Ferill 334. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 379  —  334. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um Alþingi sem fjölskylduvænan vinnustað.


Flm.: Ásgerður K. Gylfadóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Hjálmar Bogi Hafliðason, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Willum Þór Þórsson.


    Alþingi ályktar að fela forseta Alþingis að skipa starfshóp um Alþingi sem fjölskylduvænan vinnustað. Starfshópurinn verði skipaður einum þingmanni úr hverjum þingflokki. Starfshópurinn endurskoði þingsköp Alþingis og skili tillögum að breytingum til forsætisnefndar Alþingis eigi síðar en í árslok 2020.

Greinargerð.

    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að forseta Alþingis verði falið að skipa þverpólitískan starfshóp þingmanna, einn úr hverjum þingflokki, um Alþingi sem fjölskylduvænan vinnustað. Hópurinn skal skila tillögum eigi síðar en í árslok 2020.
    Markmið þingsályktunartillögunnar er að leita leiða til að Alþingi verði fjölskylduvænni vinnustaður. Í því skyni er nauðsynlegt að leggja til breytingar á lögum um þingsköp Alþingis svo að þingmennska megi vera á færi allra, óháð kyni, búsetu og fjölskylduaðstæðum.
    Árið 2009 skipaði þáverandi forseti Alþingis, Ásta R. Jóhannesdóttir, starfshóp þingmanna um fundarskipulag og fundartíma Alþingis. Hlutverk hópsins var að stuðla að því að Alþingi yrði enn fjölskylduvænna með því að fara yfir fundarskipulag þingsins í þessu skyni, einkum fundartíma þingfunda, nefndarfunda, þingflokksfunda o.fl. Árið 2011 voru gerðar breytingar á þingsköpum Alþingis m.a. um lengd þingfunda sem miðuðu að því að gera starfsemina fjölskylduvænni.
    Í 21. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, er kveðið á um að atvinnurekendur skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera öllum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu. Þessar ráðstafanir eiga samkvæmt lögunum að miða að því að auka sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að bæði sé tekið tillit til fjölskylduaðstæðna starfsmanna og þarfa atvinnulífsins. Í lögunum er kveðið á um að fyrirtæki og stofnanir með 25 eða fleiri starfsmenn setji sér jafnréttisáætlun.
    Alþingi hefur sett sér metnaðarfulla jafnréttisáætlun samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þar sem sérstakan kafla um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs er að finna. Jafnréttisáætlunin nær þó einungis til starfsmanna þingsins en ekki kjörinna fulltrúa. Færa má rök fyrir því að hver þingflokkur sé sjálfstæður vinnustaður. Þingsköp Alþingis skapa ramma um starfsumhverfi þingmanna og með breytingum á þeim má ná því markmiði að gera Alþingi að fjölskylduvænni vinnustað sem henti sem flestum.
    Flutningsmenn leggja því til að starfshópurinn verði skipaður með það markmið að stuðla að því að Alþingi verði fjölskylduvænn vinnustaður fyrir þingmenn og starfsmenn.