsráðs auk stöðu óperustarfsemi á Íslandi. Frumvarpsdrög voru birt í samráðsgátt stjórnvalda, dags. 31. október 2018. Var frestur til að skila ábendingum í samráðsgáttinni lengdur til 27. nóvember 2018 að ósk hagsmunaaðila. Alls bárust tólf umsagnir. Flestir umsagnaraðilar fögnuðu fyrirhuguðu frumvarpi, sérstaklega var ánægja með að tilvist Íslenska dansflokksins yrði fest í lög. Íslenska óperan benti á að staða íslensku óperunnar væri veik í frumvarpsdrögunum og óskuðu eftir hún yrði tryggð til lengri tíma. Að auki bárust athugasemdir um starfsemi Þjóðleikhússins, endurskipun þjóðleikhússtjóra og starfsemi þjóðleikhúsráðs og hvort hlutverk þess ætti ekki fyrst og fremst að vera eftirlitshlutverk. Þá var hvatning um að stofna kynningarmiðstöð sviðslista. Ráðuneytið fékk til liðs við sig sérfræðing í sviðslistum sem undirbjó í samstarfi við ráðuneytið lokadrög frumvarpsins þar sem leitast var við að taka tillit til flestra athugasemda. Við undirbúning frumvarpsins hefur verið tekið tillit til athugasemda sem bárust til allsherjar- og menntamálanefndar Alþings við umfjöllun þess á 149. löggjafarþingi. Breytingarnar varða 4. gr. um hámark skipunartíma þjóðleikhússtjóra, 12. gr. um hlutverk listdansráðs, 13. gr. um samstarf Íslenska dansflokksins og reglugerðarheimild í 20. gr.

6. Mat á áhrifum.
    Meginmarkmið lagasetningarinnar er að laga starfsramma Þjóðleikhússins að ríkjandi starfssviði og setja lagastoð fyrir starfsemi Íslenska dansflokksins. Með þessari heildarendurskoðun er lagður skýrari lagagrundvöllur fyrir starfsemi sviðslista. Þá er jafnframt stefnt að því að skýra betur hlutverk forstöðumanna Þjóðleikhússins og Íslenska dansflokksins, auk þjóðleikhúsráðs og stjórnar Íslenska dansflokksins. Verði frumvarpið að lögum ætti það að fækka verkefnum mennta- og menningarmálaráðuneytis en auka þátt sviðslistaráðs. Sú breyting ætti þó að vera óveruleg. Umsýsla sviðslistasjóðs verður að öllu leyti utan mennta- og menningarmálaráðuneytis og ákvarðanir um styrkveitingar endanlegar á stjórnsýslusviði. Þær munu því ekki sæta kæru til ráðherra. Ráðuneytinu ætti þannig að gefast betra tóm til að sinna eftirlitshlutverki sínu. Ekki er gert ráð fyrir að breytingar sem snúa að Þjóðleikhúsinu og Íslenska dansflokknum kalli á aukin útgjöld. Hvað varðar kostnað sviðslistaráðs þá er gert ráð fyrir að hann verði greiddur af framlögum til sviðslistasjóðs og ætti því ekki að auka ríkisútgjöld nema tekin verði ákvörðun um aukin framlög til sviðslistasjóðs. Rétt er að benda á að gert er ráð fyrir heimild til að setja á fót sérstaka skrifstofu, kynningarmiðstöð. Rekstur slíkrar skrifstofu gæti kostað 20–30 millj. kr. á ári. Ef slík heimild verður nýtt má gera ráð fyrir að óskað verði eftir viðbótarframlagi eða millifærslu innan fjárlagaramma málefnasviðsins.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. mgr. er fjallað um markmið laganna sem er að efla íslenskar sviðslistir á landinu öllu. Markmið frumvarpsins er að marka heildarramma fyrir málefnasvið íslenskra sviðslista með því að kveða á um fyrirkomulag þeirra, efla þær og búa þeim hagstæð skilyrði. Lögin munu því taka til þeirrar sviðslistastarfsemi sem ríkið stendur fyrir eða styrkir um land allt.
    Í greininni eru sameinuð ákvæði 1. og 2. gr. leiklistarlaga. Þá er tilgreint að ráðherra fari með yfirstjórn sviðslistamála í stað leiklistarmála. Hugtakið vísar til breiðara sviðs þannig að allar sviðslistir, þ.e. leiklist, listdans, óperuflutningur, brúðuleikur og skyld listastarfsemi sem ekki heyrir undir lög um aðrar listgreinar falla hér undir.

Um 2. gr.

    Í greininni er hlutverk Þjóðleikhússins skilgreint. Þar eru felld saman ákvæði 3. og 4. gr. leiklistarlaga en efnislega eru þau að mestu óbreytt. Fallið er frá orðalagi leiklistarlaga um „meðferð íslenskrar tungu“ en þess í stað kemur orðalagið að „vera til fyrirmyndar um listrænan flutning viðfangsefna á íslensku“.

Um 3. gr.

    Í greininni eru helstu verkefni Þjóðleikhússins skilgreind. Meginverkefnið er að sýna íslensk og erlend leikverk, ný sem og eldri, og stuðla að frumsköpun í íslenskum sviðslistum. Þjóðleikhúsið hefur sem þjóðarleikhús ríkar skyldur við að kynna fjölbreytni í leikbókmenntum, íslenskum sem erlendum, yngri sem eldri. Miðla þarf menningararfinum og skapa grundvöll fyrir frumsköpun til að styrkja íslenska leikritun. Lögð er áhersla á að verkefnaval sé fjölbreytt þannig að starfsemi leikhússins höfði til breiðs hóps áhorfenda. Sérstök áhersla er lögð á fræðslustarf og verk sem höfða til barna og ungmenna þar sem mikilvægt er að Þjóðleikhúsið sinni vel leiklistaruppeldi. Þá er áréttað að lögð sé rækt við íslenska leikritun og gerð sú krafa að íslensk leikverk séu á dagskrá leikhússins á hverju leikári. Hér er átt við bæði frumsamin leikverk og leikgerðir byggðar á textaverkum. Í reglugerð og við skipulagningu á starfsemi leikhússins verður nánar útfært hvernig staðið verður að þessu. Einnig er í greininni lögð áhersla á að Þjóðleikhúsið standi fyrir leikferðum innan lands og til annarra landa ef aðstæður og fjárhagur leyfir. Þjóðleikhúsið er leikhús allra landsmanna og gegnir því ríkum skyldum við alla þjóðina.

Um 4. gr.

    Í greininni er, líkt og í leiklistarlögum, kveðið á um að ráðherra skipi forstöðumann Þjóðleikhússins, þjóðleikhússtjóra, til fimm ára í senn að fenginni umsögn þjóðleikhúsráðs. Þjóðleikhússtjóri starfar samkvæmt erindisbréfi og hefur réttindi og skyldur sem opinber starfsmaður. Lagt er til að skipunartími þjóðleikhússtjóra verði fimm ár í senn eins og forstöðumanna annarra ríkisstofnana. Með frumvarpinu er lagt til að eingöngu sé heimilt að endurnýja skipun þjóðleikhússtjóra einu sinni en það hefur verið ósk listageirans að forstöðumenn listastofnana sitji að öllu jöfnu ekki lengur en tvö skipunartímabil. Sú tilhögun er jafnframt í samræmi við framkvæmd mennta- og menningarmálaráðuneytis um að forstöðumenn listastofnana gegni starfinu að hámarki tvö starfstímabil þar sem æskilegt sé að stuðla að framþróun listgreinanna. Kveðið er á um að auglýsa skuli embættið laust til umsóknar í lok hvers skipunartímabils eins og verið hefur í leiklistarlögum.
    Eins og verið hefur er gert ráð fyrir að þjóðleikhússtjóri ráði aðra starfsmenn leikhússins í samræmi við ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Um 5. gr.

    Við setningu leiklistarlaga, nr. 138/1998, varð sú breyting á skipun þjóðleikhúsráðs að ráðið var ekki lengur skipað eftir hverjar alþingiskosningar. Áður voru fjórir af fimm ráðsfulltrúum tilnefndir af fjórum stærstu þingflokkunum en sá fimmti skipaður samkvæmt tilnefningu Félags íslenskra leikara. Sú tilhögun hafði verið við lýði frá því að Þjóðleikhúsið tók til starfa árið 1950. Þess í stað tilnefndi Félag íslenskra leikara einn fulltrúa, Félag leikstjóra á Íslandi einn fulltrúa en þrír fulltrúar voru skipaðir án tilnefningar, tveir fulltrúar stjórnarmeirihluta og einn frá stjórnarandstöðu. Þó að skipunartími ráðsins væri fjögur ár takmarkaðist starfstími þeirra fulltrúa sem skipaðir voru án tilnefningar við embættistíma ráðherrans sem skipaði þá, sæti hann skemur en fjögur ár. Fallið er frá þessari tilhögun þar sem af henni stafaði óþarfa óhagræði en reyndin var sú að fulltrúarnir sátu áfram þótt ráðherraskipti hefðu orðið.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir fimm manna þjóðleikhúsráði eins og verið hefur. Lagt er til að fagfélög sviðslistafólks tilnefni þrjá fulltrúa og ráðherra skipi tvo án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður. Ráðið setur sér starfsreglur sem meðal annars fjalli um hlutverk, fundargerðir, þagnar- og trúnaðarskyldu, vanhæfi og eftirlitsskyldur. Hlutverk ráðsins er lagað að þeim lagaramma sem gildir um störf forstöðumanna ríkisstofnanna sem kveðið er á í lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015. Þjóðleikhússtjóri hefur samráðsskyldu við þjóðleikhúsráð, en allar meiri háttar ákvarðanir um leikhúsreksturinn skulu kynntar fyrir ráðinu, langtímaáætlun um starfsemi Þjóðleikhússins skal unnin í samráði við þjóðleikhúsráð, sem og að stefna Þjóðleikhússins og ársáætlun skal lögð fyrir ráðið. Þá ber þjóðleikhúsráð ábyrgð á eftirliti með framkvæmd stefnu og ársáætlun gagnvart ráðherra.
    Um skipan og starfshætti ráðsins gilda hæfisreglur stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, II. kafli, 3.–6. gr.

Um 6. gr.

    Ákvæðið er að meginstefnu til samhljóða 10. gr. leiklistarlaga. Hingað til hefur leikhúsið átt farsælt samstarf við ýmsa aðila og hefur samstarf við ýmsa atvinnuleikhópa aukist á síðustu árum. Mikilvægt er að samstarf skapi listrænan ávinning fyrir leikhúsið og auki fjölbreytni jafnframt því sem það styðji við listrænt starf atvinnuleikhópa og leikfélög áhugamanna. Til að tryggja jafnræði með aðilum er Þjóðleikhúsinu skylt að auglýsa eftir samstarfsaðilum í upphafi hvers árs.
    Þá er bætt við ákvæði um að leikhúsið skuli stuðla að listuppeldi og fræðslustarfi í samstarfi við menntastofnanir og að það skuli gera nemendum og almenningi kleift að kynna sér starfsemi leikhússins eftir því sem við verður komið. Hér er verið að festa í sessi mikilvægt starf sem leikhúsið hefur í ríkari mæli reynt að sinna.

Um 7. gr.

    Ákvæði 7. gr. er sama efnis og 11. gr. leiklistarlaga.

Um 8. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að kostnaður af þjóðleikhúsráði og rekstri Þjóðleikhússins skuli greiðast úr ríkissjóði. Þá er Þjóðleikhúsinu veitt heimild til gjaldtöku vegna starfsemi sinnar, þar á meðal til að innheimta aðgangseyri af gestum.

Um 9. gr.

    Í III. kafla frumvarpsins er mælt fyrir um starfsemi Íslenska dansflokksins og er það nýmæli. Íslenski dansflokkurinn hefur starfað á grundvelli reglna nr. 878/1999 og síðar reglna nr. 14/2002, ásamt áorðnum breytingum. Reglur þessar eru settar með stoð í 1. mgr. 14. gr. leiklistarlaga, nr. 138/1998, og samkvæmt heimild í 19. gr. sömu laga. Til að skjóta styrkari stoðum undir starfsemi Íslenska dansflokksins er lagt til að staða hans verði skilgreind í lögum enda er hann orðinn fullgild ríkisstofnun.
    Í greininni er hlutverk Íslenska dansflokksins skilgreint í ljósi ferils flokksins og stöðu. Auk þess að sýna listdans ber flokknum að stuðla að nýsköpun í innlendri listdanssmíði og þróun danslistar á Íslandi. Flokkurinn hefur hingað til verið öflugur vettvangur þessa, meðal annars með því að ráða til sín danshöfunda, íslenska og erlenda, standa fyrir listdanssmiðju og ýmsum þróunarverkefnum.

Um 10. gr.

    Aðalverkefni Íslenska dansflokksins eru sýningar á íslenskum og erlendum dansverkum sem þegar eru til eða eru samin sérstaklega fyrir flokkinn. Dansflokkurinn skal leggja áherslu á fjölbreytni í verkefnavali sínu til að ná til breiðs hóps áhorfenda. Lögð er áhersla á að Íslenski dansflokkurinn hlúi að og styðji við gerð íslenskra dansverka en einnig ber honum að kynna erlend dansverk. Þá er lögð áhersla á að dansflokkurinn sinni fræðslu- og kynningarstarfi eins og hingað til og standi fyrir sýningarferðum innanlands. Flokknum er heimilt að standa fyrir sýningarferðum til annarra landa eftir því sem aðstæður og fjárhagur leyfa. Dansflokkurinn hefur lengi farið í sýningarferðir erlendis og hefur oft hlotist af því fjárhagslegur ávinningur fyrir utan mikilvægan listrænan ávinning. Mikilvægt er að dansflokkurinn geti áfram farið í slíkar sýningarferðir.

Um 11. gr.

    Ákvæði þessarar greinar eru hliðstæð ákvæðum um starf þjóðleikhússtjóra og ráðningarmál starfsmanna, sbr. það sem segir um 4. gr. hér að framan. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á greininni frá því að frumvarpið var áður lagt fram eru af sama toga og breytingar á 4. gr. Að öðru leyti vísast til skýringa við 4. gr.

Um 12. gr.

    Ákvæði þessarar greinar um hlutverk listdansráðs Íslenska dansflokksins er hliðstætt ákvæðum um þjóðleikhúsráð, fyrir utan að það er skipað þremur mönnum í stað fimm. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á greininni frá því frumvarpið var áður lagt fram eru af sama toga og breytingar á 5. gr. Að öðru leyti vísast til skýringa við 5. gr.

Um 13. gr.

    Hingað til hefur Íslenski dansflokkurinn átt farsælt samstarf við ýmsa aðila og hefur samstarf við sjálfstæða sviðslistahópa aukist á síðustu árum. Mikilvægt er að samstarf skapi listrænan ávinning fyrir dansflokkinn og auki fjölbreytni jafnframt því sem það styðji við listrænt starf grasrótarinnar.
    Þá er bætt við ákvæði um að dansflokkurinn skuli stuðla að listuppeldi og fræðslustarfi í samstarfi við menntastofnanir og að það skuli gera nemendum og almenningi kleift að kynna sér starfsemi dansflokksins eftir því sem við verður komið.

Um 14. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að kostnaður af listdansráði og rekstri Íslenska dansflokksins greiðist úr ríkissjóði. Þá er Íslenska dansflokknum veitt heimild til gjaldtöku vegna starfsemi sinnar, þar á meðal til að innheimta aðgangseyri af gestum.

Um 15. gr.

    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sviðslistaráð taki við af leiklistarráði. Samkvæmt því tilnefnir sviðslistasamband Íslands tvo fulltrúa í ráðið en ráðherra skipar einn fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður. Varamenn verða skipaðir á sama hátt. Ráðið verður hliðstætt myndlistarráði og tónlistarráði. Það verður ráðherra til ráðgjafar og annast úthlutun úr sviðlistasjóði. Skipunartími er lengdur um eitt ár frá leiklistarlögum en það er í samræmi við ákvæði í lögum um aðra sjóði á sviði lista. Til að skapa eðlilega endurnýjun ætti sami einstaklingur ekki að sitja lengur en tvö skipunartímabil í ráðinu, þ.e. alls sex ár. Um skipan og starfshætti ráðsins gilda hæfisreglur stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, II. kafli, 3.–6. gr.
    Við mat á umsóknum er sviðslistaráði heimilt að leita umsagnar fagaðila en vísast í því samhengi til 5. málsl. 17. gr. Slíkt er í samræmi við önnur lög á sviði listgreina.

Um 16. gr.

    Í greininni er hlutverk sviðslistaráðs skilgreint. Ráðinu er ætlað að gera tillögur um hvernig æskilegast sé að haga stuðningi ríkisins við sviðslistir til að þær eflist og dafni sem best, gera tillögur til ráðherra um stefnu og helstu áherslur í starfi sviðslistasjóðs til þriggja ára í senn sem og úthlutunarreglur og loks að úthluta styrkjum árlega úr sjóðnum. Þá skal sviðslistaráð veita ráðuneytinu faglega aðstoð og stuðning.
    Frá fyrri útgáfum frumvarpsins hefur hlutverki sviðslistaráðs verið breytt þannig að ráðinu er ekki ætlað að annast kynningarmál enda sætti það fyrirkomulag talsverðri gagnrýni. Af þessu leiðir að sá kostnaður sem hlýst af kynningarmálum mun ekki dragast af þeirri fjárhæð sem er ráðstafað til sviðslistasjóðs.

Um 17. gr.

    Í þessari grein er gert ráð fyrir stofnun sviðslistasjóðs en hlutverk hans er meðal annars að efla sviðslistir með fjárhagslegum stuðningi og kosta önnur verkefni á sviði sviðslista á landinu öllu.
    Hlutverk sjóðsins er skilgreint vítt en gert ráð fyrir að sviðslistaráð geri tillögur til ráðherra um áherslur og stefnu í starfi sjóðsins og ákveði hvernig fjármunum hans verði varið til styrkja á grundvelli umsókna, verkefna eða áhersluatriða sviðslistaráðs og umsýslukostnaðar.
    Lagt er til að skipta hlutverki sviðslistasjóðs í tvær deildir, deild atvinnuhópa og deild áhugastarfsemi, og mynda þannig einn öflugan sjóð sem styrkir einstök verkefni eða starfsemi atvinnuhópa og áhugastarfsemi á sviði sviðslista í landinu öllu. Heildarframlag úr sjóðnum til áhugastarfsemi skal að lágmarki vera 18% og er þá miðað við þá fjárhæð sem ráðstafað er annars vegar til stuðnings við starfsemi áhugaleikhópa um land allt og hins vegar með rekstrarsamningi milli mennta- og menningarmálaráðuneytis og Félags íslenskra leikfélaga.
    Sjóðnum er ætlað að sjá um styrkveitingar á vegum ráðuneytisins til sviðslistastarfsemi. Ráðherra er ætlað að setja sviðslistasjóði starfsreglur. Í þeim skal meðal annars gert ráð fyrir að hægt sé að leita eftir umsögnum fagaðila um einstök mál.
    Með vísan til laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, er ekki talin þörf á ákvæði á borð við 14. og 16. gr. leiklistarlaga enda skal ríkisstjórnin leggja fram fjármálastefnu fyrir Alþingi um markmið í opinberum fjármálum til eigi skemmri tíma en fimm ára í senn, sbr. 4. gr. þeirra laga.

Um 18. gr.

    Um langt skeið hafa hagsmunaaðilar innan sviðslista hvatt til þess að komið yrði á fót kynningarmiðstöð sviðslista. Um yrði að ræða hliðstæða starfsemi og Miðstöð íslenskra bókmennta, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Hönnunarmiðstöð Íslands og Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar sinna á þeirra sviðum til að koma viðkomandi listamönnum og listsköpun þeirra á framfæri. Í greininni hefur ráðherra heimild til að setja á fót kynningarmiðstöð sviðslista til að kynna íslenskar sviðslistir hér á landi og erlendis og efla alþjóðlegt samstarf íslenskra sviðslistamanna og stofnana. Vert er að taka fram að um heimildarákvæði er að ræða. Ekki er reiknað með að ákvæðið komi að fullu til framkvæmda fyrr en fjármagn hefur verið tryggt á næstu tveimur til þremur árum.

Um 19. gr.

    Fyrir daga Íslensku óperunnar setti Þjóðleikhúsið oft upp óperusýningar. Íslenska óperan hefur hins vegar verið starfrækt um langt árabil og hefur hún staðið fyrir óperusýningum. Frá stofnun Íslensku óperunnar hafa óperusýningar nær eingöngu verið á vegum hennar. Lengi framan af styrktu ríki og Reykjavíkurborg Íslensku óperuna en síðustu áratugi hefur fjárstuðningur eingöngu komið frá ríkinu á grundvelli tímabundins samnings. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að Þjóðleikhúsið sinni óperustarfsemi, eins og er gert í leiklistarlögum. Því er í frumvarpinu gerð tillaga um sérstakt ákvæði um óperustarfsemi, meðal annars til að skapa grundvöll fyrir óperuflutning á vegum lögaðila, félaga eða stofnana.

Um 20. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 21. gr.

    Lagt er til að lögin taki gildi 1. júlí 2020 og að frá sama tíma falli brott leiklistarlög, nr. 138/1998.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Æskilegt er að ráðuneytið geti undirbúið gildistöku laganna með því að leita eftir tilnefningum í þjóðleikhúsráð, listdansráð og sviðslistaráð þannig að ráðin geti tekið til starfa sem fyrst eftir gildistöku laganna. Í ákvæðinu er lagt til að ráðherra verði heimilt þegar eftir birtingu laganna að undirbúa gildistöku þeirra með skipun þjóðleikhúsráðs, sbr. 5. gr., listdansráðs, sbr. 12. gr., og sviðslistaráðs, sbr. 15. gr.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Um starfslok listdansara er núna fjallað í 5. gr. reglna um starfsemi Íslenska dansflokksins, nr. 14/2002. Þar er kveðið svo á um að listdansari, sem hefur verið fastráðinn dansari í a.m.k. átta ár og lætur af störfum við Íslenska dansflokkinn vegna þess að hann uppfyllir ekki lengur listrænar kröfur, eigi rétt á styrk með tvennum hætti og að þremur mánuðum fyrir starfslok skuli listdansari velja hvora leiðina hann kýs.
     Leið a. Listdansari skal við starfslok eiga rétt á eingreiðslu sem hér segir:
     1.      1,2 milljónir króna eftir átta ár.
     2.      1,6 milljónir króna eftir tólf ár.
     Leið b. Listdansari skal við starfslok eiga rétt á námsstyrk 75% af launum sem hér segir:
     1.      Í tvö ár eftir átta ára starf.
     2.      Í þrjú ár eftir tólf ára starf.
    Í ákvæði til bráðabirgða II er lagt til að 5. gr. reglna nr. 14/2002 haldi gildi sínu tímabundið þrátt fyrir gildistöku laganna uns kveðið hefur verið á um annað fyrirkomulag í kjarasamningi stéttarfélags listdansara og ríkisins. Með þessu móti er virt friðarskylda á vinnumarkaði um þennan þátt í starfsréttindum listdansara við Íslenska dansflokkinn við brottfall reglna um starfsemi Íslenska dansflokksins, nr. 14/2002, í kjölfar gildistöku laganna.

Um ákvæði til bráðabirgða III.

    Í athugasemdum við frumvarpið í samráðsgátt stjórnvalda komu fram óskir um að staða Íslensku óperunnar yrði tryggð til lengri tíma. Hafa kostir og gallar við stofnun þjóðaróperu þegar verið kannaðir að einhverju leyti en þarfnast ítarlegri skoðunar. Því er gerð tillaga í ákvæði til bráðabirgða III um að ráðherra skipi nefnd sem falið verði að skila tillögum um stofnun þjóðaróperu fyrir árslok 2020.