Ferill 155. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 359  —  155. mál.
Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um fullgildingu alþjóðasamnings um orkumál.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Á hvaða grundvelli og með hvaða rökum var ECT-samningurinn um orkumál fullgiltur af Íslands hálfu 7. júlí 2015?
     2.      Telur ráðherra að samningurinn hafi áhrif á fullveldi Íslands í orkumálum og þá með hvaða hætti?
     3.      Telur ráðherra að samningurinn heimili erlendum aðila að höfða mál gegn íslenska ríkinu ef stefna stjórnvalda eða landslög stangast á við ákvæði samningsins?
     4.      Telur ráðherra að íslensk stjórnvöld hafi undirgengist að greiða skaðabætur ef Ísland brýtur gegn ákvæðum samningsins?
     5.      Hvers vegna var ekki tilkynnt opinberlega um fullgildinguna á vef Stjórnarráðsins á sínum tíma?
     6.      Hverjir undirrituðu samninginn fyrir hönd Íslands?
     7.      Var málið borið undir Alþingi með einhverjum hætti og ef ekki, hvers vegna taldi ráðherra ekki þörf á því?


     1.      Orkusáttmáli Evrópu (Energy Charter Treaty) var undirritaður í Haag 17. desember1991 af ráðherrum OECD-ríkjanna að Nýja-Sjálandi undanskildu, auk fleiri ríkja. Meginmarkmið hans er að stuðla að almennu frelsi í viðskiptum með orku og orkutengda starfsemi. Að teknu tilliti til sérstöðu Íslands í orkumálum var það metið svo að þýðing samningsins fyrir Ísland væri einkum fólgin í möguleikum á þátttöku í ýmiss konar samstarfi í orkurannsóknum og greiðari aðgangi að mörkuðum og verkefnum fyrir sérhæfða þjónustu á sviði orkumála. Orkusáttmáli Evrópu (Energy Charter Treaty) var fullgiltur að tillögu þess ráðuneytis sem fór með orkumálefni á þeim tíma, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Mat á þýðingu orkusáttmálans, samspili hans við íslenska löggjöf og skyldum sem Ísland undirgengist með staðfestingunni lá þá fyrir. Um er að ræða þjóðréttarsamning og fór hann því í hefðbundið ferli sem slíkur, þar sem ekki er talin þörf á lagabreytingum.
     2.      Mat á ákvæðum samningsins var gert áður en hann var fullgiltur og ákvæði hans sjálfs, 18. gr., kveður skýrt á um að samningsaðilar viðurkenni fullveldi ríkja og fullveldisrétt yfir orkulindum og skerði á engan hátt reglur þeirra um tilhögun eignarréttar á orkulindum. Ekkert hefur komið fram við framkvæmd samningsins sem gefur tilefni til þess að telja samninginn hafa haft nein áhrif á fullveldi Íslands í orkumálum.
     3.      Samningnum er ætlað, á svipaðan hátt og íslensku regluverki og löggjöf, að vernda fjárfestingar og auðvelda samvinnu á orkusviði. Samningurinn inniheldur ákvæði sem ætlað er að vernda slíkt samstarf og fjárfestingar gegn gerræðislegum ákvörðunum stjórnvalda og stuðla að gagnkvæmu trausti, m.a. í því skyni að auðvelda útflutning þjónustu á sviði orkumála, t.d. jarðhitaráðgjöf. Ákvæði í samningnum um gerðardómsmeðferð eru sambærileg við ákvæði í þeim fríverslunarsamningum sem gerðir hafa verið af Ísland hálfu.
     4.      Vísa má til svars undir 3. tölul. en sambærileg ákvæði er að finna í samningnum og er að finna í fríverslunarsamningum sem Ísland hefur gert á vettvangi EFTA og skuldbindingar eru sambærilegar við okkar skuldbindingar á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hvað varðar vörur og þjónustu. Almennar takmarkanir laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnuskyni gilda að fullu.
     5.      Ekki eru almennt gefnar út sérstakar tilkynningar um fullgildingu þjóðréttarsamninga og sáttmála á vef Stjórnarráðsins. Auglýsingar um gildistöku þjóðréttarsamninga eru birtar eftir því sem við á í C-deild Stjórnartíðinda, ásamt samningnum sem fylgiskjali þegar yfirferð þýðingar og frágangi er lokið.
     6.      Upphaflega var pólitísk viljayfirlýsing, undanfari samningsins, undirrituð í Haag í Hollandi af Jóni Sigurðssyni, iðnaðarráðherra, árið 1991. Samningurinn í endanlegu formi var undirritaður í Lissabon í Portúgal 1994 af Sighvati Björgvinssyni, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
     7.      Þingmeðferð máls kemur fyrst og fremst til ef þjóðréttarsamningur kallar á breytingar á íslenskum lögum eða fellur að öðru leyti undir 21. gr. stjórnarskár (afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi, eða horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins). Fagráðuneyti sem fer með málaflokkinn leggur mat á hvort lagabreytinga er þörf og niðurstaðan í þessu tilviki var sú að svo væri ekki. Samningurinn var því lagður fyrir ríkisstjórn og því næst forseta í júlí 2015.

    Alls fór ein vinnustund í að taka þetta svar saman.