Ferill 169. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 397  —  169. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Guðmundi Andra Thorssyni um raforkuöryggi á Vestfjarðakjálkanum.


     1.      Hver hefur verið árlegur fjöldi truflanatilvika og straumleysismínútna í Árneshreppi síðastliðin fjögur ár? Telur ráðherra að tenging fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar við flutningsnetið hafi áhrif á raforkuöryggi í Árneshreppi?
    Samkvæmt upplýsingum frá Orkubúi Vestfjarða ohf. voru truflanir á afhendingu raforku í Árneshreppi árin 2015–2018 sem hér segir:
    Dreifikerfi Orkubús Vestfjarða frá flutningskerfi Landsnets að Árneshreppi eru:
Hólmavíkurlína 2 33kV lína
Drangsneslína 1 11kV lína
Norðurlína 1 11kV lína

Hólmavíkurlína 2.

Ár Fyrirvaralaust straumrof [fjöldi] Skipulagt viðhald [fjöldi] Straumleysi í Árneshreppi [mín.]
2015 3 2 238
2016 3 0 123
2017 2 0 20
2018 0 0 0

Drangsneslína 1.

Ár Fyrirvaralaust straumrof [fjöldi] Skipulagt viðhald [fjöldi] Straumleysi í Árneshreppi [mín.]
2015 6 0 125
2016 11 2 565
2017 6 2 105
2018 0 4 10

Norðurlína 1.

Ár Fyrirvaralaust straumrof [fjöldi] Skipulagt viðhald [fjöldi] Straumleysi í Árneshreppi [mín.] Straumleysi í hluta Árneshrepps [mín.]
2015 3 2 164 677
2016 2 3 66 427
2017 1 0 0 5590*
2018 2 0 17 37
*2017 88 klst. truflun, Neyðarlínan Finnbogastaðafjalli.


Samtals vegna dreifikerfis Orkubús Vestfjarða.

Ár Fyrirvaralaust straumrof [fjöldi] Skipulagt viðhald [fjöldi] Straumleysi í Árneshreppi [mín.]
2015–2018 39 15 1433
2015 12 4 527
2016 16 5 754
2017 9 2 125
2018 2 4 27

Auk þess vegna Landsnets.

Ár Fyrirvaralaust straumrof [fjöldi] Straumleysi í Árneshreppi [mín.]
2015–2018 6 794
2015 3 227
2016 2 551
2017 1 16
2018 0 0

    Samtals í kerfi Orkubús Vestfjarða og Landsnets, árin 2015–2018, var straumleysi í öllum Árneshreppi 2.227 mín., eða 37 klst. og 7 mín.
    Tengipunktur í Ísafjarðardjúpi opnar á möguleika á tengingu við dreifikerfi Orkubús Vestfjarða. Slík tenging mundi bæta afhendingaröryggið í dreifikerfinu. Bætt afhendingaröryggi frá flutningskerfinu hefur í för með sér aukið afhendingaröryggi til endanlegra notenda undirliggjandi dreifikerfis.

     2.      Eru framkvæmdir fyrirhugaðar til að stækka Mjólkárvirkjun? Mundu slíkar framkvæmdir bæta raforkuöryggi á norðanverðum Vestfjarðakjálkanum?
    Samkvæmt upplýsingum frá Orkubúi Vestfjarða ohf. eru ekki fyrirhugaðar framkvæmdir til stækkunar í náinni framtíð á Mjólkárvirkjun, en Orkubú Vestfjarða er hins vegar með rannsóknarleyfi í gildi vegna stækkunar á Mjólkárvirkjun um 6,8 MW. Yrði slík stækkun að veruleika er litið svo á að hún auki raforkuöryggi á Vestfjörðum þar sem áhrif bilana á Vesturlínu að Mjólká yrðu almennt minni. Áhrifin á raforkuöryggi yrðu því jákvæð bæði á norðanverðum og sunnanverðum Vestfjörðum.

     3.      Er ráðherra sammála áherslum í nýlegri skýrslu Landsnets um að það sé forgangsmál að bæta raforkuöryggi á sunnanverðum Vestfjörðum og að það skuli gera með því að hringtengja Suðurfirðina?
    Í þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, segir m.a. að treysta skuli flutningskerfið betur, tengja betur lykilsvæði og tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt, en Vestfirðir eru meðal þeirra svæða sem sett eru í forgang í stefnunni. Niðurstöður skýrslu Landsnets sýna m.a. að tilkoma aukinnar orkuvinnslu í nágrenni Ísafjarðardjúps og tenging hennar um tengipunktinn í Ísafjarðardjúpi hefur áhrif á öllum afhendingarstöðum á Vestfjörðum. Þá hefur það einnig áhrif á afhendingaröryggið að tengja tengipunktinn við Ísafjörð. Afhendingaröryggi raforku er lakast á sunnanverðum Vestfjörðum, af afhendingarstöðum Landsnets á Vestfjarðakjálkanum. Þar hefur þó ýmislegt verið gert til úrbóta hin síðari ár, t.d. hefur Tálknafjarðarlína 1 verið styrkt og Orkubú Vestfjarða sett upp varaafl á Keldeyri. Landsnet hefur verið með til skoðunar nokkrar útfærslur af hringtengingum milli suður- og norðurhluta Vestfjarða.

     4.      Eru hugmyndir Landsnets um að straumleysismínútum á norðanverðum Vestfjarðakjálkanum mundi fækka árlega úr 30 í 15 með tengingu hugsanlegrar virkjunar Vesturverks/ HS Orku á Ófeigsfjarðarheiði, svokallaðrar Hvalárvirkjunar, byggingu nýs tengivirkis við Ísafjarðardjúp og tengingu yfir Ófeigsfjarðarheiði og loks yfir Kollafjarðarheiði í enn nýtt tengivirki í Kollafirði unnar í samráði við ráðuneytið og ráðherra? Ef svo er, hver telur ráðherra að standi undir fjárfestingunni í ljósi þess að ítrekað hefur komið fram hjá Landsneti á liðnum árum að tekjur af slíkum fjárfestingum stæðu ekki undir kostnaði?
    Landsnet byggir upp flutningskerfið í samræmi við raforkulög og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Framkvæmdir Landsnets eru háðar eftirliti Orkustofnunar sem er stjórnvaldið í þessi tilliti. Í tilfelli þeirrar tengingar sem spurt er um er rétt að árétta að aukin innmötun nýrrar orku er forsenda nýs tengipunkts í Ísafjarðardjúpi. Aukinni innmötun fylgja auknar flutningstekjur Landsnets og nýleg greining Landsnets, miðuð við 55 MW uppsetta aflgetu, bendir til að tengigjald og auknar flutningstekjur standi undir kostnaði við slíka tengingu.

     5.      Telur ráðherra fyrirsjáanlegt að Landsnet tengi mögulegar vatnsaflsvirkjanir framtíðar á Ófeigsfjarðarheiði til Ísafjarðar? Ef svo er, hvenær telur ráðherra að það gæti hugsanlega orðið og er það tæknilega forsvaranlegt að reka raflínu á leiðinni frá Steingrímsfjarðarheiði á Ísafjörð fyrir þann raforkuflutning sem fyrirsjáanlegur er og yrði hún þá loftlína, sæstrengur eða jarðstrengur?
    Í skýrslu Landsnets „Flutningskerfið á Vestfjörðum – Greining á afhendingaröryggi“ (Landsnet 19020) sem og annarri nýrri skýrslu, „Tengipunktur við Ísafjarðardjúp og tenging Hvalár“ (Landsnet 19021), er velt upp þeirri framtíðarsviðsmynd að tengja úr tengipunktinum í Ísafjarðardjúpi til Ísafjarðar. Tengipunkturinn er þó forsenda þess að af því geti orðið. Það er ekkert því til fyrirstöðu, tæknilega, að leggja slíka línu. Núverandi lína frá Mjólká um Breiðadal í Ísafjörð er að mestu reiðubúin til spennuhækkunar í 132 kV og tenging úr Djúpi til Ísafjarðar á því spennustigi byggi til hring með góða flutningsgetu. Á þessari stundu er erfitt að segja nokkuð um tímasetningar, kostnað eða nánari útfærslur, enda ekki fyrirséð hvenær af uppbyggingu umræddra virkjunarkosta getur orðið. Uppbyggingu flutningskerfisins verður þó ætíð hagað í samræmi við stefnu stjórnvalda þar um og að teknu tilliti til tæknilegra takmarkana.

     6.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að reglugerðarheimild verði nýtt til að fella niður lögbundið kerfisframlag HS Orku, eiganda Vesturverks, til Landsnets vegna hugsanlegrar tengingar mögulegrar Hvalárvirkjunar á Ströndum?
    Í 3. gr. reglugerðar nr. 841/2016, um breytingu á reglugerð nr. 1040/2005, um framkvæmd raforkulaga, er ekki að finna heimild til að fella niður lögbundið kerfisframlag. Hins vegar heimilar reglugerðin flutningsfyrirtækinu að miða við áætlun um hærra hlutfall tekna við útreikning kerfisframlags, m.a. ef um er að ræða fyrstu tengingu vinnsluaðila á nýju svæði. Framkvæmd reglna um kerfisframlag er í höndum Landsnets samkvæmt eftirliti Orkustofnunar og ráðherra hefur ekki aðkomu að því.