Ferill 171. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 396 —  171. mál.
Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um lagaheimild til útgáfu reglugerðar.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Við hvaða lögfræðilegar álitsgerðir eða aðra lögfræðilega ráðgjöf var stuðst af hálfu ráðherra við mat á því hvort 45. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, sem veitir ráðherra heimild til útgáfu reglugerða um framkvæmd laganna, fæli í sér nægilega heimild til að veita lagagildi hér á landi Evrópureglugerðunum EB/713/2009 og EB/714/2009?

    Ákvæði 45. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, er almenn reglugerðarheimild sem hefur verið frá upphafi í lögunum og kveður á um að ráðherra sé heimilt að setja nánari ákvæði um framkvæmd laganna í reglugerð. Hefur þeirri reglugerðarheimild verið beitt áður í tengslum við innleiðingu gerða.
    Almennt er það í verkahring sérfræðinga í viðkomandi ráðuneytum að rýna gerðir sem eru til umfjöllunar á vettvangi EES/EFTA og meta hvort í þeim felist eitthvað sem kalli á lagabreytingar. Ef svo er, er settur stjórnskipulegur fyrirvari við viðkomandi gerð sem Alþingi þarf að aflétta með þingsályktun.
    Í þessu máli voru viðkomandi þingnefndir Alþingis (atvinnuveganefnd, utanríkismálanefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd) upplýstar um mat á viðkomandi gerðum, EB/713/2009 og EB/714/2009, með minnisblöðum frá ráðuneytunum til viðkomandi þingnefnda. Fengið var umboð frá þingnefndunum áður en málið fór til sameiginlegu EES-nefndarinnar.
    Mat sérfræðinga atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og utanríkisráðuneytis var að tiltekin nýmæli í þriðju raforkutilskipun EB/72/2009 kölluðu á lagabreytingar en að reglugerðir EB/713/2009 og EB/714/2009 yrðu innleiddar án þess að sérstaka nýja lagastoð þyrfti fyrir því.
    Hið lögfræðilega mat um hvort gerðirnar kalli á lagabreytingar eða ekki kemur fram í framangreindum minnisblöðum ráðuneytanna til þingnefndanna, sbr. fylgiskjöl með tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017 um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn. Í nefndarálitum viðkomandi þingnefnda frá 2014 og 2016 voru ekki gerðar athugasemdir við hvernig til stæði að innleiða viðkomandi gerðir.