Ferill 287. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 323  —  287. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um myndlistarnám fyrir börn og unglinga.


Flm.: Logi Einarsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Arna Lára Jónsdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Álfheiður Eymarsdóttir, Guðmundur Andri Thorsson, Halldóra Mogensen, Helga Vala Helgadóttir, Oddný G. Harðardóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að hefja vinnu við gerð frumvarps til laga um myndlistarnám barna og unglinga með það að markmiði að auka veg sjónlista á Íslandi. Frumvarp þetta verði lagt fram á yfirstandandi löggjafarþingi. Við frumvarpsgerðina verði horft til þess fyrirkomulags sem gildir um nám í tónlist.

Greinargerð.

    Tillaga þessi hefur verið lögð fram tvisvar áður, síðast á 149. löggjafarþingi (291. mál), og er nú endurflutt.
    Myndlist hefur gildi í sjálfri sér en er einnig mikilvægur spegill á samtíma okkar. Þá er myndlistarnám grunnur undir margar aðrar greinar sjónlista sem skipta samfélagið miklu máli. Má þar nefna tölvuleikjagerð, grafíska hönnun, arkitektúr, iðnhönnun, ljósmyndun, fatahönnun og kvikmyndagerð. Það má segja að fyrir þessar greinar gegni myndlist sama hlutverki og rannsóknarstarf innan og utan háskóla gegnir fyrir hefðbundnari greinar atvinnulífsins.
    Í náinni framtíð tæknivæðingar og gervigreindar er talið að meira en helmingur allra hefðbundinna starfa verði unninn án beinnar aðkomu mannsins. Þó sé talið að þær greinar sem krefjast sérhæfingar, sköpunar og frumkvæðis verði áfram unnar af mönnum. Störf innan sjónlista eru líkleg til að verða meðal þeirra.
    Sjónlistir eru ásamt öðrum skapandi greinum mikilvægur og sívaxandi hluti af efnahagslífi okkar. Til stuðnings því sjónarmiði nægir að benda á rannsóknir Ágústs Einarssonar á hagrænum áhrifum skapandi greina. Þá hafa sjónlistir og hönnun leikið mikilvægt hlutverk þegar kemur að því að byggja upp ferðaþjónustuna sem er nú ein af okkar mikilvægustu atvinnugreinum. Stór liður í að tryggja sjálfbæra ferðaþjónustu til langs tíma er uppbygging sem tekur mið af gæðum, varanleika, samhengi og sterkri meðvitund um sérstöðu landsins. Ýmsar greinar sjónlista munu eiga stóran þátt í þessari uppbyggingu auk þess sem þær móta áþreifanlegustu einkenni byggðar okkar og umhverfis. Þess vegna er skynsamlegt að undirbúa ungt fólk sem best áður en það tekst á hendur framhaldsnám í þessum greinum.
    Sökum tilviljanakennds framboðs og víða einskis framboðs á myndlistarkennslu fyrir börn og unglinga fyrir utan hið hefðbundna skólakerfi koma íslensk ungmenni oft verr undirbúin í slíkt nám á framhalds- og háskólastigi en æskilegt væri. Ofan á það bætist að í niðurstöðum könnunar mennta- og menningarmálaráðuneytisins frá því í mars 2017 kemur fram að „verulegur misbrestur er á því hvernig skólar ráðstafa kennslumínútum til list- og verkgreina“, jafnframt að sumir skólar verja engum tíma í 8.–10. bekk í kennslu list- og verkgreina.
     Vegna lítils undirbúnings getur það tekið nemendur á framhalds- og háskólastigi talsverðan tíma að átta sig á hvar á sviði sjónlista styrkleikar þeirra og áhugi liggja. Ólíkt tónlistarskólanemum, sem hafa langt nám að baki þegar þeir fara í framhaldsnám og hafa auk þess sérhæft sig í leik á ákveðið hljóðfæri, eru myndlistarnemar nánast á byrjunarreit. Gildi grunnþátta myndlistar á unga aldri, fyrir árangur seinna á námsferlinum, er þó ekki ólíkt í myndlist og tónlist.
    Myndlistarnám er hagkvæmt í framkvæmd. Ólíkt mörgum öðrum greinum, svo sem tónlist, hentar nám í myndlist einkar vel til hópkennslu, a.m.k. þegar um grunnnám er að ræða. Hér er því um að ræða afar skynsamlegt úrræði sem gerði mörgum börnum og unglingum kleift að sinna uppbyggilegu námi fyrir tiltölulega lítið fé.
    Stjórnvöld þurfa að bregðast við sífellt auknum áhuga á starfi við sjónlistir og viðurkenna aukið mikilvægi þeirra í atvinnulífi framtíðarinnar þar sem sérhæfing og geta til að skara fram úr verður mikilvægari.
    Myndlist hefur mikil áhrif á samfélagið, sama hvort horft er á frá þröngu sjónarhorni efnahagslífsins eða út frá fegurðinni og rýni sjónlistarmanna á samfélagið hverju sinni. Þess vegna þarf myndlistarkennsla að fá meira vægi í íslensku menntakerfi.