Ferill 114. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 400  —  114. mál.
1. liður.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um fjárnám hjá einstaklingum.


     1.      Hversu mörg framhaldsuppboð voru auglýst af sýslumannsembættum árið 2018 í nauðungarsölumálum? Svar óskast sundurliðað eftir því hvort gerðarþoli var einstaklingur eða lögaðili, hvort máli lauk með sölu á uppboði, beiðni var afturkölluð eða felld niður, eða mál leitt til lykta með öðrum hætti.
    Eftirfarandi tölfræði var fengin frá sýslumönnum. Í sumum tilvikum er um að ræða allar eignir þ.m.t. loftför og skip þótt fjöldi slíkra eigna sé afar lítill hluti af heildarfjölda eignanna. Nokkur embætti töldu málin handvirkt úr gerðabókum en í öðum tilvikum var fjöldi mála fenginn úr starfakerfum sýslumanna með vélrænni talningu í samstarfi við Þjóðskrá Íslands. Hvað varðar vélræna talningu ber að hafa í huga að auglýsingar um framhaldssölur eru ekki skráðar sérstaklega í starfakerfi sýslumanna. Þar eru hins vegar aðgengilegar upplýsingar um fjölda nauðungarsölumála sem skráð eru í flokkinn „Framhald uppboðs“, eftir að byrjun uppboðs lýkur á skrifstofu sýslumanns. Þá eru í kerfin skráðar upplýsingar um lyktir mála sem fengu þá stöðu. Með vísan til þessa endurspegla tölurnar í sumum tilvikum ekki með nákvæmum hætti fjölda auglýsinga, eins og fyrirspurnin hljóðar á um, þar sem mál kunna að hafa verið felld niður eftir að byrjun uppboðs lauk og mál var skráð í flokkinn framhald uppboðs en áður en auglýsing var send til birtingar.


Embætti
Fjöldi eigna sem fengu stöðuna Framhald uppboðs
Fjöldi seldra eigna
Fjöldi afturkallaðra og niðurfelldra mála
Austurland 15
10 einstaklingar
5 lögaðilar
5
2 einstaklingar
3 lögaðilar
10
8 einstaklingar
2 lögaðilar
Suðurland 69
43 einstaklingar
26 lögaðilar
20
10 einstaklingar
10 lögaðilar
48
32 einstaklingar
16 lögaðilar
Vestmannaeyjar 8
5 einstaklingar
3 lögaðilar
4
Ekki liggur fyrir sundurliðun
4
Ekki liggur fyrir sundurliðun
Suðurnes 57
37 einstaklingar
20 lögaðilar
14
10 einstaklingar
4 lögaðilar
43
27einstaklingar
16 lögaðilar
Höfuðborgarsvæði 459
356 einstaklingar
103 lögaðilar
46
36 einstaklingar
10 lögaðilar
413
320 einstaklingar
93 lögaðilar
Vesturland 28
23 einstaklingar
5 lögaðilar
9
Ekki liggur fyrir sundurliðun
19
Ekki liggur fyrir sundurliðun
Vestfirðir 20
11 einstaklingar
4 lögaðilar
5
5 einstaklingar
15
11 einstaklingar
4 lögaðilar
Norðurland eystra 67
46 einstaklingar
21 lögaðilar
17
9 einstaklingar
8 lögaðilar
50
37 einstaklingar
13 lögaðilar
Norðurland vestra 16
12 einstaklingar
4 lögaðilar
0 16
Ekki liggur fyrir sundurliðun

     2.      Hverju sætir hið umtalsverða misræmi sem er á milli talna um fjölda nauðungarsala og fjárnámsgerða samkvæmt svörum ráðherra á þskj. 1638 í 818. máli 149. löggjafarþings, þskj. 1370 í 233. máli 148. löggjafarþings, þskj. 1007 í 521. máli 145. löggjafarþings og þskj. 1229 í 305. mál 143. löggjafarþings?
    Hinn 23. maí 2019 svaraði ráðherra tveimur fyrirspurnum frá fyrirspyrjanda sem vörðuðu m.a. nauðungarsölur og fjárnám hjá einstaklingum. Fyrirspurnirnar lutu að því sama að öðru leyti en því að í fyrirspurn á þskj. 1608 var eingöngu spurt um árið 2018 en í fyrirspurn á þskj. 1638 var spurt um árabilið 2000–2019. Svör við fyrirspurnunum byggðust á upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands sem rekur starfakerfi sýslumanna. Í framhaldi af athugasemdum sem fram komu við svörin fór fram skoðun á þeim gögnum sem lágu til grundvallar svörunum. Í umræddum fyrirspurnum var eingöngu spurt um nauðungarsölu á fasteignum einstaklinga en ekki lögaðila. Í svörum við fyrirspurnunum var hins vegar ekki nægilega greint á milli fasteigna í eigu einstaklinga eða lögaðila þar sem skráning í starfakerfin var ónákvæm og örðugt reyndist að ná fram upplýsingum úr eldri starfakerfum. Var reynt að bæta úr og ný svör send, sbr. m.a. þskj. 1638. Með nýjum svörum fylgdi framangreind skýring á því hvers vegna skekkja varð í aðgreiningu á fjölda eigna í eigu einstaklinga og í eigu lögaðila. Þá var einnig tekið fram í skýringum ráðuneytisins að í svari við fyrirspurn á 148. löggjafarþingi (þskj. 1370, 233. mál) byggðist svarið á sömu skekkju og fram kom í síðari svörum. Svar við fyrirspurn á þskj. 1007 (521. mál 145. löggjafarþings) byggðist einnig á upplýsingum frá þjóðskrá úr starfakerfum sýslumanna. Svar við fyrirspurn á þskj.1229 (305. mál 143. löggjafarþings) byggðist hins vegar á handvirkri talningu sýslumanna á hverju embætti fyrir sig sem þá voru 24. Þar sem svörin byggjast a.m.k. að hluta á upplýsingum sem sóttar voru úr starfakerfum sýslumanna, bæði eldra og nýrra kerfi sem var í þróun á þeim tíma sem svarið tekur til, þykir líklegt að forritunin ásamt fyrrgreindum svörum útskýri misræmið.

     3.      Telur ráðherra koma til greina að gera ráðstafanir til að með reglubundnum hætti verði birtar opinberlega upplýsingar eftir sýslumannsembættum um fjölda nauðungarsala og fjárnámsgerða?
    Ráðherra telur koma til greina að gera ráðstafanir til að gera aðgengilegar á vef sýslumanna ýmsar tölfræðiupplýsingar, þ.m.t. um fjölda nauðungarsala. Hefur þegar verið hugað að því hvernig unnt verði að koma upplýsingum úr starfakerfum sýslumanna á vefinn.