Ferill 239. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 402  —  239. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Karli Gauta Hjaltasyni um þjóðaröryggi og birgðastöðu.


    Í þeim tilgangi að svara spurningum þingmannsins leitaði dómsmálaráðuneytið til embættis ríkislögreglustjóra eftir upplýsingum og koma þær hér á eftir.

     1.      Hvaða viðbragðsáætlanir eru fyrir hendi ef flutningsleiðir að landinu lokast skyndilega eða teppast um ófyrirsjáanlegan tíma?
    Það hefur ekki verið gerð sérstök viðbragðsáætlun sem tekur á því ef flutningsleiðir að landinu lokast skyndilega eða teppast.
    Þetta hefur þó verið skoðað í tengslum við aðra viðbragðsáætlun því árið 2008 var gefin út viðbragðsáætlun vegna heimsfaraldurs inflúensu. Við gerð þeirrar áætlunar var horft til þess að öll atvinnustarfsemi og flutningar yrðu í algjöru lágmarki vegna manneklu. Þar var einnig gert ráð fyrir því að allir flutningar til og frá landinu myndu stöðvast um tíma. Í viðbragðsáætluninni er gert ráð fyrir því að forgangsraða þurfi dreifingu nauðsynja. Það felur m.a. í sér að stærri fyrirtæki í verslun og þjónustu þurfi að taka höndum saman til að halda úti lágmarksþjónustu (matvara og eldsneyti) í hverfum og landshlutum.
    Þá má geta þess að ef ástand verður sem ógnar lífi eða heilsu almennings, umhverfi eða eignum og ekki er til sérstök viðbragðsáætlun er almennt skipulag almannavarna virkjað. Samhæfingar- og stjórnstöð almannavarna (SSH) samhæfir þá og stýrir aðgerðum allra sem koma að málum með einum eða öðrum hætti.
    Væri einhver fyrirvari á því ástandi sem yrði þess valdandi að flutningsleiðir til landsins lokuðust eða tepptust yrðu gerðar ráðstafanir til þess að tryggja nægar birgðir. Slík sviðsmynd er þó nokkuð ólíkleg.

     2.      Eru birgðir á Íslandi af matvælum, eldsneyti og lyfjum eða áætlun um slíkt birgðahald við aðstæður eins og að framan er lýst? Hvert er efni áætlana um birgðir og endingartíma þeirra?
    Þegar þetta var skoðað árið 2008 kom í ljós að birgðir af matvælum voru almennt frekar litlar. Tíðar skipakomur gera það að verkum að ekki þarf að liggja með stóran lager. Það kom einnig fram að hægt væri að sjá þjóðinni fyrir mat með því sem er framleitt innan lands. Helsta áskorunin yrði falin í dreifingu þeirra matvæla.
    Eldsneytisflutningar eru nokkuð reglulegir en birgðir af eldsneyti á hverjum tíma fara eftir því hvenær síðasta sending kom. Það geta því verið allt frá þriggja mánaða birgðum niður í tveggja vikna birgðir.
    Varðandi lyfjabirgðir er staðan þessi:
     Ábyrgð: Sóttvarnalæknir ber ábyrgð á vábirgðum lyfja og innrennslisvökva samkvæmt lista um vábirgðahald lyfja og innrennslisvökva. Vábirgðalistinn er fylgiskjal reglugerðar um sóttvarnaráðstafanir nr. 817/2012.

     Umsjón: Apótek Landspítala hefur umsjón með vábirgðum fyrir hönd sóttvarnalæknis í samvinnu við birgja.
     Magn vábirgða lyfja: Á hverjum tíma er gert ráð fyrir að:
                  a.      magn lyfja í vábirgðum samsvari eins mánaðar meðalnotkun,
                  b.      magn innrennslisvökva samsvari þriggja mánaða meðalnotkun,
                  c.      að auki er apótek LSH með nokkuð magn umfram meðalnotkun.
     Varðveisla birgða: Birgðir eru varðveittar sem veltulager í vöruhúsi birgja sem uppfylla kröfur um öryggi og aðgangsstýringu.
     Fyrningar vábirgða: Þegar lyf sem er á skilgreindum lista vábirgða nálgast fyrningardag er það regla að Landspítala reynir að koma lyfinu í notkun og kaupir það úr vábirgðum. Það kemur fyrir að farga þarf lyfjum sem eru komin fram yfir skilgreindan neysludag.
     Bóluefni: Sóttvarnalæknir býður út bóluefni sem notuð eru í almennum bólusetningum hér á landi fyrir hönd heilbrigðisráðuneytis. Þess er krafist að ávallt séu til a.m.k. tveggja mánaða birgðir bóluefna á hverjum tíma.

     3.      Hver hefur yfirumsjón með birgðastöðunni og hvernig er geymslu birgðanna háttað með tilliti til öryggis þeirra og aðgengis stjórnvalda að þeim?
    Dags daglega er ekki fylgst með stöðu annarra birgða en lyfja. Komi til ástand sem kallar á virkjun almannavarnakerfisins yrði birgðahald kannað og gerðar áætlanir miðað við það.
    Samkvæmt 27. gr. laga um almannavarnir, nr. 82/2008, er ríkisstjórninni heimilt, ef almannaheill krefst vegna hættu á náttúruhamförum, farsóttum, hernaðaraðgerðum, hryðjuverkum eða annarrar hættu, að gefa út fyrirmæli um sölu og dreifingu nauðsynja sem til eru í landinu eða taka eignarnámi matvæli, eldsneyti, varahluti, lyf og aðrar nauðsynjar sem hætta er á að gangi fljótt til þurrðar.