Ferill 293. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 329  —  293. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum (frádráttur vegna gjafa og framlaga).

Flm.: Ágúst Ólafur Ágústsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Arna Lára Jónsdóttir, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „viðurkenndrar líknarstarfsemi, menningarmála, stjórnmálaflokka og vísindalegra rannsóknarstarfa“ í 2. tölul. kemur: og stjórnmálaflokka.
     b.      Á eftir 2. tölul. kemur nýr töluliður, 2. tölul. a, svohljóðandi: Tvöfalda fjárhæð einstakra gjafa og framlaga til menningarmála, kvikmynda- og sjónvarpsefnisgerðar, íþrótta- og æskulýðsstarfsemi, umhverfismála, viðurkenndrar líknarstarfsemi og vísindalegra rannsóknarstarfa. Einstakar gjafir og framlög samkvæmt þessum tölulið fari þó ekki yfir 1,5% af tekjum skv. B-lið 7. gr. á því ári þegar gjöf er afhent. Ráðherra ákveður með reglugerð hvaða málaflokkar og stofnanir falla undir þennan tölulið.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Tilgangur frumvarps þessa er að efla menningu (m.a. kvikmynda- og sjónvarpsefnisgerð), íþrótta- og æskulýðsstarfsemi, umhverfismál, líknarstarfsemi og vísindi með tilteknum skattalegum aðgerðum.
    Samkvæmt núgildandi lögum er heimilt að draga frá skattskyldum tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi ýmis framlög, m.a. framlög til menningarmála og vísindalegra rannsóknarstarfa, og lækka með því stofn til tekjuskatts.
    Verði frumvarp þetta að lögum verður fyrirtæki sem gefur „100 þús. kr.“ til menningar (m.a. til sjónvarpsefnis- og kvikmyndagerðar), umhverfismála, æskulýðs- og íþróttamála, líknarstarfsemi og vísindastarfsemi hins vegar heimilt að telja „200 þús. kr.“ til lækkunar á tekjuskattsstofni sínum. Samkvæmt núgildandi lögum væri fyrirtækinu einungis heimilt að lækka skattskyldar tekjur sínar um 100 þús. kr. eða helmingi minna en frumvarpið gerir ráð fyrir. Þá taka núgildandi lög til mun fábreyttari starfsemi en það sem frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Þetta frumvarp tvöfaldar því hvatann fyrir atvinnulífið til að styðja við menningu, íþróttir og æskulýðsmál, umhverfismál, líknarstarfsemi og vísindi með þeim ávinningi sem fylgir þessu skattahagræði.
    Þá er það nýmæli í frumvarpinu að láta þessa skattaívilnun ná til fjölbreyttari starfsemi en áður og munu framlög til umhverfismála, íþrótta- og æskulýðsstarfsemi og menningarmála, með sérstakri áherslu á kvikmynda- og sjónvarpsefnisgerð, bætast við verði það samþykkt.

Aukin framlög til mikilvægrar starfsemi.
    Frumvarpinu er ætlað að leiða til aukinna framlaga frá atvinnulífinu til menningarmála, kvikmyndagerðar, sjónvarpsefnisgerðar, æskulýðsstarfsemi, íþróttastarfsemi, umhverfismála, líknarmála og vísindalegra rannsókna og auðvelda aðilum sem að þeim málum starfa að afla fjár, einfaldlega vegna þess að það er skattalega hagkvæmt fyrir viðkomandi gefanda.
    Svipuð ákvæði þekkjast víða erlendis og þá einnig í tengslum við rannsókna- og þróunarstarfsemi. Stuðningur fyrirtækja við menningu og vísindi hefur aukist undanfarin ár hérlendis eins og annars staðar. Sjálfsagt er að hlúa m.a. að frjálsum félagasamtökum sem eru ekki hagnaðardrifin, á þessu sviði sem og á öðrum sviðum, með þeirri útfærslu sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Þessi samtök eru iðulega rekin af óeigingjörnum sjálfboðaliðum sem reiða sig á sjálfsaflafé sem oft getur verið erfitt að nálgast frá atvinnulífinu. Frumvarpið mun bæta úr því til muna. Vert er einnig að minnast þess að ýmis þessara samtaka standa að verkefnum sem ríkisvaldinu bæri ella að sinna.
    Aukin framlög til þessara málaflokka, þ.e. til menningar, kvikmynda- og sjónvarpsefnisgerðar, íþrótta- og æskulýðsmála, umhverfismála, líknarmála og vísinda, leiða til aukinna umsvifa sem síðar skila tekjum í ríkissjóð, m.a. í formi virðisaukaskatts eða tekjuskatts. Þannig er líklegt að aukin ívilnun á þessu sviði, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu, leiði til hækkunar á tekjum ríkisins og auðgi auk þess menningarlíf, æskulýðsstarf, umhverfisbaráttu og vísindastarf.

Mikilvæg nýmæli.
    Í 2. tölul. 31. gr. gildandi laga um tekjuskatt er kveðið á um heimild fyrirtækja og aðila í sjálfstæðri atvinnustarfsemi til að draga frá skattskyldum tekjum sínum einstakar gjafir og framlög til kirkjufélaga, viðurkenndrar líknarstarfsemi, menningarmála, stjórnmálaflokka og vísindalegra rannsóknarstarfa, þó ekki yfir 0,75% af tekjum skv. B-lið 7. gr. á því ári sem gjöf er afhent. Ráðherra ákveður með reglugerð hvaða málaflokkar og stofnanir falla undir þennan tölulið, sjá reglugerð nr. 483/1994.
    Í 1. gr. frumvarpsins er gerð tillaga um lögfestingu ákvæðis þess efnis að aðilum í atvinnurekstri verði heimilt að draga tvöfalda (nýmæli) þá fjárhæð frá tekjum sem þeir verja til menningarmála, kvikmynda- og sjónvarpsefnisgerðar (nýmæli), íþrótta- og æskulýðsstarfsemi (nýmæli), umhverfismála (nýmæli), viðurkenndrar líknarstarfsemi og vísindastarfsemi. Þetta hvetur fyrirtæki til að auka framlög sín, enda lækkar tekjuskattsstofn þeirra þar með.
    Í gildandi lögum er kveðið á um að slíkar gjafir og framlög megi ekki nema meira en 0,75% af tekjum og er lögð til hækkun á því þaki upp í 1,5% (nýmæli), til þeirra málefna sem tiltekin yrðu sérstaklega í nýjum tölulið 31. gr. laganna. Það hlutfall er tvöföldun frá því sem nú er varðandi þá málaflokka sem hér heyra undir. Þó kemur það vel til greina af hálfu flutningsmanna að slíkt þak verið hækkað enn frekar eða jafnvel afnumið.
    Í reglugerð um frádrátt af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, settri með heimild í gildandi lögum, segir m.a. að undir menningarstarfsemi falli hvers konar menningarmálastarfsemi fyrir almenning, svo sem fræðiritaútgáfa, fræðslukvikmyndagerð, bóka-, skjala-, lista- og minjasöfn, bókmennta- og listastarfsemi, verndun fornra mannvirkja og sérstæðra náttúrufyrirbrigða o.fl.

Kvikmynda- og sjónvarpsefnisgerð.
    Flutningsmenn telja að um framlög til kvikmyndagerðar og sjónvarpsefnisgerðar eigi að gilda sömu ákvæði og um framlög til annarrar menningarmálastarfsemi, en fræðslukvikmyndagerð er beinlínis talin upp í reglugerð með gildandi lögum. Almenn kvikmyndagerð, þ.e. gerð lengri leikinna kvikmynda og heimildamynda en ekki t.d. gerð auglýsingakvikmynda, á því að falla undir lögin. Í kvikmynda- og sjónvarpsiðnaði felast mikilvæg sóknarfæri og það er réttur kvikmyndagerðarmanna að nýta þessa frádráttarmöguleika.
    Þess má geta að fjármögnun kvikmynda og sjónvarpsþátta er oft með þeim hætti að nái innlend fjármögnun tiltekinni upphæð kemur mun hærra mótframlag frá erlendum aðilum. Þannig geta fjárhæðir margfaldast. Þetta er afar mikilvægt, en oft hefur ónóg tekjuöflun hér á landi staðið í vegi fyrir því að fá fé frá útlöndum. Samþykkt þessa frumvarps ætti að bæta úr því. Ríkisvaldið ætti einnig að fá til baka, vegna aukinna umsvifa, allt það fjármagn sem það veitir í gegnum Kvikmyndasjóð. Þá er ótalinn sá ávinningur sem ferðaþjónustan hefur af kvikmynda- og sjónvarpsefnisgerð.
    Kvikmynda- og sjónvarpsefnisgerð hérlendis getur orðið enn umfangsmeiri og arðbærari atvinnuvegur en nú. Íslenskir kvikmynda- og sjónvarpsefnisgerðarmenn hafa oft sýnt að starf þeirra jafnast á við það besta sem gert er í heiminum. Því er skynsamlegt þegar horft er til framtíðar að stuðla að eflingu þessarar atvinnu- og listgreinar, eins og samþykkt frumvarpsins mundi leiða til.
    Sérstök athygli er vakin á því að samþykkt frumvarpsins mun efla bókmenntir og ýmiss konar annað listastarf, svo sem leiklist, tónlist og myndlist, svo og starfsemi safna. Allir þessir málaflokkar falla undir hin ívilnandi ákvæði frumvarpsins.

Íþrótta- og æskulýðsmál.
    Í frumvarpinu er sú mikilvæga viðbót að lagt er til að tekið sé tillit til framlaga atvinnulífsins til íþrótta- og æskulýðsmála.
    Gildi íþrótta- og æskulýðsstarfsemi er ótvírætt. Það er ekki síst öflugt starf samtaka og félaga á þessu sviði sem hefur skilað sér í öflugu forvarnastarfi og vellíðan ungs fólks. Erlendis er jafnvel talað um „íslenska módelið“ þegar kemur að árangri í að minnka neyslu ungmenna á vímuefnum og eiga íþrótta- og æskulýðssamtök stóran þátt í þeim árangri.
    Þessi samtök og félög þurfa oft að reiða sig á framlög frá fyrirtækjum og mun því samþykkt frumvarpsins vera líkleg til hafa mjög jákvæð áhrif á starfsemi þeirra enda mun hvati atvinnulífsins til að styrkja íþróttafélög og æskulýðssamtök í raun tvöfaldast. Hér er því skýrt dæmi um skattalega ívilnun sem svo sannarlega mun hagnast öllum, bæði viðkomandi íþróttafélagi og ríkisvaldinu en ekki síst ungmennum þessa lands.

Umhverfismál.
    Flutningsmenn telja mikilvægt að samtök á sviði umhverfismála njóti einnig góðs af þessu skattahagræði. Hér er um að ræða mikilvæga viðbót. Þessi samtök vinna mjög gott starf á vettvangi almannahagsmuna og mun vægi þeirra enn aukast í ljósi hamfarahlýnunar og loftslagsbreytinga sem ógna lífi á jörðinni. Umhverfissamtök gegna því mikilvægu hlutverki sem flutningsmenn telja að þurfi að mæta með auknum framlögum atvinnulífsins vegna skattahagræðisins sem felst í þessu frumvarpi.

Vísindastarfsemi og líknarstarfsemi.
    Að lokum vekja flutningsmenn frumvarpsins athygli á að framangreind reglugerð kveður á um að til vísindalegrar rannsóknarstarfsemi teljist hvort tveggja, hugvísindi og raunvísindi. Hér er um að ræða víðtæka skilgreiningu í samræmi við sjónarmið flutningsmanna en undir vísindastarfsemi falla einnig félagsvísindi og heilbrigðisvísindi enda er vísindastarfsemi í háskólum gjarnan skipt í þessi fjögur meginfræðasvið. Með vísindastarfsemi er þannig m.a. átt við starfsemi innan æðri menntastofnana. Framlög frá atvinnulífinu til eflingar rannsóknum og kennslu innan háskóla falla þannig undir þetta frumvarp.
    Þá mun viðurkennd líknarstarfsemi einnig heyra undir þetta frumvarp og njóta góðs af auknum framlögum atvinnulífsins. Óumdeilt er hversu mikilvægt starf hin ýmsu líknarfélög gegna á Íslandi og má segja að hluti af velferðarkerfinu heyri undir slík félög sem að stærstum hluta eru rekin af óeigingjörnum sjálfboðaliðum. Sem fyrr segir má gera ráð fyrir að framlög frá atvinnulífinu til þessara félaga aukist við samþykkt þessa frumvarps þar sem fjárhagslegur hvati til slíkra framlaga eykst til muna.