Ferill 315. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 356  —  315. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum vegna alþjóðasamþykktar um vinnu við fiskveiðar (alþjóðlegar skuldbindingar).

Frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.



I. KAFLI

Breyting á sjómannalögum, nr. 35/1985.

1. gr.

    Í stað orðanna „farþegaskipum og flutningaskipum“ í 1. málsl. 3. mgr. 8. gr. laganna kemur: skipum.

II. KAFLI

Breyting á lögum um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, nr. 30/2007.

2. gr.

    Eftirfarandi orðskýring bætist við 3. gr. laganna í viðeigandi stafrófsröð:
     Fiskimaður er einstaklingur sem stundar hvers konar vinnu um borð í fiskiskipi, þ.m.t. sá sem fær greiddan hlut í veiði. Hafnsögumenn, löggæsluaðilar, aðrir aðilar í fastri vinnu ríkis, starfsmenn í landi sem sinna störfum um borð í fiskiskipum eða eftirlitsmenn með fiskveiðum teljast ekki vera fiskimenn.

3. gr.

    Á eftir 3. gr. laganna kemur ný grein, 3. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Skráningar- og ráðningarþjónusta fiskimanna.

    Fyrirtæki sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu fiskimanna skulu starfa í samræmi við viðurkennd gæðastjórnunarkerfi að fengnu leyfi frá Samgöngustofu.
    Skráningar- og ráðningarþjónusta skal vera skilvirk, fullnægjandi, áreiðanleg, skipverjum að kostnaðarlausu og til þess fallin að sjómenn geti fundið störf um borð í skipum. Hún skal ekki notast við aðferðir sem hindra eða koma í veg fyrir að fiskimenn geti fengið starf.
    Samgöngustofa hefur eftirlit með því að skráningar- og ráðningarþjónusta skipverja uppfylli kröfur samkvæmt lögum þessum og reglugerð á grundvelli þeirra.
    Ráðherra er heimilt að mæla nánar fyrir um skráningar- og ráðningarþjónustu skipverja á fiskiskipum og eftirlit með henni í reglugerð.

4. gr.

    Á eftir 15 gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi, og breytist greinartala á eftir samkvæmt því:

Heilbrigðiskröfur til fiskimanna.

    Útgerðarmaður og skipstjóri fiskiskipa skulu gera kröfu um að fiskimenn leggi fram vottorð um að þeir uppfylli skilyrði um sjón, heyrn og aðrar heilbrigðiskröfur.
    Gildistími heilbrigðisvottorðs sem heimilar fiskimanni að starfa á fiskiskipi, sem er 24 metrar að lengd eða lengra eða er að jafnaði á sjó í þrjá daga eða lengur, skal vera að hámarki tvö ár. Ef skipverji er undir 18 ára aldri skal gildistíminn þó vera eitt ár. Renni gildistími heilbrigðisvottorðs út meðan á veiðiferð stendur skal það þó halda gildi sínu til loka veiðiferðar.
    Gildistími heilbrigðisvottorðs sem heimilar vél- og skipstjórnarmönnum að starfa á fiskiskipi, sem er styttra en 24 metrar og er að jafnaði á sjó í minna en þrjá daga, skal vera að hámarki fimm ár. Aðrir skipverjar á slíkum skipum þurfa ekki að framvísa heilbrigðisvottorði.
    Ráðherra skal setja í reglugerð nánari kröfur um heilbrigði fiskimanna, réttindi skipverja vegna heilbrigðisvottorða og um gerð, efni, útgáfu og gildistíma vottorða.

III. KAFLI

Gildistaka

5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2021.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta var samið í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu í þeim tilgangi að mæta kröfum 188. samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (e. International Labour Organisation – ILO) um vinnu við fiskveiðar ( ILO 188). Íslenska ríkið, sem er aðili að stofnuninni, hefur ekki fullgilt samþykktina en markmiðið er að ríkið verði tilbúið til þess eftir þær lagabreytingar sem hér eru lagðar til. Samþykktin felur í sér uppfærðar viðmiðanir alþjóðasamþykkta sem lúta að vinnu við fiskveiðar og er ætlað að stuðla að mannsæmandi vinnuskilyrðum skipverja á fiskiskipum Aðildarríki ILO komu sér saman um samþykktina á 97. þingi stofnunarinnar sem haldið var í júní árið 2007 og tók hún gildi 16. nóvember 2017. Þær kröfur samþykktarinnar sem þarfnast lagasetningar snúast að meginstefnu um bann við næturvinnu ungmenna, skyldu einkarekinna fyrirtækja sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu til að starfa eftir stöðluðu kerfi og kröfu um framvísun heilbrigðisvottorðs til að einstaklingi sé heimilt að starfa á fiskiskipi.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Fiskveiðar fela oft í sér langa og erfiða vinnudaga við krefjandi aðstæður. Veiðiferðir eru mislangar og skipverjar verja vinnu- og frítíma sínum um borð í skipunum á meðan á veiðiferð stendur. Mikilvægt er því að aðstæður og skipulag við vinnuna sé viðunandi og einnig að vistarverur og aðbúnaður sem nýttur er í frítíma sé fullnægjandi. ILO áætlar að um 15 milljónir manna starfi við fiskveiðar í fullu starfi. ILO 188 stefnir að því markmiði að bæta aðstæður sjómanna sem starfa við fiskveiðar. Ákvæðum samþykktarinnar er meðal annars ætlað að tryggja að skipverjar sem starfa við fiskveiðar njóti aukins öryggis og heilbrigðis við vinnu, læknishjálpar á sjó og í landi, skipverjar fái næga hvíld, þeir njóti fullnægjandi verndar ráðningarsamninga og almannatryggingaverndar til jafns við aðrar vinnandi stéttir.
    ILO 188 tekur til allra skipa sem stunda fiskveiðar í atvinnuskyni og skipverja þeirra nema annað sé sérstaklega tekið fram, sbr. 1. mgr. 2. gr. samþykktarinnar. Í nokkrum tilvikum gerir samþykktin ríkari kröfur í tengslum við skip sem eru 24 metrar á lengd eða lengri eða eru að jafnaði lengur en þrjá daga á sjó í einu. Samþykktin heimilar aðildarríki, að höfðu samráði við helstu hagsmunaaðila, að láta þá réttarvernd sem afmörkuð er við stærri skip einnig ná til skipa sem eru undir 24 metrum að lengd. Með frumvarpi þessu eru lagðar til lagabreytingar sem innleiða reglur samþykktarinnar með fullnægjandi hætti án þess þó að gengið sé lengra en þar er kveðið á um. Kröfur ILO 188 eru að mestu leyti uppfylltar í íslenskum rétti en stefnt er að því að innleiða þá þætti sem ekki teljast uppfylltir með frumvarpi þessu og eftir atvikum reglugerðarsetningu. Í þeirri vinnu munu stjórnvöld nálgast verkefnið með sama hætti.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1. Inngangur
    Við innleiðingu samþykktar ILO 188 ber að horfa til gildissviðs samþykktarinnar sem er að finna í 1. gr. hennar. Hún nær, með ákveðnum undantekningum, til allra fiskimanna og allra fiskiskipa sem stunda veiðar í atvinnuskyni. Fiskimenn eru síðan skilgreindir skv. e-lið 1. gr. samþykktarinnar sem hver einstaklingur sem stundar hvers konar vinnu um borð í fiskiskipi, þ.m.t. þeir sem fá greitt með hlut í veiði. Fiskimenn eru ekki hafnsögumenn, löggæsluaðilar, aðrir aðilar í fastri vinnu ríkis, starfsmenn í landi sem sinna störfum um borð í fiskiskipum eða eftirlitsmenn með fiskveiðum.
    Þær kröfur samþykktarinnar sem þarfnast lagasetningar snúast að meginstefnu um bann við næturvinnu ungmenna, skyldu einkarekinna fyrirtækja sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu til að starfa eftir stöðluðu kerfi og kröfu um framvísun heilbrigðisvottorðs til að einstaklingi sé heimilt að starfa á fiskiskipi.

3.2. Næturvinna ungmenna.
    Í 6. mgr. 9. gr. ILO 188 segir að næturvinna fiskimanna yngri en 18 ára sé óheimil. Skuli „nótt“ í þessu samhengi skilgreind í samræmi við landslög og landsvenju. Skal nóttin vara í minnst níu klukkustundir og hefst það tímabil ekki síðar en á miðnætti og lýkur ekki fyrr en kl. 5 að morgni. Lögbæru stjórnvaldi er svo heimilað að veita undanþágu frá ýtrustu kröfum um takmörkun á næturvinnu þegar: a) það kemur annars vegar niður á markvissri þjálfun fiskimanna sem í hlut eiga um fyrir fram ákveðin verkefni og áætlanir eða b) sértækt eðli skyldustarfanna eða viðurkennd þjálfunaráætlun krefst þess að ungmennin, sem falla undir undanþáguna, inni af hendi skyldustörf sín að nóttu til og yfirvald telur, að höfðu samráði, að vinnan muni ekki hafa skaðleg áhrif á heilsu eða velferð þeirra.
    Alþjóðavinnumálastofnunin hefur ávallt látið sig miklu varða öryggis- og heilbrigðismál barna og ungmenna og með þessari reglu er markmiðið að koma í veg fyrir vinnu sem eðli síns vegna, eða vegna þeirra kringumstæðna sem hún er leyst af hendi við, sé líkleg til að skaða heilsu eða öryggi barna og ungmenna. Reglan byggist á þeim grundvallargildum ILO að koma í veg fyrir að ungmenni á vinnumarkaði verði fyrir slysum eða skaða með því að mæla fyrir um aldurslágmark vegna tiltekinna starfa.
    Í sjómannalögum, nr. 35/1985, er ekkert minnst á næturvinnu sjómanna á fiskiskipum, en í 3. mgr. 8. gr. laganna er sett fram sú meginregla að ekki megi hafa yngri mann en 18 ára við vinnu á farþega- og flutningaskipum að nóttu til. Reglan var lögfest vegna innleiðingar á alþjóðasamþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um vinnuskilyrði farmanna (e. Maritime Labour Convention – MLC), sem íslenska ríkið hefur fullgilt. Reglur MLC- og ILO 188-samþykktanna um næturvinnu ungmenna eru efnislega samhljóða og því lagt til í frumvarpinu að gildissvið 3. mgr. 8. gr. sjómannalaga verði útvíkkað svo að ákvæðið taki einnig til skipverja á fiskiskipum.

3.3. Einkarekin skráningar- og ráðningarþjónusta.
    Í 2. mgr. 22. gr. ILO 188 er sett fram sú krafa að einkarekin þjónusta sem veitir skráningar- og ráðningarþjónustu í þágu fiskimanna skuli starfa í samræmi við staðlað kerfi sem komið skuli á með samráði við helstu hagsmunaaðila þar sem krafist verði leyfis og vottunar eða annars forms lögverndar. Í 3. mgr. eru í þremur stafliðum sett ákvæði sem tryggja að fyrirtæki af þessu tagi hamli á engan hátt að fiskimenn fái starf, að fiskimaður skuli hvorki beint né óbeint greiða gjöld eða aðrar álögur vegna skráningar eða ráðningar og sett verði skilyrði fyrir rekstri einkarekinnar ráðningarskrifstofu ásamt skilgreiningu á því hvenær skuli fella úr gildi heimild til starfseminnar ef viðeigandi lög eða reglugerðir eru brotnar.
    Regla ILO 188 um einkareknar ráðningarskrifstofur er efnislega sambærileg reglu í MLC-samþykktinni um vinnuskilyrði farmanna. Sú leið var farin við innleiðingu MLC-reglunnar að lögfesta nýtt ákvæði í lög um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, með setningu 10. gr. A. Í frumvarpinu er lagt til að farin verði sambærileg leið og nýtt ákvæði í lögum um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, nr. 30/2007, mæli fyrir um þann ramma sem einkareknum skráningar- og ráðningarþjónustum verði gert að starfa eftir.

3.4. Heilbrigðisvottorð fiskimanna.
    Í 10.–12. gr. ILO 188 er kveðið á um læknisskoðanir og heilbrigðisvottorð fiskimanna. Í 1. mgr. 10. gr. er sett fram sú krafa að enginn fiskimaður skuli starfa um borð í fiskiskipi án gilds heilbrigðisvottorðs til staðfestingar á fullnægjandi heilbrigði til að sinna skyldustörfum sínum. Í 2. tölul. 12. gr. samþykktarinnar kemur svo fram að heilbrigðisvottorð fiskimanna á skipum 24 metrum og lengri eða skipum sem eru að jafnaði lengur en þrjá daga á sjó skuli gilda að hámarki í tvö ár nema fiskimaður sé undir 18 ára aldri, en þá skal gildistíminn vera eitt ár.
    Í íslenskum rétti eru ekki gerðar kröfur um heilbrigðisvottorð annarra skipverja á fiskiskipum en réttindamanna. Lög nr. 30/2007 taka til áhafna íslenskra fiskiskipa. Lögin binda útgáfu réttindaskírteina vél- og skipstjórnarmanna meðal annars þeim skilyrðum að uppfyllt séu nánar tilgreind skilyrði um heilsufar sem fylgt er eftir með kröfu um heilbrigðisvottorð þar að lútandi, sbr. b-lið 4. mgr. 8. gr. laganna. Í 1. mgr. 9. gr. er svo tilgreint að skírteini gefin út samkvæmt lögunum gildi allt að fimm ár frá útgáfudegi. Í 3. mgr. 23. gr. reglugerðar nr. 175/2008 um skipstjórnar- og vélstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum, með síðari breytingum, kemur fram að skírteini til skipstjórnar og vélstjórnar á skipum öðrum en skemmtibátum skuli endurnýjuð til fimm ára í senn.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að útgerðarmaður og skipstjóri fiskiskipa beri ábyrgð á því að allir fiskimenn leggi fram vottorð um að þeir uppfylli kröfur um heilsuskilyrði. Kveðið er á um gildistíma heilbrigðisvottorða eftir lengd skipa og útivistartíma. Þá er ráðherra skylt að mæla nánar fyrir um kröfur um heilbrigði fiskimanna. Jafnframt skal þar kveðið á um réttindi þeirra vegna heilbrigðisvottorða og um gerð, efni, útgáfu og gildistíma vottorða. Er þar til að mynda átt við hverjum er heimilt að gefa út vottorð.
    Við innleiðingu þessarar reglu ILO 188 var horft til þess hvernig staðið var að innleiðingu í Danmörku og Noregi.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Í frumvarpinu er að meginstefnu lagt bann við næturvinnu ungmenna, starfsemi einkarekinna ráðningarstofa settar tilteknar skorður og réttur manna til að starfa á fiskiskipi bundinn því skilyrði að framvísað sé heilbrigðisvottorði til staðfestingar á fullnægjandi heilbrigði. Framangreindar ráðstafanir setja atvinnuþátttöku skipverja á fiskiskipum ákveðnar skorður og því full ástæða til að meta hvort kröfurnar samrýmast stjórnarskrá og alþjóðlegum skuldbindingum.
    Í 1. mgr. 75. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, kemur fram að öllum sé frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Ákvæðið setur löggjafarvaldinu þær skorður að atvinnufrelsi manna megi því aðeins skerða að almannahagsmunir krefjist. Ákvæðið ber að túlka með hliðsjón af jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar sem mælir fyrir um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Inntak jafnræðisreglunnar er að sambærileg tilvik skuli fá sambærilega meðferð. Jafnframt er heimilt að meðhöndla sambærileg tilvik með mismunandi hætti ef slík meðferð byggist á málefnalegum sjónarmiðum. Er þá skilyrði að málefnalegt markmið réttlæti mismunun og viðhlítandi samhengi sé á milli þess markmiðs sem mismunun stefnir að og þeirra aðferða sem notaðar eru til að ná markmiðinu.
    1. gr. frumvarpsins kveður á um bann við næturvinnu ungmenna. Greinin setur atvinnuþátttöku ungra skipverja á fiskiskipum ákveðnar skorður og skulu undantekningar ekki veittar frá þeim takmörkunum nema að því gættu að vinnan muni ekki hafa skaðleg áhrif á heilsu eða velferð ungmennanna. Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Markmið reglu ILO 188 um bann við næturvinnu ungmenna, ásamt þeim undantekningum sem fylgja reglunni, er að tryggja velferð ungmenna. Reglunni er ætlað að standa vörð um almenna og stjórnarskrárverndaða hagsmuni ungra skipverja á íslenskum fiskiskipum, sem Ísland hefur að þjóðarétti skuldbundið sig til að vernda. Þegar reglan er virt í heild og höfð er hliðsjón af þeim undantekningum sem á henni eru gerðar má fullvíst telja að þær takmarkanir sem af reglunni leiða samrýmast stjórnarskrá og stjórnskipulegri meðalhófsreglu.
    Í 2. gr. frumvarpsins er orðskýringu bætt við 3. gr. að því er varðar skilgreiningu á fiskimönnum. Skilgreiningin er í samræmi við skilgreiningu ILO 188.
    Í 3. gr. frumvarpsins er gerð sú krafa að einkareknum ráðningarskrifstofum verði gert að starfa eftir ákveðnum ramma. Markmið reglunnar er að tryggja almenn réttindi skipverja sem nýta sér þjónustuna, þar á meðal að tilteknum skipverjum verði ekki haldið frá vinnu og skipverjar þurfi ekki að bera kostnað af þjónustunni. Reglan verndar auk þess réttindi útgerðaraðila þar sem hún stuðlar að því að skipverjar séu hæfir til þeirra starfa sem þeir eru ráðnir til. Þær takmarkanir sem felast í reglunni eru því til þess fallnar að vernda almenna hagsmuni allra þeirra sem þjónustuna nýta, auk þess sem þær eru málefnalegar og hóflegar og ekki meira íþyngjandi en nauðsynlegt er.
    Í 4. gr. frumvarpsins er gerð almenn krafa um að fiskimenn leggi fram vottorð um að þeir uppfylli skilyrði um sjón, heyrn og aðrar heilbrigðiskröfur. Ófullnægjandi heilbrigði skipverja getur leitt til þess að þeir valdi sjálfum sér skaða við vinnuna, valdi samstarfsmönnum sínum skaða og mögulega stofni skipinu sjálfu í hættu. Greinin setur því atvinnufrelsi sjómanna málefnalegar skorður sem miða að því að tryggja almenna hagsmuni stéttarinnar og útgerða fiskiskipa.
    Frumvarpi þessu er ætlað að innleiða í landsrétt tilteknar kröfur sem finna má í samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um vinnu við fiskveiðar. Þá má jafnframt geta þess að á vettvangi EES-samningsins er til meðferðar tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/159 um innleiðingu samþykktar Samtaka samvinnufélaga í landbúnaði í Evrópu (Cogeca), Sambands félaga flutningaverkamanna í Evrópu (ETF) og Bandalags landssamtaka fiskveiðifyrirtækja í Evrópusambandinu ( Europêche ) frá 21. maí 2012 um innleiðingu samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um vinnu við fiskveiðar frá 2007 (e. Council Directive (EU) 2017/159 of 19 December 2016 implementing the Agreement concerning the implementation of the Work in Fishing Convention, 2007 of the International Labour Organisation, concluded on 21 May 2012 between the General Confederation of Agricultural Cooperatives in the European Union (Cogeca), the European Transport Workers' Federation (ETF) and the Association of National Organisations of Fishing Enterprises in the European Union (Europêche)). Tilskipunin felur í sér sams konar skuldbindingar og leiðir af samþykktinni sjálfri. Hún hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn en þegar það verður gert myndast þjóðréttarleg skylda til að innleiða ákvæði EES-gerðarinnar í landsrétt.

5. Samráð.
    Áform um laga- og reglugerðarsetningu til fullgildingar ILO 188 voru kynnt hagsmunaaðilum á fundi siglingaráðs sem haldin var 20. júní 2019. Skjölin um áform um lagasetningu fóru í innra samráð innan Stjórnarráðs Íslands í júní 2019. Ytra samráð fór svo fram með birtingu á samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is frá 17. júlí til 9. ágúst 2019 (mál nr. S-192/2019) þar sem hagsmunaaðilum og almenningi var gefinn kostur á að gera athugasemdir við áformin. Drög að frumvarpi voru birt til kynningar á samráðsgátt stjórnvalda frá 30. ágúst til 16. september 2019 (mál nr. S-212/2019).
    Félag skipstjórnarmanna, VM – Félag vélstjóra og málmtæknimanna og Sjómannasamband Íslands sendu umsagnir við áform um lagasetningu þar sem félögin lýstu yfir að löngu tímabært væri að Ísland fullgilti ILO 188-samþykktina.
    Slysavarnafélagið Landsbjörg sendi umsögn við áform um lagasetningu þar sem tekið var undir sjónarmið fagfélaga sjómanna og áformunum fagnað. Félagið vakti einnig athygli á þeirri afstöðu sinni að til einföldunar ætti að innleiða samþykktina sem heildstæð lög en ekki með breytingum á gildandi lögum og reglugerðum. Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna, gerði sams konar athugasemd í umsögn um drögin. Það væri til þess fallið að valda ruglingi fyrir þá sem þurfa að vinna í samræmi við þessa samþykkt og tilskipun ESB að innleiða hana með fjölda laga og reglugerða. Taka má undir sjónarmið þessara aðila að það geti verið flókið að átta sig á réttindum sínum samkvæmt samþykktinni séu þau ekki á einum stað. Þó er rétt að geta þess að með heildstæðri innleiðingu samþykktarinnar í lög væri kveðið á um tiltekin réttindi í sjómannalögum, nr. 35/1985, lögum um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, nr. 30/2007, og nýjum lögum um vinnuskilyrði fiskimanna. Það væri ekki endilega til einföldunar þegar horft er í heild á löggjöf um sjómenn. Sú leið sem hér er farin er í samræmi við innleiðingar á sambærilegum alþjóðasamningum á þessu sviði, til að mynda innleiðingu alþjóðasamnings Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um vinnuskilyrði farmanna, þar sem gerðar eru lagabreytingar eftir því sem þörf er á og nánar kveðið á um réttindi samkvæmt samningunum með stjórnvaldsfyrirmælum. Við setningu stjórnvaldsfyrirmæla verður eins og kostur er leitast við að hafa réttindi samþykktarinnar aðgengileg á einum stað.
    Í umsögn Hilmars Snorrasonar er jafnframt gerð athugasemd við 2. gr. frumvarpsins sem kveður á um skráningar- og ráðningarþjónustu skipverja á fiskiskipum. Frumvarpið innleiði ekki kröfu samþykktarinnar, sem finna má í a-lið 3. mgr. 22. gr. hennar, um að stjórnvald tryggi að banna skráningar- og ráðningarþjónustum að halda skrár eða lista sem ætlaðir séu til að koma í veg fyrir eða hindra að sjómaður geti fengið starf. Brugðist hefur verið við þessari athugasemd og hefur málslið þessa efnis verið bætt við 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins.
    Loks barst umsögn við drög að frumvarpinu frá Margréti Þ. Jónsdóttur hjúkrunarfræðingi, sem lýtur að ákvæði um heilbrigðisvottorð. Almennt segir þar að innleiðing ILO 188 sé fagnaðarefni og muni hafa í för með sér jákvæðar breytingar á starfsumhverfi sjómanna. Hin almenna krafa um heilbrigðisvottorð sé til þess fallin að auka öryggi skips og áhafnar. Í umsögninni segir að breytingin sem lögð er til í frumvarpinu muni leiða af sér margföldun á heilbrigðisskoðunum sjómanna. Það sé full ástæða til að gera þá breytingu að auk lækna verði hjúkrunarfræðingar taldir bærir til að sjá um slíkar skoðanir. Vísað er til 2. gr. I. viðauka við reglugerð nr. 175/2008 um skipstjórnar- og vélstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum, sem segi að læknar geti gefið út læknisvottorð um að umsækjandi skírteinis sé fær um að gegna viðkomandi stöðu af heilsufarsástæðum. Lögð er til breyting á reglugerðinni þannig að hjúkrunarfræðingum verði heimilað að framkvæma og skrifa undir klínískt mat á heilbrigði sjómanna. Er tillagan rökstudd með vísan til 1. mgr. 75 gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands um atvinnufrelsi og jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Þá er bent á ýmis laga- og reglugerðarákvæði sem sýni þróun í þá átt að auka ábyrgð hjúkrunarfræðinga. Tillaga þessi gefur ekki tilefni til breytinga á frumvarpi þessu en samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið mun taka hana til skoðunar í samráði við heilbrigðisráðuneytið þegar unnið verður að frekari innleiðingu ákvæða samþykktarinnar með stjórnvaldsfyrirmælum.

6. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarp þetta að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér fjárhagsáhrif fyrir ríkið eða sveitarfélög.
    Eins og fram hefur komið hefur efni frumvarpsins einkum áhrif á hagsmuni skipverja á fiskiskipum og útgerðaraðila slíkra skipa. Frumvarpinu er ætlað að tryggja vinnuvernd ungmenna með banni að meginstefnu við næturvinnu, tryggja réttindi sjómanna sem leitast eftir störfum á fiskiskipum og hagsmuni útgerða af því að fá hæfa sjómenn til starfa með lagasetningu gagnvart starfsumhverfi einkarekinna ráðningarskrifstofa og tryggja hagsmuni skipverja og útgerða fiskiskipa með almennri kröfu um heilbrigðisvottorð. Gildandi réttur felur í sér bann við næturvinnu skipverja undir 18 ára aldri í 8 klukkustundir án nokkurra undantekninga þar að lútandi, sbr. reglugerð nr. 426/1999 um vinnu barna og ungmenna, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 975/2004 um vinnu- og hvíldartíma skipverja á íslenskum fiskiskipum. Með því að víkka gildissvið reglu 3. mgr. 8. gr. sjómannalaga um bann við næturvinnu ungra skipverja á flutningaskipum er bannið lengt í 9 tíma. Reglan hefur því í för með sér óverulega breytingu á gildandi rétti.
    Reglum um starfsemi einkarekinna ráðningarstofa er ætlað að tryggja réttindi sjómanna í tengslum við ráðningar og tryggja að útgerðir fái hæfa sjómenn til starfa. Engar slíkar ráðningarstofur eru sem stendur starfræktar hér á landi. Fyrirsjáanleg áhrif reglnanna eru eingöngu af jákvæðum toga og íþyngjandi áhrif óveruleg.
    Almenn krafa frumvarpsins er að útgerðir og skipstjórar fiskiskipa tryggi að fiskimenn hafi gild heilbrigðisvottorð. Þannig er stefnt að því markmiði að tryggja öryggi og heilbrigði skipverja, samstarfsmanna þeirra og skipsins sjálfs. Að auki leiðir krafan til þess að útgerðir fá hæfa sjómenn til starfa. Krafan felur í sér nýmæli fyrir aðra en réttindamenn og hefur í för með sér styttingu á gildistíma heilbrigðisvottorða réttindamanna úr fimm árum í tvö. Íþyngjandi áhrif reglunnar felast í því að fiskimenn á skipum sem eru 24 metrar að lengd eða lengri eða eru að jafnaði á sjó í þrjá daga eða lengur þurfa að undirgangast heilbrigðisskoðun á tveggja ára fresti. Fyrirhöfn og kostnaður skipverja á fiskiskipum af því að undirgangast slíka skoðun verður þó að teljast óverulegur þegar höfð eru í huga þau jákvæðu áhrif sem af reglunni leiða.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Ákvæðið felur í sér að gildissvið þegar gildandi reglu um bann við næturvinnu ungmenna undir 18 ára aldri á farþegaskipum og flutningaskipum verði útvíkkað svo að reglan gildi einnig um ungmenni sem starfa á fiskiskipum. Inntak reglunnar er að næturvinna skipverja undir 18 ára aldri verði bönnuð nema um sé að ræða næturvinnu sem unnin er í beinum tengslum við menntun eða þjálfun ungra sjómanna. Ráðherra setur nánari reglur um heimila næturvinnu samkvæmt ákvæðinu.

Um 2. gr.

    Ákvæðið bætir orðskýringu við 3. gr. laga um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, nr. 30/2007, að því er varðar hugtakið „fiskimaður“. Með skilgreiningunni er hugtakið afmarkað þannig að ljóst sé til hverra er vísað í ákvæðum frumvarpsins. Skilgreiningin er í samræmi við samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 188 um vinnuskilyrði fiskimanna.

Um 3. gr.

    Ákvæðið er sett til að uppfylla áskilnað 22. gr. ILO 188-samþykktarinnar.
    Í 1. mgr. ákvæðisins er gerð sú krafa að fyrirtæki sem sinna starfseminni skuli gera það í samræmi við viðurkennd gæðastjórnunarkerfi að fengnu leyfi Samgöngustofu. Sá rammi sem slíku kerfi er ætlaður er svo markaður í 2. mgr. ákvæðisins. Í 3. mgr. ákvæðisins er eftirlit með starfseminni fellt undir verksvið Samgöngustofu og í 4. mgr. er heimild til handa ráðherra til að mæla nánar fyrir um þær reglur sem gilda skulu um þjónustuna.
    Í 2. mgr. ákvæðisins segir að skráningar- og ráðningarþjónusta skuli vera skilvirk, fullnægjandi, áreiðanleg, skipverjum að kostnaðarlausu og til þess fallin að sjómenn geti fundið störf um borð í skipum. Hún skal ekki notast við aðferðir sem hindra eða koma í veg fyrir að fiskimenn geti fengið starf. Ákvæðinu er ætlað að tryggja að sjómenn beri engan kostnað af þjónustunni og koma í veg fyrir að einkarekin skráningar- og ráðningarþjónusta sem undir ákvæðið fellur mismuni sjómönnum við atvinnuleit með því t.d. að gefa út svarta lista sem hindri fiskimenn í að fá vinnu.
    Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins á Samgöngustofa að hafa eftirlit með því að skráningar- og ráðningarþjónusta skipverja uppfylli kröfur samkvæmt lögum þessum og reglugerð á grundvelli þeirra. Samgöngustofa hefur eftirlit með fyrirtækjum af þessu tagi þegar kemur að farmönnum, sbr. 10. gr. A laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, með síðari breytingum.
    Loks er með ráðherra veitt heimild í 4. mgr. ákvæðisins til að mæla nánar fyrir um skráningar- og ráðningarþjónustu skipverja á fiskiskipum og eftirlit með henni í reglugerð.

Um 4. gr.

    Ákvæðið er sett til að mæta áskilnaði 10.–12. gr. ILO 188-samþykktarinnar. Með ákvæðinu er lögfest almenn krafa þess efnis að skipverjar á fiskiskipum framvísi heilbrigðisvottorði sem staðfesti fullnægjandi heilsufar þeirra.
    Í 1. mgr. ákvæðisins segir að útgerðarmönnum og skipstjórum fiskiskipa beri að tryggja að fiskimenn leggi fram vottorð um að þeir uppfylli skilyrði um sjón, heyrn og aðrar öryggiskröfur.
    Gildistími heilbrigðisvottorða er afmarkaður í 2. og 3. mgr. ákvæðisins og í 4. mgr. er ráðherra gert að setja í reglugerð nánari kröfur um heilbrigði skipverja á fiskiskipum. Á grundvelli heimildarinnar mun ráðherra setja fram reglur um framkvæmd heilbrigðisskoðana, form skírteina og upplýsingar sem þau innihalda, kröfur um menntun og hæfni þeirra sem taka að sér slíkar skoðanir, tíðni skoðana, rétt til að fá annað álit ef sjómanni er synjað um útgáfu heilbrigðisvottorðs eða vottorð er háð takmörkunum, auk annarra viðeigandi krafna.

Um 5. gr.

    Lagabreytingar þær sem lagðar eru til með frumvarpi munu þarfnast undirbúnings hjá Samgöngustofu og hagsmunaaðilum. Samgöngustofa þarf að uppfæra verklag innan stofnunarinnar og kynna breytingar að því er varðar útgerðir, skipstjóra og skipverja. Þá munu hagsmunaaðilar þurfa tíma til að afla heilbrigðisvottorða.