Ferill 107. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 310  —  107. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um útgjöld og notkun á almennum og sérsmíðuðum hugbúnaði hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess.


     1.      Hver hafa verið útgjöld ráðuneytisins og undirstofnana þess vegna hugbúnaðarkaupa frá árinu 2009? Hve háum fjárhæðum var varið til kaupa á sérsmíðuðum kerfum annars vegar og til kaupa á almennum hugbúnaði hins vegar?
    Farin var sú leið að óska eftir upplýsingum frá viðkomandi stofnunum um þá tegundalykla í bókhaldi ríkisins sem snerta útgjöld til hugbúnaðarmála á þessu tímabili og byggjast svörin á þeim upplýsingum. Um er að ræða eftirtalda tegundalykla:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Samkvæmt upplýsingum frá stofnunum námu útgjöld ráðuneytisins og undirstofnana þess á fyrrgreindum fjárhagsliðum 1.005.499.208 kr. á árunum 2009–2018 (sjá sundurliðun í töflu 1 á næstu síðu).


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.     2.      Hve háum fjárhæðum vörðu ráðuneytið og undirstofnanir þess til greiðslu leyfisgjalda fyrir hugbúnað annars vegar og til greiðslu þjónustugjalda fyrir hugbúnað hins vegar frá árinu 2009?
    Sjá töflu 1. Ekki er hægt að ganga að því vísu að fullkomið samræmi sé í því hvernig stofnanir bóka kostnað á þessa liði.


     3.      Hvaða sérsmíðaða hugbúnað notar ráðuneytið og hver undirstofnun þess og:
                  a.      hver er eigandi hugbúnaðarins,
                  b.      eftir hvaða hugbúnaðarleyfi er hugbúnaðurinn gefinn út,
                  c.      var hugbúnaðurinn þróaður af verktökum eða af forriturum í starfi innan ráðuneytis eða stofnunar,
                  d.      hver var kostnaðurinn við gerð hugbúnaðarins,
                  e.      hver er tilgangur hugbúnaðarins?

    Aðeins þrjár stofnanir kváðust nota sérsmíðaðan hugbúnað: Menntamálastofnun, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís). Hér á eftir fylgja svör þessara stofnana við þessum tölulið.

Menntamálastofnun.
    Um er að ræða tvær tegundir hugbúnaðar, Skólagátt og Námskrárgrunn.
     Skólagátt er eign Menntamálastofnunar, en hún er sértækur lokaður hugbúnaður sem byggist á opnum hugbúnaðarlausnum. Skólagátt hefur verið þróuð bæði af verktökum og forriturum innan stofnunar. Heildarkostnaður við Skólagátt á árabilinu 2016–2018 var um 45 millj. kr. en um er að ræða launakostnað og aðkeypta forritunarþjónustu. Tilgangur Skólagáttar er að halda utan um samskipti og samvinnu við grunnskóla landsins vegna samræmdra könnunarprófa og Lesferils.
     Námskrárgrunnur er eign Menntamálastofnunar, en grunnurinn er sértækur lokaður hugbúnaður sem byggist á opnum hugbúnaðarlausnum. Kerfið var þróað af forriturum innan stofnunar. Kostnaður við gerð Námskrárgrunns liggur ekki að fullu fyrir en ætla má að eftir að hann færðist til Menntamálastofnunar frá mennta- og menningarmálaráðuneyti sé launakostnaður við forritun orðinn a.m.k. 12–15 millj. kr. Vefurinn inniheldur námskrárgrunn mennta- og menningarmálaráðuneytis, sem heldur utan um áfanga- og brautarlýsingar framhaldsskóla.

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.
    Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn hefur verið með tvo forritara í fullu starfi öll þau ár sem um er spurt. Verkefni forritara snúa fyrst og fremst að stafrænni endurgerð á efni safnsins, svo sem tímarit.is, handrit.is, bækur.is o.fl. Forritaðar hafa verið „flæðilínur“ fyrir hvert verkefni og skráningarviðmót ásamt vefjum. Einnig hefur mikil vinna forritara farið í vefsöfnunarhugbúnað og umsjón með honum.

Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís).
    Rannís hefur byggt upp og þróað umsýslukerfi fyrir sjóði sem stofnunin hefur haft umsjón með frá árinu 2010. Rannís er eigandi hugbúnaðarins. Hugbúnaðurinn hefur ekki verið gefinn út. Hann er einungis notaður af Rannís og viðskiptavinum stofnunarinnar. Hugbúnaðurinn er ekki seldur til ytri aðila. Hugbúnaðurinn var aðallega þróaður af forriturum í starfi hjá Rannís og hefur opinn hugbúnaður verið notaður við uppbyggingu kerfisins. Kostnaður hefur mestmegnis falist í vinnulaunum forritara. Laun forritara á árunum 2009–2018 (að báðum árum meðtöldum) voru 147.072.000 kr. Kerfið var byggt upp til að halda utan um umsóknir í sjóði sem Rannís hefur umsjón með. Jafnframt er kerfinu ætlað að halda utan um mat á umsóknum í svokölluðu fagráðskerfi og utan um endanlega úthlutun styrkja. Kerfið býður upp á tölfræðiúrvinnslu sem þýðir að auðveldara er að fylgjast með því í hvað fjármunum verður varið í framtíðinni.