Ferill 307. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 348  —  307. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um dómtúlka.


Flm.: Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Ólafur Ísleifsson, Sigurður Páll Jónsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Þorsteinn Sæmundsson.


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að undirbúa lagafrumvarp til breytingar á lögum um dómtúlka og skjalaþýðendur, nr. 148/2000. Frumvarpið feli í sér breytingar á þeim kröfum sem gerðar eru til löggiltra dómtúlka með það að markmiði að fjölga bæði dómtúlkum og þeim tungumálum sem dómtúlkar á Íslandi fást við.
    Ráðherra leggi frumvarpið fram eigi síðar en 1. janúar 2021.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var lögð fram á 149. löggjafarþingi (788. mál) og er nú endurflutt lítillega breytt. Samkvæmt upplýsingum úr skrá sýslumanna yfir löggilta dómtúlka eru 58 dómtúlkar starfandi á Íslandi og þjónusta dómtúlka í boði á 11 tungumálum. Í 1. mgr. 10. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, og 1. mgr. 12. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, segir að þingmálið sé íslenska. Til að standa vörð um mikilvægi íslenskunnar sem opinbers tungumáls á Íslandi er nauðsynlegt að þinghöld geti að mestu farið fram á íslensku en jafnframt að aðilar máls og þeir sem eru kallaðir fyrir dóm geti tjáð sig á því tungumáli sem þeir kunna best. Þótt lög tryggi rétt til dómtúlks er reyndin sú að þjónustu dómtúlka getur verið erfitt að nálgast á fjölda tungumála og ef túlka þarf á tungumáli sem enginn starfandi dómtúlkur fæst við þarf að leita eftir þjónustunni erlendis. Í lögum um dómtúlka og skjalaþýðendur, nr. 148/2000, er gerð sú krafa til að fá löggildingu sem dómtúlkur að viðkomandi sé jafnframt löggiltur sem skjalaþýðandi, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna, og hafi löggildingu til að þýða skjöl af íslensku á erlent mál og af því máli á íslensku. Þá þarf viðkomandi einnig að standast sérstakt próf til að verða dómtúlkur. Þessar ríku kröfur hafa gert það að verkum að einungis um fjórir hafa hlotið löggildingu sem dómtúlkar frá aldamótum og enginn frá árinu 2012. Nýliðun er því nánast engin. Haldi sama þróun áfram verður skortur á dómtúlkum enn meiri og sækja þarf þjónustuna í æ ríkari mæli til útlanda.
    Nauðsynlegt er að tryggja aðgengi þeirra sem búa hér á landi en tala ekki íslensku að réttarkerfinu. Það er nauðsynlegur þáttur í réttaröryggi einstaklings að hann geti miðlað og tekið við upplýsingum á tungumáli sem hann skilur enda er það forsenda þess að einstaklingur hljóti réttláta málsmeðferð að honum gefist kostur á að skilja hvað fram fer við málsmeðferðina. Þá er fjölgun dómtúlka nauðsynleg til að standa vörð um íslenskuna sem þingmál og einnig þarf að tryggja að dómtúlkar hér á landi geti túlkað á sem flest tungumál.
    Þrátt fyrir að hæfni túlka og skjalaþýðenda sé áþekk er hún ekki fullkomlega sambærileg. Góður túlkur þarf ekki endilega að vera góður í þýðingu ritaðs máls og góður skjalaþýðandi er ekki endilega góður túlkur. Túlkar þurfa yfirgripsmikla þekkingu á miðlun upplýsinga í töluðu máli og líkamstjáningu. Þá þurfa dómtúlkar að hafa skilning á því lögfræðilega viðfangsefni sem fengist er við hverju sinni til þess að miðla nákvæmum upplýsingum. Háskóli Íslands hefur boðið upp á hagnýtt nám í þýðingum, sem viðbótardiplóma, auk meistaranáms í nytjaþýðingum og þýðingafræði. Hægt væri að nýta mun betur þekkingu þeirra sem útskrifast úr þessu námi í Háskóla Íslands, eða viðlíka námi úr öðrum skólum, við dómtúlkun en hætt er við því að þær ríku kröfur sem gerðar eru í núgildandi lögum fæli þá sem áhuga hafa frá því að afla sér löggildingar. Þá hafa samfélagstúlkar annast túlkanir innan réttarkerfa víða í Evrópu og má vel líta til reynslu þaðan. Samfélagstúlkar hafa almennt yfirgripsmikla þekkingu á þeim menningarheimi sem er undirstaða þeirra tungumála sem þeir fást við. Vel má líta til þess hvort hægt sé að auka möguleika þeirra til að afla sér menntunar og þjálfunar til að annast túlkanir innan réttarkerfisins.